Færsluflokkur: Bækur

Brestir í Brooklyn e. Paul Auster

Laugardaginn 25. nóvember, 2006 - Menningarblað/Lesbók

BÆKUR - Þýdd skáldsaga

Barið í bresti

Brestir í Brooklyn

Mannlegur breyskleiki og brestir - þetta eru lykilorð í nýjustu skáldsögu Pauls Austers, Brestum í Brooklyn. Með öðrum orðum mennskan, í öllu sínu veldi, sem stundum einkennist af fífldirfsku en oftar fíflaskap, botnlausri lágkúru en stundum reisn, óþverraskap, óheiðarleika, sín- og hefnigirni en mun oftar af furðulega mikilli góðmennsku og fyrirgefningu.

Titillinn vísar sem sagt til daglegs lífs ákveðins hóps af fólki í Brooklyn-bæjarhlutanum í New York en sögu þessa fólks segir Nathan Glass, sem kominn er á heimaslóðir eftir fimmtíu og sex ára fjarveru til að setjast í helgan stein, eins og hann segir. Hann safnar atvikssögum um mannlega bresti, skráir þær á bréfsnifsi og setur í hirslur, og segir þær okkur og persónum og leikendum í bókinni. Utan um þessar örsögur er síðan örlagasaga hans sjálfs, og dóttur hans Rachel, en einkum frændsystkina hans, Toms og Auroru, og Lucy dóttur hennar. Ýmsir fleiri úr hverfinu, og víðar að, t.d. boldangskonur og drottningar, koma við sögu.

Brestir í Brooklyn, í afburðagóðri þýðingu Jóns Karls Helgasonar, er í stuttu máli grípandi og skemmtileg mannlífskönnun sem ferðast upp og niður allan tilfinningaskalann, frá (stopulli) hamingju til (botnlausrar) óhamingju. Þótt sagan byrji á orðunum "Ég var að leita að rólegum stað til að deyja á" er frásögnin af þessu grátbroslega brölti okkar í lífinu á fyndnum nótum, þótt yfrið sé af sviplegum endalokum og persónulegum harmleikjum í guðlausum heimi þar sem manneskjan er á valdi "yfirvofandi" tilviljana. Þegar upp er staðið eru Brestir í Brooklyn lofgjörð til þessa fáránlega lífs og leitarinnar að samastað í tilverunni.

Paul Auster er vinsæll höfundur hér á landi og Brestir í Brooklyn er sjötta bókin sem kemur út í íslenskri þýðingu. Það væri forvitnilegt að kanna hversu mikil áhrif hann hefur haft á íslenska höfunda, einkum karla, en þau eru án efa töluverð. Skrif Austers eru gjarnan þannig að frásögnin afhjúpar sjálfa sig og tækni sína. Textinn fjallar þannig um bókmenntir; um það athæfi að skrifa og, kannski einna helst, um það að vera rithöfundur (einnar eða níutíu bóka). Það er nánast eins og frásögnin treysti sér ekki lengur til að standa algerlega á eigin fótum og þurfi því að afsaka sig: Hér er ég, texti um (aðra) texta. Vísanir í heimsbókmenntir og bókmenntakanónuna (meistaraverkin og meistarana, langflestir karlar) eru einnig þáttur í þessu hlutskipti sjálfsmeðvitaðra bókmennta, í meðförum Austers og margra annarra. Það telst svo til kraftaverka/skáldskapar að frásögnin, "góð saga", virðist þrátt fyrir þetta oftast nær lifa af.

Í Brestum í Brooklyn er með öllu gufuð upp fjarlægðin og jafnvel svalinn sem einkenndi sérstaklega fyrstu bækur höfundar, frá og með New York-þríleiknum að telja. Skáldsagan er óður til Brooklyn- eða New York-búa, af tilefni sem lesanda verður ljóst fyrr eða síðar, og Auster (eins og sögumaðurinn Nathan Glass) leyfir sér að vera meyr og tilfinningaríkur. Það mætti jafnvel kalla söguna melódramatíska og á stundum jaðrar hún við að vera einum of "sentimental".

Á heildina litið er tilfinningasemin algjörlega við hæfi. Einn af fáum brestum í snilli höfundar er kannski að finna í kaflanum um heimkomu Auroru (s. 231) en ýmislegt þar, eins og fundur hennar með "guðsmanninum" Bob og móníkuleg "kænska" hennar í því sambandi, er ósannfærandi og skringilega berort; eins og maður sé allt í einu staddur í allt annarri bókmenntategund. Lokakaflarnir bæta hins vegar fyrir þetta og endirinn á bókinni er sterkur.

Geir Svansson

 

Laugardaginn 10. september, 2005 - Menningarblað/Lesbók

"Bréf frá týndri brúðu"

Eftir Torfa H. Tulinius tht@hi.is

 Paul Auster gat ekki hugsað sér lífið án skrifa. Hann var lengi að fóta sig í þeirri list. Andlát föður hans markaði þar ákveðin tímamót en um hann skrifaði hann bók sem varð upphafið að stórmerkilegum ferli. 

Í nýjustu skáldsögu Austers, Brooklyn Follies, sem væntanleg er í íslenskri þýðingu Jóns Karls Helgasonar, er eftirfarandi saga lögð í munn einni persónu. Hún gerist á síðasta æviári Franz Kafka. Hann er orðinn helsjúkur og er fluttur til Berlínar með ástkonu sinni, Dóru. Eitt sinn þegar þau eru að spássera í almenningsgarði koma þau að grátandi telpubarni. Hún er búin að týna dúkkunni sinni, segir hún. Kafka svarar því til að dúkkan sé ekki týnd, heldur hafi hún farið í ferðalag. Þetta viti hann vegna þess að hann hafi einmitt fengið bréf frá henni í morgun. Ef telpan kemur aftur í garðinn á morgun skuli hann koma með bréfið og lesa það fyrir hana. Eitthvað stemmir þetta táraflóð stúlkunnar og hún segist koma næsta dag. Kafka fer heim og sest við að semja bréfið frá brúðunni og leggur sig allan fram. Næstu viku eða svo hittir hann stúlkuna á hverjum degi og í hvert sinn kemur hann með nýtt bréf frá dúkkunni. Smám saman dvín tregi telpunnar. Brúðan er að skapa sér nýtt líf á nýjum stað. Að lokum tilkynnir hún fyrrum eiganda sínum að hún hafi hitt dúkkustrák og að þau ætli að gifta sig. Hún muni því ekki skrifa framar og kveður. En þá er harmur stúlkunnar líka á bak og burt. Gapið sem hvarf dúkkunnar skildi eftir sig hefur verið fyllt af þessu nýja lífi, hugmyndinni um tilvist hennar annars staðar.

Ég veit ekki hvað Auster gengur til með frásögn þessari en það er freistandi að líta á hana sem dæmisögu um hlutverk bókmennta, ekki síst á trúlausum tímum eins og okkar. Eftir að raunvísindin ruddu burt þeim stoðum sem heimsmynd trúarbragðanna hvíldu á, og boðskapur kirkjunnar um líf handan hins jarðneska var komin í mótsögn við flest það sem vísindin hafa leitt í ljós, hefur mannkynið orðið fyrir viðlíka missi og litla telpan sem týndi dúkkunni sinni. Við höfum glatað hugmyndinni um eilíft líf og við blasir hið ægilega tóm dauðans. Sagan sem trúin sagði okkur um upprisuna og sigurinn yfir dauðanum huggar okkur ekki lengur. Til að breiða merkingu og mennsku yfir hina ægilega ómennsku dauðans þurfum við nýja sögu, eða sögur.

Skáldin og merking(arleysi) tilverunnar

Raunar má segja að allt frá dögum rómantísku stefnunnar hafi skáldin verið að reyna að fylla upp í þessa eyðu. Ímynd rithöfundarins eins og hún hefur birst okkur Vesturlandabúum undanfarnar tvær aldir hefur orðið til vegna þess að það vantaði einhvern til að fylla upp í það tóm sem trúin skildi eftir þegar guð yfirgaf hjörtu okkar. Skáld eins og Victor Hugo, Dostojevskí, Tolstoj, jafnvel Halldór Laxness, leituðust við að gæða heiminn merkingu í stað þeirrar sem við höfum glatað. Meira að segja absúrdistar eins og Samúel Beckett eru þó alltént að vekja okkur til vitundar um merkingarleysi heimsins, sem í sjálfu sér er að gæða hann merkingu.

Að mínu viti rísa fáir samtímahöfundar eins vel og Paul Auster undir því hlutverki bókmenntanna sem ég hef nú lýst, og það jafnvel þótt hann skrifi eftir að módernisminn hafði ráðist á hugmyndina um skáldið sem andlegan leiðtoga. Þá skiptir heldur ekki máli að hann skuli hafa verið flokkaður sem einn af helstu skáldum póst-módernismans, en sú stefna hefur verið tengd við afbyggingu höfundarhugtaksins og það að sífellt sé verið að benda lesandanum á að hann sé að lesa skáldverk. Þó vissulega megi finna þessi einkenni að meira eða minna leyti í öllum verkum Austers, þá eru þau langt yfir það hafin að vera marklaust fikt við þessar klisjur sem allir skilja. Þvert á móti getur maður engan veginn opnað bók eftir hann án þess að fá það á tilfinninguna að verið sé að segja manni eitthvað mikilvægt, eitthvað sem skiptir máli. En hvað?

Þeirri spurningu er ekki hægt að svara með einföldum hætti, en e.t.v. er hægt að nálgast svarið með því að benda á hina miklu og sterku þörf Austers til að tjá sig, til að binda í skáldskap reynslu sína af lífinu. En það var ekki tekið út með sældinni að vera heltekinn af þessari þörf. Í Hand to Mouth, frásögn sem Paul Auster birti 1997 þegar hann var orðinn fimmtugur, segir frá basli hans við að láta enda ná saman á fyrstu árum og áratugum rithöfundarferilsins. Þar til hann var kominn vel á fertugsaldurinn gekk ekkert upp hjá honum fjárhagslega. Reyndar þótti hann liðtækur þýðandi úr frönsku og ein ljóðabók hans hafði komið út á prenti, en það dugði ekki til. Hann var kvæntur og átti lítið barn og þurfti að framfleyta bæði sér og þeim. Því stendur hann frammi fyrir því að þurfa að hætta þeirri iðju sem hefur gefið lífi hans stefnu og merkingu frá unglingsárum. En eins og hann lýsir því svo vel í þessari látlausu en skemmtilegu sjálfsævisögu, hafði hann fram að því ætíð neitað að gefa sig að fullri vinnu, því hann gat ekki hugsað sér að fórna skrifunum. Hvað var það sem var svona mikilvægt við að bogra yfir blaði með penna í hönd dögum, vikum, mánuðum saman? Hvers vegna gat hann ekki hugsað sér lífið án þess að vera sífellt að skapa eitthvað úr orðum, jafnvel þótt enginn vildi lesa það?

Hér komum við að einni af þversögnum skáldskaparins. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri einstaklingsvinnu en starf rithöfundarins. Hann er einn með orðunum og reynir að smíða úr skynjun sinni, hugsun og reynslu veg til eigin sálar. En það merkilega er að leiðin þangað liggur einnig til annarra sálna. Því eins og við vitum öll, talar sú rödd sem kemur frá hjartanu beinast til okkar.

Uppfinning einsemdarinnar

Nú er Auster orðinn heimsfrægur höfundur og verk hans tala við þúsundir lesenda um gjörvallan heim. En það mátti litlu muna að hann gæfist upp fyrir nauðsyn þess að brauðfæða sig og sína og legði bókmenntirnar á hilluna. Þótt það hljómi kaldranalega var það dauði föður hans, Samuels Austers, sem bjargaði honum frá þessum örlögum. Hann hné niður einn góðan veðurdag og arfurinn sem féll í hlut Pauls dugði honum þar til að hann fór að geta lifað af skrifunum.

Það var einmitt bókin sem kviknaði af dauða föður hans sem varð til þess að hann öðlaðist loksins athygli gagnrýnanda og almennings. Hún kom út 1981 og heitir The Invention of Solitude. Þetta er sérkennileg bók, lausamálsverk en ekki skáldsaga. Fyrri hlutinn heitir Portrait of an Invisible Man, Mynd af ósýnilegum manni, og kom út á íslensku á síðasta ári í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. Hún fjallar um ævi föður Austers en hefst á dauða hans.

Auster segir föður sinn ósýnilegan en það er ekki vegna þess að hann sá hann aldrei í bernsku. Foreldrar hans skildu ekki fyrr en hann var sautján ára og því bjuggu þeir undir sama þaki meðan hann var að vaxa úr grasi. Ástæðan var sú að Auster náði aldrei sambandi við hann. Þrátt fyrir þessi löngu kynni og þótt Auster hafi aldrei hætt að þrá ást föður síns var eitthvað við Auster eldri sem hélt honum til baka, eitthvað innra svæði sem engum var hleypt inn á. Hann lifði á yfirborðinu og er Auster á því að það sé vegna þess að hann var sjálfur ekki í sambandi við sjálfan sig. Því leið hann áfram í gegnum lífið, glutraði niður hjónabandinu, gat ekki myndað tengsl við börnin sín, átti bara kunningja og svo bræður sína. Þó allt gengi vel á yfirborðinu var hann tilfinningalegt draugaskip, stefnulaust og líflaust.

Þetta rennur upp fyrir Auster þegar hann kemur heim til föður síns til að ganga frá eigum hans. Svo lítið var eftir af þessu tómlega lífi að eftir örfáar vikur myndi það vera horfið af yfirborði jarðar. Hann ákveður að hann verði að skrifa um hann. Hann verður að bjarga föður sínum frá glötun. Meðan hann er að fara í gegnum dót hans kemur mynd upp í hendurnar á honum, mynd af föðurömmu hans. Hún situr úti í garði með börnunum sínum fimm, faðir Austers sem er yngstur situr í kjöltu hennar, nokkurra ára gamall snáði.

En það er eitthvað skrýtið við myndina. Hún hefur verið rifin og límd aftur saman en það vantar eitthvað í hana. Það rennur upp fyrir Auster að það sem vantar er sjálfur afi hans. Í ljós kemur að afi Austers, Harry Auster, austurrískur innflytjandi og fasteignasali í Kenosha í Wisconsin fylki, hafði farið frá konu sinni, ef til vill vegna annarrar konu. Hann var fluttur burt en ekki var búið að ganga frá skilnaðinum. Eitt kvöld kemur hann í heimsókn til að færa börnum sínum fatnað og dytta að ýmsu sem er í ólagi á heimilinu. Hjónin fara að rífast og það endar á því að konan tekur upp byssu og skýtur Auster sem fellur dauður til jarðar. Í nokkra daga heldur konan því fram að maður hennar hafi framið sjálfsmorð en verður að lokum að játa glæp sinn. Hún fær góðan lögfræðing sem byggir vörn sína á því að konan hafi ekki verð heil á geðsmunum þegar þetta gerðist, hún hafi brotnað undan álaginu að þurfa standa ein uppi í ókunnu landi og sjá fyrir fimm litlum börnum. Kviðdómurinn aumkar sig yfir hana, hún sleppur við refsingu, flytur með fjölskyldu sína til austurstrandarinnar og gerir sitt besta til að má burt minninguna um eiginmann hennar og hroðalegt dauðsfall hans. Þetta skýrir myndina.

Hvorki Auster né frændsystkinum hans er nokkurn tímann sagt frá því hvað gerðist og það er hrein tilviljun sem ræður því að þau komast að þessu löngu síðar. Feður þeirra hafa aldrei andað orði um þetta. Ef til vill er það til að faðir hans verði ekki fyrir sömu örlögum og afi hans, þ.e. að minningin um hann máist burt, sem Auster ákveður að skrifa, til að hann geti lifað áfram í minningunni, ef til vill vegna litla sonar síns sem hefur aldrei þekkt afa sinn en mun einhvern tímann þurfa á því að halda að vita hver hann var.

Seinni hluti bókarinnar heitir einmitt Book of Memory eða Bók minnisins. Tveimur mánuðum eftir dauða föður síns fer hjónaband Austers endanlega út um þúfur. Hann flytur frá konu sinni í litla íbúð á Manhattan. Hann saknar sonar síns og óttast að missa sambandi við hann. Tilhugsunin um það er óbærileg. Bók minnisins er að hluta til ferð í gegnum bókmenntir sem fjalla um samband föður og sonar, feður sem missa syni sína, syni sem missa feður sína, syni sem bjarga föður sínum til að geta lifað sjálfir. Þetta er nokkurs konar hugleiðing um þýðingu þess að eiga sér forfeður og afkomendur, að vera hlekkur í keðju og hvernig það hefur áhrif á mann sem einstakling. Einnig fjallar hún um mátt minnisins og hvernig það getur hjálpað manni að komast yfir sorgina. Það er táknrænt að hún hefst á eftirfarandi orðum: "Það var. Það verður aldrei aftur." En lýkur svona: "Það var. Það verður aldrei aftur. Mundu."

Drepinn úr dróma

Það er eins og Auster hafi verið leystur úr læðingi með þessari bók. Næsta áratuginn kemur út hvert afrekið í skáldsöguformi á fætur öðru. Það eru sögurnar þrjár sem mynda New York þríleikinn sem tryggðu honum þann stóra lesendahóp sem hefur ekki yfirgefið hann síðan. Upphaflega voru þetta þrjár sjálfstæðar skáldsögur, sem allar voru þýddar á íslensku á sínum tíma af Braga Ólafssyni og Snæbirni Arngrímssyni. Fyrst kom Glerborgin sem fjallar um glæpasagnahöfundinn Daniel Quinn sem þykist vera leynilögreglumaðurinn Paul Auster og er ráðinn af Peter Stillman yngri til að fylgjast með Peter Stillman eldri sem er nýlega laus af geðveikrahæli en hafði misþyrmt syni sínum hrottalega á árum áður. Svo komu Draugar, enn furðulegri saga um hr. Bláan sem er ráðinn af hr. Hvítum til að fylgjast með hr. Svörtum sem gerir ekkert annað en að skrifa allan daginn.

Loks er það magnaðasta sagan af þeim þremur, Lokað herbergi. Hún er að mörgu leyti flóknasta og erfiðasta sagan í Þríleiknum. Andstætt fyrri sögunum tveimur er hér um fyrstu persónu frásögn að ræða, söguhetjan er líka sögumaður. Hún er líka miklu nær þeim raunveruleika sem við eigum að venjast. Sögumaðurinn, sem við fáum reyndar aldrei að vita hvað heitir, er bókmenntagagnrýnandi í New York. Hann er tæplega þrítugur og hefur gefið frá sér fyrri vonir um að verða rithöfundur, er orðinn sáttur við þau áhrif sem hann getur haft sem bókmenntaskríbent. Einn góðan veðurdag fær hann bréf frá konu sem hann þekkir ekki en heitir Sophie Fanshawe. Hún er kona Fanshawes sem var æskuvinur sögumanns. Þeir ólust upp hlið við hlið og voru eins nánir og vinir geta orðið þar til leiðir skildu þegar þeir fóru hvor í sinn háskólann. Af einhverjum ástæðum misstu þeir sjónar hvor af öðrum.

Fyrir sex mánuðum síðan hvarf Fanshawe. Kona hans var þá komin sex mánuði á leið og full örvæntingar lét hún leita hans, réði meira að segja einkaspæjara en ekkert gekk. Fanshawe hlaut að vera látinn. Barnið fæddist og átti hug hennar allan fyrstu mánuðina en nú þarf hún að hitta sögumanninn vegna þess að Fanshawe bað hana um að leita til sögumannsins af ákveðnum ástæðum ef eitthvað kæmi fyrir hann. Sögumaðurinn hittir hana og heillast undir eins af fegurð hennar og líflegri framkomu og kemst að því hver ástæðan var fyrir því að hún leitaði til hans. Fanshawe, sem hafði alltaf verið sípárandi í bernsku, hafði haldið áfram að skrifa. Hann hafði aldrei haft áhuga á að gefa nokkuð út en sagt við Sophie konu sína að ef eitthvað kæmi fyrir hann skyldi hún biðja sögumanninn um það.

Sá síðarnefndi tekur að sér að skoða handritin og brátt rennur upp fyrir honum að bækurnar sem æskuvinur hans hefur samið eru slík meistaraverk að þau muni brjóta blað í bókmenntasögunni. Fanshawe er greinilega séní á sviði ritlistarinnar og hann á auðvelt með að fá útgefendur. Bækurnar vekja mikla athygli og sögumaðurinn fær fjórðung ritlauna en það var eitt af því sem Fanshawe hafði sagt við Sophie. Það gleður hann vissulega en það sem skiptir meira máli er að djúp og innileg ást tekst með honum og ekkju Fanshawes.

En brátt hrynur þessi fagra veröld sem sögumaðurinn hefur gengið inn í. Fanshawe skrifar sögumanninum til að segja honum að hann sé á lífi en hann eigi að leyna því og halda áfram að vera giftur konu hans og ala upp son hans. Sögumaðurinn gengst inn á þetta, svo viss er hann um að Sophie muni hætta að elska sig þegar hún kemst að því að Fanshawe er enn lifandi. Undir óttanum býr minnimáttarkennd. Hann er hræddur um að hann sé minni maður en Fanshawe í augum Sophie, heyrir ekki það sem hún er alltaf að segja honum, þ.e. að hún elski hann miklu meira en hún elskaði Fanshawe. Í stað þess að trúa henni fyrir því, verður sú staðreynd að Fanshawe er enn á lífi að viðureign sögumannsins við sjálfan sig, eða ef til vill við tvífarann í sjálfum sér. En þessi viðureign fer fram í undirvitundinni því sögumaðurinn getur ekki horfst í augu við það sem er að koma fyrir hann. Upp hefst hræðileg martröð sem nærri því leggur hjónaband og líf sögumannsins í rúst.

New York þríleikurinn er einstakt listaverk. Það er í senn hluti af langri hefð í bókmenntunum þar sem það byggir á hinu sígilda tvífaraminni en um leið mjög nýstárlegt. Nýstárleiki þess felst ekki síst í því hvernig Auster vinnur markvisst að því að tengja sögurnar þrjár saman þannig að úr verði heild sem flytur okkur merkingu sem ekki væri hægt að koma til skila á annan hátt. Sögurnar þrjár bergmála hver aðra með ýmsum hætti þar sem minnst er á bækur, eða bæjarhluta eða persónur í einni þeirra sem einnig koma við sögu í annarri. Það sem er ef til vill markverðast er þó hvernig Auster hefur komið sjálfum sér fyrir í sögunni. Hann hikar ekki við að setja sjálfan sig á svið í fyrstu bókinni en það er ekki bara það. Persónur heita eftir börnum hans: Daniel Quinn ber sama skírnarnafn og sonur hans. Sophie Fanshawe sama og dóttir hans. Einnig hefst frásögn Drauga á fæðingardegi Austers sjálfs, 3. febrúar 1947. Margir helstu æviþættir Fanshawes, vinna á olíuskipum, dvöl í Frakklandi, vetur í Suður-Frakklandi þar sem hann passar hús fyrir efnaða Ameríkana, endurspegla æviatriði Austers. Þegar sögumanninum í Lokuðu herbergi tekst loks að losna undan Fanshawe og verða að manni aftur fæðist honum sonur sem fær nafnið Paul, eins og Auster. Þarna er verið að tengja endurfæðingu sögumanns við einhvers konar endurfæðingu Pauls Austers sjálfs, ef til vill fæðingu hans sem skáldsagnahöfundar. Að auki fæðist drengurinn 23. febrúar 1981, en Auster hefur sagt að það sé dagurinn sem hann kynntist konu sinni Siri Hustvedt og hóf nýtt líf.

Persónulegur heimur, frjór og víðfeðmur

New York þríleikurinn er afskaplega persónuleg bók. Ganga má svo langt að kalla hana eins konar einkagoðsögn, sem virðist hafa opnað Auster leið að sjálfum sér og einnig losað um skáldsagnaritun hans. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru síðan Glerborgin kom út, hafa skáldsögur hans orðið tólf talsins, auk fjölda ritgerða, sjálfsævisögulegra skrifa og kvikmyndahandrita. Auster hefur einnig leikstýrt tveimur kvikmyndum og mun sú þriðja vera í vinnslu. Hver saga er einstök og þótt ævinlega sé hægt að þekkja handbragðið og mörg þemu skjóta upp kollinum aftur og aftur, þá býr Auster yfir miklum endurnýjunarkrafti. Það er alltaf ævintýri að opna nýja bók eftir hann, leggja við hlustir og heyra það sem hann hefur að segja við okkur um heiminn og hvernig það er að vera manneskja í honum.

Paul Auster les úr verkum sínum í Iðnó á fimmtudag kl. 20 og ræðir um verk sín við Torfa Tulinius í Norræna húsinu daginn eftir kl. 15.

Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldafræðum við Háskóla Íslands.

   

Fimmtudaginn 15. september, 2005 - Innlendar fréttir

Skil ekki hvaðan bækurnar koma

Ég skil í raun og veru ekki hvaðan bækurnar mínar koma," segir bandaríski rithöfundurinn Paul Auster í viðtali við Morgunblaðið en hann er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. "Ég skil ekki hvernig hugmyndirnar verða til. 

Ég skil í raun og veru ekki hvaðan bækurnar mínar koma," segir bandaríski rithöfundurinn Paul Auster í viðtali við Morgunblaðið en hann er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. "Ég skil ekki hvernig hugmyndirnar verða til. Það gerist einhvers staðar djúpt í undirvitundinni. Bækurnar eru allar skrifaðar af ósjálfráðri hvöt. Ég get í rauninni ekki útskýrt það."

Paul Auster segist líta á nýja skáldsögu sína, The Brooklyn Follies, sem gamansögu í þeim skilningi að flestar persónur hennar eru betur settar í lok hennar en þær voru í upphafi hennar. Bókin er komin út í Frakklandi en er væntanleg í Bandaríkjunum í október og í íslenskri þýðingu á næsta ári.

Í bókinni er að finna marga af þeim þráðum sem liggja í gegnum höfundarverk Austers. Hann segir sjálfur að allt sem hann skrifi sé tengt.

"Ég reyni að nálgast hverja bók út frá nýju sjónarhorni, ég reyni að ganga þvert á það sem ég hef áður gert, en einhvern veginn enda ég alltaf innan í sjálfum mér."

Einn þessara þráða er tilviljunin sem Auster segist vera heltekinn af. "Ég er ekki að segja að allt sem gerist sé tilviljunum háð. Við veljum og skipuleggjum fram í tímann, við mótum þarfir okkar og þrár. En það vita allir að umhverfið hefur áhrif á val okkar og skipulag og þarfir okkar og þrár. Og það er einmitt þegar þessir tveir heimar, sá innri og ytri, skella saman sem eldglæringar myndast og sögur verða til," segir Auster.

  -------------------------------------------------------------------------------- 

 

Þriðjudaginn 20. september, 2005 - Bókmenntir

Á vissan hátt endaði bernska mín á Íslandi

Þegar rithöfundurinn Siri Hustvedt var þrettán ára dvaldist hún sumarlangt á Íslandi. Hún sagði Einari Fal Ingólfssyni frá bóklestri við Hávallagötu, upplifunum á sögustöðum og skilningi sínum á listinni. 

Bandaríski rithöfundurinn Siri Hustvedt, sem var einn gesta Bókmenntahátíðar, segir bernsku sína hafa endað á Íslandi, eitt sumar seint á sjöunda áratugnum. Hvernig skyldi standa á því?

Hustvedt sest fram í leðurstólinn í setustofunni á Hótel Holti, sýpur á kaffinu, brosir og segist fagna því að vera loksins komin aftur til Íslands. Segir það hafa staðið til í mörg ár að hún og eiginmaðurinn, rithöfundurinn Paul Auster, skoðuðu söguslóðir hennar í Vesturbænum. Svo hefst sagan:

"Þegar ég var þrettán ára vorum við fjölskyldan einn vetur í Bergen í Noregi en faðir minn var þar í rannsóknarleyfi." Þess ber að geta að foreldrar Hustvedt voru norskir og móðurmál hennar er norska, en hún fæddist og ólst upp í Minnesota-ríki, þar sem faðir hennar kenndi norsku við St. Olaf College, þar sem hún lagði síðar stund á nám í sögu. En áfram með frásögnina.

"Faðir minn var að rannsaka Íslendingasögurnar og um sumarið fékk hann styrk til að koma til Íslands. Við komum til Reykjavíkur um vorið og leigðum hús við Hávallagötu. Nú langar mig til að finna þetta hús. Áður en ég flaug hingað hringdi ég í móður mína og spurði hana um númerið á húsinu en hún mundi það ekki. Faðir minn, sem er látinn, hefði munað það. Hann gleymdi engu.

Þetta var eitt yndislegasta sumar sem ég hef lifað. Faðir minn fór með okkur í ferðir út í sveit, að skoða gamla sögustaði, staði sem koma fyrir í Íslendingasögunum. Stundum ók hann að einhverjum stað þar sem voru engin skilti, engar byggingar, en hann hafði lesið sér til og vissi nákvæmlega hvert hann átti að fara; hann lét okkur stíga út úr bílnum og sagði okkur frá atburðum sem höfðu átt sér stað þar sem við stóðum. Hann útskýrði sögurnar fyrir okkur, stundum voru þetta blóði drifnir og hræðilegir atburðir, og við vorum alveg dolfallin yfir atburðarásinni.

Ég man vel þegar pabbi sýndi okkur hvar Snorri lét lífið og sagði okkur söguna af þessari hrottalegu aftöku.

En það var líka þetta sumar sem ég gerði mér grein fyrir því að ég gæti lesið svo að segja hvað sem er. Nú er vitað að einskonar umbreyting á sér stað í heila unglinga, venjulega um 14 ára aldur, þegar skyndilega verður aukinn skilningur á abstrakt hugsun og vitrænum tengingum. Það gerðist hjá mér þetta ár og ég fór á bókasafnið hér og tók út bækur sem móðir mín hafði mælt með. Faðir minn var að rannsaka sögurnar og móðir mín að útbúa fyrir mig leslista, aðallega með enskum skáldsögum frá 19. öld. Ég las og las og las. Þetta sumar las ég David Copperfield, Jane Eyre, Greifann af Monte Christo, Hroka og hleypidóma, hverja frábæru bókina á fætur annarri.

 

Fannst sem ég gæti aldrei aftur skrifað skáldskap

Í janúar kemur út greinasafn eftir mig, þar segi ég söguna af því þegar ég var á Íslandi og las og las. Um tíma var svo bjart á næturnar og þá átti ég í fyrsta skipti bágt með svefn. Ég vakti því og las og man eftir áhyggjunum yfir því að geta ekki sofnað. Ég man eftir því að hafa farið út að glugganum, sem var á bakhlið þessa húss, og horft yfir þögla en samt uppljómaða borgina. Ég hef svo oft hugsað um þessa sýn, og velt fyrir mér hvers vegna hún birtist mér aftur og aftur, en núna skil ég að þetta kemur alltaf aftur til mín, því ég gerði mér grein fyrir því að þetta var endirinn á bernsku minni. Á vissan hátt endaði bernska mín því á Íslandi. Sem er afar persónuleg upplifun en mikilvægur viðburður tilfinningalífinu.

Ég minnist tiltekinna daga á Íslandi. Ég minnist þess að hafa farið út í sveit og litirnir voru grænir, svo undur grænir og svo ógurlega svartir" - hún lækkar róminn og lygnir aftur augunum - "og blár himinn. Svo einfaldar en berangurslegar litaandstæður. Það hafði ótrúlega mikil áhrif á mig."

Siri Hustvedt hefur skrifað þrjár skáldsögur sem allar hafa vakið umtalsverða athygli og verið þýddar á fjölda tungumála. Fyrsta skáldsagan, Blindfold, kom út árið 1992, The Enchantment of Lily Dahl, 1996, og What I Loved kom út árið 2003. Áður hafði Hustvedt sent frá sér ljóðabókina Reading to You árið 1982. Þá hefur hún gefið út tvö greinasöfn með umfjöllun um myndlist, Yonder, 1998, og Mysteries of the Rectangle sem kom út í síðustu viku. En ákvað Hustvedt þegar á unga aldri að verða rithöfundur?

"Það gerðist hérna, eftir að ég las David Copperfield! Ég man ég hugsaði, þetta vil ég gera. Héðan fórum við aftur heim til Minnesota og þar var þetta litla staðarfréttablað og í hverri viku var viðtal við einhvern ungling, ljósmynd af honum og spurt um áhugamálin. Ég upplýsti lesendur þessa blaðs um það að ég hygðist verða rithöfundur. Einhverjir brostu en sá hlær best sem síðast hlær," segir hún og leggur höndina á bækur eftir sig sem eru á borðinu.

"Þar á undan hafði ég lengi ætlað mér að verða myndlistarmaður."

- En þú hefur líka komið að myndlistinni í skrifum.

"Það er rétt, ég sinni myndlist í dag en á annan hátt en ég ætlaði upphaflega. Nú skrifa ég um málverk. Þegar ég skoða málverk þá skissa ég þau oft á tíðum, ég finn fyrir þeim með höndunum. Það er ekki eins og ég geri fallegar teikningar en ég móta formin, tilfinninguna að baki, þannig að glósurnar mínar eru oft þaktar þessum litlu skissum. Á þennan hátt skil ég verkin betur."

 

Myndrænt ímyndunarafl

Við Hustvedt hittumst fyrst á norrænni ljóðahátíð í New York fyrir þrettán árum og ég minnist þess að heyra hana lesa ljóð og hluta af fyrstu skáldsögu sinni og þar gerði hún mikið af því að draga upp myndir með orðum.

"Ég hef mjög myndrænt ímyndunarafl. Þegar ég er að skrifa sé ég alltaf aðstæðurnar og fólkið fyrir mér. Það er ákveðin skörun milli þessara heima. Og ég man eftir bókum í myndum."

Hún fer að segja frá því hvernig hún skrifar, að hún hafi tilhneigingu til að treysta því fyrsta sem hún setji á blað og hafi alltaf unnið með flæði sem hún viti varla fyrr en í lokin hvert muni leiða sig. Hún vinni nú að nýrri skáldsögu og þar vinni hún í fyrsta skipti með framvindu sem hún hafi sett niður á blað fyrirfram.

"Eftir að ég lauk við síðustu skáldsögu, What I Loved, var ég örmagna og fannst sem ég gæti aldrei aftur skrifað skáldskap. Ég gæti ekki aftur leitt tilbúnar persónur fram fyrir annað fólk, þá fór ég að skrifa greinar og ritgerðir. Ég hef afskaplega gaman af slíkum skrifum og ég hélt mér alfarið við það um tíma, þar til ég var farin að hugsa svo mikið um söguna og fólkið sem verður í nýju bókinni að ég varð að byrja að skrifa. Mig dreymir persónurnar og hvað kemur fyrir þær, ég heyri þær tala, en ég þarfnast alltaf svona aðlögunartíma. Það tók mig sex ár að skrifa síðustu bók - ég trúi því varla sjálf hvað langur tími fór í verkið. Ég skrifaði hana fjórum sinnum upp frá byrjun. Það var svo sannarlega kvalafull reynsla," segir hún, hlær og hristir höfuðið. Sýpur svo aftur á kaffinu.

 

Listir afhjúpa sannleikann

"Ég upplifi karaktera í sögum bara svo sterkt, hvort sem ég skrifa þá eða les. Þegar ég var í framhaldsnámi í Columbia-háskóla man ég eftir að hafa grátið við að skrifa um Djöflana eftir Dostojevskí; það er auðvitað fáránlegt að vera að gráta yfir slíku í skóla, en ég sökkvi mér bara svona niður í söguheiminn. Ég fyllist ástríðu fyrir sögunni, fyrir fólkinu í henni..."

-...er þetta ekki galdurinn við góðan skáldskap?

"Jú! Þegar ég las David Copperfield heima á Hávallagötu var ég alveg í tætlum tilfinningalega. Ég þjáðist svo með David að ég snökti. En það var yndislegt. Slík listræn upplifun er bæði persónuleg og sammannleg, þetta er mjög áhugaverð upplifun. Listin afhjúpar sannleikann, flytur hugsanir milli manna og er birtingarmynd fyrir þá þrá sem býr í brjóstum okkar. Þess vegna er list ekki það sem fólk hugsar oft að hún sé, eintóm afþreyingariðja, hún er hluti af mannlegri löngun og á sér rætur í sálum okkar.

Þetta er ákveðin rómantík en ég trúi því að svona sé þetta.

Listir eru mannleg þörf. Við höfum heyrt svo margar sögur sem staðfesta þetta; eins og úr útrýmingarbúðum nasista, þar sem fólk fór með ljóð og söngva fyrir hvað annað. Ekki sem einhvern munað heldur sem minningu um sammannlega upplifun, vegna mennskunnar sem birtist í listinni. Listin tengir okkur saman."

efi@mbl.is


Wuthering Heights e. Emily Brontë

Wuthering Heights eftir Emily Brontë

Það verður örlagaríkt fyrir Earnshawfjölskylduna þegar húsbóndinn hirðir lítinn skítugan strákling, sem enginn vill eiga, upp af götu sinni í Liverpool og fer með hann heim til Wuthering Heights. Drengurinn fær nafnið Heathcliff, og í uppvextinum verða þau Cathy Earnshaw óaðskiljanleg, þvælast saman um heiðina, frjáls eins og villibörn. En þegar hann vill eignast hana fyrir konu hefur hann, ættlaus og eignalaus, ekki neitt að bjóða dóttur óðalsbóndans. Hann hverfur brott og hún giftist glæsilega herragarðseigandanum neðar í dalnum. En Cathy gleymir ekki Heathcliff og þegar hann snýr aftur, vellauðugur maður, ná ástríðurnar og takmarkalaus hefnigirni hans smám saman yfirhöndinni.

Wuthering Heights er meðal frægustu skáldsagna enskra bókmennta og kemur enn út í mörgum útgáfum á ári hverju þótt hún sé að verða 160 ára. Frásagnarháttur hennar þykir enn nýstárlegur og persónurnar og örlög þeirra verða lesendum ógleymanleg. Þó var höfundurinn tæplega þrítug prestsdóttir og piparmey sem fátt hafði séð og ekkert reynt – að því er séð verður – af þeim hamslausu ástríðum sem saga hennar segir frá.

Emily Brontë fæddist 1818 í Yorkshire, Norður-Englandi, næstyngst sex systkina. Móður sína missti hún þriggja ára og tvær systur fáum árum síðar. Systkinin fjögur sem eftir lifðu voru ákaflega samrýnd og bjuggu sér til heilan heim í orðum og myndum þar sem íbúarnir lentu í æsilegustu ævintýrum. Systurnar Charlotte, Emily og Anne gáfu út ljóðasafn saman undir dulnefnunum Currer, Ellis og Acton Bell árið 1846, og árið eftir kom Wuthering Heights út undir dulnefni Emily, Ellis Bell. Hún lifði það að sjá söguna sína á prenti og vekja bæði athygli og hneykslun, en ári síðar, 1848, lést hún úr berklum.

Þetta er ný þýðing á sögunni eftir Silju Aðalsteinsdóttur, henni fylgir eftirmáli þýðanda.

Laugardaginn 2. desember, 2006 - Menningarblað/Lesbók
BÓKMENNTIR - Þýdd skáldsaga

Margræð og mögnuð

Wuthering Heights

Eftir Emily Brontë í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Bókaútgáfan Bjartur, 2006. 326 bls.

Skáldsagan Wuthering Heights hefur að sumu leyti sérstaka stöðu í enskri bókmenntasögu, ef ekki í heimsbókmenntunum. Hún þótti á sínum tíma nýstárleg, býsna berorð og harla óvenjuleg þar sem merking sögunnar var óljós og "skilaboðin" ekki einhlít. Af þessum sökum var skáldsagan ekki hátt skrifuð framan af og hún hlaut ekki viðurkenningu fyrr en komið var fram á tuttugustu öldina.

Höfundurinn Emily er ein hinna mögnuðu Brönte-systra en hinar eru Charlotte, sem þekktust er fyrir skáldsöguna Jane Eyre, eitt af höfuðritum enskra bókmennta, og Anne, sem m.a. skrifaði skáldsöguna Agnes Grey. Allar þessar þrjár skáldsögur systranna komu út á sama árinu,1847, birtar undir dulnefni: Emily kallaði sig Ellis Bell. Þetta var á þeim tímum þegar skriftir þóttu alls óviðeigandi iðja fyrir konur og því höfðu systurnar pennanöfnin karlkyns. Emily lést ári eftir útkomu bókarinnar og var Wuthering Heights fyrsta og eina skáldsaga hennar en auk hennar gaf hún út ljóðabækur.

Bókmenntafræðingar og -fólk hefur alla tíð átt erfitt með að skilgreina söguna og enn í dag sýnist sitt hverjum. Sumir tala um afar flókna en útpælda sagnafléttu en aðrir hafna því að bókin sé jafn úthugsuð, heldur fremur "lífrænt" innsæisverk sem feli ekki í sér hreina og klára lausn. Enn aðrir eru á því að bókin sé einfaldlega margræð og það sé fráleitt galli.

Sú goðsögn komst fljótlega á kreik að Wuthering Heights væri einstök að því leyti að hún væri ekki í textatengslum við hefðina og þ.a.l. ekki líkleg til að mynda tengsl við þær bókmenntir sem á eftir kæmu. Ein ástæða fyrir þessari goðsögn gæti verið sú að konur áttu ekki að vera vel að sér í bókmenntum. Kyn höfundar er kannski að hluta skýring á því af hverju sagan þótti svona nýstárleg - konan beitir innsæi og tilfinningum, ekki skynsemi, og Emily hlaut því að hafa "grísað" á eftirtektarverða sögu.

Nokkuð er síðan búið er að hnekkja þeirri tilgátu að Wuthering Heights sé skrifuð í tómarúmi: hún sækir sitt til rómantísku stefnunnar, er gotísk á köflum og bent hefur verið á að Heathcliff er býrónsk hetja eða rómantísk hetja með persónubresti sem koma honum í koll. Skáldsagan er því hluti af bókmenntasögunni þrátt fyrir að reynt hafi verið að loka augunum fyrir því fyrst í stað.

Ástar- og örlagasaga Cathy og Heathcliffs er hluti hluti af heimsbókmenntum og þar af leiðandi íslenskum bókmenntum. Öll þekkjum við stóru drættina úr sögunni, án þess endilega að hafa lesið hana. Þýðing Sigurlaugar Björnsdóttur, Fýkur yfir hæðir, kom fyrst út 1951 og samnefndir framhaldsþættir hafa verið sýndir í Sjónvarpinu (tvær útgáfur?). Flestir hafa líka sjálfsagt séð Cathy og Heathcliff bregða fyrir í sketsum og skensi af ýmsu tagi, en hádramatískar og melódramatískar lýsingarnar liggja vel við skopstælingu. Náttúran, umhverfið, endurspeglar tilfinningar mannsins og öfugt. Stundum þarf ekki að ýta fast til að hrinda hinu háttstemmda ofan í hlægilega lágkúru.

Þessar yfirdrifnu tilfinningar eru einmitt dregnar fram í titlinum Fýkur yfir hæðir, eins og sagan var kölluð í gömlu þýðingunni en titillinn hefur fylgt henni síðan. Þessi sápulegi sölutitill er því ekki lengur nothæfur, fyrir utan að vera alls ekki þýðing á upprunalega titlinum sem er eiginnafn og staðarheiti.

Þýðandi hefur lagt mikla vinnu og natni í að snara sögunni með sannfærandi málfari. Bókinni fylgir gagnlegur eftirmáli þýðanda, um Brontë-systur, um skáldsöguna og þýðingu hennar (í tvennum skilningi). Wuthering Heigths er ekta skammdegislesning, helst undir heitri sæng. Það er góðra gjalda vert að vekja athygli á Emily Brontë og (skáld)systrum hennar. Ekki væri verra ef nýja þýðingin sópaði gamla titlinum út í veður og vind.

Geir Svansson

 


Slepptu mér aldrei e. Kazuo Ishiguro

Þriðjudaginn 29. nóvember, 2005 - Bókablað
BÆKUR - Skáldsaga

Fíll í háu grasi

Slepptu mér aldrei,  Höfundur: Kazuo Ishiguro
Þýðandi: Elísa Björg Þorsteinsdóttir Bjartur 2005 (304 bls.)


KATHY H., liðlega þrítug, segir sögu sína. "Í áranna rás hefur það borið við að ég hef reynt að segja skilið við Hailsham, sagt við sjálfa mig að ég ætti ekki að horfa svona mikið um öxl. En svo kom að því að ég hætti einfaldlega að streitast á móti." Þetta er minningaskáldsaga, um líf sögukonu og vina hennar á Hailsham-stofnuninni og um afdrif þeirra er þau halda út í samfélagið til að sinna hlutverkum sínum.

Þegar frásögn Kathy hefst eru tveir bestu vinir hennar, Tommy og Ruth, látnir eftir að hafa "gefið" úr sér líffæri. Þetta er undir lok síðustu aldar, "England, late 1990s" eins og segir á sérsíðu fremst í bókinni, en þessi orð hafa raunar fallið niður í íslensku útgáfunni. Sagan gerist semsé í nýliðinni fortíð og lesendum er boðið að gangast inn á þær forsendur að seint á 20. öld hafi einræktun á fólki verið stunduð í stórum stíl í bresku samfélagi, jafnvel á gríðarstórum ríkisreknum "heimilum", í því skyni að "rækta" líffæri sem nýta má í "venjulegt" fólk. Þetta er samt væntanlega leyndarrekstur og það samræmist því hvernig tilvera þessara líffæragjafa, eða "gjafara", myndar hliðarheim í samfélaginu og þar á milli má segja að sé opnað með "rennilás", en það myndmál nota gjafararnir sjálfir eitt sinn um þær aðgerðir sem þeir vita að bíða þeirra.

Er þetta þá vísindaskáldsaga og hrollvekja? Nei, ekki beinlínis, þótt hún hafi slíkt góss í farteskinu. Þetta er "vandamál" í Slepptu mér aldrei, sjöttu skáldsögu hins marglofaða japansk-enska höfundar Kazuo Ishiguro, vandamál sem taka þyrfti fyrir í heilli ritgerð og einungis verður imprað á hér. Í viðtali við Eirík Guðmundsson, sem kom í Ríkisútvarpinu sl. vor og í Lesbókinni 29. okt., segist Ishiguro ekki hafa sérstakan áhuga á líftækni og klónun. "Mín saga hefur miklu víðari skírskotun. Mig langaði að skrifa bók um ungt fólk sem á sér enga framtíð," segir hann og bætir við að það sem segi um stutta ævi þessara einræktuðu einstaklinga geti raunar einnig átt við um æviskeið hvers og eins. Ég samsinni þessu að vissu marki, en vandinn er sá að maður stekkur ekki alveg svona auðveldlega frá einu helsta deilumálinu sem vísindin hafa fært okkur í seinni tíð.

Lesandi tvístígur því milli viðleitni til að semja sig að hinum líftæknilega "veruleika" skáldsögunnar og tilhneigingar til að skilja þann veruleika fremur sem einhverskonar dæmisögu eða allegóríu - eða sem sviðsetningu hins gamla og nýja vanda að vera manneskja sem eldist og man, eignast og glatar, finnur nálægð og er þó ein. Og einsemd Hailshamkrakkanna er á sinn hátt ógnþrungin; þau eiga ekki foreldra og þeim er tjáð á vissum tímapunkti að þau geti ekki eignast börn. Það er semsé klippt á þráðinn beggja vegna, þótt stöku ungmenni láti sig dreyma um að finna "fyrirmynd" sína. Því er ekki undrunarefni að staðurinn Hailsham komi að vissu leyti í foreldrastað í minningum Kathy - og svo eiga börnin hvert annað að, en með höppum og glöppum eins og gengur.

Í Hailsham er einstaklingum skammtað naumt persónurými og erfitt er að finna nokkurn afvikinn stað. En höfundur er útsmoginn við að sýna hvernig persónuleiki hvers og eins mótast samt eftir dularfullum leiðum. Þetta kemur gleggst í ljós í tilviki Tommys, sem lagður er í einelti - og þá bæði vegna þess að hann er góður í boltaleik og þykir lélegur í myndmennt - og vegna þess að hann bregst við eins og tryllt dýr. Hlegið er að vatnslitamynd hans "af fíl sem stóð í háu grasi" en síðar meir sést einmitt á dýramyndum hans að hann hafði eitthvað að tjá umfram það sem kennt var. Í honum er á sinn hátt minni fílsins er brýtur sér leið til mennskunnar sem þessum börnum er neitað um (og þykir Hailsham þó óvenju "mannúðleg" stofnun). Í öskri Tommys birtist sárið sem Ishiguro hefur sjálfur talað um að nauðsynlegt sé að snerta í huggunarskyni.

Snemma laðast Kathy að Tommy, en hún er oft vanmáttug og Ruth verður fyrri til. Síðar finnur Kathy þó leiðina til Tommy - og þessi hægfara leit er innbyggð í frásögnina sem er seinferðug en markviss, seigrennandi sína slóð. Það er Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem endurskapar þessa slóð prýðilega á íslensku, þaulvanur þýðandi, bæði úr þýsku og ensku, og hefur þýtt þrjár aðrar bækur Ishiguro. Texti hans er á ytra byrði sléttur og felldur en við nánari skoðun er hann ríkur af tilbrigðum við hversdagslegt málfar sem þar með "opnast". Margt býr á milli orða. Hér er dæmi úr frumtexta og þýðingu:

"Thinking back now, I can see we were just at that age when we knew a few things about ourselves - about who we were, how we were different from our guardians, from the people outside - but hadn't yet understood what any of it meant. I'm sure somewhere in your childhood, you too had an experience like ours that day; similar if not in actual details, then inside, in the feelings."

"Þegar ég hugsa til baka núorðið sé ég að við vorum einmitt á þeim aldri þegar við vissum svolítið um sjálf okkur - um það hver við vorum, að hvaða leyti við vorum ólík gæslufólkinu okkar, fólkinu fyrir utan - en höfðum ekki enn neinn skilning á því hvað það þýddi. Ég er viss um að einhvern tíma í þinni eigin bernsku hefurðu orðið fyrir ámóta reynslu og við þennan umrædda dag; svipaðri, ekki kannski í raunverulegum smáatriðum en inni fyrir, í tilfinningunum."

Hér sést vel hvað orðafar enskunnar getur verið knappt og torvelt að leika það eftir á íslensku - og hversu margar og erfiðar ákvarðanir þýðandi þarf að taka á hverri síðu. Hefði átt að þýða "somewhere" með "einhvers staðar"? Að verða fyrir reynslu "í tilfinningunum" er einkennilegt orðalag en sterkt og við hæfi í þessu tilviki. Það á ekki aðeins við um Kathy heldur líka lesanda sögunnar.

Ástráður Eysteinsson

 
Laugardaginn 29. október, 2005 - Menningarblað/Lesbók

"...að snerta sárið"

Eftir Eirík Guðmundsson

Kazuo Ishiguro  
Nýjasta skáldsaga ensk-japanska rithöfundarins Kazuos Ishiguros, Slepptu mér aldrei , er komin út í íslenskri þýðingu.

Nýjasta skáldsaga ensk-japanska rithöfundarins Kazuos Ishiguros, Slepptu mér aldrei , er komin út í íslenskri þýðingu. Það er vonlaust að endursegja þessa sögu: breskur heimavistarskóli, klónuð börn, líffæragjafar, börn sem eiga skamma ævi fyrir höndum. Þetta er áleitin saga, sorgleg og óhugnanleg, saga sem fjallar um vináttu og ást, um dauðleikann og leyndina sem umlykur líf okkar. Ishiguro var tekinn máli í London og spurður um bókina, sem hefur hlotið lofsamlega dóma.

"Huggun. Dásamleg huggun. Ég bið ekki um meira nú orðið."

(Kazuo Ishiguro, Óhuggandi, íslensk þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur)

Þegar Kazuo Ishiguro var ungur maður ætlaði hann sér að verða dægurlagahöfundur og söngvari. Hann samdi lög og texta, hlustaði á Bob Dylan, safnaði hári, skeggið óx. Þegar hann gekk á fund útgefenda í Lundúnum í upphafi níunda áratugarins var hann með kassagítar í annarri hendi, ritvél í hinni.

Ritvélin sigraði gítarinn. Kazuo Ishiguro varð ekki rokkstjarna, en hann varð hins vegar á tiltölulega skömmum tíma einn virtasti skáldsagnahöfundur samtímans. Þrjátíu og fjögurra ára gamall var hann orðinn heimsfrægur eftir útkomu skáldsögunnar (og síðar kvikmyndarinnar) The Remains of the Day. Ishiguro er nú fimmtugur og í mars kom út hans sjötta skáldsaga, hún heitir Never let me go og það er óhætt að segja að hún hafi fengið frábæra dóma. Sagan er nú komin út hjá bókaforlaginu Bjarti í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur undir heitinu Slepptu mér aldrei.

Það fór ekkert á milli mála í Lundúnum í marsmánuði síðastliðnum að það var komin út ný skáldsaga eftir Kazuo Ishiguro. Útstillingar í öllum helstu bókabúðum borgarinnar voru helgaðar Never let me go.

Kazuo Ishiguro fæddist í Nagasaki í Japan árið 1954 en hann hefur verið búsettur í Bretlandi frá fimm ára aldri. Hann er margverðlaunaður höfundur sex skáldsagna og býr nú ásamt konu sinni og þrettán ára dóttur í norðurhluta Lundúna.

Kazuo Ishiguro birtist á réttum tíma. Hann kemur gangandi inn Heddon Street, klæddur svörtum frakka, hárið stuttklippt. Ég stend fyrir utan Momo-kaffi þar sem við höfðum mælt okkur mót fáeinum dögum eftir úkomu bókarinnar Never let me go.

Momo-kaffi er í tísku, og reynist of hávaðasamur staður fyrir okkur Ishiguro. Við tökum leigubíl en vitum ekki hvert við eigum að fara. Það er föstudagur, umferðin þung, ég hef á tilfinningunni að ég hafi startað einhverju sem muni ekki fara vel, upp í hugann koma fullmargar senur úr skáldsögu Ishiguros frá árinu 1995 The Unconsoled, sögunni um ráðvillta og minnislausa píanóleikarann sem hefur algerlega misst tökin á lífi sínu. Í aftursætinu drepum við tímann með kurteisishjali. Gjaldmælirinn tifar. Að lokum komumst við að samkomulagi um að viðtalið fari fram í lobbíi á hóteli við Southampton Row.

Þegar ég hitti Kazuo Ishiguro var hann nýbúinn að árita 2.000 eintök af skáldsögunni Never let me go, honum leið eins og sálarlausum manni. Það lá beint við að spyrja hann um þessa nýju sögu sem vonlaust er að endursegja: breskur heimavistarskóli, klónuð börn, líffæragjafar, börn sem eiga skamma ævi fyrir höndum. Þetta er áleitin saga, sorgleg og óhugnanleg, saga sem fjallar um vináttu og ást, um dauðleikann og leyndina sem umlykur líf okkar.

Kazuo Ishiguro: Ég hef aldrei haft áhuga á líftækni eða klónun. Mig langaði að skrifa stúdentasögu, sögu um nemendur í heimavistarskóla. Það eina sem ég vissi þegar ég byrjaði á sögunni var að krakkarnir voru ekki venjulegir, örlög þeirra voru í einhverjum skilningi ráðin. Mig langaði ekki til að skrifa sögu sem yrði túlkuð sem viðvörun um það hvert líftæknin getur leitt okkur. Ég hef áhyggjur af því en ég bind vonir við hana á sama tíma. Mín saga hefur miklu víðari skírskotun. Mig langaði til að skrifa bók um ungt fólk sem á sér enga framtíð.

EG: Þetta er ákaflega sorgleg saga, nánast óhugnanleg.

Kazuo Ishiguro: Já, hún er sorgleg vegna þess að hún fjallar um dauðleikann. Söguhetjurnar eiga ekki langt líf fyrir höndum, þær lifa að öllum líkindum ekki miklu lengur en til þrítugs. En þrátt fyrir hinar mjög svo sérstæðu kringumstæður persónanna í sögunni reyndi ég að bergmála það sem við þurfum öll að ganga í gegnum. Okkur er ekki gefinn langur tími, við eigum öll skamma ævi fyrir höndum, en reynum hvað við getum að bægja tilhugsuninni um dauðleikann frá okkur. Við gerum okkar besta. Það er sorglegt en líka í einhverjum skilningi ákaflega fallegt.

EG: Ekkert getur bjargað söguhetjunum, ekki einu sinni ástin.

Kazuo Ishiguro: Við viljum trúa því að ástin bjargi lífi okkar. Við viljum trúa því að ástin geti sigrað allt. Líka dauðann. Þetta er ein af þeim goðsögnum sem við notum til að halda lífi. Þótt það kunni að hljóma undarlega þá er Never let me go í mínum huga ein af mínum glaðlegustu sögum, hún er eingöngu sorgleg vegna þess að persónurnar deyja og dauðinn er aðeins sorglegur vegna þess að á meðan við lifum sköpum við eitthvað sem er verðmætt, sambönd, vináttu, eitthvað sem endist ekki að eilífu. Um það fjallar Never let me go í mínum huga.

EG: Að höfundarferli þínum og fyrri verkum. Þú skrifar um ábyrgð og þú skrifar um eftirsjá. Sjúkleg þörf Stevens bryta í skáldsögunni The Remains of the day fyrir að standa sína plikt verður til þess að hann missir af því sem máli skiptir. Hann þjónar röngum herra af slíku alefli að hann lætur ástina ganga sér úr greipum. Svipað er upp á teningnum í skáldsögu þinni An Artist of the Floating World, þar sem listamaður sem hefur sóað hæfileikum sínum í áróður fyrir herská öfl horfist í augu við fortíð sína. Sjálfsblekking, ábyrgð, eftirsjá, það sem skiptir okkur máli þegar upp er staðið, þetta eru algeng viðfangsefni í þínum verkum.

Kazuo Ishiguro: Já það er rétt, ég skrifa um þetta. Sem skáldsagnahöfundur er ég stöðugt að reyna að fá lesandann til að sjá hlutina í nýju samhengi og spyrja um leið stórra spurninga: Hvað skiptir okkur máli í raun og veru? Hvernig getum við lifað sómasamlegu lífi? Í bókum mínum bendi ég á þá staðreynd að það er fátt auðveldara en að sóa lífi sínu vegna þess að maður kemur ekki auga á það sem máli skiptir. Ég hef sannarlega skrifað um fólk sem hefur sóað lífi sínu. Það hefur gert fáein, smávægileg, mannleg mistök sem síðar reynast afdrifarík. Í fyrstu bókunum mínum, A Pale View of Hills, An Artist of the Floating World og The Remains of the Day, skrifaði ég um eldra fólk sem horfir um öxl, fólk sem í góðri trú helgaði sig ákveðinni þjónustu eða málstað, en kemur á efri árum auga á mistökin sem gerð voru.

EG: Skáldsagan The Unconsoled, fjórða skáldsagan þín, er gjörólík fyrstu bókunum þínum. Yfirvegað raunsæi hefur vikið fyrir draumi, jafnvel svima! Sumir töluðu árið 1995 um nýja tegund af leiðindum, aðrir um minnislaust meistaraverk. Hvaðan kom þessi saga?

Kazuo Ishiguro: Hún er miklu skipulagðari en menn kunna að halda, menn halda að hún sé stjórnlaus vegna þess að hún fjallar um mann sem hefur misst tökin á lífi sínu. Staðreyndin er sú að ég undibjó þessa sögu vel og hafði feikilega gaman af því að skrifa hana. Möguleikar mínir sem rithöfundur voru miklu fleiri eftir að ég skrifaði The Unconsoled og ég gæti vel hugsað mér að skrifa eitthvað líkt henni í framtíðinni.

EG: Þetta er ógleymanleg bók.

Kazuo Ishiguro: Þakka þér fyrir. Hún skipti mig miklu máli.

EG: Persónur í bókum þínum hafa tilhneigingu til að nuddast utan í sögulega atburði, þær ofmeta stöðu sína og áhrif andspænis miklum viðburðum, eins og til dæmis Banks í skáldsögunni When We were Orphans, ævinlega með herfilegum afleiðingum. Í þeirri sögu skrifarðu enn og aftur um sjálfsblekkingu og getuleysi, persónur í verkum þínum berjast kannski ekki við vindmyllur en þær eru allt eins líklegar til að reyna að koma í veg fyrir heila heimsstyrjöld með stækkunarglerið eitt að vopni.

Kazuo Ishiguro: Ég er ekki í nánu sambandi við söguna. Ég er ekki Primo Levi. Ég var ekki í Ásvits og hef ekki lifað á átakatímum. Ég skoða sögubækur eins og kvikmyndaleikstjóri sem leitar að tökustöðum og leita að tímabilum sem ríma við þau þemu sem ég ætla að fjalla um. Mig langar ekki endilega til að skrifa um þægilegt líf venjulegs Vesturlandabúa. Af þessum sökum verð ég annaðhvort að fara um önnur lönd eða aftur í tímann og inn í fortíðina. Þetta veldur mér áhyggjum. Mér finnst stundum að ég misnoti söguna. Ég veit að ég er tilbúinn til að "fara rangt með" ef það þjónar tilgangi mínum sem skáldsagnahöfundur.

EG: Þú tilheyrir kynslóð áhrifamikilla breskra skáldsagnahöfunda, varst valinn í upphafi níunda áratugarins í hóp bestu rithöfunda Breta af yngri kynslóðinni, ásamt mönnum á borð við Julian Barnes, Graham Swift, Salman Rushdie, Ian McEwan og fleiri. Allir hafa þessir höfundar haldið tryggð við skáldsöguna og skáldsagan virðist njóta mikillar hylli sem bókmenntagrein um þessar mundir. Samt sjá ýmsir þreytumerki. Hvað með þig sjálfan?

Kazuo Ishiguro: Ég trúi enn á mátt skáldsögunnar. Hún nýtur meiri vinsælda og virðingar nú um stundir en oft áður, að minnsta kosti hér á Englandi. Og skáldsagan vekur athygli fjölmiðla. Hin margboðaða hnignum skáldsögunnar hefur ekki átt sér stað. Ég hef til dæmis gríðarlega trú á ungum höfundum sem nú eru að skrifa sínar fyrstu bækur, höfundum sem virða engin mörk á milli bókmenntagreina en skrifa samt einhvers konar skáldsögur. Skáldsagan hefur ekki hörfað út á jaðarinn heldur er hún miðlæg stærð í menningarlífi samtímans hér á Vesturlöndum.

EG: Þú hefur náð gríðarlegu valdi á skáldsagnaforminu, skrifar yfirvegaðan stíl, bækur þínar eru feikilega vel byggðar, það er allt pottþétt, allt á sínum stað. Sumir saka þig um kulda.

Kazuo Ishiguro: Þegar ég byrjaði að skrifa skáldsögur var ég búinn að semja að minnsta kosti hundrað dægurlög og texta. Í því fólst gríðarleg þjálfun og þannig afplánaði ég það sem ég kalla ,,sjálfsævisögulega skeiðið" á ferli rithöfundarins, skeiðið þegar hann er upptekinn af sjálfum sér og skrifar til að sýna hvað hann er flínkur án þess að leiða hugann að listrænu gildi textans. Síðustu dægurlagatextarnir sem ég samdi voru mjög líkir fyrstu smásögunum mínum, en ég hef kvatt þetta tímabil fyrir löngu. Varðandi skipulag og kulda finnst mér að höfundar eigi ekki aðeins að fylgja hugsun sinni heldur einnig innsæinu. Ég vona að það sjáist á mínum verkum.

EG: Þú nýtur mikilla vinsælda. Það fer ekkert á milli mála hér í stórborginni að þú ert nýbúinn að gefa út bók. Það eru myndir af þér út um allt, gluggar bókabúðanna eru gulir. Hefurðu áhyggjur af því að frægð þín og persóna skyggi með einhverjum hætti á innihald hinnar nýútkomnu bókar?

Kazuo Ishiguro: Höfundar á borð við sjálfan mig eiga miklu fleiri lesendur nú en fyrir tuttugu árum. Heimurinn hefur breyst okkur í hag að þessu leyti. En sá böggull fylgir skammrifi að höfundurinn sem persóna fær gríðarlega athygli. Höfundurinn er áhugaverður en aðeins upp að vissu marki. Ég vil að menn ræði um bækur, en ekki um skilnað höfundarins eða bernsku hans. Skáldsögur eru í mínum huga ekki lítt dulbúnar sjálfsævisögur. Auðvitað eru tengsl á milli þess sem hefur komið fyrir mig og þess sem ég skrifa. En þessi tengsl eru flókin, mjög flókin. Það er letilegur túlkunarmáti að tengja allt sem stendur í skáldsögu við líf höfundarins.

EG: Gott og vel, hvað ertu að lesa?

Kazuo Ishiguro: Fávitann eftir Fjodor Dostójevskí, ég á eftir áttatíu blaðsíður. Hún er ekki eins góð og mig minnti. En Dostojevskí les ég reglulega. Hann var uppáhaldsrithöfundur minn þegar ég var ungur. En ekki lengur. Djöflarnir eru þó sannarlega frábærir. Dostójevskí er einn þeirra höfunda sem maður heillast af þegar maður er ungur. Nú sé ég allt of marga galla hjá honum.

EG: Þitt fólk að öðru leyti?

Kazuo Ishiguro: Jane Austin, ég er nýbúinn að lesa allar hennar bækur aftur. Stórkostleg. Anton Tsjekov. Og fleiri. Annars hef ég í seinni tíð tilhneigingu til að halla mér að klassíkinni. Ódysseifskviðu Hómers les ég linnulítið. Ég er orðinn fimmtugur og verð að vanda valið. Ég er reyndar líka hrifinn af yngri höfundum, mönnum á borð við David Mitchell og Alex Garland.

EG: Að lokum, þú talar einhvers staðar um sár sem vill ekki gróa. Hljómsveitarstjórinn Brodskí í skáldsögunni The Unconsoled gerir það líka, talar um sár sem heillar mann, sár sem maður sækist eftir að snerta, sár sem aldrei grær og kallar á huggun. Ég hef á tilfinningunni að þetta sár tengist með einhverjum hætti því að skrifa, ástæðunni fyrir því að þú skrifar skáldsögur í stað þess að semja dægurlög ala Dylan eða starfa í félagsþjónustunni, þar sem þú komst við sögu á yngri árum?

Kazuo Ishiguro: Það er rétt. Sárið tengist þörfinni fyrir að skrifa. Flestir rithöfundar sem ég þekki eru sómafólk en þeir eiga það sameiginlegt að vera í undarlegu ójafnvægi. Það er allt í lagi að borða með þeim kvöldverð en undir yfirborðinu kraumar eitthvað, tilfinningar, flækjur sem þeim hefur ekki tekist að greiða úr. Skáldskapur og listir tengjast að mínu mati einhverju sem hefur aldrei gróið innra með manni. Sá sem skrifar eða semur tónlist fer nálægt þessu sári, hann snertir sárið og í snertingunni er fólgin huggun. Þegar þú skrifar um eitthvað sem skiptir máli ferðu nálægt þessu sári. Og þegar lesendum líkar verkið er það vegna þess að það snertir sárið innra með þeim. Um leið veitir verkið huggun. Rithöfundar hafa hins vegar ekki alltaf erindi sem erfiði. Bilið á milli þess höfundar sem gerir eitthvað sem skiptir ÖLLU máli og höfundar sem er í raun bara "að vinna í sjálfum sér" er svo örmjótt að það er við það að hverfa, verða að engu. Maður sér það best þegar maður hugsar um Franz Kafka. Það munar ekki nema því sem munar að hann sé glataður höfundur, hnikum til fáeinum smáatriðum og Kafka verður einskis virði, náungi sem er sjúklega upptekinn af sjálfum sér og sínum litlu vandamálum. En það er eitthvað ónefnanlegt sem veldur því að allt sem hann segir og allt sem hann skrifar verður að einhverju MIKLU, einhverju sem við hefðum aldrei getað orðað upp á eigin spýtur. Það er ekki mikill munur á þeim sem er aðeins upptekinn af sjálfum sér, annars vegar, og hins vegar miklum listamanni sem talar í nafni okkar allra, skilrúmið þarna á milli heldur hvorki vatni né vindum.

Viðtalið var unnið upp úr útvarpsþættinum Kazuo Ishiguro í London, sem frumfluttur var á Rás eitt hinn 15. maí síðastliðinn.

Höfundur er rithöfundur og útvarpsmaður.

 

Kazuo Ishiguro: Slepptu mér aldrei.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi. Bjartur, 2005

Sorg og von

Heimavistarskólar hafa löngum verið breskum höfundum uppspretta margvíslegra sagna. Þessir staðir fullnægja ýmsum þörfum sem sagan krefst, eins og að vera lokaður heimur með takmörkuð tengsl við umheiminn; barnabækur hafa nýtt sér að þarna eru börn sem byggja fyrst og fremst á samböndum við hvert annað og fullorðnir eru í afmörkuðu kennarahlutverki frekar en flóknu foreldrasambandi. Í barnabókum er það oftar en ekki öryggi þessa aflokaða heims sem er í forgrunni, þótt margar skáldsögur og kvikmyndir hafi að sjálfsögðu bent á ofbeldi og kaldan veruleika þessa heims.

Í höndum Kazuo Ishiguros í skáldsögunni Slepptu mér aldrei verður heimavistarskólinn að einhvers konar ýktri útgáfu af sjálfum sér, því hann er algjörlega lokaður frá umheiminum, mótunarhlutverk hans er algert og einnig hlutverk hans sem heimili. Í augum Harry Potters er Hogwarts skólinn öruggara og meira heillandi athvarf en heimilið, en börnin í Hailsham hafa ekki samanburð, heimilið er ekki fyrir hendi. Ishiguro segir í viðtali við Eirík Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 29. október 2005 að heimavistarskólinn hafi verið uppspretta sögunnar fremur en líftæknin sem söguþráðurinn þó snýst um. Klónun er umræðuefnið hér, því börnin í Hailsham eru líffæragjafar, sem eiga ekki langa ævi fyrir höndum og við fylgjumst með þremur þeirra, Kathy, Ruth og Tommy.

Sögumaðurinn Kathy rifjar upp ævi sína og bætist í hóp sérstæðra sögumanna Ishiguros sem oft eru í senn heillandi og fráhrindandi. Lesandinn er frá upphafi meðvitaður um að sögumaður hefur ekki alla þræði í hendi sér, vitneskja hennar er takmörkuð, sýn hennar á Hailsham heimavistarskólann er nánast þráhyggja og hugmyndir hennar um umheiminn sérkennilegar. Þetta sjónarhorn og átök þess við það sem lesandinn skynjar sem einhvers konar veruleika gera það að verkum að erfitt er að leggja bókina frá sér, því maður vonast stöðugt eftir einhverri lausn, einhverri skýringu á ‘umheiminum’ sem Kathy hvorki skilur né þekkir. En að auki sver sögumaður sig í ætt við sögumenn Ishiguros, eins og Stevens í Dreggjar dagsins og Banks í When We Were Orphans, hverra sýn er blinduð af sérkennilegum ranghugmyndum, eða kannski frekar fyrirframgefnum (og yfirleitt röngum) ályktunum sem gera persónurnar vanmáttugar og gerðir þeirra annað hvort tilgangslausar eða þær beinast í algjörlega ranga átt.

Bretar gera gjarnan grín að Norfolk og flestir brandararnir ganga út á að þar sé ekkert að sjá og ekkert við að vera – og er litið á þá sem sérvitringa sem heillast af flötu landslaginu, eins og W. G. Sebald heitinn gerði. Í Slepptu mér aldrei hafa börnin í Hailsham gert Norfolk að staðnum þangað sem týndir hlutir fara. Þetta er heillandi og hughreystandi hugmynd, því það merkir að hlutir týnast aldrei alveg, þeir eru bara komnir til Norfolk og það sama á þá líklega við um fortíðina alla saman – hana er alla að finna í Norfolk. Slepptu mér aldrei er að einhverju leyti bók um von og það er mjög í anda hennar að hið ‘eyðilega’ Norfolk sé birtingarmynd vonarinnar. Söguhetjurnar þrjár eiga sérkennilegt líf fyrir höndum og taki Hailsham á hugmyndum þeirra og lífi sleppir ekki, því þegar þau ‘útskrifast’ þaðan stækkar heimurinn varla nokkuð, hvað þá að hann opnist, hann skiptist einungis niður í aðrar lokaðar einingar. Það má segja að klónun og líftækni séu hér aðferð til að skoða dauðleikann og hvernig við bregðumst við honum og að því leyti er þetta elegískt verk, frekar en umræða eða greining á afleiðingum þessarar tækni. Þetta er líka sérlega áhrifamikil og jafnvel á stundum allt að því kaldranaleg hugleiðing um ást og von.

Slepptu mér aldrei var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, og þótti ákaflega sigurstrangleg og John Sutherland formaður dómnefndar í ár, hefur gefið í skyn að dómnefndin hafi verið klofin milli Ishiguros og höfuðstílista Íra, Johns Banville, sem hreppti hnossið. Eins og Ingi Björn Guðnason bendir á í umfjöllun sinni um James Meek hér á síðunni, er mjög ánægjulegt að fá svona fljótt útgefnar þýðingar á erlendum skáldverkum. Þýðingin er að mestu leyti mjög góð, á stöku stað mátti þó sjá sérkennilega orðaröð og nokkuð formlegt eða hátíðlegt orðalag notað þar sem enskan virkar hversdagslegri.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005.


Samkvæmisleikir e. Braga Ólafsson

Laugardaginn 11. desember, 2004 - Menningarblað/Lesbók
BÆKUR - Skáldsaga
Samkvæmisleikir

Partí hjá Friðberti

eftir Braga Ólafsson. Bjartur 2004.

"Hef ég í alvöru lifað svo rislitlu og óspennandi lífi, hugsaði hann, að ég hef algerlega sloppið við að verða fyrir áföllum af nokkru tagi? Og ekki aðeins sloppið við það sem maður vill vera laus við heldur líka farið á mis við allt hið stórkostlega sem gæti komið fyrir mann, allt hið óvænta og áhugaverða, það sem í rauninni réttlætir það erfiði sem lífið útheimtir" (71). Þessari hugsun lýstur niður í huga Friðberts Witolds Magnússonar, þrítugs prentnema í Reykjavík, í nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar, Samkvæmisleikjum. Líkt og aðrar aðalpersónur Braga hingað til er söguhetjan Friðbert feiminn og hlédrægur, einhleypur og óöruggur. Hann heldur upp á þrítugsafmæli sitt með pomp og prakt og býður nokkrum vinum sínum til samkvæmis í sögufrægri íbúð sem hann leigir á Hringbraut 45. Atburðarásin fer löturhægt af stað en stigmagnast á hverri blaðsíðu, líf persónanna tekur brátt kollsteypur sem Friðbert gat ekki órað fyrir og á einni viku hefur heimur þeirra allra gjörbreyst. Þegar líður á söguna verður spennan milli hægrar og skrykkjóttrar framvindu, uggvænlegra fyrirboða og undirliggjandi ógnar og ógæfu næstum óbærileg og heldur lesandanum í heljargreipum allt til söguloka.

Frásagnartækni Samkvæmisleikja er snilldarvel útfærð. Atburðarásin er rakin í brotakenndum sviðsetningum sem smátt og smátt raðast saman í eina heild. Sífellt er klippt á milli atriða og tímaröð atburðanna er ruglað en Bragi hefur glímt mjög við tímann í verkum sínum. Sjónarhornið fer eftir því hver persónanna er í sviðsljósi þá stundina og stundum eru sömu atburðir raktir frá öðru sjónarhorni með tilheyrandi eyðum og spurn þar sem leikið er á hvernig menn upplifa það sama á mismunandi hátt. Tilþrifin minna á frásagnartækni kvikmynda eins og Pulp Fiction og Kill Bill. Bragi notar svipaða aðferð og Gyrðir Elíasson í verkum sínum; hárfínar tengingar orða, hluta og atburða binda söguna saman og vísa hver á aðra. Lýsingar eru nákvæmar og smásmugulega raunsæjar á mjög skemmtilegan hátt. Bragi á það einnig sameiginlegt með Gyrði að húmorinn er fíngerður og gráglettinn og textinn býr yfir sérstakri fegurð sem erfitt er að lýsa. Gaman er að sjá kynlífssenur í Samkvæmisleikjum en kynlíf hefur ekki verið fyrirferðarmikið í verkum Braga hingað til. Það er eins og hann sleppi meira fram af sér beislinu í þessari bók en hinum, hún er t.d. bæði lengri og safaríkari, þó ekki á kostnað þeirrar fágunar, aga og dýptar sem einkennir verk hans.

Persónur sögunnar eru margar og ekki allar þar sem þær eru séðar. Friðbert er svona prjónavestistýpa (sem leynir þó á sér), sérlundaður í umkomuleysi sínu og stirður í mannlegum samskiptum enda lokaður "í sínum þrönga umheimi". Vinir hans telja að hann hafi lagt fyrir sig hávaðasamt prentnám til að þurfa sem minnst að tala við næsta mann og geta í leiðinni dundað við eitthvað sem krefst engrar sérstakrar einbeitingar (51). Jón Víðir er trúverðugur ógæfu- og utangarðsmaður og félagar hans eru svo sannarlega kaldrifjaðir krimmar, fullir af illsku og hatri. Myrkraverk þeirra eru martröð hvers manns. Sigmar, kaldhæðni kvennabósinn, Jósef Már, fasteignasalinn ístöðulausi, og lesbíurnar Lára og Rima eru dæmigert, ungt nútímafólk sem lendir í flóknum kringumstæðum eins og af hendingu. Forspil sögunnar fjallar um lífið og hendinguna; brúða sem finnst inni í skáp staulast upptrekkt um í vélrænu tilgangsleysi þar til krafturinn fjarar út, blaðra þýtur út í loftið, korktappi skýst úr flösku og enginn veit hvar hann lendir. Leiðir persónanna liggja fyrir tilviljun saman á einhverju augnabliki og sú tilviljun skiptir sköpum, eftir það er ekkert eins og það var.

Samkvæmisleikir Braga er bók sem situr í minninu að lestri loknum, listilega byggð og fallega skrifuð, persónurnar hugstæðar og efnið ágengt. Í henni er að finna glatað sakleysi, óhugnað og fegurð í bland við grimmdarlegt ofbeldi. Það er varla að maður þori út úr húsi eftir að hafa tekið þátt í Samkvæmisleikjunum. Bækur Braga verða sífellt betri og þessi er sýnu best. Furðu sætir að hún er ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna en það er sennilega rétt sem Eiríkur Guðmundsson sagði í pistli sínum í Víðsjá: "... íslensku bókmenntaverðlaunin eru og verða samkvæmisleikur handa markaðnum..."

Steinunn Inga Óttarsdóttir

 

Bragi Ólafsson: Samkvæmisleikir
Bjartur 2004

Viðburðir í Vesturbænum

Ég vildi að allir væru búnir að lesa Samkvæmisleiki, nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar. Ekki einungis vegna þess að það yrði öllum til gleði og ánægju – þótt að þau lýsingarorð nái ekki utan um þetta verk, kannski óhugnaður og ónot væru nærri lagi – heldur liggja líka eigingjarnar hvatir að baki. Samkvæmisleikir er nefnilega bók sem maður iðar í skinninu að fá að tala um, en nú þegar ég hef til þess tækifæri, þá vil ég eiginlega ekki segja neitt, alls ekki gefa of mikið upp, vil ekki fyrir nokkurn mun skemma fyrir væntanlegum lesendum þá grípandi lestrarreynslu sem þeir eiga í vændum.

Það er gaman að fá svona þykkan Braga, þetta er 340 síðna skáldsaga sem lesandinn geysist í gegnum, grípur í frakkalöf höfundarins, eltir hann um Vesturbæinn og vill ekki sleppa. Andrúmsloft og sumar persónur eru að einhverju leyti kunnuglegar úr öðrum verkum höfundar og stundum finnst manni eins og aðalpersónan úr Gæludýrunum hafi risið upp og ákveðið að halda veislu. Þetta er nefnilega bók um samkvæmi, um þrítugsafmæli Friðberts, eitt sumarkvöld á Hringbrautinni. Inn í atburðarásina dragast ýmsir vinir og vandamenn Friðberts að ógleymdu furðufólki af margvíslegri gerð. Sagan spannar knappt tímabil og vandlega afmarkað sögusvið í Vesturbænum – með örlitlu skreppi út úr bænum.

Frásagnarmátinn er sérlega vel heppnaður, tímaflakkið vel uppbyggt og tónninn hefur mikið aðdráttarafl, með sínum sérstaka húmor. Eins og fyrr segir þá er atburðarásin grípandi og vekur forvitni – þetta er svona ég-verð-að-vita-hvað-gerist-næst-bók og heldur þannig nokkuð stöðugri spennu í gegnum allt verkið. Þrátt fyrir þetta, eða kannski þess vegna, er eins og stíllinn vilji kannski frekar hægja á lesandanum. Hér er dvalið við, tíminn lötrast áfram á stundum, athöfnum fólks er lýst mjög nákvæmlega í smæstu smáatriðum, jafnt ákaflega tíðindalitlum athöfnum, sem og kynlífi og óhugnaði. Textinn virkar því við fyrstu sýn sem þéttriðið net; hér skiptir hvert smáatriði máli, hver athöfn, hverri gerð er lýst fyrir lesandanum, en smám saman áttar maður sig á því að textinn er gljúpur, hér er ekki endilega fast land undir fótum, stundum eru gloppur í netinu sem lesandinn dettur skyndilega í gegnum – þessum texta er ekki að treysta. Ég er heldur ekki frá því að við annan lestur hafi senur sem ég mundi svo vel eftir frá fyrsta lestri hreinlega verið horfnar. Var ekki myndavélin þarna? Sá ég ekki ponsjóið hér? Allt þetta heldur við spennunni, um leið og stíllinn tefur stöðugt fyrir og varnar því að hámarkinu séð náð of fljótt.

Einu sinni fór ég í samkvæmi á Hringbraut 45, 4. hæð til hægri, en þá skildi rithöfundurinn ekki eftir svarta rúskinnsskó fyrir utan dyrnar, svo eftirmál urðu samasem engin. Við fórum heldur ekki í leiki. Í Samkvæmisleikjum skapast mjög sérstakt rými þar sem lesandanum er sleppt lausum. Nákvæm staðsetning atburða bindur atburðarásina rækilega við áþreifanlega veruleika um leið og textinn kippir reglulega undan manni fótunum; höfundurinn hristir mann af sér þar til maður sér frakkalöfin hverfa fyrir húshorn á Bræðraborgarstíg.

Samkvæmisleikir hefðu verið mjög ofarlega á mínum tilnefningarlista fyrir bókmenntaverðlaunin og veiti ég þeim hérmeð mín prívat verðlaun áður en ég hef lesturinn í þriðja sinn í leit að týndum senum og persónum.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2004

 

Laugardaginn 4. desember, 2004 - Menningarblað/Lesbók
Eftir Þröst Helgason | throstur@mbl.is

Það er ljóðræn fegurð í óhugnaðinum

Blaðamaður hefur komið í mörg samkvæmi að undanförnu þar sem nýjasta skáldsaga Braga Ólafssonar, Samkvæmisleikir , hefur verið til umræðu en lítið hefur fengist upp úr lesendum um það hvað gerist í henni. Það má ekki segja hvað gerist, hafa þeir sagt með samkvæmissvip, stóreygir og svolítið fölir af drykkju, reykjarsvælu og kannski svefnleysi því þeir hafa haldið því fram að eitthvað gerist í bókinni sem þeir kunni ekki að skýra, nái ekki alveg utan um - stóreygir eins og þeir hafi séð eitthvað sem þeir áttu ekki að sjá og vildu ekki sjá. Í heitu pottunum fullyrða menn að sagan gerist í íbúð Þórbergs á Hringbrautinni en þegja annars þunnu hljóði, tala um atburði: Þessir atburðir verða í íbúð Þórbergs, í íbúð Þórbergs og Margrétar! En þeir svara annars engu, síga djúpt ofan í pottana svo einungis hvikandi augun og blautir kollarnir standa upp úr, en einstaka lesandi hvíslar inn í gufuna sem stígur upp úr vatninu og út í myrkrið: Hvað gerðist eiginlega í þessari sögu? Og þessi spurning endurómar í blaðadómum: Hvað gerðist?
Það er erfitt að hefja samtal við Braga Ólafsson um Samkvæmisleiki. Það má satt að segja ekki láta of mikið uppi um innihald bókarinnar. Bragi segist sjálfur hafa verið í vandræðum með að skrifa káputextann. Sá texti er stuttur eins og við fyrri skáldsögur hans tvær, Hvíldardaga (1999) og Gæludýrin (2001). Í textanum við Samkvæmisleiki segir að hún fjalli um prentnemann Friðbert sem haldi upp á þrítugsafmælið sitt. Þegar hann hafi kvatt síðustu gestina reki hann augun í svarta rúskinnsskó fyrir framan dyrnar á stigapallinum, skó sem hann kannist ekki við að hafa séð áður.

Það má upplýsa strax að Friðbert á heima í íbúð Þórbergs og Margrétar á Hringbraut 45, fjórðu hæð til hægri. Afmælisveislan er haldin þar þrettánda júlí og daginn eftir lendir Friðbert í atburðum sem hann hefur litla stjórn á, hann verður, að því er virðist, fórnarlamb tilviljana, ekki ósvipað og hin seinheppna aðalpersóna Gæludýranna, Emil. Margar persónur koma við sögu sem allar tengjast Friðberti og atburðunum sem eiga sér stað um það leyti sem hann verður þrítugur, sumir í íbúð Friðberts og aðrir í næsta nágrenni. Í bókinni er flakkað fram og til baka í tíma í mismunandi löngum köflum og lesandinn fyllist hægt og hægt grunsemdum um að eitthvað ískyggilegt sé í vændum.

Íbúð Þórbergs ögrandi sögusvið

Bragi segir að eitt af því fyrsta sem hann hafi ákveðið þegar hann hóf að skrifa bókina hafi verið að hún skyldi gerast í hinni frægu íbúð Þórbergs Þórðarsonar.

"Það er á einhvern einkennilegan hátt ögrandi sögusvið, nánast helg íbúð í hugum margra, án þess ég viti hvort ég sé að afhelga hana eða misnota hana í þessari sögu minni. Það er þó eitthvað háskalegt og skrýtið við það að skrifa sögu sem þessa og láta hana gerast að stórum hluta inni í íbúð sem í hugum margra er nánast tákn fyrir fallegt líf eða sakleysi sem tilheyrir liðnum tíma."

Vafalítið á eftir að leggja einhverja merkingu í þessa staðsetningu sögunnar en Bragi vill ekki hjálpa lesendum við það.

"Þessi sviðsetning hefur einhverja merkingu fyrir mér sem ég get ekki sett fingur á, eins og margt í þessari bók og öðrum sem ég hef skrifað. Í Gæludýrunum var ein sögupersónan að dröslast með frumútgáfu af Moby Dick eftir Herman Melville og það voru ýmsar vísanir í þá bók í sögunni en það var öðrum þræði gert til þess að stríða lesendum, vekja hjá þeim eftirvæntingu. Sjálfur sé ég reyndar ákveðnar tengingar en það er auðvitað ekki mitt hlutverk að skýra frá þeim."

Það eru fleiri þekkt kennileiti í sögunni, forlagsskrifstofa Bjarts kemur til dæmis við sögu.

"Já, ég verð að hafa sterka tengingu við jörðina sem sagan gerist á. Samt eru þessir staðir aldrei nákvæmlega eins í sögunni og í raunveruleikanum, yfirleitt skekki ég myndina af þeim. Ég kom inn í íbúð Þórbergs og Margrétar fyrir mörgum árum og þekki þessar Hringbrautarblokkir ágætlega sem gefur mér svigrúm til að breyta þeim í sögunni.

Ef til vill hefur það líka einhverja merkingu fyrir söguna að þetta eru fyrstu blokkir sem byggðar voru í Reykjavík."

Skáldsögurnar þínar gerast allar á svipuðum slóðum.

"Það er rétt. Þetta eru æskuslóðir mínar án þess ég vilji endilega tengja þessar þrjár bækur saman með slíkum hætti. Að vísu fer ég upp á Grettisgötu í Gæludýrunum en þessar sögur eiga heima í Vesturbænum, það hverfi er þeirra líkami."

Þetta kemur mjög eðlilega

Texti Braga skilur eftir þá tilfinningu hjá lesandanum að eitthvað sé látið ósagt. Frásagnarhátturinn er hægur - jafnvel svo að það er eins og ekkert sé að gerast - og nánast hlutlægur en Bragi leggur ekki áherslu á að grípa framm í fyrir sögunni með útskýringum eða túlkunum á því sem fram fer. En á meðan textinn sýnir yfirborð hlutanna þá vakna grunsemdir um það sem undir býr, lesandinn fyllist eftirvæntingu.

"Mér finnst í rauninni ekki ósvipað að skrifa skáldsögu og leikrit," segir Bragi. "Það háir mörgum leikritum að persónur eru stöðugt að útskýra hvað er að gerast í verkinu, forsöguna og jafnvel inntak atburða. En mér finnst réttara að láta merkingu hlutanna, eða merkingarleysi, krauma undir niðri; persónurnar eiga ekki að þurfa að segja áhorfandanum hvers vegna eitthvað gerist; það á bara að gerast.

Ég held að lesandi skáldsögu þurfi heldur ekki á því að halda að fá útskýringar á atburðum. Ég vil að lesandinn grafi undir yfirborðið sem ég sýni.

Annars hef ég ekki neina sérstaka aðferð við að skrifa skáldsögu. Þetta kemur mjög eðlilega.

Ég var samt lengi að detta niður á rétta tóninn. Ég var búinn að reyna að skrifa prósa um nokkurt skeið þegar ég byrjaði á fyrsta kaflanum í Hvíldardögum fyrir fimm eða sex árum og fannst allt í einu að ég væri að gera eitthvað sem virkaði. Allar tilraunir mínar fram að því til að skrifa skáldsögur fundust mér hjárænulegar, og fannst ég ekki ráða við annað en styttri texta. Núna hefur þetta eiginlega snúist við; núna ræð ég síður við knappari form."

Í raun gerist heilmargt

Það má sjá ákveðna þróun í þessum þremur bókum sem endurspeglast ágætlega í því að Samkvæmisleikjum hefur verið lýst sem eins konar spennusögu; það hefði aldrei verið sagt um Hvíldardaga.

"Alveg örugglega ekki.

Ég hef hugsað mikið um þetta því ég hef oft verið vændur um að skrifa atburðalitlar eða tíðindalausar bækur. Sjálfur hef ég aldrei getað samþykkt þá lýsingu en líklega finnst fólki lítið gerast í sögunum vegna þess að atburðarásin er hæg eða seigfljótandi.

Ég veit um fólk sem hreinlega tætti af sér hár sitt og skegg yfir hinum ískyggilegu leiðindum og tíðindaleysi í Hvíldardögum en í þeirri sögu gerist í raun og veru heilmargt. Til dæmis bilar bíll sögupersónunnar sem er nú enginn smá atburður. Og í lok sögunnar ferðast hún alla leið upp í Heiðmörk. Síðan er iðulega margt að gerast í höfði persónanna eða höfði höfundarins sem skiptir máli fyrir söguna."

Atburðir sem sagan kallar á sjálf

Hvað kveikti hugmyndina að Samkvæmisleikjum?

"Ég var einhvern tímann að kveðja foreldra mína eftir veislu og hélt að ég væri einn eftir en sá þá skó fyrir framan dyrnar sem mér fannst að enginn vissi hver ætti. Þá kviknaði þessi hugsun hvort einhver væri ennþá inni.

Þessi mynd rammar söguna inn, hún hefst á því að Friðbert sér þessa skó og hún endar á ákveðnum atburðum sem gætu tengst því að þeir eru þarna úti á stigapallinum.

Kannski gerist ekkert meira í þessari bók en þeim fyrri en hún hefur fleiri persónur og ég segi öðruvísi frá, hleyp til og frá í tíma.

Ég ákvað ekki að skrifa bók með meiri áherslu á atburði en atburðir þessarar sögu eru þess eðlis að þeir fá mikið vægi í sögunni, þeir hafa meiri áhrif, allavega á mig. Það vafðist lengi fyrir mér að hafa þessa atburði í sögunni, þeir eru fremur ógeðfelldir en mér fannst ég verða að skrifa þá út. Þó að það sé asnalegt að segja það þá tók sagan völdin af mér, hún fór að kalla á hluti sem ég gat ekki neitað henni um."

Einhvers konar síðmódernisti

Óhætt er að segja að Bragi hafi rödd sem sker sig úr í íslenskri skáldsagnagerð. Hann segist hins vegar ekki hafa hugleitt það mikið hvar hann sé niður kominn í því landslagi.

"Ég sé engar skýrar línur og finnst ekki vera hægt að setja einhvern merkimiða á íslensku skáldsöguna sem slíka. Til allrar hamingju, nú á þessum tímum, er verið að skrifa alls konar skáldsögur.

Kannski er ég einna helst einhvers konar síðmódernisti. Þegar ég var að byrja að fást við skáldskap þá hreif módernisminn mig mest og eflaust er ég síðbúin útgáfa af honum eða hugsanlega póstmódernisti.

Ég hef oft hugsað um það sem Flaubert sagði þegar hann skrifaði Madame Bovary að hann ætlaði að skrifa bók um ekki neitt. Það er skemmtilegt að velta þeim orðum fyrir sér í ljósi þess hvernig bók Madame Bovary er en það hefur lengi vakað fyrir mér að reyna að skrifa bók um alls ekki neitt. Ég veit að margir hafa haft þetta í huga og margir hafa reynt en það sem vakir fyrir mér er að skrifa hreina póesíu, hreinan skáldskap sem er ekki mengaður af hversdagslegum hlutum. Þetta er auðvitað afskaplega háleitt markmið og mér hefur aldrei tekist að ná því. Kannski þó í einstaka ljóði, kannski í einu eða tveimur ljóðum sem ég man eftir í svipinn, ljóðum sem má segja að séu bara til fyrir sig og hafa nánast enga vísun í neitt annað.

Annars treysti ég á aðra að lýsa því sem ég er að gera. Á meðan skrifa ég bara eins og mér þykir eðlilegt."

Hugsanlega dæmisaga

"Í dag eru miklar kröfur um að skáldsögur hafi samfélagslegt erindi," heldur Bragi áfram. "Það vakti ekki fyrir mér að skrifa samfélagsádeilu í Samkvæmisleikjum en eftir á að hyggja finnst mér ýmislegt í bókinni vera athugasemdir við það sem er að gerast í íslensku samfélagi og ekki síður íslenskri pólitík. Hún gæti þess vegna verið dæmisaga um það hvernig stjórnvöld koma stundum aftan að þegnum sínum. En ég vil ekki benda á nein dæmi um þetta. Lesendur finna þau ef þeir vilja."

Bókin fjallar líka um ofbeldi sem er ofarlega á baugi í umræðu þessa dagana.

"Ofbeldi er allt orðið miklu sýnilegra en áður, það er búið að draga það meira fram í dagsljósið til þess að lækna það en um leið fyllir það okkur ótta og verður að sensasjón í fjölmiðlum. En Samkvæmisleikir er ekki spennubók um ofbeldi, mig langaði hins vegar til að vekja upp í henni óhugnað, það er ljóðræn fegurð í óhugnaðinum."

Manni leyfist allt

Bragi hefur mikla trú á skáldsögunni. Þegar hann er spurður hvort honum finnist hún vera gott tæki til þess að koma list sinni á framfæri þá segir hann engan vafa leika þar á.

"Skáldsagan getur verið hvernig sem er; hún er algerlega opið form, manni leyfist allt, hún getur lýst einu herbergi á fjögur hundruð blaðsíðum eða rekið heila fjölskyldusögu á þrjú hundruð og tuttugu blaðsíðum."

Ertu með einhverjar hugmyndir um hlutverk skáldsagnahöfundarins eða skáldskaparins yfirleitt?

"Rétt eins og við getum ekki verið án kímnigáfu þá held ég við þrífumst ekki án skáldskapar. Án þessara elementa yrði allt svart í kringum okkur, við myndum ekki rata á milli húsa, ekki einu sinni milli herbergja í eigin húsum.

Fyrir mér er skáldskapur nokkurs konar trúarbrögð; að minnsta kosti tel ég mig vera trúaðan mann án þess að vera með mynd af einhverjum guði eða annarri fígúru uppi á veggnum hjá mér. Og ef skáldsagan hefur eitthvert ákveðið hlutverk þá er það það að viðhalda sjálfri sér og þróast, eins og manneskjan sjálf er alltaf að rembast við. Og á meðan ég hef tækifæri til að taka þátt í þeirri þróun þá er ég í mínu elementi."


Sumarljós, og svo kemur nóttin e. Jón Kalman Stefánsson

Um Jón Kalman
Jón Kalman Stefánsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1963. Hann bjó í borginni til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur og bjó þar til ársins 1986; þá lá leiðin aftur til Reykjavíkur, með stúdentspróf úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja upp á vasann. Frá 1975 til 1982 var hann með annan fótinn vestur í Dölum, vann meðal annars í sláturhúsinu í Búðardal og frá 1979 til 1982 stundaði hann ýmis störf, vann við saltfisk og skreið, múrverk og var eitt sumar lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli. Jón Kalman nam bókmenntir við Háskóla Íslands frá haustmánuðum 1986 og með hléum til 1991 en lauk ekki prófi. Hann kenndi bókmenntir í eitt ár við Fjölbrautaskóla vesturlands á Akranesi, hálft ár við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, skrifaði jafnframt greinar fyrir Morgunblaðið, ritdæmdi þar bækur í nokkur ár. Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995, las, skúraði, taldi strætisvagna. Hann starfaði sem bókavörður við Héraðsbókasafnið í Mosfellsbæ fram til vorsins 2000. Síðan þá hefur hann starfað sem rithöfundur.

Fyrsta bók hans, ljóðabókin Með byssuleyfi á eilífðina, kom út árið 1988. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur og skáldsögur. Skáldsögur Jóns Kalmans hafa tvívegis verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 2001 og 2004.

Jón Kalman býr í Mosfellsbæ. Hann er kvæntur og á tvö börn (bokmenntir.is).

Laugardaginn 27. janúar, 2007 - Menningarblað/Lesbók

Samofnar andstæður

Skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin , hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ásamt Roklandi eftir Hallgrím Helgason.


Sagnamaður Bæði líf og dauði hafa sínar myrku og björtu hliðar en sagan fjallar ekki síður um dauðann en lífið í þessu litla samfélagi fyrir vestan, segir Þormóður um skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar. 

Skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin , hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ásamt Roklandi eftir Hallgrím Helgason. Er þetta þriðja skiptið sem Jón hlýtur þessa tilnefningu en honum hlotnaðist einnig sami heiður árið 2001 og 2004.

Það má vissulega segja að frásagnarstíll Jóns Kalmans Stefánssonar sé eitt hans helsta vopn sem rithöfundur – hans aðalsmerki sem veitir honum sérstöðu á meðal íslenskra rithöfunda. Hugsanlega hefur bakgrunnur hans í ljóðagerð eitthvað með það að gera en Jón hóf rithöfundaferil sinn sem ljóðskáld og sendi meðal annars frá sér ljóðabækurnar Með byssuleyfi á eilífðina (1988) og Úr þotuhreyflum guða (1989). Þá má sjá nokkur keimlík stef í ljóðum hans og skáldsögum en þar ber sérstaklega á vangaveltum um tímann og tungumálið. Auk þess er textinn í skáldsögum hans oft á tíðum afar ljóðrænn og lífsspekilegur og innihalda skáldverk hans heilan helling af einstaklega innihaldsríkum setningum sem gætu þess vegna, og auðveldlega, staðið einar og sér.

Lífið endar iðulega í miðri setningu
Í upphafi skáldsögunnar Sumarljós og svo kemur nóttin , sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra og er nú tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, kemur fyrir setning sem neyðir lesandann til að staldra við og ígrunda en þær eru ófáar slíkar í bókinni. Þar má lesa í vangaveltu sögumanns um lífið að það "virðist fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu." Að vissu leyti setja þessi orð tóninn fyrir bókina sem kalla mætti ljóðræna skáldsögu en hún er einmitt uppfull af lífsspeki, angurværð og trega, ljósi og myrkri, kátínu og einsemd, lífi og dauða. En þó tekur sagan sig aldrei of alvarlega og bregður oft fyrir gamansömum og gleðilegum tón.

Sögusviðið er ónafngreint fámennt þorp fyrir vestan og hægt væri að henda inn orðum eins og "þjóðfélagslýsingu" og "íslenskum veruleika" til að lýsa efni bókarinnar. Og þó svo að lýsingin hljómi ef til vill kunnuglega, og eigi við ófá íslensk skáldverk fer Jón einstaklega skemmtilega leið að viðfangsefninu, í krafti síns sérstaka frásagnarstíls, og gefur því fallegt og ferskt yfirbragð. Eins og fyrr segir er hinn gamansami tónn ávallt nálægur í verkinu, einkum í stílbragðinu og sérstöku sambandi sögumanns við hinn innbyggða lesanda sem nánar verður skoðað hér á eftir.

Rómantískur sagnaheimur
Rómantíkin hefur gjarnan loðað við skáldskap Jóns Kalmans og hefur sveitin og nostalgían iðulega verið minni í skáldverkum hans. Á undanförnum árum hefur Jón skapað nokkuð persónulegan sagnaheim með skáldverkum sínum og ber þar helst að nefna þríleik sveitasagna sem samanstendur af bókunum; Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bakvið Brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999). Í þessum sögum er þó þorpið eins konar baksvið en sveitin er aftur á móti í forgrunni. Þessu er þó öfugt farið í Sumarljósi þar sem þorpið er aðalsögusviðið þótt sveitirnar í kring komi talsvert við sögu. Sagnaheimur þessi er mjög keimlíkur þeim í Sumarljósi og mætti jafnvel ætla að síðarnefnda sagan komi í beinu framhaldi af hinum.

Sumarljós er vissulega í anda rómantíkurinnar, í nútímalegu en jafnframt fornu umhverfi íslensks smáþorps. Frásagnarstíllin sveipar viðfangsefnið léttleika þó svo að það geti verið ansi þungt á köflum. Útkoman er ljúfsár en falleg mynd af litríkri persónuflóru þorpsins.

Í rauninni er ekki um hefðbundna skáldsögu að ræða – með eiginlegri framvindu, fléttu og lausn – heldur er bókin eins konar smásagnasafn samanofið í eitt heildstætt skáldverk þar sem sagðar eru, sitt í hvoru lagi, sögur af íbúum þorpsins. Þá er sérstaklega áhugavert að skoða sögumanninn í verkinu sem virðist vera þorpið sjálft, eða eins konar þorpssál; sameiginleg vitund þorpsbúa sem talar um sjálfa sig sem "við" en er algjörlega óhlutbundin og óháð þorpsbúum. Sögumaður þessi – sál þorpsins – heldur utan um sögur þorpsbúa, tengir þær saman og gefur verkinu heildarsvip.

Engin ábyrgð á nóttinni
Ef ætti að tala um söguhetju eða aðalpersónu í verkinu, þá væri hún þorpið sjálft; hinn alvitri sögumaður. Engu að síður heldur hann sig til hlés að miklu leyti og hleypir frásögninni óhindrað fram en það er aftur á móti í milliköflum – sem koma reglulega fyrir og skipta bókinni niður í níu sjálfstæðar sögur úr þorpinu – þar sem að rödd sögumannsins er hvað mest áberandi. Og það eru þessir millikaflar sem gefa verkinu sinn heildarsvip og heildarhugsun.

Samband sögumannsins við innbyggðan lesandann er sömuleiðis sérstakt og skemmtilegt en sögumaðurinn talar ósjaldan beint til hans með því að ávarpa hann í annarri persónu. Á einum stað segir hann við lesandann:

"Þú ættir einhverntíma að bregða þér á ball hér í Félagsheimilinu, við hlökkum óspart til þeirra, þau koma lífinu á hreyfingu, þorpið angar af rakspíra, ilmvatni, þau eru sérstök himnasending á vetrum sem eiga það til að vera langir og kyrrstæðir, fátt gerist, við stöndum upp ef flugvél flýgur yfir."

Af þessu textabroti má sjá að í rödd sögumannsins gætir einhverrar minnimáttarkenndar gagnvart hinum innbyggða lesanda sem væntanlega kemur úr fjölmennara bæjarfélagi og lítur að einhverju marki niður til samfélagsins í þorpinu. Rödd sögumanns á það jafnframt til að vera nokkuð barnsleg og á tíðum afsakar hann smáborgaralega hegðun þorpsbúa. Á sama tíma getur textinn orðið afar djúpvitur og ljóðrænn. Þegar sagt er frá Jónasi, hinum fíngerða og veikgeðja lögreglumanni sem þorpsbúar hrekkja ósjaldan þegar farið er út á næturlífið, afsakar sögumaður þessa hrekki en segir þó við lesandann:

" [...] þú manst, við tökum enga ábyrgð á nóttinni." Þessi setning gæti þannig séð átt við drykkjumenningu Íslendinga almennt; í smáþorpum, Reykjavík eða hvar sem er.

Hinn barnslegi tónn og minnimáttarkennd sögumanns virðast þó eingöngu eiga heima á yfirborðinu og þjóna kannski helst þeim tilgangi að hylja það sem undir býr og um leið auka áhrifamagn textans. Og það gerir Jón svo áreynslulaust að útkoman verður aðdáunarverð.

Líf, dauði og kynlíf
Þá er sem sögumanni sé sérstaklega hugleikið samband lífs og dauða og jafnframt tengsl lífs og dauða við kynlíf. Og eins og að sjálfsögðu eru kynlífsvangaveltur sögumanns oftar en ekki skemmtileg lesning, til dæmis þegar sagt er frá uppvaxtarárum Kjartans sem vinnur á lager í þorpinu en þar er stílbragð höfundar sérlega snjallt. Minnst er á nautgriparækt sem Kjartan var frægur fyrir á sínum tíma:

"En dveljum ekki við kynlíf nautgripa, það er svo snautlegt, einn tveir þrír kippir hjá nautinu, froðan vellur, augun ætla út úr tóftunum og svo er það allt búið, nautið fer að bíta gras, kýrin til síns heima, þetta er svo sára einfalt, þannig er það ekki hjá okkur, því er nú verr og miður, eða Guði sé lof, en konan hans Kjartans heitir Ásdís, þau eiga þrjú börn." Í sömu setningu og sögumaður talar um samfarir nautgripa og ber saman við kynlíf mannfólksins minnist hann á að Kjartan og Ásdís eiga saman þrjú börn.

Sögumaður tengir svo hugmyndir um ljós og myrkur og nótt og dag við þessar vangaveltur; ljósið í lífinu, myrkið í dauðanum og öfugt. Bæði líf og dauði hafa sínar myrku og björtu hliðar en sagan fjallar ekki síður um dauðann en lífið í þessu litla samfélagi fyrir vestan.

Yfirvofandi endalok
Dauðinn vofir yfir þorpinu í ýmsum skilningi; fjörðurinn er fisklaus, draugar ofsækja starfsmenn lagersins og á stundum ætlar sorg, reiði og tómhyggja að ríða þorpsbúum að fullu. Í sögunni er dauðinn sjálfsagður hluti af tilverunni sem þarf ekki endilega að vera slæmur. Í upphafi bókarinnar fer sögumaður inn á þetta viðfangsefni og segir við lesandann:

"Þú ert kannski þeirrar skoðunar að það sé alls ekki hollt að hugsa um dauðann, það dragi manneskjur niður, fylli hana vonleysi, fari illa með æðakerfið, en við höldum því fram að maður þurfi bókstaflega að vera dauður til að hugsa ekki um dauðann."

Fram kemur í upphafi bókarinnar að hlutfallslega eru hvergi fleiri á landinu yfir áttræðu en í þessu þorpi. Má segja að þorpið í sögunni sé táknrænt fyrir mörg smærri þorp á landsbyggðinni sem horfa upp á stöðuga fólksfækkun og yfirvofandi endalok.

Sagan fjallar engu að síður um lífsgleði, ást og mannkærleika. Og í því felst kannski einn af helstu styrkleikum bókarinnar, í þessum samofnu andstæðum sem renna saman og verða eitt; líf og dauði, ljós og myrkur.

Stíllinn er sem fyrr segir eitt aðalsmerki höfundarins og er honum einkar vel beitt í umræddri skáldsögu. Hefur Jóni stundum verið líkt við Þórberg Þórðarson í því samhengi og er sú viðlíking ekki fjarri lagi. Í Sumarljósi bregður Jón upp mynd af hversdagslegu lífi þorps fyrir vestan og reiðir fram afar litríka persónuflóru. Hversdagsleikinn í bókinni er þó töfrum gæddur og Jón tvinnar saman ólíkar sögur af þorpsbúum og sameinar þær með rödd þorpsvitundarinnar, sögumannsins. Sagnaheimur bókarinnar er gífurlega dínamískur og þannig gerður að hann býður upp á að fleiri bækur verði gerðar upp úr honum. Og það er vonandi.

Eftir Þormóð Dagsson / þorri@mbl.is

 

 

Þriðjudaginn 8. nóvember, 2005 - Bókablað

BÆKUR - Skáldsaga / Þorpið og stjörnurnar
Sumarljós, og svo kemur nóttin / Jón Kalman Stefánsson 

Jón Kalman hefur þegar getið sér gott orð fyrir skáldsögur sínar og hafa tvær þeirra verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nú sendir hann frá sér skáldsögu sem ber þennan skáldlega titil: Sumarljós, og svo kemur nóttin. Í þessari glænýju sögu leiðir Jón lesandann inn í fjölbreyttan sagnaheim sinn og heldur honum þar föngnum allt til síðustu blaðsíðu.

Hið nýstárlega við Sumarljós er að höfundurinn velur sér að lýsa lífi íbúa smáþorps á landsbyggðinni. Sagan hefur enga aðalpersónu eða -persónur heldur er hér á ferð hópsaga sem miðar að því að gefa sannfærandi mynd af þorpssamfélaginu og þá jafnframt að vera nokkurs konar sneiðmynd eða þverskurður af mannlegu samfélagi. Gefur þá augaleið að margar persónur eru kynntar til sögunnar en lesandi fær ekki nema lítið brot af lífi hverrar og einnar. Þetta hefur það í för með sér að lesandinn fær mörg ólík sögubrot upp í hendurnar, skyggnst er inn í líf persónanna á ögurstund og þeim fylgt eftir skamman tíma í einu. Að lestri loknum kann því lesandi að spyrja: hvað stendur eiginlega upp úr í þessari sögu? Hvað er eftirminnilegast? Eru það sinnaskipti stjörnufræðingsins, alger kúvending forstjórans sem snýr baki við lífsgæðakapphlaupinu og snýr sér að stjörnunum og alheiminum, því sem raunverulega skiptir máli í hinni skömmu tilveru mannsins hér á jörð? Eða hin sorglegu atvik í lífi drengsins Jónasar sem missir foreldra sína, móður sína kornungur úr krabbameini og föður sinn á unglingsárum á jafnvel enn sorglegri hátt? Margar fleiri eftirminnilegar persónur eru rissaðar upp í skáldsögunni. Gamansemin er einnig til staðar í grátbroslegri frásögn af Áka lögfræðingi sem er fráskilinn og einmana og leiðist út í drykkju á nýstofnuðu veitingahúsi staðarins.

Þessi aðferð að hafa margar persónur hefur líka sína kosti. Að sögu lokinni hefur Jón dregið upp heildarmynd í sögubrotum af ólíkum persónum. Hér er lýst veruleika sveitaþorpsins, sumir fara burt og freista gæfunnar í útlöndum en koma aftur eins og Matthías Pétursson. Salka Valka fjallar einnig um þorpið með ógleymanlegum hætti. Sjóarinn Steinþór fer burt oftar en einu sinni en kemur ávallt aftur og reynir að ganga í augu Sölku segist vera nýr og betri maður. Matthías kemur aftur og tekur upp þráðinn að nýju með hinni kynþokkafullu Elísabetu sem allir karlmenn þorpsins girnast. Fleiri persónur mætti nefna en það er heildarmyndin sem skiptir máli, ekki örlög einstakra persóna. Jóni Kalman tekst að draga upp mynd af samfélagi sem er okkar samfélag í dag. Örlög persónanna koma lesandanum við og það er einmitt nostursemi höfundarins við smátriðin sem er helsti styrkur hans. Lesandinn lifir sig inn í líf persónanna, þótt dvalið sé stutt við þær tekst höfundi að gera þær áhugaverðar og sannfærandi.

Í framhaldi af þessu er forvitnilegt að skoða sjónarhorn sögunnar. Höfundur notar á köflum 1. persónu fleirtölu fornafnið við. Það skapar nálægð við lesandann, höfundur rabbar við hann ef svo má að orði komast. Með þessum hætti er ákveðinni hlutlægni náð, söguhöfundur talar hér nokkuð skýrt til lesandans um ástand mannsins í heiminum og textinn verður oftar en ekki ljóðrænn og upphafinn. Í frásögnum af lífi einstakra persóna er oftast notuð 3. persónufrásögn en stundum er skyggnst í huga persónanna. Frásagnaraðferð Jóns gengur fullkomlega upp, hann kannar bæði ytri og innri heim mannsins í skáldsögu sinni, huglægni og hlutlægni haldast í hendur.

Að öllu samanlögðu er Sumarljós, og svo kemur nóttin vel heppnuð skáldsaga. Hún er einstaklega vel skrifuð, stíllinn er stundum upphafinn, ljóðrænn og skáldlegur í besta lagi. En á köflum er hann einnig hversdagslegur og lýsir daglegu lífi alþýðufólks á beinskeyttan og umbúðalausan hátt. Í þessari sögu er fátt dregið undan, frásögnin er hispurslaus og blátt áfram, getur einnig verið vægðarlaus á köflum. Jón Kalman dregur upp sannfærandi mynd af veruleika þorpsins, en sagan hefur jafnframt mun víðari skírskotun og fjallar um veruleik nútímamannsins, vonir hans og vonbrigði, langanir og drauma. Það er einmitt helsti styrkur þessarar skáldsögu að benda lesandanum á að líta öðru hverju upp úr daglegu amstri og íhuga líf alheimsins. Eða eins og írski skáldsnillingurinn Oscar Wilde orðaði það: "Við erum öll í ræsinu en sum okkar líta þó upp til stjarnanna."

Guðbjörn Sigurmundsson

 

Umfjöllun um nýjar bækur  á Bókmenntir.is

Jón Kalman Stefánsson: Sumarljós og svo kemur nóttin.
Bjartur, 2005.

Stundum er maður svo heppinn að lesa bækur sem maður óskar helst að ljúki ekki. Þannig leið mér þegar ég las nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin vildi helst ekki að henni lyki. En auðvitað lauk bókinni, enda ekki við öðru að búast þegar maður á erfitt með að leggja hana frá sér. Við urðum reyndar viðskila í nokkra sólarhringa, ég og eintakið mitt, sem var aðeins til að fresta hinu óumflýjanlega dálítið. Maður getur þó huggað sig við tilhugsunina um að lesa verkið aftur, sem er satt að segja tilhlökkunarefni. Líkt og aðrar bækur Jóns Kalmans er Sumarljós og svo kemur nóttin hófstillt verk og því ekki við hæfi að skrifa um hana hól sem prentað er á límmiða og smellt á bókakápur. Það þýðir ekki að bókin sé ekki góð því Jón Kalman skipar flokk úrvalshöfunda á borð við Óskar Árna Óskarsson, Gyrði Elíasson og jafnvel Þorstein frá Hamri. En hvar á maður svo að byrja til að lýsa þessu verki? Það er sennilega best að gefa sögumannsrödd verksins orðið til þess:

Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, það myndir þú ekki afbera, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur, frá hamingjusömum flutningabílstjóra, dimmum flauelskjól Elísabetar og honum sem kom með rútunni; frá Þuríði sem er hávaxin og full af heimullegri þrá, manni sem gat ekki talið fiskana og konu með feiminn andardrátt frá einmana bónda og fjögurþúsund ára gamalli múmíu. Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar, og þá hugsanlega vegna þess að það eru ekki til neinar skýringar á þeim; menn hverfa, draumar breyta lífi, næstum tvöhundruð ára gamalt fólk virðist gera vart við sig í stað þess að liggja hljóðlátt á sínum stað. Og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur og sækir afl sitt djúpt út í geiminn, frá dögum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu, þetta verða áreiðanlega margar sögur, við byrjum hér í þorpinu og endum út á hlaði í norðursveitinni, og nú byrjum við [...] (bls. 9)

Sumarljós og svo kemur nóttin er safn tengdra sagna af þorpi vestur á landi. Sögusvið og mannlíf þess er lesendum Jóns Kalmans ekki ókunnugt enda svipar því mjög til sögusviðs og mannlífs fyrstu þriggja skáldsagna hans sem mynda þríleik sveitasagna sem samanstendur af bókunum; Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bakvið Brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999). Þar er þorpið fremur baksvið en sveitin í forgrunni, þessu er snúið við í Sumarljósi þar sem þorpið er aðalsögusviðið þótt sveitirnar í kring komi talsvert við sögu. Það er reyndar ekki fjarri lagi að segja að Sumarljós komi í beinu framhaldi af þríleiknum, a.m.k. hvað sögutímann varðar. Þríleikurinn gerðist að mestu á áttunda áratugnum en sögurnar í Sumarljósi aðallega á þeim tíunda, þótt upphaf ýmissa atburða megi rekja til níunda áratugarins og jafnvel enn lengra aftur í tímann.

Sögurnar í Sumarljós eru allar sagðar í fyrstu persónu fleirtölu, sem er frekar óvenjulegt en passar þeim fullkomlega. Það er afskaplega erfitt að ímynda sér söguefnið í öðrum búningi, a.m.k. eftir á að hyggja. Verkið ber undirtitilinn sögur og útúrdúrar“ sem gefur til kynna að hér sé ekki á ferðinni skáldsaga. Ef mælistikur hefðbundinnar skáldsögu væru lagðar að verkinu félli það sjálfsagt ekki að þeim en það hefur samt eitthvað til að bera sem kalla má skáldsöguleika. Persónur sem spila stórt hlutverk í einni sögu dúkka upp í öðrum sögum, enda eru þorp þannig í eðli sínu að maður hlýtur að rekast á sama fólkið hvað eftir annað. En þótt fjögurhundruð manna þorp sé ekki stórt í sniðum þá gerir sögumannsröddin sér engar grillur um að geta lýst því öllu, eins og fram kemur í upphafi tilvitnunarinnar hér að ofan. Þorpið sjálft er það sem heldur verkinu saman ásamt þessari skemmtilegu sögumannsrödd í fyrstu persónu fleirtölu sem jafnvel má kalla þorpssál. Hún á sér ákveðinn samastað í milliköflum sem eru auðkenndir með örlítið daufara letri en hinir kaflarnir. Þessir kaflar virka eins og brýr sem tengja sögurnar saman og gera grein fyrir ýmsu sem má kalla innri líðan þorpsins þorpssálarinnar. Þessir þættir skapa í sameiningu skáldsöguleika verksins en hann felst þó einnig í því að það er þráður í verkinu, einskonar framvinda sem lýsir kannski helst þeim breytingum sem þorpið sem heild verður fyrir.

Á furðu áreynslulausan hátt, næstum án þess að lesandinn taki eftir því, eru dregnar upp stórar og smáar andstæður sem skapa stóran hluta af merkingarheimi verksins. Stóru andstæðurnar snúa að hinum lokaða heimi þorpsins gagnvart stærri samfélögum en líka alheiminum. Þorpsbúar eiga reyndar betri aðgang að alheiminum en flestir aðrir í gegnum Stjörnufræðinginn sem sneri baki við góðu starfi, fjölskyldulífi og glæstri framtíð. Stjörnufræðingurinn einbeitir sér að himingeyminum: Á vetrarkvöldum um nætur ráfar Stjörnufræðingurinn umhverfis þorpið með augun á himni, stundum með góðan handsjónauka, og ef hann er ekki úti við, situr hann undir stóra sjónaukanum sem sogar fjarlægðir ofan í þorpið“ (bls. 21). Rannsóknum sínum deilir hann svo með þorpsbúum með því að halda fyrirlestra í samkomuhúsinu einu sinni í mánuði. Þorpið andspænis Reykjavík birtist líka á margskonar hátt. Auðvitað hverfa margir frá þessu þorpi og til borgarinnar eins og annarsstaðar á landsbyggðinni en þeir sem snúa aftur eru þó fyrirferðarmeiri í verkinu. Má þar nefna Davíð, son Stjörnufræðingsins, sem lýkur ekki námi í íslensku; lögfræðinginn Gaua sem hafði opnað lögfræðistofu í Reykjavík, hörkuduglegur og séður, kominn með kúluvömb og sex starfsmenn eftir átta ár, 300 fermetra einbýlishús, golfsett og jeppa en þá gerðist einhver fjárinn og hann drakk þetta allt frá sér á einu ári, sem er náttúrulega rösklega gert“ (bls. 164); og svo Matthías sem snýr til baka eftir sex ára ferðalög um heiminn. Það eru líka ýmsar smærri andstæður dregnar upp og þær laumast stundum inn í textann svo lítið beri á: Við fórum í ullarsokka, hugsuðum um volgt vínarbrauð, angist og kaffikönnu“ (bls. 59). Þarna læðist angistin inn á milli ljúfari hugsana um vínarbrauð og kaffi, og þetta eina orð, angist, skapar spennu og vekur hugboð um eitthvað óskemmtilegra en vínarbrauð og kaffi.

 Það er óleysanleg og heillandi þversögn fólgin í fyrstu persónu fleirtölu frásögninni, þessari samsettu rödd sem er summa þorpsbúa eða kannski þorpsins sjálfs, vitundar þess. Því á bakvið þetta við“ hlýtur eitthvað ég“ að standa. Einhver hlýtur að segja söguna, einhver hlýtur að halda á pennanum. Og stundum brýst fram í frásögninni eitthvað afmarkaðara brot af þessari summu, t.d. í einum millikaflanum þegar sögumannsröddin segir frá gamalli frænku sem liggur fyrir dauðanum: Til hvers hef ég lifað, spurði frænka okkar á dánarbeði, við opnuðum munninn til að svara, án þess þó að vita svarið, en þá dó hún, því dauðinn er ennþá góðu skrefi á undan okkur“ (bls. 121). Frænkan gamla getur tæplega verið frænka allra þorpsbúa og því hlýtur einhver hluti þorpsins að eiga meira í þessari frásögn af frænkunni. Og varla eru það allar fjögurhundruð sálirnar sem opna munninn til að svara henni. Á öðrum stöðum er þessi skemmtilega þversögn smærri í sniðum: Elísabet passaði Davíð þegar hann var barn, hún er trúnaðarvinur og veit um Hörpu, bara hún sem veit það“ (bls. 154). Aðeins ein manneskja sem veit þetta en samt veit þetta við“ það líka. Þessi þversögn er í raun aðeins til að auka á margbreytileika hins samsetta sjálfs sögumannsraddarinnar. Það er einhver tregafullur tónn í þessari rödd, kannski dálítil nostalgía, sem ýjar að því að þorpið megi muna sinn fífil fegurri. Þrátt fyrir tregann er húmorinn skammt undan og stundum blandast þetta tvennt saman, t.d. þegar sagt er frá tilurð Prjónastofunnar:

Prjónastofan var reist af ríkinu, slíkar byggingar rísa mjög hægt og svo hikandi að það er eins og það eigi að hætta við á hverjum degi, smám saman gleymir fólk því hver tilgangurinn á að vera með byggingunni. En svo margt háð tilviljunum. Litirnir í fjöllunum, kvefið í marsmánuði, byggingarhraði húsa; tveir þingmenn lentu á fylliríi. Annar þeirra framsóknarmaður, hinn úr gamla Alþýðuflokknum og þegar liðið var á nótt tóku þeir að metast um hvor yrði fljótari að koma upp tíu manna fyrirtæki í nýju húsnæði í sínu kjördæmi. Þessvegna reis Prjónastofan“ (bls. 17).

Með þessu verki hefur Jóni Kalman enn á ný tekist að skapa heillandi heim sem er í senn hversdagslegur og töfrandi. Kannski féll ég hér í límmiðafrasana en það verður bara að hafa það! Áður en síðasta saga bókarinnar hefst segir sögumannsröddin: Ein saga til viðbótar, svo er það búið en samt ekki “ (bls. 192). Svo hver veit nema þetta en samt ekki –“  veiti fyrirheit um að lesendur eigi von á fleiri sögum úr þessum heillandi heimi þorpsins. Að minnsta kosti vonar undirritaður það.

Ingi Björn Guðnason, nóvember 2005.


Hrafninn e. Vilborgu Davíðsdóttur

Um Vilborgu: 

Vilborg Davíðsdóttir fæddist 3. september 1965 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1984 og lagði stund á ensku við Háskóla Íslands veturinn 1985-1986. Hún lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands 1991. Vilborg hefur starfað sem blaða- og fréttakona um margra ára skeið. Hún leggur nú stund á nám í þjóðfræði við HÍ.

Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, 1994. Við Urðarbrunn hlaut verðlaun Íslandsdeildar IBBY 1994 og ári síðar fékk framhaldsbókin, Nornadómur, Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur en bækurnar hafa notið mikilla vinsælda meðal unglinga og verið notaðar við kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Vilborg hefur auk þess skrifað þrjár sögulegar skáldsögur fyrir fullorðna, Eldfórnina (1997), Galdur (2000) og Hrafninn (2005).

Vilborg er búsett í Edinborg. Hún á þrjú börn.  (www.bokmenntir.is)

RÚV - 05.01.2006
Hrafninn: Vilborg Davíðsdóttir

Söguhetjan er munaðarleysingi. Það eru galdrar í þessari sögu, frumstæður þjóðflokkur, mentor í hrafnslíki, hjálparhella sem er hundur, spilltir trúarleiðtogar, forboðin ást – bætum við nokkrum söngatriðum og útkoman er Disneyteiknimynd. Nei annars, þetta er ekki alveg svo einfalt. Þótt Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur sæki talsvert í formúlubókmenntir er bara þónokkuð kjöt á (og jafnvel spik) á beinunum líka.

Hrafninn er saga um tvo heima. Aðalpersónan, inúítastúlkan Naaja, tilheyrir í raun hvorugum þeirra. Á sínum heimaslóðum er hún jaðarsett, hún fellur ekki inn í ríkjandi norm, ekki síst fyrir þá sök að hún getur ekki eignast börn og á þannig yfir höfði sér að vera útskúfuð sem blindgata í vegakerfi ættstofnsins. Þótt hún ferðist yfir í heim hvíta mannsins tekur ekki betra við þar, þetta er um miðja fimmtándu öldina og hugmyndir norrænna manna um frumbyggja Grænlands eiga sér djúpar rætur í hræðslu og fáfræði.

Saga Naaju kallast á við eitt og annað úr fyrri bókum Vilborgar, hún er systir þeirra Korku og Katrínar, rétt eins og þær er hún í sífelldri leit að samastað og viðurkenningu. Stærstur hluti sögunnar er sagður frá sjónarhorni Naaju og það er athyglisvert hvernig gildismat hennar og annarra inúíta í sögunni togast á við skilning hins innbyggða lesanda. Víðast hvar ganga inúítarnir út frá því sem staðreynd að hvítu mennirnir séu ekki manneskjur eins og þeir sjálfir. Í lýsingum Naaju á háttum hvítu mannanna hefur hún alltaf til samanburðar þá siði sem eru „eðlilegir” í hennar augum, og nefnir gjarnan hvernig atferli hvíta mannsins er ólíkt því sem tíðkast hjá „venjulegu fólki”. Þannig er hin viðtekna, sögulega miðja skilgreind á forsendum jaðarsins. Um miðbik sögunnar er sjónarhornið víkkað út þegar önnur aðalpersóna stígur fram – Mikjáll, Íslendingur sem hefur búið á Grænlandi frá 12 ára aldri. Upp frá því er vitundarmiðjan hjá Mikjáli og Naaju til skiptis. Mikjáll kynnist Naaju þegar neyðin rekur hann til þess að eiga nánari samskipti við innfædda heldur en viðurkennt er að kristnum mönnum sé óhætt. Í augum hinna norrænu eru frumbyggjar Grænlands óheillaverur, hálfmennsk dýr sem hafa engan skilning á gegndinni og kristnu siðaboði. Í samskiptum Naaju og Mikjáls rekast á tveir menningarheimar og af þeim árekstrum spretta ýmsar frjóar hugleiðingar í Hrafninum. Þau misskilja háttalag hvort annars í sífellu. Sá eini sem veit allan sannleikann er lesandinn, þökk sé frásagnaraðferðinni sem er frásögn hins alvitra sögumanns. Þannig felst í Hrafninum viss könnun á merkingu atferlis, einskonar mannfræðistúdía. Naaja og Mikjáll fylgjast hvort með öðru, annað grannskoðar athafnir hins og getur stundum ómögulega greint á milli þeirra sem eru hlaðnar merkingu og ásetningi, og hinna sem eru merkingarlausar. Naaja gengur um hálfber í híbýlum sínum og finnst ekkert athugavert við það, en Mikjáll túlkar það sem siðleysi. Hin taugaveiklaða trúarafstaða norrænna manna er sömuleiðis eitthvað sem Naaju gengur illa að skilja, rétt eins og sú sterka einstaklingshyggja sem setur svip sinn á samfélag þeirra.

Það er snemma nefnt að augu Naaju eru „full af sjó” eins og hinir inúítarnir orða það – þau eru blá en ekki brún og fyrir vikið þarf hún að mæta miklum mótbyr hjá sínu eigin fólki. Það sem hún ekki veit fyrr en hún er komin til vits og ára er að hún á ættir að rekja til hvítra manna, og er þess vegna gædd eiginleika sem er framandi á hennar heimaslóðum. En auðvitað dugir þetta ekki til viðurkenningar hjá landnemunum heldur. Samband Naaju og Mikjáls er merkt glötuninni frá upphafi, það getur ekki enst því það er andsnúið siðalögmálum beggja heimanna. Mikjáll sjálfur á sér ófínan uppruna í fjarlægri fortíð. Þau eru því bæði „mitt á milli” í vissum skilningi. En ferðalagið á milli heimanna tveggja staðfestir söguskoðun sem er ríkjandi á okkar dögum, og því kannski ekki sérstaklega frumleg: Kreddurnar og þröngsýnin í menningu og trúarbrögðum hvíta mannsins er engu minni en það sem tíðkast hjá inúítunum. Það sem kallast vestræn siðmenning á 15. öld grundvallast á tvöfeldni og sérhagsmunahyggju. En þessi tíðarandaádeila Hrafnsins á í nokkurri togstreitu við fantastísk einkenni sögunnar – Naaja er sem sagt göldrótt, hún hefur verið útvalin til þess að vera angakoq, þ.e.a.s. nokkurs konar andaprestur meðal inúíta. Vilborg Davíðsdóttir lætur sér þannig ekki nægja að draga upp mynd af taugaveikluðum, norrænum mönnum og bregða gagnrýnu ljósi á þær villuhugmyndir sem ríktu í kynþáttamálum á 15. öldinni, heldur skapar hún aðstæður þar sem slíkar hugmyndir fá að einhverju leyti byr undir báða vængi. Þessar aðstæður eru í eðli sínu yfirnáttúrulegar, enda er Naaja enginn venjulegur inúíti. Hún er útvalin af æðri máttarvöldum til þess að miðla á milli manna og guða – hjálparandar inúítanna anda í gegnum hana. Þessi eiginleiki hennar kemur heim og saman við þær hefðbundnu villuhugmyndir sem hvítu mennirnar gera sér um inúítana. Í augum margra þeirra eru hinir heiðnu skrælingjar nátengdir myrkum öflum.

Hrafninn er hugvekja um stað og staðleysi. Naaja horfir inn í tómið og tómið horfir inn í hana. Og þótt lausnin á þrautagöngunni jaðri við að vera deus ex machina er ýmislegt heillandi við niðurlag sögunnar, ekki síst upprifjun Naaju á helstu atriðum ævi sinnar, eins konar samantekt sögunnar allrar. Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þessu líkt annars staðar en í To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee. Sagan endar svo á atriði sem er óbeint framlag til þess að skýra gátuna um brotthvarf norrænna manna á Grænlandi. Það er ljóst að Vilborg Davíðsdóttir hefur ekki kastað til höndunum í sagnfræðilegri og landfræðilegri rannsóknarvinnu, og fyrir vikið er Hrafninn jarðbundin og vitsmunaleg saga, blönduð með hóflegri spennu og fantasíu. Hér eru engin veruleg nýmæli á ferðinni heldur dágóð dægradvöl.

Hjalti Snær Ægisson


 mbl.is - Þriðjudaginn 15. nóvember, 2005 - BókablaðBÆKUR - Skáldsaga

Árekstur menningarheima

Hrafninn - eftir Vilborgu Davíðsdóttur. - 311 bls. Mál og menning. 2005

Sagnaarfur okkar Íslendinga er ótæmandi brunnur frásagna. Vilborg Davíðsdóttir hefur verið drjúg við að sækja föng í þann brunn. Um þessar mundir sendir hún frá sér þekkilega skáldsögu, Hrafninn, sem flokka má sem sögulega skáldsögu. Eins og í sumum fyrri bókum sínum teflir Vilborg saman ólíkum menningarheimum, ólíkum lífsháttum og andstæðri sýn á tilveruna.

Sagan gerist á Grænlandi á 15. öld um það bil sem hin norræna byggð er að hverfa. En ólíkt ýmsum þeim höfundum sem fjallað hafa um þetta tímabil einblínir Vilborg ekki á hinar norrænu byggðir í Eystri- og Vestribyggð heldur fylgjumst við með inúítastúlku sem elst upp við blóðskömm með föður sínum en brýst undan oki félagslegra og menningarlegra fordóma með andlegan styrk sinn nánast einan að vopni. Hún er útlæg gerð sem brennimerkt norn og í þeirri útlegð kemst hún í kast við hið vestræna menningarsamfélag á Grænlandi.

Vilborg hefur augljóslega lagt á sig mikla heimildavinnu í tengslum við skáldverk sitt. Mannfræðilegar upplýsingar bókarinnar bera því vott, sömuleiðis hugleiðingar hennar og kenningar, sem ráða má af sögunni, um endalok hins norræna landnáms. Hún hefur kynnt sér tungumál inúíta og sérlega lifandi og trúverðug verða tjáskipti milli íslensks manns og aðalpersónunnar, inúítastúlkunnar Naaju. Í raun og veru er hér á ferðinni einföld frásögn líkleg til vinsælda og minnir um margt á þær sögur sem voru mikið í tísku fyrir nokkrum árum og fjölluðu um forsögulega tíma, galdrakukl fortíðar, shaman-trú o.s.frv. Sagan er jafnframt ástarsaga og hetjusaga, saga af mannraunum, sigrum og ósigrum. En jafnframt er hún saga um kvennakúgun, sifjaspell, fordóma og árekstra menningarheima.

Sérstaklega er athyglinni beint að andlegum málefnum, andatrú inúíta og kaþólskri ofsatrú geistlegra manna í hinum norrænu byggðum. Er Vilborg í verki sínu augljóslega málsvari inúítafólksins og hrífst lítt af trúarofstæki landnemabyggðarinnar. Vilborg er lipur penni og ætlar sér ekki um of. Hún heldur sig við einfalt frásagnarform í krónológískri röð. Frásögnin er ítarleg 3. p. frásögn og söguhöfundur hefur alla tauma í hendi sér. Táknmál er einfalt og auðskilið. Bókin er góð afþreying og vel skrifuð sem slík. Á vissan hátt er hún einnig metnaðarfullt verk því að hún felur í sér breiða samfélagslýsingu og persónusköpun sem byggist á sálrænni krufningu. Viðfangsefni og frásagnarháttur sögunnar skapa þó þá hættu að frásögnin verði fullfyrirsjáanleg þó að ég vilji ekki ganga svo langt að segja hana formúlukennda. Sannast sagna hef ég lesið fullmargar sögur sem mjög svipar til þessarar. Það rýrir í sjálfu sér ekki þetta verk. En fátt í því kemur á óvart.

Hrafninn er vönduð heimildaskáldsaga sem byggir á góðri frumvinnu, lipurri frásögn og einföldum söguminnum sem fá á sig hetjusagnablæ. Hún er góð afþreying og rithöfundurinn hefur metnað til að kafa djúpt í menningarleg og félagsleg viðfangsefni, einkum þau sem tengjast hinum ólíku menningarheimum sem rekast á. Bókin er hins vegar nokkuð fyrirsjáanleg. En umfram allt er bók þessi ágæt sagnaskemmtun. 

Vilborg Davíðsdóttir: Hrafninn.
Mál og menning, 2005.
“Krummi krunkar úti
Tengsl og samskipti Íslendinga og Grænlendinga eða Inúíta hafa löngum verið umdeild og á stundum einhversskonar vandræðamál. Að mörgu leyti ætti skyldleikinn að vera nokkur, þó ekki væri nema vegna þess að þetta eru hvorttveggja undarlegar smáþjóðir sem lifa á norðurhjara og búa við vetur í það minnsta níu mánuði ársins, enda halda margir að Ísland hafi upphaflega verið byggt Inúítum. Eða héldu allavega, nú þegar Ísland er orðið bragð mánaðarins meðal vesturlandabúa er ekki gott að vita hvort einhver fróðleikur læðist með. Ekki svo að skilja að sú tilhugsun að hér hafi búið Inúítar sem síðar blönduðust Íslendingum sé á nokkurn hátt athugaverð, þó vissulega sé allt í lagi að hafa helstu söguleg atriði á hreinu verður líka að huga að því hvernig þeim er komið á framfæri. Mér er enn í fersku minni túristabæklingurinn sem lýsti fjálglega björtu landi og hreinu, og bætti við í næstu setningu að hér hefðu aldrei búið eskimóar.
Grænland er auðvitað hluti af okkar sagnararfi og sögu, en síðan í fornsögunum hefur ekki mikið verið fjallað um Grænland í íslenskum bókmenntum. Ég man óljóst eftir leikriti sem hét Nanúk, og svo kemur Grænland við sögu í skáldsögu Jónasar Kristjánssonar, Veröld víð, sem segir frá ferðum Guðríðar Þorbjarnardóttur. Hin bráðfallega barnamynd Ikingut (2000) gladdi mig mikið á sínum tíma, en þar er einmitt sagt frá litlum Inúíta strák sem óvart skolar upp á íslenska strönd og veldur heilmiklum usla í örsmáu byggðarlagi, er meðal annars ásakaður um að vera galdrakind.
Það er reyndar ýmislegt líkt með Ikingut og Hrafninum, nýjustu skáldsögu Vilborgar Davíðsdóttur. Í báðum verkum er fjallað um fordóma og fordæmingar, en jafnframt um vináttu, ást og tryggð. Vilborg hefur sérhæft sig í sögulegum skáldsögum eða reyfurum, frá víkingatímanum og miðöldum. Sagan hefst á minningu ungrar stúlku, Naaju, um stjörnubjarta nótt á ferð með föður sínum á sleða. En fljótlega kemur í ljós að samband þeirra feðginanna er ekki alltaf svona fallegt, auk þess sem hann og stúlkan eru hálfgerðir útlagar í sínu samfélagi. Naaja hefur erft blá augu móður sinnar, en amman var eitt sinn lánuð undarlegum fölum draugum, það er, norrænum mönnum. Því hefur fjölskyldan alltaf verið hálf-utanveltu í samfélaginu. Eftir dauða móðurinnar fer faðirinn á brott með Naaju og þau flytja inn í lítinn afskekktan kofa sem gefið er til kynna að sé yfirgefinn norrænn bær. Eitt kvöldið kemur faðirinn ekki heim af veiðum, hann hefur verið bitinn af rostungi. Naaja kemur honum og rostungnum heim. Þegar hún hlutar dýrið í sundur kemur hrafn hoppandi og hún hendir til hans auga. Uppfrá því verður hrafninn verndarandi hennar og einnig kemur í ljós að hún býr yfir hæfileikum angakoq, sjamans eða galdramanns. Eftir að hafa verið hafnað af ættbálki sýnum á ný, þegar hún snýr aftur, saurguð af nauðgun föður síns, hittir Naaja einn af fölu draugunum og bjargar honum frá ísbirni. Með þeim takast ástir og hann fer með hana heim í sitt norræna þorp og þar er hún að sjálfsögðu sökuð um að vera galdrakind.Hér eru mörg kunnugleg minni úr verkum Vilborgar. Að vanda er það kvenhetja sem er í aðalhlutverki, kona sem er af einhverjum ástæðum gerð útlæg úr sínu samfélagi eða stendur á mörkum þess á einhvern hátt.  Í fyrstu bókum hennar er það Korka, dóttir ambáttar og húsbónda, göldrótt að auki, í Eldfórn er það óvenjulegt sjálfstæði konunnar auk galdurs sem gerir hana útlæga, og í Galdri er aðalsöguhetjunni Ragnfríði getið barn á unga aldri. Reyndar er Hrafninn einskonar framhald þeirrar sögu, því það er einmitt þetta barn Ragnfríðar, sonurinn Mikjáll, sem Naaja bjargar og verður ástfangin af, en móðir hans hefur greinilega flutt til Grænlands í kjölfar atburða Galdurs. Naaja er bæði sterk og sjálfstæð og lætur illa að semja sig að hefðbundnu kvenhlutverki og fyrir það er henni ítrekað refsað, bæði meðal eigin fólks og Íslendinganna. Að auki býr hún yfir mætti sjamansins sem gerir hana enn sjálfstæðari og sterkari. Í þriðja lagi er hún framandi í báðum samfélögum, bláu augun gera hana hættulega meðal hennar eigin fólks, og kynþáttur hennar er fordæmdur meðal Íslendinganna. Annað stef er galdurinn sem löngum hefur glætt sögur Vilborgar dulúð og krafti. Hér fannst mér henni ekki takast eins vel upp, og á stundum er eins og of mikið púður fari í að lýsa háttum Inúítana á kostnað sögunnar. Þannig verður saga Naaju stundum eins og einskonar leiðarvísir um yfirnáttúruleg öfl og þjóðhætti. Þetta veikir söguna óþarflega og dregur úr krafti hennar, því þótt átök Inúítanna við náttúruna og náttúruöflin séu vissulega áhugaverð, þá virkar þetta of mikið eins og lýsing, og vantar meira bit. En þegar á líður styrkist sagan og seinni hlutinn, þegar Naaja er komin til Íslendinganna er flottur, sérstaklega er sterkt hversu vel Vilborg nær að miðla sýn ungu Inúítakonunnar á undarlega hætti Íslendinganna, meðal annars guð þeirra sem henni líst þunglega á, enda býr hann í svo stóru húsi!
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband