Mánudagur, 29. janúar 2007
Hrafninn e. Vilborgu Davíðsdóttur
Vilborg Davíðsdóttir fæddist 3. september 1965 á Þingeyri við Dýrafjörð. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1984 og lagði stund á ensku við Háskóla Íslands veturinn 1985-1986. Hún lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands 1991. Vilborg hefur starfað sem blaða- og fréttakona um margra ára skeið. Hún leggur nú stund á nám í þjóðfræði við HÍ.
Fyrsta bók hennar, skáldsagan Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, 1994. Við Urðarbrunn hlaut verðlaun Íslandsdeildar IBBY 1994 og ári síðar fékk framhaldsbókin, Nornadómur, Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur en bækurnar hafa notið mikilla vinsælda meðal unglinga og verið notaðar við kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Vilborg hefur auk þess skrifað þrjár sögulegar skáldsögur fyrir fullorðna, Eldfórnina (1997), Galdur (2000) og Hrafninn (2005).
Vilborg er búsett í Edinborg. Hún á þrjú börn. (www.bokmenntir.is)
Söguhetjan er munaðarleysingi. Það eru galdrar í þessari sögu, frumstæður þjóðflokkur, mentor í hrafnslíki, hjálparhella sem er hundur, spilltir trúarleiðtogar, forboðin ást bætum við nokkrum söngatriðum og útkoman er Disneyteiknimynd. Nei annars, þetta er ekki alveg svo einfalt. Þótt Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur sæki talsvert í formúlubókmenntir er bara þónokkuð kjöt á (og jafnvel spik) á beinunum líka.
Hrafninn er saga um tvo heima. Aðalpersónan, inúítastúlkan Naaja, tilheyrir í raun hvorugum þeirra. Á sínum heimaslóðum er hún jaðarsett, hún fellur ekki inn í ríkjandi norm, ekki síst fyrir þá sök að hún getur ekki eignast börn og á þannig yfir höfði sér að vera útskúfuð sem blindgata í vegakerfi ættstofnsins. Þótt hún ferðist yfir í heim hvíta mannsins tekur ekki betra við þar, þetta er um miðja fimmtándu öldina og hugmyndir norrænna manna um frumbyggja Grænlands eiga sér djúpar rætur í hræðslu og fáfræði.
Saga Naaju kallast á við eitt og annað úr fyrri bókum Vilborgar, hún er systir þeirra Korku og Katrínar, rétt eins og þær er hún í sífelldri leit að samastað og viðurkenningu. Stærstur hluti sögunnar er sagður frá sjónarhorni Naaju og það er athyglisvert hvernig gildismat hennar og annarra inúíta í sögunni togast á við skilning hins innbyggða lesanda. Víðast hvar ganga inúítarnir út frá því sem staðreynd að hvítu mennirnir séu ekki manneskjur eins og þeir sjálfir. Í lýsingum Naaju á háttum hvítu mannanna hefur hún alltaf til samanburðar þá siði sem eru eðlilegir í hennar augum, og nefnir gjarnan hvernig atferli hvíta mannsins er ólíkt því sem tíðkast hjá venjulegu fólki. Þannig er hin viðtekna, sögulega miðja skilgreind á forsendum jaðarsins. Um miðbik sögunnar er sjónarhornið víkkað út þegar önnur aðalpersóna stígur fram Mikjáll, Íslendingur sem hefur búið á Grænlandi frá 12 ára aldri. Upp frá því er vitundarmiðjan hjá Mikjáli og Naaju til skiptis. Mikjáll kynnist Naaju þegar neyðin rekur hann til þess að eiga nánari samskipti við innfædda heldur en viðurkennt er að kristnum mönnum sé óhætt. Í augum hinna norrænu eru frumbyggjar Grænlands óheillaverur, hálfmennsk dýr sem hafa engan skilning á gegndinni og kristnu siðaboði. Í samskiptum Naaju og Mikjáls rekast á tveir menningarheimar og af þeim árekstrum spretta ýmsar frjóar hugleiðingar í Hrafninum. Þau misskilja háttalag hvort annars í sífellu. Sá eini sem veit allan sannleikann er lesandinn, þökk sé frásagnaraðferðinni sem er frásögn hins alvitra sögumanns. Þannig felst í Hrafninum viss könnun á merkingu atferlis, einskonar mannfræðistúdía. Naaja og Mikjáll fylgjast hvort með öðru, annað grannskoðar athafnir hins og getur stundum ómögulega greint á milli þeirra sem eru hlaðnar merkingu og ásetningi, og hinna sem eru merkingarlausar. Naaja gengur um hálfber í híbýlum sínum og finnst ekkert athugavert við það, en Mikjáll túlkar það sem siðleysi. Hin taugaveiklaða trúarafstaða norrænna manna er sömuleiðis eitthvað sem Naaju gengur illa að skilja, rétt eins og sú sterka einstaklingshyggja sem setur svip sinn á samfélag þeirra.
Það er snemma nefnt að augu Naaju eru full af sjó eins og hinir inúítarnir orða það þau eru blá en ekki brún og fyrir vikið þarf hún að mæta miklum mótbyr hjá sínu eigin fólki. Það sem hún ekki veit fyrr en hún er komin til vits og ára er að hún á ættir að rekja til hvítra manna, og er þess vegna gædd eiginleika sem er framandi á hennar heimaslóðum. En auðvitað dugir þetta ekki til viðurkenningar hjá landnemunum heldur. Samband Naaju og Mikjáls er merkt glötuninni frá upphafi, það getur ekki enst því það er andsnúið siðalögmálum beggja heimanna. Mikjáll sjálfur á sér ófínan uppruna í fjarlægri fortíð. Þau eru því bæði mitt á milli í vissum skilningi. En ferðalagið á milli heimanna tveggja staðfestir söguskoðun sem er ríkjandi á okkar dögum, og því kannski ekki sérstaklega frumleg: Kreddurnar og þröngsýnin í menningu og trúarbrögðum hvíta mannsins er engu minni en það sem tíðkast hjá inúítunum. Það sem kallast vestræn siðmenning á 15. öld grundvallast á tvöfeldni og sérhagsmunahyggju. En þessi tíðarandaádeila Hrafnsins á í nokkurri togstreitu við fantastísk einkenni sögunnar Naaja er sem sagt göldrótt, hún hefur verið útvalin til þess að vera angakoq, þ.e.a.s. nokkurs konar andaprestur meðal inúíta. Vilborg Davíðsdóttir lætur sér þannig ekki nægja að draga upp mynd af taugaveikluðum, norrænum mönnum og bregða gagnrýnu ljósi á þær villuhugmyndir sem ríktu í kynþáttamálum á 15. öldinni, heldur skapar hún aðstæður þar sem slíkar hugmyndir fá að einhverju leyti byr undir báða vængi. Þessar aðstæður eru í eðli sínu yfirnáttúrulegar, enda er Naaja enginn venjulegur inúíti. Hún er útvalin af æðri máttarvöldum til þess að miðla á milli manna og guða hjálparandar inúítanna anda í gegnum hana. Þessi eiginleiki hennar kemur heim og saman við þær hefðbundnu villuhugmyndir sem hvítu mennirnar gera sér um inúítana. Í augum margra þeirra eru hinir heiðnu skrælingjar nátengdir myrkum öflum.
Hrafninn er hugvekja um stað og staðleysi. Naaja horfir inn í tómið og tómið horfir inn í hana. Og þótt lausnin á þrautagöngunni jaðri við að vera deus ex machina er ýmislegt heillandi við niðurlag sögunnar, ekki síst upprifjun Naaju á helstu atriðum ævi sinnar, eins konar samantekt sögunnar allrar. Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þessu líkt annars staðar en í To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee. Sagan endar svo á atriði sem er óbeint framlag til þess að skýra gátuna um brotthvarf norrænna manna á Grænlandi. Það er ljóst að Vilborg Davíðsdóttir hefur ekki kastað til höndunum í sagnfræðilegri og landfræðilegri rannsóknarvinnu, og fyrir vikið er Hrafninn jarðbundin og vitsmunaleg saga, blönduð með hóflegri spennu og fantasíu. Hér eru engin veruleg nýmæli á ferðinni heldur dágóð dægradvöl.
Hjalti Snær Ægisson
mbl.is - Þriðjudaginn 15. nóvember, 2005 - BókablaðBÆKUR - Skáldsaga
Árekstur menningarheima
Hrafninn - eftir Vilborgu Davíðsdóttur. - 311 bls. Mál og menning. 2005
Sagnaarfur okkar Íslendinga er ótæmandi brunnur frásagna. Vilborg Davíðsdóttir hefur verið drjúg við að sækja föng í þann brunn. Um þessar mundir sendir hún frá sér þekkilega skáldsögu, Hrafninn, sem flokka má sem sögulega skáldsögu. Eins og í sumum fyrri bókum sínum teflir Vilborg saman ólíkum menningarheimum, ólíkum lífsháttum og andstæðri sýn á tilveruna.
Sagan gerist á Grænlandi á 15. öld um það bil sem hin norræna byggð er að hverfa. En ólíkt ýmsum þeim höfundum sem fjallað hafa um þetta tímabil einblínir Vilborg ekki á hinar norrænu byggðir í Eystri- og Vestribyggð heldur fylgjumst við með inúítastúlku sem elst upp við blóðskömm með föður sínum en brýst undan oki félagslegra og menningarlegra fordóma með andlegan styrk sinn nánast einan að vopni. Hún er útlæg gerð sem brennimerkt norn og í þeirri útlegð kemst hún í kast við hið vestræna menningarsamfélag á Grænlandi.
Vilborg hefur augljóslega lagt á sig mikla heimildavinnu í tengslum við skáldverk sitt. Mannfræðilegar upplýsingar bókarinnar bera því vott, sömuleiðis hugleiðingar hennar og kenningar, sem ráða má af sögunni, um endalok hins norræna landnáms. Hún hefur kynnt sér tungumál inúíta og sérlega lifandi og trúverðug verða tjáskipti milli íslensks manns og aðalpersónunnar, inúítastúlkunnar Naaju. Í raun og veru er hér á ferðinni einföld frásögn líkleg til vinsælda og minnir um margt á þær sögur sem voru mikið í tísku fyrir nokkrum árum og fjölluðu um forsögulega tíma, galdrakukl fortíðar, shaman-trú o.s.frv. Sagan er jafnframt ástarsaga og hetjusaga, saga af mannraunum, sigrum og ósigrum. En jafnframt er hún saga um kvennakúgun, sifjaspell, fordóma og árekstra menningarheima.
Sérstaklega er athyglinni beint að andlegum málefnum, andatrú inúíta og kaþólskri ofsatrú geistlegra manna í hinum norrænu byggðum. Er Vilborg í verki sínu augljóslega málsvari inúítafólksins og hrífst lítt af trúarofstæki landnemabyggðarinnar. Vilborg er lipur penni og ætlar sér ekki um of. Hún heldur sig við einfalt frásagnarform í krónológískri röð. Frásögnin er ítarleg 3. p. frásögn og söguhöfundur hefur alla tauma í hendi sér. Táknmál er einfalt og auðskilið. Bókin er góð afþreying og vel skrifuð sem slík. Á vissan hátt er hún einnig metnaðarfullt verk því að hún felur í sér breiða samfélagslýsingu og persónusköpun sem byggist á sálrænni krufningu. Viðfangsefni og frásagnarháttur sögunnar skapa þó þá hættu að frásögnin verði fullfyrirsjáanleg þó að ég vilji ekki ganga svo langt að segja hana formúlukennda. Sannast sagna hef ég lesið fullmargar sögur sem mjög svipar til þessarar. Það rýrir í sjálfu sér ekki þetta verk. En fátt í því kemur á óvart.
Hrafninn er vönduð heimildaskáldsaga sem byggir á góðri frumvinnu, lipurri frásögn og einföldum söguminnum sem fá á sig hetjusagnablæ. Hún er góð afþreying og rithöfundurinn hefur metnað til að kafa djúpt í menningarleg og félagsleg viðfangsefni, einkum þau sem tengjast hinum ólíku menningarheimum sem rekast á. Bókin er hins vegar nokkuð fyrirsjáanleg. En umfram allt er bók þessi ágæt sagnaskemmtun.
Mál og menning, 2005. Krummi krunkar úti
Grænland er auðvitað hluti af okkar sagnararfi og sögu, en síðan í fornsögunum hefur ekki mikið verið fjallað um Grænland í íslenskum bókmenntum. Ég man óljóst eftir leikriti sem hét Nanúk, og svo kemur Grænland við sögu í skáldsögu Jónasar Kristjánssonar, Veröld víð, sem segir frá ferðum Guðríðar Þorbjarnardóttur. Hin bráðfallega barnamynd Ikingut (2000) gladdi mig mikið á sínum tíma, en þar er einmitt sagt frá litlum Inúíta strák sem óvart skolar upp á íslenska strönd og veldur heilmiklum usla í örsmáu byggðarlagi, er meðal annars ásakaður um að vera galdrakind.Það er reyndar ýmislegt líkt með Ikingut og Hrafninum, nýjustu skáldsögu Vilborgar Davíðsdóttur. Í báðum verkum er fjallað um fordóma og fordæmingar, en jafnframt um vináttu, ást og tryggð. Vilborg hefur sérhæft sig í sögulegum skáldsögum eða reyfurum, frá víkingatímanum og miðöldum. Sagan hefst á minningu ungrar stúlku, Naaju, um stjörnubjarta nótt á ferð með föður sínum á sleða. En fljótlega kemur í ljós að samband þeirra feðginanna er ekki alltaf svona fallegt, auk þess sem hann og stúlkan eru hálfgerðir útlagar í sínu samfélagi. Naaja hefur erft blá augu móður sinnar, en amman var eitt sinn lánuð undarlegum fölum draugum, það er, norrænum mönnum. Því hefur fjölskyldan alltaf verið hálf-utanveltu í samfélaginu. Eftir dauða móðurinnar fer faðirinn á brott með Naaju og þau flytja inn í lítinn afskekktan kofa sem gefið er til kynna að sé yfirgefinn norrænn bær. Eitt kvöldið kemur faðirinn ekki heim af veiðum, hann hefur verið bitinn af rostungi. Naaja kemur honum og rostungnum heim. Þegar hún hlutar dýrið í sundur kemur hrafn hoppandi og hún hendir til hans auga. Uppfrá því verður hrafninn verndarandi hennar og einnig kemur í ljós að hún býr yfir hæfileikum angakoq, sjamans eða galdramanns. Eftir að hafa verið hafnað af ættbálki sýnum á ný, þegar hún snýr aftur, saurguð af nauðgun föður síns, hittir Naaja einn af fölu draugunum og bjargar honum frá ísbirni. Með þeim takast ástir og hann fer með hana heim í sitt norræna þorp og þar er hún að sjálfsögðu sökuð um að vera galdrakind.Hér eru mörg kunnugleg minni úr verkum Vilborgar. Að vanda er það kvenhetja sem er í aðalhlutverki, kona sem er af einhverjum ástæðum gerð útlæg úr sínu samfélagi eða stendur á mörkum þess á einhvern hátt. Í fyrstu bókum hennar er það Korka, dóttir ambáttar og húsbónda, göldrótt að auki, í Eldfórn er það óvenjulegt sjálfstæði konunnar auk galdurs sem gerir hana útlæga, og í Galdri er aðalsöguhetjunni Ragnfríði getið barn á unga aldri. Reyndar er Hrafninn einskonar framhald þeirrar sögu, því það er einmitt þetta barn Ragnfríðar, sonurinn Mikjáll, sem Naaja bjargar og verður ástfangin af, en móðir hans hefur greinilega flutt til Grænlands í kjölfar atburða Galdurs. Naaja er bæði sterk og sjálfstæð og lætur illa að semja sig að hefðbundnu kvenhlutverki og fyrir það er henni ítrekað refsað, bæði meðal eigin fólks og Íslendinganna. Að auki býr hún yfir mætti sjamansins sem gerir hana enn sjálfstæðari og sterkari. Í þriðja lagi er hún framandi í báðum samfélögum, bláu augun gera hana hættulega meðal hennar eigin fólks, og kynþáttur hennar er fordæmdur meðal Íslendinganna. Annað stef er galdurinn sem löngum hefur glætt sögur Vilborgar dulúð og krafti. Hér fannst mér henni ekki takast eins vel upp, og á stundum er eins og of mikið púður fari í að lýsa háttum Inúítana á kostnað sögunnar. Þannig verður saga Naaju stundum eins og einskonar leiðarvísir um yfirnáttúruleg öfl og þjóðhætti. Þetta veikir söguna óþarflega og dregur úr krafti hennar, því þótt átök Inúítanna við náttúruna og náttúruöflin séu vissulega áhugaverð, þá virkar þetta of mikið eins og lýsing, og vantar meira bit. En þegar á líður styrkist sagan og seinni hlutinn, þegar Naaja er komin til Íslendinganna er flottur, sérstaklega er sterkt hversu vel Vilborg nær að miðla sýn ungu Inúítakonunnar á undarlega hætti Íslendinganna, meðal annars guð þeirra sem henni líst þunglega á, enda býr hann í svo stóru húsi!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.