Föstudagur, 2. febrúar 2007
Sumarljós, og svo kemur nóttin e. Jón Kalman Stefánsson
Um Jón Kalman
Jón Kalman Stefánsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1963. Hann bjó í borginni til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur og bjó þar til ársins 1986; þá lá leiðin aftur til Reykjavíkur, með stúdentspróf úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja upp á vasann. Frá 1975 til 1982 var hann með annan fótinn vestur í Dölum, vann meðal annars í sláturhúsinu í Búðardal og frá 1979 til 1982 stundaði hann ýmis störf, vann við saltfisk og skreið, múrverk og var eitt sumar lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli. Jón Kalman nam bókmenntir við Háskóla Íslands frá haustmánuðum 1986 og með hléum til 1991 en lauk ekki prófi. Hann kenndi bókmenntir í eitt ár við Fjölbrautaskóla vesturlands á Akranesi, hálft ár við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, skrifaði jafnframt greinar fyrir Morgunblaðið, ritdæmdi þar bækur í nokkur ár. Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995, las, skúraði, taldi strætisvagna. Hann starfaði sem bókavörður við Héraðsbókasafnið í Mosfellsbæ fram til vorsins 2000. Síðan þá hefur hann starfað sem rithöfundur.
Fyrsta bók hans, ljóðabókin Með byssuleyfi á eilífðina, kom út árið 1988. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur og skáldsögur. Skáldsögur Jóns Kalmans hafa tvívegis verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 2001 og 2004.
Jón Kalman býr í Mosfellsbæ. Hann er kvæntur og á tvö börn (bokmenntir.is).
Laugardaginn 27. janúar, 2007 - Menningarblað/Lesbók
Samofnar andstæður
Skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin , hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ásamt Roklandi eftir Hallgrím Helgason.
Sagnamaður Bæði líf og dauði hafa sínar myrku og björtu hliðar en sagan fjallar ekki síður um dauðann en lífið í þessu litla samfélagi fyrir vestan, segir Þormóður um skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar.
Skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin , hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ásamt Roklandi eftir Hallgrím Helgason. Er þetta þriðja skiptið sem Jón hlýtur þessa tilnefningu en honum hlotnaðist einnig sami heiður árið 2001 og 2004.
Það má vissulega segja að frásagnarstíll Jóns Kalmans Stefánssonar sé eitt hans helsta vopn sem rithöfundur hans aðalsmerki sem veitir honum sérstöðu á meðal íslenskra rithöfunda. Hugsanlega hefur bakgrunnur hans í ljóðagerð eitthvað með það að gera en Jón hóf rithöfundaferil sinn sem ljóðskáld og sendi meðal annars frá sér ljóðabækurnar Með byssuleyfi á eilífðina (1988) og Úr þotuhreyflum guða (1989). Þá má sjá nokkur keimlík stef í ljóðum hans og skáldsögum en þar ber sérstaklega á vangaveltum um tímann og tungumálið. Auk þess er textinn í skáldsögum hans oft á tíðum afar ljóðrænn og lífsspekilegur og innihalda skáldverk hans heilan helling af einstaklega innihaldsríkum setningum sem gætu þess vegna, og auðveldlega, staðið einar og sér.
Lífið endar iðulega í miðri setningu
Í upphafi skáldsögunnar Sumarljós og svo kemur nóttin , sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í fyrra og er nú tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, kemur fyrir setning sem neyðir lesandann til að staldra við og ígrunda en þær eru ófáar slíkar í bókinni. Þar má lesa í vangaveltu sögumanns um lífið að það "virðist fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu." Að vissu leyti setja þessi orð tóninn fyrir bókina sem kalla mætti ljóðræna skáldsögu en hún er einmitt uppfull af lífsspeki, angurværð og trega, ljósi og myrkri, kátínu og einsemd, lífi og dauða. En þó tekur sagan sig aldrei of alvarlega og bregður oft fyrir gamansömum og gleðilegum tón.
Sögusviðið er ónafngreint fámennt þorp fyrir vestan og hægt væri að henda inn orðum eins og "þjóðfélagslýsingu" og "íslenskum veruleika" til að lýsa efni bókarinnar. Og þó svo að lýsingin hljómi ef til vill kunnuglega, og eigi við ófá íslensk skáldverk fer Jón einstaklega skemmtilega leið að viðfangsefninu, í krafti síns sérstaka frásagnarstíls, og gefur því fallegt og ferskt yfirbragð. Eins og fyrr segir er hinn gamansami tónn ávallt nálægur í verkinu, einkum í stílbragðinu og sérstöku sambandi sögumanns við hinn innbyggða lesanda sem nánar verður skoðað hér á eftir.
Rómantískur sagnaheimur
Rómantíkin hefur gjarnan loðað við skáldskap Jóns Kalmans og hefur sveitin og nostalgían iðulega verið minni í skáldverkum hans. Á undanförnum árum hefur Jón skapað nokkuð persónulegan sagnaheim með skáldverkum sínum og ber þar helst að nefna þríleik sveitasagna sem samanstendur af bókunum; Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bakvið Brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999). Í þessum sögum er þó þorpið eins konar baksvið en sveitin er aftur á móti í forgrunni. Þessu er þó öfugt farið í Sumarljósi þar sem þorpið er aðalsögusviðið þótt sveitirnar í kring komi talsvert við sögu. Sagnaheimur þessi er mjög keimlíkur þeim í Sumarljósi og mætti jafnvel ætla að síðarnefnda sagan komi í beinu framhaldi af hinum.
Sumarljós er vissulega í anda rómantíkurinnar, í nútímalegu en jafnframt fornu umhverfi íslensks smáþorps. Frásagnarstíllin sveipar viðfangsefnið léttleika þó svo að það geti verið ansi þungt á köflum. Útkoman er ljúfsár en falleg mynd af litríkri persónuflóru þorpsins.
Í rauninni er ekki um hefðbundna skáldsögu að ræða með eiginlegri framvindu, fléttu og lausn heldur er bókin eins konar smásagnasafn samanofið í eitt heildstætt skáldverk þar sem sagðar eru, sitt í hvoru lagi, sögur af íbúum þorpsins. Þá er sérstaklega áhugavert að skoða sögumanninn í verkinu sem virðist vera þorpið sjálft, eða eins konar þorpssál; sameiginleg vitund þorpsbúa sem talar um sjálfa sig sem "við" en er algjörlega óhlutbundin og óháð þorpsbúum. Sögumaður þessi sál þorpsins heldur utan um sögur þorpsbúa, tengir þær saman og gefur verkinu heildarsvip.
Engin ábyrgð á nóttinni
Ef ætti að tala um söguhetju eða aðalpersónu í verkinu, þá væri hún þorpið sjálft; hinn alvitri sögumaður. Engu að síður heldur hann sig til hlés að miklu leyti og hleypir frásögninni óhindrað fram en það er aftur á móti í milliköflum sem koma reglulega fyrir og skipta bókinni niður í níu sjálfstæðar sögur úr þorpinu þar sem að rödd sögumannsins er hvað mest áberandi. Og það eru þessir millikaflar sem gefa verkinu sinn heildarsvip og heildarhugsun.
Samband sögumannsins við innbyggðan lesandann er sömuleiðis sérstakt og skemmtilegt en sögumaðurinn talar ósjaldan beint til hans með því að ávarpa hann í annarri persónu. Á einum stað segir hann við lesandann:
"Þú ættir einhverntíma að bregða þér á ball hér í Félagsheimilinu, við hlökkum óspart til þeirra, þau koma lífinu á hreyfingu, þorpið angar af rakspíra, ilmvatni, þau eru sérstök himnasending á vetrum sem eiga það til að vera langir og kyrrstæðir, fátt gerist, við stöndum upp ef flugvél flýgur yfir."
Af þessu textabroti má sjá að í rödd sögumannsins gætir einhverrar minnimáttarkenndar gagnvart hinum innbyggða lesanda sem væntanlega kemur úr fjölmennara bæjarfélagi og lítur að einhverju marki niður til samfélagsins í þorpinu. Rödd sögumanns á það jafnframt til að vera nokkuð barnsleg og á tíðum afsakar hann smáborgaralega hegðun þorpsbúa. Á sama tíma getur textinn orðið afar djúpvitur og ljóðrænn. Þegar sagt er frá Jónasi, hinum fíngerða og veikgeðja lögreglumanni sem þorpsbúar hrekkja ósjaldan þegar farið er út á næturlífið, afsakar sögumaður þessa hrekki en segir þó við lesandann:
" [...] þú manst, við tökum enga ábyrgð á nóttinni." Þessi setning gæti þannig séð átt við drykkjumenningu Íslendinga almennt; í smáþorpum, Reykjavík eða hvar sem er.
Hinn barnslegi tónn og minnimáttarkennd sögumanns virðast þó eingöngu eiga heima á yfirborðinu og þjóna kannski helst þeim tilgangi að hylja það sem undir býr og um leið auka áhrifamagn textans. Og það gerir Jón svo áreynslulaust að útkoman verður aðdáunarverð.
Líf, dauði og kynlíf
Þá er sem sögumanni sé sérstaklega hugleikið samband lífs og dauða og jafnframt tengsl lífs og dauða við kynlíf. Og eins og að sjálfsögðu eru kynlífsvangaveltur sögumanns oftar en ekki skemmtileg lesning, til dæmis þegar sagt er frá uppvaxtarárum Kjartans sem vinnur á lager í þorpinu en þar er stílbragð höfundar sérlega snjallt. Minnst er á nautgriparækt sem Kjartan var frægur fyrir á sínum tíma:
"En dveljum ekki við kynlíf nautgripa, það er svo snautlegt, einn tveir þrír kippir hjá nautinu, froðan vellur, augun ætla út úr tóftunum og svo er það allt búið, nautið fer að bíta gras, kýrin til síns heima, þetta er svo sára einfalt, þannig er það ekki hjá okkur, því er nú verr og miður, eða Guði sé lof, en konan hans Kjartans heitir Ásdís, þau eiga þrjú börn." Í sömu setningu og sögumaður talar um samfarir nautgripa og ber saman við kynlíf mannfólksins minnist hann á að Kjartan og Ásdís eiga saman þrjú börn.
Sögumaður tengir svo hugmyndir um ljós og myrkur og nótt og dag við þessar vangaveltur; ljósið í lífinu, myrkið í dauðanum og öfugt. Bæði líf og dauði hafa sínar myrku og björtu hliðar en sagan fjallar ekki síður um dauðann en lífið í þessu litla samfélagi fyrir vestan.
Yfirvofandi endalok
Dauðinn vofir yfir þorpinu í ýmsum skilningi; fjörðurinn er fisklaus, draugar ofsækja starfsmenn lagersins og á stundum ætlar sorg, reiði og tómhyggja að ríða þorpsbúum að fullu. Í sögunni er dauðinn sjálfsagður hluti af tilverunni sem þarf ekki endilega að vera slæmur. Í upphafi bókarinnar fer sögumaður inn á þetta viðfangsefni og segir við lesandann:
"Þú ert kannski þeirrar skoðunar að það sé alls ekki hollt að hugsa um dauðann, það dragi manneskjur niður, fylli hana vonleysi, fari illa með æðakerfið, en við höldum því fram að maður þurfi bókstaflega að vera dauður til að hugsa ekki um dauðann."
Fram kemur í upphafi bókarinnar að hlutfallslega eru hvergi fleiri á landinu yfir áttræðu en í þessu þorpi. Má segja að þorpið í sögunni sé táknrænt fyrir mörg smærri þorp á landsbyggðinni sem horfa upp á stöðuga fólksfækkun og yfirvofandi endalok.
Sagan fjallar engu að síður um lífsgleði, ást og mannkærleika. Og í því felst kannski einn af helstu styrkleikum bókarinnar, í þessum samofnu andstæðum sem renna saman og verða eitt; líf og dauði, ljós og myrkur.
Stíllinn er sem fyrr segir eitt aðalsmerki höfundarins og er honum einkar vel beitt í umræddri skáldsögu. Hefur Jóni stundum verið líkt við Þórberg Þórðarson í því samhengi og er sú viðlíking ekki fjarri lagi. Í Sumarljósi bregður Jón upp mynd af hversdagslegu lífi þorps fyrir vestan og reiðir fram afar litríka persónuflóru. Hversdagsleikinn í bókinni er þó töfrum gæddur og Jón tvinnar saman ólíkar sögur af þorpsbúum og sameinar þær með rödd þorpsvitundarinnar, sögumannsins. Sagnaheimur bókarinnar er gífurlega dínamískur og þannig gerður að hann býður upp á að fleiri bækur verði gerðar upp úr honum. Og það er vonandi.
Eftir Þormóð Dagsson / þorri@mbl.is
Þriðjudaginn 8. nóvember, 2005 - Bókablað
BÆKUR - Skáldsaga / Þorpið og stjörnurnar
Sumarljós, og svo kemur nóttin / Jón Kalman Stefánsson
Jón Kalman hefur þegar getið sér gott orð fyrir skáldsögur sínar og hafa tvær þeirra verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nú sendir hann frá sér skáldsögu sem ber þennan skáldlega titil: Sumarljós, og svo kemur nóttin. Í þessari glænýju sögu leiðir Jón lesandann inn í fjölbreyttan sagnaheim sinn og heldur honum þar föngnum allt til síðustu blaðsíðu.
Hið nýstárlega við Sumarljós er að höfundurinn velur sér að lýsa lífi íbúa smáþorps á landsbyggðinni. Sagan hefur enga aðalpersónu eða -persónur heldur er hér á ferð hópsaga sem miðar að því að gefa sannfærandi mynd af þorpssamfélaginu og þá jafnframt að vera nokkurs konar sneiðmynd eða þverskurður af mannlegu samfélagi. Gefur þá augaleið að margar persónur eru kynntar til sögunnar en lesandi fær ekki nema lítið brot af lífi hverrar og einnar. Þetta hefur það í för með sér að lesandinn fær mörg ólík sögubrot upp í hendurnar, skyggnst er inn í líf persónanna á ögurstund og þeim fylgt eftir skamman tíma í einu. Að lestri loknum kann því lesandi að spyrja: hvað stendur eiginlega upp úr í þessari sögu? Hvað er eftirminnilegast? Eru það sinnaskipti stjörnufræðingsins, alger kúvending forstjórans sem snýr baki við lífsgæðakapphlaupinu og snýr sér að stjörnunum og alheiminum, því sem raunverulega skiptir máli í hinni skömmu tilveru mannsins hér á jörð? Eða hin sorglegu atvik í lífi drengsins Jónasar sem missir foreldra sína, móður sína kornungur úr krabbameini og föður sinn á unglingsárum á jafnvel enn sorglegri hátt? Margar fleiri eftirminnilegar persónur eru rissaðar upp í skáldsögunni. Gamansemin er einnig til staðar í grátbroslegri frásögn af Áka lögfræðingi sem er fráskilinn og einmana og leiðist út í drykkju á nýstofnuðu veitingahúsi staðarins.
Þessi aðferð að hafa margar persónur hefur líka sína kosti. Að sögu lokinni hefur Jón dregið upp heildarmynd í sögubrotum af ólíkum persónum. Hér er lýst veruleika sveitaþorpsins, sumir fara burt og freista gæfunnar í útlöndum en koma aftur eins og Matthías Pétursson. Salka Valka fjallar einnig um þorpið með ógleymanlegum hætti. Sjóarinn Steinþór fer burt oftar en einu sinni en kemur ávallt aftur og reynir að ganga í augu Sölku segist vera nýr og betri maður. Matthías kemur aftur og tekur upp þráðinn að nýju með hinni kynþokkafullu Elísabetu sem allir karlmenn þorpsins girnast. Fleiri persónur mætti nefna en það er heildarmyndin sem skiptir máli, ekki örlög einstakra persóna. Jóni Kalman tekst að draga upp mynd af samfélagi sem er okkar samfélag í dag. Örlög persónanna koma lesandanum við og það er einmitt nostursemi höfundarins við smátriðin sem er helsti styrkur hans. Lesandinn lifir sig inn í líf persónanna, þótt dvalið sé stutt við þær tekst höfundi að gera þær áhugaverðar og sannfærandi.
Í framhaldi af þessu er forvitnilegt að skoða sjónarhorn sögunnar. Höfundur notar á köflum 1. persónu fleirtölu fornafnið við. Það skapar nálægð við lesandann, höfundur rabbar við hann ef svo má að orði komast. Með þessum hætti er ákveðinni hlutlægni náð, söguhöfundur talar hér nokkuð skýrt til lesandans um ástand mannsins í heiminum og textinn verður oftar en ekki ljóðrænn og upphafinn. Í frásögnum af lífi einstakra persóna er oftast notuð 3. persónufrásögn en stundum er skyggnst í huga persónanna. Frásagnaraðferð Jóns gengur fullkomlega upp, hann kannar bæði ytri og innri heim mannsins í skáldsögu sinni, huglægni og hlutlægni haldast í hendur.
Að öllu samanlögðu er Sumarljós, og svo kemur nóttin vel heppnuð skáldsaga. Hún er einstaklega vel skrifuð, stíllinn er stundum upphafinn, ljóðrænn og skáldlegur í besta lagi. En á köflum er hann einnig hversdagslegur og lýsir daglegu lífi alþýðufólks á beinskeyttan og umbúðalausan hátt. Í þessari sögu er fátt dregið undan, frásögnin er hispurslaus og blátt áfram, getur einnig verið vægðarlaus á köflum. Jón Kalman dregur upp sannfærandi mynd af veruleika þorpsins, en sagan hefur jafnframt mun víðari skírskotun og fjallar um veruleik nútímamannsins, vonir hans og vonbrigði, langanir og drauma. Það er einmitt helsti styrkur þessarar skáldsögu að benda lesandanum á að líta öðru hverju upp úr daglegu amstri og íhuga líf alheimsins. Eða eins og írski skáldsnillingurinn Oscar Wilde orðaði það: "Við erum öll í ræsinu en sum okkar líta þó upp til stjarnanna."
Guðbjörn Sigurmundsson
Umfjöllun um nýjar bækur á Bókmenntir.is
Jón Kalman Stefánsson: Sumarljós og svo kemur nóttin.
Bjartur, 2005.
Stundum er maður svo heppinn að lesa bækur sem maður óskar helst að ljúki ekki. Þannig leið mér þegar ég las nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Sumarljós og svo kemur nóttin vildi helst ekki að henni lyki. En auðvitað lauk bókinni, enda ekki við öðru að búast þegar maður á erfitt með að leggja hana frá sér. Við urðum reyndar viðskila í nokkra sólarhringa, ég og eintakið mitt, sem var aðeins til að fresta hinu óumflýjanlega dálítið. Maður getur þó huggað sig við tilhugsunina um að lesa verkið aftur, sem er satt að segja tilhlökkunarefni. Líkt og aðrar bækur Jóns Kalmans er Sumarljós og svo kemur nóttin hófstillt verk og því ekki við hæfi að skrifa um hana hól sem prentað er á límmiða og smellt á bókakápur. Það þýðir ekki að bókin sé ekki góð því Jón Kalman skipar flokk úrvalshöfunda á borð við Óskar Árna Óskarsson, Gyrði Elíasson og jafnvel Þorstein frá Hamri. En hvar á maður svo að byrja til að lýsa þessu verki? Það er sennilega best að gefa sögumannsrödd verksins orðið til þess:
Við ætlum ekki að segja frá öllu þorpinu, förum ekki hús úr húsi, það myndir þú ekki afbera, en hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur, frá hamingjusömum flutningabílstjóra, dimmum flauelskjól Elísabetar og honum sem kom með rútunni; frá Þuríði sem er hávaxin og full af heimullegri þrá, manni sem gat ekki talið fiskana og konu með feiminn andardrátt frá einmana bónda og fjögurþúsund ára gamalli múmíu. Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar, og þá hugsanlega vegna þess að það eru ekki til neinar skýringar á þeim; menn hverfa, draumar breyta lífi, næstum tvöhundruð ára gamalt fólk virðist gera vart við sig í stað þess að liggja hljóðlátt á sínum stað. Og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur og sækir afl sitt djúpt út í geiminn, frá dögum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu, þetta verða áreiðanlega margar sögur, við byrjum hér í þorpinu og endum út á hlaði í norðursveitinni, og nú byrjum við [...] (bls. 9)
Sumarljós og svo kemur nóttin er safn tengdra sagna af þorpi vestur á landi. Sögusvið og mannlíf þess er lesendum Jóns Kalmans ekki ókunnugt enda svipar því mjög til sögusviðs og mannlífs fyrstu þriggja skáldsagna hans sem mynda þríleik sveitasagna sem samanstendur af bókunum; Skurðir í rigningu (1996), Sumarið bakvið Brekkuna (1997) og Birtan á fjöllunum (1999). Þar er þorpið fremur baksvið en sveitin í forgrunni, þessu er snúið við í Sumarljósi þar sem þorpið er aðalsögusviðið þótt sveitirnar í kring komi talsvert við sögu. Það er reyndar ekki fjarri lagi að segja að Sumarljós komi í beinu framhaldi af þríleiknum, a.m.k. hvað sögutímann varðar. Þríleikurinn gerðist að mestu á áttunda áratugnum en sögurnar í Sumarljósi aðallega á þeim tíunda, þótt upphaf ýmissa atburða megi rekja til níunda áratugarins og jafnvel enn lengra aftur í tímann.
Sögurnar í Sumarljós eru allar sagðar í fyrstu persónu fleirtölu, sem er frekar óvenjulegt en passar þeim fullkomlega. Það er afskaplega erfitt að ímynda sér söguefnið í öðrum búningi, a.m.k. eftir á að hyggja. Verkið ber undirtitilinn sögur og útúrdúrar sem gefur til kynna að hér sé ekki á ferðinni skáldsaga. Ef mælistikur hefðbundinnar skáldsögu væru lagðar að verkinu félli það sjálfsagt ekki að þeim en það hefur samt eitthvað til að bera sem kalla má skáldsöguleika. Persónur sem spila stórt hlutverk í einni sögu dúkka upp í öðrum sögum, enda eru þorp þannig í eðli sínu að maður hlýtur að rekast á sama fólkið hvað eftir annað. En þótt fjögurhundruð manna þorp sé ekki stórt í sniðum þá gerir sögumannsröddin sér engar grillur um að geta lýst því öllu, eins og fram kemur í upphafi tilvitnunarinnar hér að ofan. Þorpið sjálft er það sem heldur verkinu saman ásamt þessari skemmtilegu sögumannsrödd í fyrstu persónu fleirtölu sem jafnvel má kalla þorpssál. Hún á sér ákveðinn samastað í milliköflum sem eru auðkenndir með örlítið daufara letri en hinir kaflarnir. Þessir kaflar virka eins og brýr sem tengja sögurnar saman og gera grein fyrir ýmsu sem má kalla innri líðan þorpsins þorpssálarinnar. Þessir þættir skapa í sameiningu skáldsöguleika verksins en hann felst þó einnig í því að það er þráður í verkinu, einskonar framvinda sem lýsir kannski helst þeim breytingum sem þorpið sem heild verður fyrir.
Á furðu áreynslulausan hátt, næstum án þess að lesandinn taki eftir því, eru dregnar upp stórar og smáar andstæður sem skapa stóran hluta af merkingarheimi verksins. Stóru andstæðurnar snúa að hinum lokaða heimi þorpsins gagnvart stærri samfélögum en líka alheiminum. Þorpsbúar eiga reyndar betri aðgang að alheiminum en flestir aðrir í gegnum Stjörnufræðinginn sem sneri baki við góðu starfi, fjölskyldulífi og glæstri framtíð. Stjörnufræðingurinn einbeitir sér að himingeyminum: Á vetrarkvöldum um nætur ráfar Stjörnufræðingurinn umhverfis þorpið með augun á himni, stundum með góðan handsjónauka, og ef hann er ekki úti við, situr hann undir stóra sjónaukanum sem sogar fjarlægðir ofan í þorpið (bls. 21). Rannsóknum sínum deilir hann svo með þorpsbúum með því að halda fyrirlestra í samkomuhúsinu einu sinni í mánuði. Þorpið andspænis Reykjavík birtist líka á margskonar hátt. Auðvitað hverfa margir frá þessu þorpi og til borgarinnar eins og annarsstaðar á landsbyggðinni en þeir sem snúa aftur eru þó fyrirferðarmeiri í verkinu. Má þar nefna Davíð, son Stjörnufræðingsins, sem lýkur ekki námi í íslensku; lögfræðinginn Gaua sem hafði opnað lögfræðistofu í Reykjavík, hörkuduglegur og séður, kominn með kúluvömb og sex starfsmenn eftir átta ár, 300 fermetra einbýlishús, golfsett og jeppa en þá gerðist einhver fjárinn og hann drakk þetta allt frá sér á einu ári, sem er náttúrulega rösklega gert (bls. 164); og svo Matthías sem snýr til baka eftir sex ára ferðalög um heiminn. Það eru líka ýmsar smærri andstæður dregnar upp og þær laumast stundum inn í textann svo lítið beri á: Við fórum í ullarsokka, hugsuðum um volgt vínarbrauð, angist og kaffikönnu (bls. 59). Þarna læðist angistin inn á milli ljúfari hugsana um vínarbrauð og kaffi, og þetta eina orð, angist, skapar spennu og vekur hugboð um eitthvað óskemmtilegra en vínarbrauð og kaffi.
Það er óleysanleg og heillandi þversögn fólgin í fyrstu persónu fleirtölu frásögninni, þessari samsettu rödd sem er summa þorpsbúa eða kannski þorpsins sjálfs, vitundar þess. Því á bakvið þetta við hlýtur eitthvað ég að standa. Einhver hlýtur að segja söguna, einhver hlýtur að halda á pennanum. Og stundum brýst fram í frásögninni eitthvað afmarkaðara brot af þessari summu, t.d. í einum millikaflanum þegar sögumannsröddin segir frá gamalli frænku sem liggur fyrir dauðanum: Til hvers hef ég lifað, spurði frænka okkar á dánarbeði, við opnuðum munninn til að svara, án þess þó að vita svarið, en þá dó hún, því dauðinn er ennþá góðu skrefi á undan okkur (bls. 121). Frænkan gamla getur tæplega verið frænka allra þorpsbúa og því hlýtur einhver hluti þorpsins að eiga meira í þessari frásögn af frænkunni. Og varla eru það allar fjögurhundruð sálirnar sem opna munninn til að svara henni. Á öðrum stöðum er þessi skemmtilega þversögn smærri í sniðum: Elísabet passaði Davíð þegar hann var barn, hún er trúnaðarvinur og veit um Hörpu, bara hún sem veit það (bls. 154). Aðeins ein manneskja sem veit þetta en samt veit þetta við það líka. Þessi þversögn er í raun aðeins til að auka á margbreytileika hins samsetta sjálfs sögumannsraddarinnar. Það er einhver tregafullur tónn í þessari rödd, kannski dálítil nostalgía, sem ýjar að því að þorpið megi muna sinn fífil fegurri. Þrátt fyrir tregann er húmorinn skammt undan og stundum blandast þetta tvennt saman, t.d. þegar sagt er frá tilurð Prjónastofunnar:
Prjónastofan var reist af ríkinu, slíkar byggingar rísa mjög hægt og svo hikandi að það er eins og það eigi að hætta við á hverjum degi, smám saman gleymir fólk því hver tilgangurinn á að vera með byggingunni. En svo margt háð tilviljunum. Litirnir í fjöllunum, kvefið í marsmánuði, byggingarhraði húsa; tveir þingmenn lentu á fylliríi. Annar þeirra framsóknarmaður, hinn úr gamla Alþýðuflokknum og þegar liðið var á nótt tóku þeir að metast um hvor yrði fljótari að koma upp tíu manna fyrirtæki í nýju húsnæði í sínu kjördæmi. Þessvegna reis Prjónastofan (bls. 17).
Með þessu verki hefur Jóni Kalman enn á ný tekist að skapa heillandi heim sem er í senn hversdagslegur og töfrandi. Kannski féll ég hér í límmiðafrasana en það verður bara að hafa það! Áður en síðasta saga bókarinnar hefst segir sögumannsröddin: Ein saga til viðbótar, svo er það búið en samt ekki (bls. 192). Svo hver veit nema þetta en samt ekki veiti fyrirheit um að lesendur eigi von á fleiri sögum úr þessum heillandi heimi þorpsins. Að minnsta kosti vonar undirritaður það.
Ingi Björn Guðnason, nóvember 2005.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.