Mánudagur, 11. mars 2013
Hryllingurinn í Norður-Kóreu
MBL 4. maí 2011 | Bókmenntir | Bækur
Hryllingurinn í Norður-Kóreu
Engan þarf að öfunda
Feðgarnir Úr heimildamyndinni Kimjongilia eftir N.C. Heikin. Myndin er af norður-kóresku málverki sem sýnir feðgana Kim Il Sung og Kim Jong Il.
Eftir Barböru Demick. Elín Guðmundsdóttir þýddi. Ugla gefur út. 335 bls., kilja.
Engan þarf að öfunda er kaldhæðnislegur titill bókar um lífið í Norður-Kóreu, því Norður-Kóreubúar hafa ríkari ástæður til þess að öfunda aðra Jarðarinnar búa en nokkur önnur þjóð, að mínu mati. Nokkur slagorð norður-kóreskra stjórnmála gefa í upphafi bókarinnar sterkar vísbendingar um það sem koma skal. Slagorð eins og Lengi lifi Kim Il-sung, Kim Jong-il, Sól 21. aldarinnar og Við þurfum engan að öfunda eru átakanlegur vitnisburður um stöðuga kúgun og heilaþvott heillar þjóðar, sem varað hefur áratugum saman og ekki sér fyrir endann á. Fyrst föðurins, Kim Il-sung og eftir dauða hans, sonarins, Kim Jong-il.
Raunar var lestur þessarar bókar eftir Barböru Demick, sem um nokkurra ára skeið var blaðamaður The Los Angeles Times í Seúl í Suður-Kóreu, eins og flash-back úr fortíð, því ég fór í afar eftirminnilega för til Norður-Kóreu sumarið 1983, og hryllingur heilaþvottar, einangrunarhyggju, harðstjórnar, spillingar og sögufölsunar stjórnvalda þess lands er mér enn í fersku minni. Þetta er eina landið sem ég hef nokkru sinni heimsótt, þar sem mér var svo ofurlétt, þegar ég var sloppin út úr landinu á nýjan leik, á heimleið, gjörsamlega staðráðin í því að þangað vildi ég aldrei nokkurn tímann fara aftur. En sannarlega hefði ég ekki viljað missa af þessari för, svo mikið lærði ég í henni.
Demick skrifaði á Suður-Kóreuárum sínum fréttir og frásagnir af báðum löndunum, þótt hún sem bandarískur blaðamaður ætti þess ekki kost að afla sjálfstæðra frétta í Norður-Kóreu. Þar var og er allt gert undir nákvæmri smásjá og eftirliti stjórnvalda.
Demick tók viðtöl á nokkurra ára tímabili við sex flóttamenn frá Norður-Kóreu, sem búsettir eru í Seúl. Þau eiga það sameiginlegt að vera frá Chongjin, þriðju stærstu borg Norður-Kóreu.
Demick fléttar saman á afar sannfærandi en um leið átakanlegan hátt frásögnum þessa ólíka fólks, þannig að úr verður heildstæð frásögn af undirokaðri þjóð sem er að verða hungurmorða og er þegar orðin hugmyndafræðilega gjaldþrota, því lífssýnin sem þau voru alin upp við, Juche-hugmyndafræði Kim Il-sung, sem gengur út á marxisma í bland við trúarlega dýrkun á Kim Il-sung, sem var í augum heillar þjóðar almáttugur, hrynur til grunna í þeirri voðalegu hungursneyð sem reið yfir landið á tíunda áratug síðustu aldar. Helsti lærdómurinn sem draga má af bókinni er sá, að það þurfti hörmulega hungursneyð heillar þjóðar til þess að augu a.m.k. sumra þegna landsins opnuðust gagnvart lífslyginni sem innrætt er í Norður-Kóreu.
Viðmælendur Demick, sem allir koma fram undir dulnefni af öryggisástæðum, lýsa því hvernig hungursneyðin í landinu fór með þjóðina, frá 1993 til aldamótanna síðustu.
Hrísgrjónin hurfu (aðalfæða Norður-Kóreubúa), önnur fæða fékkst ekki, rafmagnið hvarf og myrkrið tók við. Norður-Kórea hvarf í myrkur á síðasta áratug tuttugustu aldar. Sovétmenn höfðu útvegað þessu gamla bræðraríki ódýrt eldsneyti, en við fall Sovétríkjanna hrundi veikburða efnahagur landsins.
Þegar ég fór til Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu í boði Kim Il-sung, sem vildi reyna að koma heilaþvotti sínum á framfæri við heimsbyggðina með því að efna til yfirgengilegra sýndarhátíðarhalda, til þess að minnast þess að 30 ár voru liðin frá lokum Kóreustríðsins (því lauk í júlí 1953), þá varð ég margs áskynja, sem Demick greinir frá í bók sinni. Til dæmis þess að Pyongyang er sýndarborg, þar sem stjórnvöld, fyrst faðirinn, síðan sonurinn, tjalda öllu því sem telja má að geti verið jákvætt afspurnar og skiptir þá engu máli þótt það sem á að spyrjast út sé haugalygi frá upphafi til enda.
Í Pyongyang er fólk snyrtilegra til fara en gengur og gerist annars staðar í landinu; þar búa þeir sem flokkurinn handvelur (Verkamannaflokkurinn er eina pólitíska aflið í landinu sem einvörðungu útvaldir fá að ganga í); þar eru minnisvarðar og styttur af feðgunum, sem gnæfa við himin; þar eru helstu menntastofnanir landsins, sem innræta og heilaþvo af lífsins sálarkröftum og svo mætti lengi telja.
Viðmælendur Demick, frú Song, Kim læknir, Mí-ran, Jun-sang, Hyuck og Oak-hee, segja hvert sína sögu og öll snerta þau mann djúpt með frásögnum sínum.
Mí-ran og Jun-sang og lýsingin á sambandi þeirra er sannfærandi staðfesting á því sem mér var sagt fyrir 28 árum, en lagði afar takmarkaðan trúnað á þá. Þau voru fyrst vinir í nokkur ár, síðan kærustupar í nokkur ár, sem leiddist og þau kysstust einu sinni. Meiri varð nú ekki hin líkamlega snerting þessa pars, fram til þess tíma sem Mí-ran flýði til Suður-Kóreu.
Mér var sagt að ungir menn giftust ekki í Norður-Kóreu fyrr en þeir væru 28 ára gamlir og stúlkurnar 26 ára. Fram til þess aldurs væru ungmennin að þjóna landi sínu og leiðtoganum mikla (e. Our Great Leader, Kim Il-sung). Mér var líka sagt að það hefði aldrei gerst í sögu Norður-Kóreu að ungt og ógift fólk hefði kynmök; þaðan af síður að slys yrðu og ungar og ógiftar konur yrðu barnshafandi. Miss Agnes. That has never happened in North-Korea, sagði Kim, leiðsögumaður minn og varðhundur, sem gætti þess að ég slyppi aldrei laus og færi aldrei neitt án þess að vera undir vökulu auga hans. Þessu lýsir Demick líka í bók sinni, en hún slapp aldrei laus, þau fáu skipti sem hún fékk að fara til Norður-Kóreu.
Viðmælendur Demick lýsa því hvernig þau voru trúir og dyggir stuðningsmenn Kim Il-sung og Kim Jong-il. Í þeim efnum er frásögn hinnar miðaldra frúar Song afar áhrifarík. Hún var svo dyggur þegn Alþýðulýðveldisins Kóreu framan af aldri, að ekkert fékk haggað ofurtrú hennar á Kim Il-sung, leiðtoganum mikla, Kim Jong-il, leiðtoganum kæra og stjórnarháttum þeirra. En þegar hungursneyðin lagðist yfir gjörvalla þjóðina, hundruð þúsunda sultu í hel og sumir héldu í sér lífi með því að leggja sér til munns svo til hvað sem var, fór að kvarnast úr trú frúarinnar á stjórnkerfi feðganna og í sjálfsbjargarviðleitni sinni fór hún að gera hluti sem voru harðbannaðir, eins og að selja smákökur! Að vísu var Kim Il-sung látinn þegar þetta var (hann dó 1993) en sonurinn og hans útsendarar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að halda þjóðinni við efnið.
Það er mjög merkilegt að sjá, að við hungursneyðina hafi fólk í stórum stíl áttað sig á lífslyginni, sem það hafði búið við og trúað í blindni allt sitt líf. Vitanlega var það fólkinu mikið áfall og eins og Demick lýsir svo vel í bókarlok, þá eru viðmælendur hennar, flóttafólk frá Norður-Kóreu, sem sest hefur að í Suður-Kóreu, fjarri því að vera alsælir. Raunar þrá flest þeirra að snúa aftur til Norður-Kóreu, þar sem þau eiga nána ættingja og vini. Þau þrá bara að snúa aftur til nýrrar og breyttrar Norður-Kóreu, sem hefur aflagt gjörspillt og rotið heilaþvottarstjórnkerfi þeirra feðga Kim Il-sung og Kim Jong-il.
Bók Demick gefur raunsanna lýsingu á Norður-Kóreu, þjóðskipulagi, stjórnháttum og spillingu og um leið átakanlega lýsingu á þjáningum heillar þjóðar og niðurlægingu.
Það er í rauninni undrunarefni að Norður-Kórea sé ekki fyrir margt löngu liðin undir lok, því svo skelfilega margt í þjóðskipulagi og stjórnkerfi landsins er líkt hryllingnum sem George Orwell lýsir í skáldsögu sinni 1984.
Demick orðar það svo undir lok bókar sinnar: Langlífi norður-kóresku ríkisstjórnarinnar vekur undrun um allan heim en fyrir íbúana, og jafnvel þá Norður-Kóreubúa sem tekist hefur að flýja, er það harmleikur.
Þetta er tvímælalaust bók sem hægt er að mæla með, áhrifarík og upplýsandi og skelfilega sannfærandi.
Agnes Bragadóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.