Samkvæmisleikir e. Braga Ólafsson

Laugardaginn 11. desember, 2004 - Menningarblað/Lesbók
BÆKUR - Skáldsaga
Samkvæmisleikir

Partí hjá Friðberti

eftir Braga Ólafsson. Bjartur 2004.

"Hef ég í alvöru lifað svo rislitlu og óspennandi lífi, hugsaði hann, að ég hef algerlega sloppið við að verða fyrir áföllum af nokkru tagi? Og ekki aðeins sloppið við það sem maður vill vera laus við heldur líka farið á mis við allt hið stórkostlega sem gæti komið fyrir mann, allt hið óvænta og áhugaverða, það sem í rauninni réttlætir það erfiði sem lífið útheimtir" (71). Þessari hugsun lýstur niður í huga Friðberts Witolds Magnússonar, þrítugs prentnema í Reykjavík, í nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar, Samkvæmisleikjum. Líkt og aðrar aðalpersónur Braga hingað til er söguhetjan Friðbert feiminn og hlédrægur, einhleypur og óöruggur. Hann heldur upp á þrítugsafmæli sitt með pomp og prakt og býður nokkrum vinum sínum til samkvæmis í sögufrægri íbúð sem hann leigir á Hringbraut 45. Atburðarásin fer löturhægt af stað en stigmagnast á hverri blaðsíðu, líf persónanna tekur brátt kollsteypur sem Friðbert gat ekki órað fyrir og á einni viku hefur heimur þeirra allra gjörbreyst. Þegar líður á söguna verður spennan milli hægrar og skrykkjóttrar framvindu, uggvænlegra fyrirboða og undirliggjandi ógnar og ógæfu næstum óbærileg og heldur lesandanum í heljargreipum allt til söguloka.

Frásagnartækni Samkvæmisleikja er snilldarvel útfærð. Atburðarásin er rakin í brotakenndum sviðsetningum sem smátt og smátt raðast saman í eina heild. Sífellt er klippt á milli atriða og tímaröð atburðanna er ruglað en Bragi hefur glímt mjög við tímann í verkum sínum. Sjónarhornið fer eftir því hver persónanna er í sviðsljósi þá stundina og stundum eru sömu atburðir raktir frá öðru sjónarhorni með tilheyrandi eyðum og spurn þar sem leikið er á hvernig menn upplifa það sama á mismunandi hátt. Tilþrifin minna á frásagnartækni kvikmynda eins og Pulp Fiction og Kill Bill. Bragi notar svipaða aðferð og Gyrðir Elíasson í verkum sínum; hárfínar tengingar orða, hluta og atburða binda söguna saman og vísa hver á aðra. Lýsingar eru nákvæmar og smásmugulega raunsæjar á mjög skemmtilegan hátt. Bragi á það einnig sameiginlegt með Gyrði að húmorinn er fíngerður og gráglettinn og textinn býr yfir sérstakri fegurð sem erfitt er að lýsa. Gaman er að sjá kynlífssenur í Samkvæmisleikjum en kynlíf hefur ekki verið fyrirferðarmikið í verkum Braga hingað til. Það er eins og hann sleppi meira fram af sér beislinu í þessari bók en hinum, hún er t.d. bæði lengri og safaríkari, þó ekki á kostnað þeirrar fágunar, aga og dýptar sem einkennir verk hans.

Persónur sögunnar eru margar og ekki allar þar sem þær eru séðar. Friðbert er svona prjónavestistýpa (sem leynir þó á sér), sérlundaður í umkomuleysi sínu og stirður í mannlegum samskiptum enda lokaður "í sínum þrönga umheimi". Vinir hans telja að hann hafi lagt fyrir sig hávaðasamt prentnám til að þurfa sem minnst að tala við næsta mann og geta í leiðinni dundað við eitthvað sem krefst engrar sérstakrar einbeitingar (51). Jón Víðir er trúverðugur ógæfu- og utangarðsmaður og félagar hans eru svo sannarlega kaldrifjaðir krimmar, fullir af illsku og hatri. Myrkraverk þeirra eru martröð hvers manns. Sigmar, kaldhæðni kvennabósinn, Jósef Már, fasteignasalinn ístöðulausi, og lesbíurnar Lára og Rima eru dæmigert, ungt nútímafólk sem lendir í flóknum kringumstæðum eins og af hendingu. Forspil sögunnar fjallar um lífið og hendinguna; brúða sem finnst inni í skáp staulast upptrekkt um í vélrænu tilgangsleysi þar til krafturinn fjarar út, blaðra þýtur út í loftið, korktappi skýst úr flösku og enginn veit hvar hann lendir. Leiðir persónanna liggja fyrir tilviljun saman á einhverju augnabliki og sú tilviljun skiptir sköpum, eftir það er ekkert eins og það var.

Samkvæmisleikir Braga er bók sem situr í minninu að lestri loknum, listilega byggð og fallega skrifuð, persónurnar hugstæðar og efnið ágengt. Í henni er að finna glatað sakleysi, óhugnað og fegurð í bland við grimmdarlegt ofbeldi. Það er varla að maður þori út úr húsi eftir að hafa tekið þátt í Samkvæmisleikjunum. Bækur Braga verða sífellt betri og þessi er sýnu best. Furðu sætir að hún er ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna en það er sennilega rétt sem Eiríkur Guðmundsson sagði í pistli sínum í Víðsjá: "... íslensku bókmenntaverðlaunin eru og verða samkvæmisleikur handa markaðnum..."

Steinunn Inga Óttarsdóttir

 

Bragi Ólafsson: Samkvæmisleikir
Bjartur 2004

Viðburðir í Vesturbænum

Ég vildi að allir væru búnir að lesa Samkvæmisleiki, nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar. Ekki einungis vegna þess að það yrði öllum til gleði og ánægju – þótt að þau lýsingarorð nái ekki utan um þetta verk, kannski óhugnaður og ónot væru nærri lagi – heldur liggja líka eigingjarnar hvatir að baki. Samkvæmisleikir er nefnilega bók sem maður iðar í skinninu að fá að tala um, en nú þegar ég hef til þess tækifæri, þá vil ég eiginlega ekki segja neitt, alls ekki gefa of mikið upp, vil ekki fyrir nokkurn mun skemma fyrir væntanlegum lesendum þá grípandi lestrarreynslu sem þeir eiga í vændum.

Það er gaman að fá svona þykkan Braga, þetta er 340 síðna skáldsaga sem lesandinn geysist í gegnum, grípur í frakkalöf höfundarins, eltir hann um Vesturbæinn og vill ekki sleppa. Andrúmsloft og sumar persónur eru að einhverju leyti kunnuglegar úr öðrum verkum höfundar og stundum finnst manni eins og aðalpersónan úr Gæludýrunum hafi risið upp og ákveðið að halda veislu. Þetta er nefnilega bók um samkvæmi, um þrítugsafmæli Friðberts, eitt sumarkvöld á Hringbrautinni. Inn í atburðarásina dragast ýmsir vinir og vandamenn Friðberts að ógleymdu furðufólki af margvíslegri gerð. Sagan spannar knappt tímabil og vandlega afmarkað sögusvið í Vesturbænum – með örlitlu skreppi út úr bænum.

Frásagnarmátinn er sérlega vel heppnaður, tímaflakkið vel uppbyggt og tónninn hefur mikið aðdráttarafl, með sínum sérstaka húmor. Eins og fyrr segir þá er atburðarásin grípandi og vekur forvitni – þetta er svona ég-verð-að-vita-hvað-gerist-næst-bók og heldur þannig nokkuð stöðugri spennu í gegnum allt verkið. Þrátt fyrir þetta, eða kannski þess vegna, er eins og stíllinn vilji kannski frekar hægja á lesandanum. Hér er dvalið við, tíminn lötrast áfram á stundum, athöfnum fólks er lýst mjög nákvæmlega í smæstu smáatriðum, jafnt ákaflega tíðindalitlum athöfnum, sem og kynlífi og óhugnaði. Textinn virkar því við fyrstu sýn sem þéttriðið net; hér skiptir hvert smáatriði máli, hver athöfn, hverri gerð er lýst fyrir lesandanum, en smám saman áttar maður sig á því að textinn er gljúpur, hér er ekki endilega fast land undir fótum, stundum eru gloppur í netinu sem lesandinn dettur skyndilega í gegnum – þessum texta er ekki að treysta. Ég er heldur ekki frá því að við annan lestur hafi senur sem ég mundi svo vel eftir frá fyrsta lestri hreinlega verið horfnar. Var ekki myndavélin þarna? Sá ég ekki ponsjóið hér? Allt þetta heldur við spennunni, um leið og stíllinn tefur stöðugt fyrir og varnar því að hámarkinu séð náð of fljótt.

Einu sinni fór ég í samkvæmi á Hringbraut 45, 4. hæð til hægri, en þá skildi rithöfundurinn ekki eftir svarta rúskinnsskó fyrir utan dyrnar, svo eftirmál urðu samasem engin. Við fórum heldur ekki í leiki. Í Samkvæmisleikjum skapast mjög sérstakt rými þar sem lesandanum er sleppt lausum. Nákvæm staðsetning atburða bindur atburðarásina rækilega við áþreifanlega veruleika um leið og textinn kippir reglulega undan manni fótunum; höfundurinn hristir mann af sér þar til maður sér frakkalöfin hverfa fyrir húshorn á Bræðraborgarstíg.

Samkvæmisleikir hefðu verið mjög ofarlega á mínum tilnefningarlista fyrir bókmenntaverðlaunin og veiti ég þeim hérmeð mín prívat verðlaun áður en ég hef lesturinn í þriðja sinn í leit að týndum senum og persónum.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2004

 

Laugardaginn 4. desember, 2004 - Menningarblað/Lesbók
Eftir Þröst Helgason | throstur@mbl.is

Það er ljóðræn fegurð í óhugnaðinum

Blaðamaður hefur komið í mörg samkvæmi að undanförnu þar sem nýjasta skáldsaga Braga Ólafssonar, Samkvæmisleikir , hefur verið til umræðu en lítið hefur fengist upp úr lesendum um það hvað gerist í henni. Það má ekki segja hvað gerist, hafa þeir sagt með samkvæmissvip, stóreygir og svolítið fölir af drykkju, reykjarsvælu og kannski svefnleysi því þeir hafa haldið því fram að eitthvað gerist í bókinni sem þeir kunni ekki að skýra, nái ekki alveg utan um - stóreygir eins og þeir hafi séð eitthvað sem þeir áttu ekki að sjá og vildu ekki sjá. Í heitu pottunum fullyrða menn að sagan gerist í íbúð Þórbergs á Hringbrautinni en þegja annars þunnu hljóði, tala um atburði: Þessir atburðir verða í íbúð Þórbergs, í íbúð Þórbergs og Margrétar! En þeir svara annars engu, síga djúpt ofan í pottana svo einungis hvikandi augun og blautir kollarnir standa upp úr, en einstaka lesandi hvíslar inn í gufuna sem stígur upp úr vatninu og út í myrkrið: Hvað gerðist eiginlega í þessari sögu? Og þessi spurning endurómar í blaðadómum: Hvað gerðist?
Það er erfitt að hefja samtal við Braga Ólafsson um Samkvæmisleiki. Það má satt að segja ekki láta of mikið uppi um innihald bókarinnar. Bragi segist sjálfur hafa verið í vandræðum með að skrifa káputextann. Sá texti er stuttur eins og við fyrri skáldsögur hans tvær, Hvíldardaga (1999) og Gæludýrin (2001). Í textanum við Samkvæmisleiki segir að hún fjalli um prentnemann Friðbert sem haldi upp á þrítugsafmælið sitt. Þegar hann hafi kvatt síðustu gestina reki hann augun í svarta rúskinnsskó fyrir framan dyrnar á stigapallinum, skó sem hann kannist ekki við að hafa séð áður.

Það má upplýsa strax að Friðbert á heima í íbúð Þórbergs og Margrétar á Hringbraut 45, fjórðu hæð til hægri. Afmælisveislan er haldin þar þrettánda júlí og daginn eftir lendir Friðbert í atburðum sem hann hefur litla stjórn á, hann verður, að því er virðist, fórnarlamb tilviljana, ekki ósvipað og hin seinheppna aðalpersóna Gæludýranna, Emil. Margar persónur koma við sögu sem allar tengjast Friðberti og atburðunum sem eiga sér stað um það leyti sem hann verður þrítugur, sumir í íbúð Friðberts og aðrir í næsta nágrenni. Í bókinni er flakkað fram og til baka í tíma í mismunandi löngum köflum og lesandinn fyllist hægt og hægt grunsemdum um að eitthvað ískyggilegt sé í vændum.

Íbúð Þórbergs ögrandi sögusvið

Bragi segir að eitt af því fyrsta sem hann hafi ákveðið þegar hann hóf að skrifa bókina hafi verið að hún skyldi gerast í hinni frægu íbúð Þórbergs Þórðarsonar.

"Það er á einhvern einkennilegan hátt ögrandi sögusvið, nánast helg íbúð í hugum margra, án þess ég viti hvort ég sé að afhelga hana eða misnota hana í þessari sögu minni. Það er þó eitthvað háskalegt og skrýtið við það að skrifa sögu sem þessa og láta hana gerast að stórum hluta inni í íbúð sem í hugum margra er nánast tákn fyrir fallegt líf eða sakleysi sem tilheyrir liðnum tíma."

Vafalítið á eftir að leggja einhverja merkingu í þessa staðsetningu sögunnar en Bragi vill ekki hjálpa lesendum við það.

"Þessi sviðsetning hefur einhverja merkingu fyrir mér sem ég get ekki sett fingur á, eins og margt í þessari bók og öðrum sem ég hef skrifað. Í Gæludýrunum var ein sögupersónan að dröslast með frumútgáfu af Moby Dick eftir Herman Melville og það voru ýmsar vísanir í þá bók í sögunni en það var öðrum þræði gert til þess að stríða lesendum, vekja hjá þeim eftirvæntingu. Sjálfur sé ég reyndar ákveðnar tengingar en það er auðvitað ekki mitt hlutverk að skýra frá þeim."

Það eru fleiri þekkt kennileiti í sögunni, forlagsskrifstofa Bjarts kemur til dæmis við sögu.

"Já, ég verð að hafa sterka tengingu við jörðina sem sagan gerist á. Samt eru þessir staðir aldrei nákvæmlega eins í sögunni og í raunveruleikanum, yfirleitt skekki ég myndina af þeim. Ég kom inn í íbúð Þórbergs og Margrétar fyrir mörgum árum og þekki þessar Hringbrautarblokkir ágætlega sem gefur mér svigrúm til að breyta þeim í sögunni.

Ef til vill hefur það líka einhverja merkingu fyrir söguna að þetta eru fyrstu blokkir sem byggðar voru í Reykjavík."

Skáldsögurnar þínar gerast allar á svipuðum slóðum.

"Það er rétt. Þetta eru æskuslóðir mínar án þess ég vilji endilega tengja þessar þrjár bækur saman með slíkum hætti. Að vísu fer ég upp á Grettisgötu í Gæludýrunum en þessar sögur eiga heima í Vesturbænum, það hverfi er þeirra líkami."

Þetta kemur mjög eðlilega

Texti Braga skilur eftir þá tilfinningu hjá lesandanum að eitthvað sé látið ósagt. Frásagnarhátturinn er hægur - jafnvel svo að það er eins og ekkert sé að gerast - og nánast hlutlægur en Bragi leggur ekki áherslu á að grípa framm í fyrir sögunni með útskýringum eða túlkunum á því sem fram fer. En á meðan textinn sýnir yfirborð hlutanna þá vakna grunsemdir um það sem undir býr, lesandinn fyllist eftirvæntingu.

"Mér finnst í rauninni ekki ósvipað að skrifa skáldsögu og leikrit," segir Bragi. "Það háir mörgum leikritum að persónur eru stöðugt að útskýra hvað er að gerast í verkinu, forsöguna og jafnvel inntak atburða. En mér finnst réttara að láta merkingu hlutanna, eða merkingarleysi, krauma undir niðri; persónurnar eiga ekki að þurfa að segja áhorfandanum hvers vegna eitthvað gerist; það á bara að gerast.

Ég held að lesandi skáldsögu þurfi heldur ekki á því að halda að fá útskýringar á atburðum. Ég vil að lesandinn grafi undir yfirborðið sem ég sýni.

Annars hef ég ekki neina sérstaka aðferð við að skrifa skáldsögu. Þetta kemur mjög eðlilega.

Ég var samt lengi að detta niður á rétta tóninn. Ég var búinn að reyna að skrifa prósa um nokkurt skeið þegar ég byrjaði á fyrsta kaflanum í Hvíldardögum fyrir fimm eða sex árum og fannst allt í einu að ég væri að gera eitthvað sem virkaði. Allar tilraunir mínar fram að því til að skrifa skáldsögur fundust mér hjárænulegar, og fannst ég ekki ráða við annað en styttri texta. Núna hefur þetta eiginlega snúist við; núna ræð ég síður við knappari form."

Í raun gerist heilmargt

Það má sjá ákveðna þróun í þessum þremur bókum sem endurspeglast ágætlega í því að Samkvæmisleikjum hefur verið lýst sem eins konar spennusögu; það hefði aldrei verið sagt um Hvíldardaga.

"Alveg örugglega ekki.

Ég hef hugsað mikið um þetta því ég hef oft verið vændur um að skrifa atburðalitlar eða tíðindalausar bækur. Sjálfur hef ég aldrei getað samþykkt þá lýsingu en líklega finnst fólki lítið gerast í sögunum vegna þess að atburðarásin er hæg eða seigfljótandi.

Ég veit um fólk sem hreinlega tætti af sér hár sitt og skegg yfir hinum ískyggilegu leiðindum og tíðindaleysi í Hvíldardögum en í þeirri sögu gerist í raun og veru heilmargt. Til dæmis bilar bíll sögupersónunnar sem er nú enginn smá atburður. Og í lok sögunnar ferðast hún alla leið upp í Heiðmörk. Síðan er iðulega margt að gerast í höfði persónanna eða höfði höfundarins sem skiptir máli fyrir söguna."

Atburðir sem sagan kallar á sjálf

Hvað kveikti hugmyndina að Samkvæmisleikjum?

"Ég var einhvern tímann að kveðja foreldra mína eftir veislu og hélt að ég væri einn eftir en sá þá skó fyrir framan dyrnar sem mér fannst að enginn vissi hver ætti. Þá kviknaði þessi hugsun hvort einhver væri ennþá inni.

Þessi mynd rammar söguna inn, hún hefst á því að Friðbert sér þessa skó og hún endar á ákveðnum atburðum sem gætu tengst því að þeir eru þarna úti á stigapallinum.

Kannski gerist ekkert meira í þessari bók en þeim fyrri en hún hefur fleiri persónur og ég segi öðruvísi frá, hleyp til og frá í tíma.

Ég ákvað ekki að skrifa bók með meiri áherslu á atburði en atburðir þessarar sögu eru þess eðlis að þeir fá mikið vægi í sögunni, þeir hafa meiri áhrif, allavega á mig. Það vafðist lengi fyrir mér að hafa þessa atburði í sögunni, þeir eru fremur ógeðfelldir en mér fannst ég verða að skrifa þá út. Þó að það sé asnalegt að segja það þá tók sagan völdin af mér, hún fór að kalla á hluti sem ég gat ekki neitað henni um."

Einhvers konar síðmódernisti

Óhætt er að segja að Bragi hafi rödd sem sker sig úr í íslenskri skáldsagnagerð. Hann segist hins vegar ekki hafa hugleitt það mikið hvar hann sé niður kominn í því landslagi.

"Ég sé engar skýrar línur og finnst ekki vera hægt að setja einhvern merkimiða á íslensku skáldsöguna sem slíka. Til allrar hamingju, nú á þessum tímum, er verið að skrifa alls konar skáldsögur.

Kannski er ég einna helst einhvers konar síðmódernisti. Þegar ég var að byrja að fást við skáldskap þá hreif módernisminn mig mest og eflaust er ég síðbúin útgáfa af honum eða hugsanlega póstmódernisti.

Ég hef oft hugsað um það sem Flaubert sagði þegar hann skrifaði Madame Bovary að hann ætlaði að skrifa bók um ekki neitt. Það er skemmtilegt að velta þeim orðum fyrir sér í ljósi þess hvernig bók Madame Bovary er en það hefur lengi vakað fyrir mér að reyna að skrifa bók um alls ekki neitt. Ég veit að margir hafa haft þetta í huga og margir hafa reynt en það sem vakir fyrir mér er að skrifa hreina póesíu, hreinan skáldskap sem er ekki mengaður af hversdagslegum hlutum. Þetta er auðvitað afskaplega háleitt markmið og mér hefur aldrei tekist að ná því. Kannski þó í einstaka ljóði, kannski í einu eða tveimur ljóðum sem ég man eftir í svipinn, ljóðum sem má segja að séu bara til fyrir sig og hafa nánast enga vísun í neitt annað.

Annars treysti ég á aðra að lýsa því sem ég er að gera. Á meðan skrifa ég bara eins og mér þykir eðlilegt."

Hugsanlega dæmisaga

"Í dag eru miklar kröfur um að skáldsögur hafi samfélagslegt erindi," heldur Bragi áfram. "Það vakti ekki fyrir mér að skrifa samfélagsádeilu í Samkvæmisleikjum en eftir á að hyggja finnst mér ýmislegt í bókinni vera athugasemdir við það sem er að gerast í íslensku samfélagi og ekki síður íslenskri pólitík. Hún gæti þess vegna verið dæmisaga um það hvernig stjórnvöld koma stundum aftan að þegnum sínum. En ég vil ekki benda á nein dæmi um þetta. Lesendur finna þau ef þeir vilja."

Bókin fjallar líka um ofbeldi sem er ofarlega á baugi í umræðu þessa dagana.

"Ofbeldi er allt orðið miklu sýnilegra en áður, það er búið að draga það meira fram í dagsljósið til þess að lækna það en um leið fyllir það okkur ótta og verður að sensasjón í fjölmiðlum. En Samkvæmisleikir er ekki spennubók um ofbeldi, mig langaði hins vegar til að vekja upp í henni óhugnað, það er ljóðræn fegurð í óhugnaðinum."

Manni leyfist allt

Bragi hefur mikla trú á skáldsögunni. Þegar hann er spurður hvort honum finnist hún vera gott tæki til þess að koma list sinni á framfæri þá segir hann engan vafa leika þar á.

"Skáldsagan getur verið hvernig sem er; hún er algerlega opið form, manni leyfist allt, hún getur lýst einu herbergi á fjögur hundruð blaðsíðum eða rekið heila fjölskyldusögu á þrjú hundruð og tuttugu blaðsíðum."

Ertu með einhverjar hugmyndir um hlutverk skáldsagnahöfundarins eða skáldskaparins yfirleitt?

"Rétt eins og við getum ekki verið án kímnigáfu þá held ég við þrífumst ekki án skáldskapar. Án þessara elementa yrði allt svart í kringum okkur, við myndum ekki rata á milli húsa, ekki einu sinni milli herbergja í eigin húsum.

Fyrir mér er skáldskapur nokkurs konar trúarbrögð; að minnsta kosti tel ég mig vera trúaðan mann án þess að vera með mynd af einhverjum guði eða annarri fígúru uppi á veggnum hjá mér. Og ef skáldsagan hefur eitthvert ákveðið hlutverk þá er það það að viðhalda sjálfri sér og þróast, eins og manneskjan sjálf er alltaf að rembast við. Og á meðan ég hef tækifæri til að taka þátt í þeirri þróun þá er ég í mínu elementi."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband