Föstudagur, 5. október 2007
Slepptu mér aldrei e. Kazuo Ishiguro
Fíll í háu grasi
Slepptu mér aldrei, Höfundur: Kazuo Ishiguro
Þýðandi: Elísa Björg Þorsteinsdóttir Bjartur 2005 (304 bls.)
Þegar frásögn Kathy hefst eru tveir bestu vinir hennar, Tommy og Ruth, látnir eftir að hafa "gefið" úr sér líffæri. Þetta er undir lok síðustu aldar, "England, late 1990s" eins og segir á sérsíðu fremst í bókinni, en þessi orð hafa raunar fallið niður í íslensku útgáfunni. Sagan gerist semsé í nýliðinni fortíð og lesendum er boðið að gangast inn á þær forsendur að seint á 20. öld hafi einræktun á fólki verið stunduð í stórum stíl í bresku samfélagi, jafnvel á gríðarstórum ríkisreknum "heimilum", í því skyni að "rækta" líffæri sem nýta má í "venjulegt" fólk. Þetta er samt væntanlega leyndarrekstur og það samræmist því hvernig tilvera þessara líffæragjafa, eða "gjafara", myndar hliðarheim í samfélaginu og þar á milli má segja að sé opnað með "rennilás", en það myndmál nota gjafararnir sjálfir eitt sinn um þær aðgerðir sem þeir vita að bíða þeirra.
Er þetta þá vísindaskáldsaga og hrollvekja? Nei, ekki beinlínis, þótt hún hafi slíkt góss í farteskinu. Þetta er "vandamál" í Slepptu mér aldrei, sjöttu skáldsögu hins marglofaða japansk-enska höfundar Kazuo Ishiguro, vandamál sem taka þyrfti fyrir í heilli ritgerð og einungis verður imprað á hér. Í viðtali við Eirík Guðmundsson, sem kom í Ríkisútvarpinu sl. vor og í Lesbókinni 29. okt., segist Ishiguro ekki hafa sérstakan áhuga á líftækni og klónun. "Mín saga hefur miklu víðari skírskotun. Mig langaði að skrifa bók um ungt fólk sem á sér enga framtíð," segir hann og bætir við að það sem segi um stutta ævi þessara einræktuðu einstaklinga geti raunar einnig átt við um æviskeið hvers og eins. Ég samsinni þessu að vissu marki, en vandinn er sá að maður stekkur ekki alveg svona auðveldlega frá einu helsta deilumálinu sem vísindin hafa fært okkur í seinni tíð.
Lesandi tvístígur því milli viðleitni til að semja sig að hinum líftæknilega "veruleika" skáldsögunnar og tilhneigingar til að skilja þann veruleika fremur sem einhverskonar dæmisögu eða allegóríu - eða sem sviðsetningu hins gamla og nýja vanda að vera manneskja sem eldist og man, eignast og glatar, finnur nálægð og er þó ein. Og einsemd Hailshamkrakkanna er á sinn hátt ógnþrungin; þau eiga ekki foreldra og þeim er tjáð á vissum tímapunkti að þau geti ekki eignast börn. Það er semsé klippt á þráðinn beggja vegna, þótt stöku ungmenni láti sig dreyma um að finna "fyrirmynd" sína. Því er ekki undrunarefni að staðurinn Hailsham komi að vissu leyti í foreldrastað í minningum Kathy - og svo eiga börnin hvert annað að, en með höppum og glöppum eins og gengur.
Í Hailsham er einstaklingum skammtað naumt persónurými og erfitt er að finna nokkurn afvikinn stað. En höfundur er útsmoginn við að sýna hvernig persónuleiki hvers og eins mótast samt eftir dularfullum leiðum. Þetta kemur gleggst í ljós í tilviki Tommys, sem lagður er í einelti - og þá bæði vegna þess að hann er góður í boltaleik og þykir lélegur í myndmennt - og vegna þess að hann bregst við eins og tryllt dýr. Hlegið er að vatnslitamynd hans "af fíl sem stóð í háu grasi" en síðar meir sést einmitt á dýramyndum hans að hann hafði eitthvað að tjá umfram það sem kennt var. Í honum er á sinn hátt minni fílsins er brýtur sér leið til mennskunnar sem þessum börnum er neitað um (og þykir Hailsham þó óvenju "mannúðleg" stofnun). Í öskri Tommys birtist sárið sem Ishiguro hefur sjálfur talað um að nauðsynlegt sé að snerta í huggunarskyni.
Snemma laðast Kathy að Tommy, en hún er oft vanmáttug og Ruth verður fyrri til. Síðar finnur Kathy þó leiðina til Tommy - og þessi hægfara leit er innbyggð í frásögnina sem er seinferðug en markviss, seigrennandi sína slóð. Það er Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem endurskapar þessa slóð prýðilega á íslensku, þaulvanur þýðandi, bæði úr þýsku og ensku, og hefur þýtt þrjár aðrar bækur Ishiguro. Texti hans er á ytra byrði sléttur og felldur en við nánari skoðun er hann ríkur af tilbrigðum við hversdagslegt málfar sem þar með "opnast". Margt býr á milli orða. Hér er dæmi úr frumtexta og þýðingu:
"Thinking back now, I can see we were just at that age when we knew a few things about ourselves - about who we were, how we were different from our guardians, from the people outside - but hadn't yet understood what any of it meant. I'm sure somewhere in your childhood, you too had an experience like ours that day; similar if not in actual details, then inside, in the feelings."
"Þegar ég hugsa til baka núorðið sé ég að við vorum einmitt á þeim aldri þegar við vissum svolítið um sjálf okkur - um það hver við vorum, að hvaða leyti við vorum ólík gæslufólkinu okkar, fólkinu fyrir utan - en höfðum ekki enn neinn skilning á því hvað það þýddi. Ég er viss um að einhvern tíma í þinni eigin bernsku hefurðu orðið fyrir ámóta reynslu og við þennan umrædda dag; svipaðri, ekki kannski í raunverulegum smáatriðum en inni fyrir, í tilfinningunum."
Hér sést vel hvað orðafar enskunnar getur verið knappt og torvelt að leika það eftir á íslensku - og hversu margar og erfiðar ákvarðanir þýðandi þarf að taka á hverri síðu. Hefði átt að þýða "somewhere" með "einhvers staðar"? Að verða fyrir reynslu "í tilfinningunum" er einkennilegt orðalag en sterkt og við hæfi í þessu tilviki. Það á ekki aðeins við um Kathy heldur líka lesanda sögunnar.
Ástráður Eysteinsson
"...að snerta sárið"
Eftir Eirík Guðmundsson
Nýjasta skáldsaga ensk-japanska rithöfundarins Kazuos Ishiguros, Slepptu mér aldrei , er komin út í íslenskri þýðingu. Það er vonlaust að endursegja þessa sögu: breskur heimavistarskóli, klónuð börn, líffæragjafar, börn sem eiga skamma ævi fyrir höndum. Þetta er áleitin saga, sorgleg og óhugnanleg, saga sem fjallar um vináttu og ást, um dauðleikann og leyndina sem umlykur líf okkar. Ishiguro var tekinn máli í London og spurður um bókina, sem hefur hlotið lofsamlega dóma.
(Kazuo Ishiguro, Óhuggandi, íslensk þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur)
Þegar Kazuo Ishiguro var ungur maður ætlaði hann sér að verða dægurlagahöfundur og söngvari. Hann samdi lög og texta, hlustaði á Bob Dylan, safnaði hári, skeggið óx. Þegar hann gekk á fund útgefenda í Lundúnum í upphafi níunda áratugarins var hann með kassagítar í annarri hendi, ritvél í hinni.
Ritvélin sigraði gítarinn. Kazuo Ishiguro varð ekki rokkstjarna, en hann varð hins vegar á tiltölulega skömmum tíma einn virtasti skáldsagnahöfundur samtímans. Þrjátíu og fjögurra ára gamall var hann orðinn heimsfrægur eftir útkomu skáldsögunnar (og síðar kvikmyndarinnar) The Remains of the Day. Ishiguro er nú fimmtugur og í mars kom út hans sjötta skáldsaga, hún heitir Never let me go og það er óhætt að segja að hún hafi fengið frábæra dóma. Sagan er nú komin út hjá bókaforlaginu Bjarti í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur undir heitinu Slepptu mér aldrei.
Það fór ekkert á milli mála í Lundúnum í marsmánuði síðastliðnum að það var komin út ný skáldsaga eftir Kazuo Ishiguro. Útstillingar í öllum helstu bókabúðum borgarinnar voru helgaðar Never let me go.
Kazuo Ishiguro fæddist í Nagasaki í Japan árið 1954 en hann hefur verið búsettur í Bretlandi frá fimm ára aldri. Hann er margverðlaunaður höfundur sex skáldsagna og býr nú ásamt konu sinni og þrettán ára dóttur í norðurhluta Lundúna.
Kazuo Ishiguro birtist á réttum tíma. Hann kemur gangandi inn Heddon Street, klæddur svörtum frakka, hárið stuttklippt. Ég stend fyrir utan Momo-kaffi þar sem við höfðum mælt okkur mót fáeinum dögum eftir úkomu bókarinnar Never let me go.
Momo-kaffi er í tísku, og reynist of hávaðasamur staður fyrir okkur Ishiguro. Við tökum leigubíl en vitum ekki hvert við eigum að fara. Það er föstudagur, umferðin þung, ég hef á tilfinningunni að ég hafi startað einhverju sem muni ekki fara vel, upp í hugann koma fullmargar senur úr skáldsögu Ishiguros frá árinu 1995 The Unconsoled, sögunni um ráðvillta og minnislausa píanóleikarann sem hefur algerlega misst tökin á lífi sínu. Í aftursætinu drepum við tímann með kurteisishjali. Gjaldmælirinn tifar. Að lokum komumst við að samkomulagi um að viðtalið fari fram í lobbíi á hóteli við Southampton Row.
Þegar ég hitti Kazuo Ishiguro var hann nýbúinn að árita 2.000 eintök af skáldsögunni Never let me go, honum leið eins og sálarlausum manni. Það lá beint við að spyrja hann um þessa nýju sögu sem vonlaust er að endursegja: breskur heimavistarskóli, klónuð börn, líffæragjafar, börn sem eiga skamma ævi fyrir höndum. Þetta er áleitin saga, sorgleg og óhugnanleg, saga sem fjallar um vináttu og ást, um dauðleikann og leyndina sem umlykur líf okkar.
Kazuo Ishiguro: Ég hef aldrei haft áhuga á líftækni eða klónun. Mig langaði að skrifa stúdentasögu, sögu um nemendur í heimavistarskóla. Það eina sem ég vissi þegar ég byrjaði á sögunni var að krakkarnir voru ekki venjulegir, örlög þeirra voru í einhverjum skilningi ráðin. Mig langaði ekki til að skrifa sögu sem yrði túlkuð sem viðvörun um það hvert líftæknin getur leitt okkur. Ég hef áhyggjur af því en ég bind vonir við hana á sama tíma. Mín saga hefur miklu víðari skírskotun. Mig langaði til að skrifa bók um ungt fólk sem á sér enga framtíð.
EG: Þetta er ákaflega sorgleg saga, nánast óhugnanleg.
Kazuo Ishiguro: Já, hún er sorgleg vegna þess að hún fjallar um dauðleikann. Söguhetjurnar eiga ekki langt líf fyrir höndum, þær lifa að öllum líkindum ekki miklu lengur en til þrítugs. En þrátt fyrir hinar mjög svo sérstæðu kringumstæður persónanna í sögunni reyndi ég að bergmála það sem við þurfum öll að ganga í gegnum. Okkur er ekki gefinn langur tími, við eigum öll skamma ævi fyrir höndum, en reynum hvað við getum að bægja tilhugsuninni um dauðleikann frá okkur. Við gerum okkar besta. Það er sorglegt en líka í einhverjum skilningi ákaflega fallegt.
EG: Ekkert getur bjargað söguhetjunum, ekki einu sinni ástin.
Kazuo Ishiguro: Við viljum trúa því að ástin bjargi lífi okkar. Við viljum trúa því að ástin geti sigrað allt. Líka dauðann. Þetta er ein af þeim goðsögnum sem við notum til að halda lífi. Þótt það kunni að hljóma undarlega þá er Never let me go í mínum huga ein af mínum glaðlegustu sögum, hún er eingöngu sorgleg vegna þess að persónurnar deyja og dauðinn er aðeins sorglegur vegna þess að á meðan við lifum sköpum við eitthvað sem er verðmætt, sambönd, vináttu, eitthvað sem endist ekki að eilífu. Um það fjallar Never let me go í mínum huga.
EG: Að höfundarferli þínum og fyrri verkum. Þú skrifar um ábyrgð og þú skrifar um eftirsjá. Sjúkleg þörf Stevens bryta í skáldsögunni The Remains of the day fyrir að standa sína plikt verður til þess að hann missir af því sem máli skiptir. Hann þjónar röngum herra af slíku alefli að hann lætur ástina ganga sér úr greipum. Svipað er upp á teningnum í skáldsögu þinni An Artist of the Floating World, þar sem listamaður sem hefur sóað hæfileikum sínum í áróður fyrir herská öfl horfist í augu við fortíð sína. Sjálfsblekking, ábyrgð, eftirsjá, það sem skiptir okkur máli þegar upp er staðið, þetta eru algeng viðfangsefni í þínum verkum.
Kazuo Ishiguro: Já það er rétt, ég skrifa um þetta. Sem skáldsagnahöfundur er ég stöðugt að reyna að fá lesandann til að sjá hlutina í nýju samhengi og spyrja um leið stórra spurninga: Hvað skiptir okkur máli í raun og veru? Hvernig getum við lifað sómasamlegu lífi? Í bókum mínum bendi ég á þá staðreynd að það er fátt auðveldara en að sóa lífi sínu vegna þess að maður kemur ekki auga á það sem máli skiptir. Ég hef sannarlega skrifað um fólk sem hefur sóað lífi sínu. Það hefur gert fáein, smávægileg, mannleg mistök sem síðar reynast afdrifarík. Í fyrstu bókunum mínum, A Pale View of Hills, An Artist of the Floating World og The Remains of the Day, skrifaði ég um eldra fólk sem horfir um öxl, fólk sem í góðri trú helgaði sig ákveðinni þjónustu eða málstað, en kemur á efri árum auga á mistökin sem gerð voru.
EG: Skáldsagan The Unconsoled, fjórða skáldsagan þín, er gjörólík fyrstu bókunum þínum. Yfirvegað raunsæi hefur vikið fyrir draumi, jafnvel svima! Sumir töluðu árið 1995 um nýja tegund af leiðindum, aðrir um minnislaust meistaraverk. Hvaðan kom þessi saga?
Kazuo Ishiguro: Hún er miklu skipulagðari en menn kunna að halda, menn halda að hún sé stjórnlaus vegna þess að hún fjallar um mann sem hefur misst tökin á lífi sínu. Staðreyndin er sú að ég undibjó þessa sögu vel og hafði feikilega gaman af því að skrifa hana. Möguleikar mínir sem rithöfundur voru miklu fleiri eftir að ég skrifaði The Unconsoled og ég gæti vel hugsað mér að skrifa eitthvað líkt henni í framtíðinni.
EG: Þetta er ógleymanleg bók.
Kazuo Ishiguro: Þakka þér fyrir. Hún skipti mig miklu máli.
EG: Persónur í bókum þínum hafa tilhneigingu til að nuddast utan í sögulega atburði, þær ofmeta stöðu sína og áhrif andspænis miklum viðburðum, eins og til dæmis Banks í skáldsögunni When We were Orphans, ævinlega með herfilegum afleiðingum. Í þeirri sögu skrifarðu enn og aftur um sjálfsblekkingu og getuleysi, persónur í verkum þínum berjast kannski ekki við vindmyllur en þær eru allt eins líklegar til að reyna að koma í veg fyrir heila heimsstyrjöld með stækkunarglerið eitt að vopni.
Kazuo Ishiguro: Ég er ekki í nánu sambandi við söguna. Ég er ekki Primo Levi. Ég var ekki í Ásvits og hef ekki lifað á átakatímum. Ég skoða sögubækur eins og kvikmyndaleikstjóri sem leitar að tökustöðum og leita að tímabilum sem ríma við þau þemu sem ég ætla að fjalla um. Mig langar ekki endilega til að skrifa um þægilegt líf venjulegs Vesturlandabúa. Af þessum sökum verð ég annaðhvort að fara um önnur lönd eða aftur í tímann og inn í fortíðina. Þetta veldur mér áhyggjum. Mér finnst stundum að ég misnoti söguna. Ég veit að ég er tilbúinn til að "fara rangt með" ef það þjónar tilgangi mínum sem skáldsagnahöfundur.
EG: Þú tilheyrir kynslóð áhrifamikilla breskra skáldsagnahöfunda, varst valinn í upphafi níunda áratugarins í hóp bestu rithöfunda Breta af yngri kynslóðinni, ásamt mönnum á borð við Julian Barnes, Graham Swift, Salman Rushdie, Ian McEwan og fleiri. Allir hafa þessir höfundar haldið tryggð við skáldsöguna og skáldsagan virðist njóta mikillar hylli sem bókmenntagrein um þessar mundir. Samt sjá ýmsir þreytumerki. Hvað með þig sjálfan?
Kazuo Ishiguro: Ég trúi enn á mátt skáldsögunnar. Hún nýtur meiri vinsælda og virðingar nú um stundir en oft áður, að minnsta kosti hér á Englandi. Og skáldsagan vekur athygli fjölmiðla. Hin margboðaða hnignum skáldsögunnar hefur ekki átt sér stað. Ég hef til dæmis gríðarlega trú á ungum höfundum sem nú eru að skrifa sínar fyrstu bækur, höfundum sem virða engin mörk á milli bókmenntagreina en skrifa samt einhvers konar skáldsögur. Skáldsagan hefur ekki hörfað út á jaðarinn heldur er hún miðlæg stærð í menningarlífi samtímans hér á Vesturlöndum.
EG: Þú hefur náð gríðarlegu valdi á skáldsagnaforminu, skrifar yfirvegaðan stíl, bækur þínar eru feikilega vel byggðar, það er allt pottþétt, allt á sínum stað. Sumir saka þig um kulda.
Kazuo Ishiguro: Þegar ég byrjaði að skrifa skáldsögur var ég búinn að semja að minnsta kosti hundrað dægurlög og texta. Í því fólst gríðarleg þjálfun og þannig afplánaði ég það sem ég kalla ,,sjálfsævisögulega skeiðið" á ferli rithöfundarins, skeiðið þegar hann er upptekinn af sjálfum sér og skrifar til að sýna hvað hann er flínkur án þess að leiða hugann að listrænu gildi textans. Síðustu dægurlagatextarnir sem ég samdi voru mjög líkir fyrstu smásögunum mínum, en ég hef kvatt þetta tímabil fyrir löngu. Varðandi skipulag og kulda finnst mér að höfundar eigi ekki aðeins að fylgja hugsun sinni heldur einnig innsæinu. Ég vona að það sjáist á mínum verkum.
EG: Þú nýtur mikilla vinsælda. Það fer ekkert á milli mála hér í stórborginni að þú ert nýbúinn að gefa út bók. Það eru myndir af þér út um allt, gluggar bókabúðanna eru gulir. Hefurðu áhyggjur af því að frægð þín og persóna skyggi með einhverjum hætti á innihald hinnar nýútkomnu bókar?
Kazuo Ishiguro: Höfundar á borð við sjálfan mig eiga miklu fleiri lesendur nú en fyrir tuttugu árum. Heimurinn hefur breyst okkur í hag að þessu leyti. En sá böggull fylgir skammrifi að höfundurinn sem persóna fær gríðarlega athygli. Höfundurinn er áhugaverður en aðeins upp að vissu marki. Ég vil að menn ræði um bækur, en ekki um skilnað höfundarins eða bernsku hans. Skáldsögur eru í mínum huga ekki lítt dulbúnar sjálfsævisögur. Auðvitað eru tengsl á milli þess sem hefur komið fyrir mig og þess sem ég skrifa. En þessi tengsl eru flókin, mjög flókin. Það er letilegur túlkunarmáti að tengja allt sem stendur í skáldsögu við líf höfundarins.
EG: Gott og vel, hvað ertu að lesa?
Kazuo Ishiguro: Fávitann eftir Fjodor Dostójevskí, ég á eftir áttatíu blaðsíður. Hún er ekki eins góð og mig minnti. En Dostojevskí les ég reglulega. Hann var uppáhaldsrithöfundur minn þegar ég var ungur. En ekki lengur. Djöflarnir eru þó sannarlega frábærir. Dostójevskí er einn þeirra höfunda sem maður heillast af þegar maður er ungur. Nú sé ég allt of marga galla hjá honum.
EG: Þitt fólk að öðru leyti?
Kazuo Ishiguro: Jane Austin, ég er nýbúinn að lesa allar hennar bækur aftur. Stórkostleg. Anton Tsjekov. Og fleiri. Annars hef ég í seinni tíð tilhneigingu til að halla mér að klassíkinni. Ódysseifskviðu Hómers les ég linnulítið. Ég er orðinn fimmtugur og verð að vanda valið. Ég er reyndar líka hrifinn af yngri höfundum, mönnum á borð við David Mitchell og Alex Garland.
EG: Að lokum, þú talar einhvers staðar um sár sem vill ekki gróa. Hljómsveitarstjórinn Brodskí í skáldsögunni The Unconsoled gerir það líka, talar um sár sem heillar mann, sár sem maður sækist eftir að snerta, sár sem aldrei grær og kallar á huggun. Ég hef á tilfinningunni að þetta sár tengist með einhverjum hætti því að skrifa, ástæðunni fyrir því að þú skrifar skáldsögur í stað þess að semja dægurlög ala Dylan eða starfa í félagsþjónustunni, þar sem þú komst við sögu á yngri árum?
Kazuo Ishiguro: Það er rétt. Sárið tengist þörfinni fyrir að skrifa. Flestir rithöfundar sem ég þekki eru sómafólk en þeir eiga það sameiginlegt að vera í undarlegu ójafnvægi. Það er allt í lagi að borða með þeim kvöldverð en undir yfirborðinu kraumar eitthvað, tilfinningar, flækjur sem þeim hefur ekki tekist að greiða úr. Skáldskapur og listir tengjast að mínu mati einhverju sem hefur aldrei gróið innra með manni. Sá sem skrifar eða semur tónlist fer nálægt þessu sári, hann snertir sárið og í snertingunni er fólgin huggun. Þegar þú skrifar um eitthvað sem skiptir máli ferðu nálægt þessu sári. Og þegar lesendum líkar verkið er það vegna þess að það snertir sárið innra með þeim. Um leið veitir verkið huggun. Rithöfundar hafa hins vegar ekki alltaf erindi sem erfiði. Bilið á milli þess höfundar sem gerir eitthvað sem skiptir ÖLLU máli og höfundar sem er í raun bara "að vinna í sjálfum sér" er svo örmjótt að það er við það að hverfa, verða að engu. Maður sér það best þegar maður hugsar um Franz Kafka. Það munar ekki nema því sem munar að hann sé glataður höfundur, hnikum til fáeinum smáatriðum og Kafka verður einskis virði, náungi sem er sjúklega upptekinn af sjálfum sér og sínum litlu vandamálum. En það er eitthvað ónefnanlegt sem veldur því að allt sem hann segir og allt sem hann skrifar verður að einhverju MIKLU, einhverju sem við hefðum aldrei getað orðað upp á eigin spýtur. Það er ekki mikill munur á þeim sem er aðeins upptekinn af sjálfum sér, annars vegar, og hins vegar miklum listamanni sem talar í nafni okkar allra, skilrúmið þarna á milli heldur hvorki vatni né vindum.
Viðtalið var unnið upp úr útvarpsþættinum Kazuo Ishiguro í London, sem frumfluttur var á Rás eitt hinn 15. maí síðastliðinn.
Höfundur er rithöfundur og útvarpsmaður.
Kazuo Ishiguro: Slepptu mér aldrei.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi. Bjartur, 2005
Sorg og von
Heimavistarskólar hafa löngum verið breskum höfundum uppspretta margvíslegra sagna. Þessir staðir fullnægja ýmsum þörfum sem sagan krefst, eins og að vera lokaður heimur með takmörkuð tengsl við umheiminn; barnabækur hafa nýtt sér að þarna eru börn sem byggja fyrst og fremst á samböndum við hvert annað og fullorðnir eru í afmörkuðu kennarahlutverki frekar en flóknu foreldrasambandi. Í barnabókum er það oftar en ekki öryggi þessa aflokaða heims sem er í forgrunni, þótt margar skáldsögur og kvikmyndir hafi að sjálfsögðu bent á ofbeldi og kaldan veruleika þessa heims.
Í höndum Kazuo Ishiguros í skáldsögunni Slepptu mér aldrei verður heimavistarskólinn að einhvers konar ýktri útgáfu af sjálfum sér, því hann er algjörlega lokaður frá umheiminum, mótunarhlutverk hans er algert og einnig hlutverk hans sem heimili. Í augum Harry Potters er Hogwarts skólinn öruggara og meira heillandi athvarf en heimilið, en börnin í Hailsham hafa ekki samanburð, heimilið er ekki fyrir hendi. Ishiguro segir í viðtali við Eirík Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 29. október 2005 að heimavistarskólinn hafi verið uppspretta sögunnar fremur en líftæknin sem söguþráðurinn þó snýst um. Klónun er umræðuefnið hér, því börnin í Hailsham eru líffæragjafar, sem eiga ekki langa ævi fyrir höndum og við fylgjumst með þremur þeirra, Kathy, Ruth og Tommy.
Sögumaðurinn Kathy rifjar upp ævi sína og bætist í hóp sérstæðra sögumanna Ishiguros sem oft eru í senn heillandi og fráhrindandi. Lesandinn er frá upphafi meðvitaður um að sögumaður hefur ekki alla þræði í hendi sér, vitneskja hennar er takmörkuð, sýn hennar á Hailsham heimavistarskólann er nánast þráhyggja og hugmyndir hennar um umheiminn sérkennilegar. Þetta sjónarhorn og átök þess við það sem lesandinn skynjar sem einhvers konar veruleika gera það að verkum að erfitt er að leggja bókina frá sér, því maður vonast stöðugt eftir einhverri lausn, einhverri skýringu á umheiminum sem Kathy hvorki skilur né þekkir. En að auki sver sögumaður sig í ætt við sögumenn Ishiguros, eins og Stevens í Dreggjar dagsins og Banks í When We Were Orphans, hverra sýn er blinduð af sérkennilegum ranghugmyndum, eða kannski frekar fyrirframgefnum (og yfirleitt röngum) ályktunum sem gera persónurnar vanmáttugar og gerðir þeirra annað hvort tilgangslausar eða þær beinast í algjörlega ranga átt.
Bretar gera gjarnan grín að Norfolk og flestir brandararnir ganga út á að þar sé ekkert að sjá og ekkert við að vera og er litið á þá sem sérvitringa sem heillast af flötu landslaginu, eins og W. G. Sebald heitinn gerði. Í Slepptu mér aldrei hafa börnin í Hailsham gert Norfolk að staðnum þangað sem týndir hlutir fara. Þetta er heillandi og hughreystandi hugmynd, því það merkir að hlutir týnast aldrei alveg, þeir eru bara komnir til Norfolk og það sama á þá líklega við um fortíðina alla saman hana er alla að finna í Norfolk. Slepptu mér aldrei er að einhverju leyti bók um von og það er mjög í anda hennar að hið eyðilega Norfolk sé birtingarmynd vonarinnar. Söguhetjurnar þrjár eiga sérkennilegt líf fyrir höndum og taki Hailsham á hugmyndum þeirra og lífi sleppir ekki, því þegar þau útskrifast þaðan stækkar heimurinn varla nokkuð, hvað þá að hann opnist, hann skiptist einungis niður í aðrar lokaðar einingar. Það má segja að klónun og líftækni séu hér aðferð til að skoða dauðleikann og hvernig við bregðumst við honum og að því leyti er þetta elegískt verk, frekar en umræða eða greining á afleiðingum þessarar tækni. Þetta er líka sérlega áhrifamikil og jafnvel á stundum allt að því kaldranaleg hugleiðing um ást og von.
Slepptu mér aldrei var tilnefnd til Booker-verðlaunanna í ár, og þótti ákaflega sigurstrangleg og John Sutherland formaður dómnefndar í ár, hefur gefið í skyn að dómnefndin hafi verið klofin milli Ishiguros og höfuðstílista Íra, Johns Banville, sem hreppti hnossið. Eins og Ingi Björn Guðnason bendir á í umfjöllun sinni um James Meek hér á síðunni, er mjög ánægjulegt að fá svona fljótt útgefnar þýðingar á erlendum skáldverkum. Þýðingin er að mestu leyti mjög góð, á stöku stað mátti þó sjá sérkennilega orðaröð og nokkuð formlegt eða hátíðlegt orðalag notað þar sem enskan virkar hversdagslegri.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.