Föstudagur, 5. október 2007
Wuthering Heights e. Emily Brontë
Það verður örlagaríkt fyrir Earnshawfjölskylduna þegar húsbóndinn hirðir lítinn skítugan strákling, sem enginn vill eiga, upp af götu sinni í Liverpool og fer með hann heim til Wuthering Heights. Drengurinn fær nafnið Heathcliff, og í uppvextinum verða þau Cathy Earnshaw óaðskiljanleg, þvælast saman um heiðina, frjáls eins og villibörn. En þegar hann vill eignast hana fyrir konu hefur hann, ættlaus og eignalaus, ekki neitt að bjóða dóttur óðalsbóndans. Hann hverfur brott og hún giftist glæsilega herragarðseigandanum neðar í dalnum. En Cathy gleymir ekki Heathcliff og þegar hann snýr aftur, vellauðugur maður, ná ástríðurnar og takmarkalaus hefnigirni hans smám saman yfirhöndinni.
Wuthering Heights er meðal frægustu skáldsagna enskra bókmennta og kemur enn út í mörgum útgáfum á ári hverju þótt hún sé að verða 160 ára. Frásagnarháttur hennar þykir enn nýstárlegur og persónurnar og örlög þeirra verða lesendum ógleymanleg. Þó var höfundurinn tæplega þrítug prestsdóttir og piparmey sem fátt hafði séð og ekkert reynt að því er séð verður af þeim hamslausu ástríðum sem saga hennar segir frá.
Emily Brontë fæddist 1818 í Yorkshire, Norður-Englandi, næstyngst sex systkina. Móður sína missti hún þriggja ára og tvær systur fáum árum síðar. Systkinin fjögur sem eftir lifðu voru ákaflega samrýnd og bjuggu sér til heilan heim í orðum og myndum þar sem íbúarnir lentu í æsilegustu ævintýrum. Systurnar Charlotte, Emily og Anne gáfu út ljóðasafn saman undir dulnefnunum Currer, Ellis og Acton Bell árið 1846, og árið eftir kom Wuthering Heights út undir dulnefni Emily, Ellis Bell. Hún lifði það að sjá söguna sína á prenti og vekja bæði athygli og hneykslun, en ári síðar, 1848, lést hún úr berklum.
Þetta er ný þýðing á sögunni eftir Silju Aðalsteinsdóttur, henni fylgir eftirmáli þýðanda.
Margræð og mögnuð
Wuthering Heights
Eftir Emily Brontë í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Bókaútgáfan Bjartur, 2006. 326 bls.
Höfundurinn Emily er ein hinna mögnuðu Brönte-systra en hinar eru Charlotte, sem þekktust er fyrir skáldsöguna Jane Eyre, eitt af höfuðritum enskra bókmennta, og Anne, sem m.a. skrifaði skáldsöguna Agnes Grey. Allar þessar þrjár skáldsögur systranna komu út á sama árinu,1847, birtar undir dulnefni: Emily kallaði sig Ellis Bell. Þetta var á þeim tímum þegar skriftir þóttu alls óviðeigandi iðja fyrir konur og því höfðu systurnar pennanöfnin karlkyns. Emily lést ári eftir útkomu bókarinnar og var Wuthering Heights fyrsta og eina skáldsaga hennar en auk hennar gaf hún út ljóðabækur.
Bókmenntafræðingar og -fólk hefur alla tíð átt erfitt með að skilgreina söguna og enn í dag sýnist sitt hverjum. Sumir tala um afar flókna en útpælda sagnafléttu en aðrir hafna því að bókin sé jafn úthugsuð, heldur fremur "lífrænt" innsæisverk sem feli ekki í sér hreina og klára lausn. Enn aðrir eru á því að bókin sé einfaldlega margræð og það sé fráleitt galli.
Sú goðsögn komst fljótlega á kreik að Wuthering Heights væri einstök að því leyti að hún væri ekki í textatengslum við hefðina og þ.a.l. ekki líkleg til að mynda tengsl við þær bókmenntir sem á eftir kæmu. Ein ástæða fyrir þessari goðsögn gæti verið sú að konur áttu ekki að vera vel að sér í bókmenntum. Kyn höfundar er kannski að hluta skýring á því af hverju sagan þótti svona nýstárleg - konan beitir innsæi og tilfinningum, ekki skynsemi, og Emily hlaut því að hafa "grísað" á eftirtektarverða sögu.
Nokkuð er síðan búið er að hnekkja þeirri tilgátu að Wuthering Heights sé skrifuð í tómarúmi: hún sækir sitt til rómantísku stefnunnar, er gotísk á köflum og bent hefur verið á að Heathcliff er býrónsk hetja eða rómantísk hetja með persónubresti sem koma honum í koll. Skáldsagan er því hluti af bókmenntasögunni þrátt fyrir að reynt hafi verið að loka augunum fyrir því fyrst í stað.
Ástar- og örlagasaga Cathy og Heathcliffs er hluti hluti af heimsbókmenntum og þar af leiðandi íslenskum bókmenntum. Öll þekkjum við stóru drættina úr sögunni, án þess endilega að hafa lesið hana. Þýðing Sigurlaugar Björnsdóttur, Fýkur yfir hæðir, kom fyrst út 1951 og samnefndir framhaldsþættir hafa verið sýndir í Sjónvarpinu (tvær útgáfur?). Flestir hafa líka sjálfsagt séð Cathy og Heathcliff bregða fyrir í sketsum og skensi af ýmsu tagi, en hádramatískar og melódramatískar lýsingarnar liggja vel við skopstælingu. Náttúran, umhverfið, endurspeglar tilfinningar mannsins og öfugt. Stundum þarf ekki að ýta fast til að hrinda hinu háttstemmda ofan í hlægilega lágkúru.
Þessar yfirdrifnu tilfinningar eru einmitt dregnar fram í titlinum Fýkur yfir hæðir, eins og sagan var kölluð í gömlu þýðingunni en titillinn hefur fylgt henni síðan. Þessi sápulegi sölutitill er því ekki lengur nothæfur, fyrir utan að vera alls ekki þýðing á upprunalega titlinum sem er eiginnafn og staðarheiti.
Þýðandi hefur lagt mikla vinnu og natni í að snara sögunni með sannfærandi málfari. Bókinni fylgir gagnlegur eftirmáli þýðanda, um Brontë-systur, um skáldsöguna og þýðingu hennar (í tvennum skilningi). Wuthering Heigths er ekta skammdegislesning, helst undir heitri sæng. Það er góðra gjalda vert að vekja athygli á Emily Brontë og (skáld)systrum hennar. Ekki væri verra ef nýja þýðingin sópaði gamla titlinum út í veður og vind.
Geir Svansson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.