Mánudagur, 29. október 2007
Brestir í Brooklyn e. Paul Auster
Laugardaginn 25. nóvember, 2006 - Menningarblað/Lesbók
BÆKUR - Þýdd skáldsaga
Barið í bresti
Brestir í Brooklyn
Mannlegur breyskleiki og brestir - þetta eru lykilorð í nýjustu skáldsögu Pauls Austers, Brestum í Brooklyn. Með öðrum orðum mennskan, í öllu sínu veldi, sem stundum einkennist af fífldirfsku en oftar fíflaskap, botnlausri lágkúru en stundum reisn, óþverraskap, óheiðarleika, sín- og hefnigirni en mun oftar af furðulega mikilli góðmennsku og fyrirgefningu.Titillinn vísar sem sagt til daglegs lífs ákveðins hóps af fólki í Brooklyn-bæjarhlutanum í New York en sögu þessa fólks segir Nathan Glass, sem kominn er á heimaslóðir eftir fimmtíu og sex ára fjarveru til að setjast í helgan stein, eins og hann segir. Hann safnar atvikssögum um mannlega bresti, skráir þær á bréfsnifsi og setur í hirslur, og segir þær okkur og persónum og leikendum í bókinni. Utan um þessar örsögur er síðan örlagasaga hans sjálfs, og dóttur hans Rachel, en einkum frændsystkina hans, Toms og Auroru, og Lucy dóttur hennar. Ýmsir fleiri úr hverfinu, og víðar að, t.d. boldangskonur og drottningar, koma við sögu.
Brestir í Brooklyn, í afburðagóðri þýðingu Jóns Karls Helgasonar, er í stuttu máli grípandi og skemmtileg mannlífskönnun sem ferðast upp og niður allan tilfinningaskalann, frá (stopulli) hamingju til (botnlausrar) óhamingju. Þótt sagan byrji á orðunum "Ég var að leita að rólegum stað til að deyja á" er frásögnin af þessu grátbroslega brölti okkar í lífinu á fyndnum nótum, þótt yfrið sé af sviplegum endalokum og persónulegum harmleikjum í guðlausum heimi þar sem manneskjan er á valdi "yfirvofandi" tilviljana. Þegar upp er staðið eru Brestir í Brooklyn lofgjörð til þessa fáránlega lífs og leitarinnar að samastað í tilverunni.
Paul Auster er vinsæll höfundur hér á landi og Brestir í Brooklyn er sjötta bókin sem kemur út í íslenskri þýðingu. Það væri forvitnilegt að kanna hversu mikil áhrif hann hefur haft á íslenska höfunda, einkum karla, en þau eru án efa töluverð. Skrif Austers eru gjarnan þannig að frásögnin afhjúpar sjálfa sig og tækni sína. Textinn fjallar þannig um bókmenntir; um það athæfi að skrifa og, kannski einna helst, um það að vera rithöfundur (einnar eða níutíu bóka). Það er nánast eins og frásögnin treysti sér ekki lengur til að standa algerlega á eigin fótum og þurfi því að afsaka sig: Hér er ég, texti um (aðra) texta. Vísanir í heimsbókmenntir og bókmenntakanónuna (meistaraverkin og meistarana, langflestir karlar) eru einnig þáttur í þessu hlutskipti sjálfsmeðvitaðra bókmennta, í meðförum Austers og margra annarra. Það telst svo til kraftaverka/skáldskapar að frásögnin, "góð saga", virðist þrátt fyrir þetta oftast nær lifa af.
Í Brestum í Brooklyn er með öllu gufuð upp fjarlægðin og jafnvel svalinn sem einkenndi sérstaklega fyrstu bækur höfundar, frá og með New York-þríleiknum að telja. Skáldsagan er óður til Brooklyn- eða New York-búa, af tilefni sem lesanda verður ljóst fyrr eða síðar, og Auster (eins og sögumaðurinn Nathan Glass) leyfir sér að vera meyr og tilfinningaríkur. Það mætti jafnvel kalla söguna melódramatíska og á stundum jaðrar hún við að vera einum of "sentimental".
Á heildina litið er tilfinningasemin algjörlega við hæfi. Einn af fáum brestum í snilli höfundar er kannski að finna í kaflanum um heimkomu Auroru (s. 231) en ýmislegt þar, eins og fundur hennar með "guðsmanninum" Bob og móníkuleg "kænska" hennar í því sambandi, er ósannfærandi og skringilega berort; eins og maður sé allt í einu staddur í allt annarri bókmenntategund. Lokakaflarnir bæta hins vegar fyrir þetta og endirinn á bókinni er sterkur.
Geir Svansson
Laugardaginn 10. september, 2005 - Menningarblað/Lesbók
"Bréf frá týndri brúðu"
Eftir Torfa H. Tulinius tht@hi.is
Paul Auster gat ekki hugsað sér lífið án skrifa. Hann var lengi að fóta sig í þeirri list. Andlát föður hans markaði þar ákveðin tímamót en um hann skrifaði hann bók sem varð upphafið að stórmerkilegum ferli.Í nýjustu skáldsögu Austers, Brooklyn Follies, sem væntanleg er í íslenskri þýðingu Jóns Karls Helgasonar, er eftirfarandi saga lögð í munn einni persónu. Hún gerist á síðasta æviári Franz Kafka. Hann er orðinn helsjúkur og er fluttur til Berlínar með ástkonu sinni, Dóru. Eitt sinn þegar þau eru að spássera í almenningsgarði koma þau að grátandi telpubarni. Hún er búin að týna dúkkunni sinni, segir hún. Kafka svarar því til að dúkkan sé ekki týnd, heldur hafi hún farið í ferðalag. Þetta viti hann vegna þess að hann hafi einmitt fengið bréf frá henni í morgun. Ef telpan kemur aftur í garðinn á morgun skuli hann koma með bréfið og lesa það fyrir hana. Eitthvað stemmir þetta táraflóð stúlkunnar og hún segist koma næsta dag. Kafka fer heim og sest við að semja bréfið frá brúðunni og leggur sig allan fram. Næstu viku eða svo hittir hann stúlkuna á hverjum degi og í hvert sinn kemur hann með nýtt bréf frá dúkkunni. Smám saman dvín tregi telpunnar. Brúðan er að skapa sér nýtt líf á nýjum stað. Að lokum tilkynnir hún fyrrum eiganda sínum að hún hafi hitt dúkkustrák og að þau ætli að gifta sig. Hún muni því ekki skrifa framar og kveður. En þá er harmur stúlkunnar líka á bak og burt. Gapið sem hvarf dúkkunnar skildi eftir sig hefur verið fyllt af þessu nýja lífi, hugmyndinni um tilvist hennar annars staðar.
Ég veit ekki hvað Auster gengur til með frásögn þessari en það er freistandi að líta á hana sem dæmisögu um hlutverk bókmennta, ekki síst á trúlausum tímum eins og okkar. Eftir að raunvísindin ruddu burt þeim stoðum sem heimsmynd trúarbragðanna hvíldu á, og boðskapur kirkjunnar um líf handan hins jarðneska var komin í mótsögn við flest það sem vísindin hafa leitt í ljós, hefur mannkynið orðið fyrir viðlíka missi og litla telpan sem týndi dúkkunni sinni. Við höfum glatað hugmyndinni um eilíft líf og við blasir hið ægilega tóm dauðans. Sagan sem trúin sagði okkur um upprisuna og sigurinn yfir dauðanum huggar okkur ekki lengur. Til að breiða merkingu og mennsku yfir hina ægilega ómennsku dauðans þurfum við nýja sögu, eða sögur.
Skáldin og merking(arleysi) tilverunnar
Raunar má segja að allt frá dögum rómantísku stefnunnar hafi skáldin verið að reyna að fylla upp í þessa eyðu. Ímynd rithöfundarins eins og hún hefur birst okkur Vesturlandabúum undanfarnar tvær aldir hefur orðið til vegna þess að það vantaði einhvern til að fylla upp í það tóm sem trúin skildi eftir þegar guð yfirgaf hjörtu okkar. Skáld eins og Victor Hugo, Dostojevskí, Tolstoj, jafnvel Halldór Laxness, leituðust við að gæða heiminn merkingu í stað þeirrar sem við höfum glatað. Meira að segja absúrdistar eins og Samúel Beckett eru þó alltént að vekja okkur til vitundar um merkingarleysi heimsins, sem í sjálfu sér er að gæða hann merkingu.
Að mínu viti rísa fáir samtímahöfundar eins vel og Paul Auster undir því hlutverki bókmenntanna sem ég hef nú lýst, og það jafnvel þótt hann skrifi eftir að módernisminn hafði ráðist á hugmyndina um skáldið sem andlegan leiðtoga. Þá skiptir heldur ekki máli að hann skuli hafa verið flokkaður sem einn af helstu skáldum póst-módernismans, en sú stefna hefur verið tengd við afbyggingu höfundarhugtaksins og það að sífellt sé verið að benda lesandanum á að hann sé að lesa skáldverk. Þó vissulega megi finna þessi einkenni að meira eða minna leyti í öllum verkum Austers, þá eru þau langt yfir það hafin að vera marklaust fikt við þessar klisjur sem allir skilja. Þvert á móti getur maður engan veginn opnað bók eftir hann án þess að fá það á tilfinninguna að verið sé að segja manni eitthvað mikilvægt, eitthvað sem skiptir máli. En hvað?
Þeirri spurningu er ekki hægt að svara með einföldum hætti, en e.t.v. er hægt að nálgast svarið með því að benda á hina miklu og sterku þörf Austers til að tjá sig, til að binda í skáldskap reynslu sína af lífinu. En það var ekki tekið út með sældinni að vera heltekinn af þessari þörf. Í Hand to Mouth, frásögn sem Paul Auster birti 1997 þegar hann var orðinn fimmtugur, segir frá basli hans við að láta enda ná saman á fyrstu árum og áratugum rithöfundarferilsins. Þar til hann var kominn vel á fertugsaldurinn gekk ekkert upp hjá honum fjárhagslega. Reyndar þótti hann liðtækur þýðandi úr frönsku og ein ljóðabók hans hafði komið út á prenti, en það dugði ekki til. Hann var kvæntur og átti lítið barn og þurfti að framfleyta bæði sér og þeim. Því stendur hann frammi fyrir því að þurfa að hætta þeirri iðju sem hefur gefið lífi hans stefnu og merkingu frá unglingsárum. En eins og hann lýsir því svo vel í þessari látlausu en skemmtilegu sjálfsævisögu, hafði hann fram að því ætíð neitað að gefa sig að fullri vinnu, því hann gat ekki hugsað sér að fórna skrifunum. Hvað var það sem var svona mikilvægt við að bogra yfir blaði með penna í hönd dögum, vikum, mánuðum saman? Hvers vegna gat hann ekki hugsað sér lífið án þess að vera sífellt að skapa eitthvað úr orðum, jafnvel þótt enginn vildi lesa það?
Hér komum við að einni af þversögnum skáldskaparins. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri einstaklingsvinnu en starf rithöfundarins. Hann er einn með orðunum og reynir að smíða úr skynjun sinni, hugsun og reynslu veg til eigin sálar. En það merkilega er að leiðin þangað liggur einnig til annarra sálna. Því eins og við vitum öll, talar sú rödd sem kemur frá hjartanu beinast til okkar.
Uppfinning einsemdarinnar
Nú er Auster orðinn heimsfrægur höfundur og verk hans tala við þúsundir lesenda um gjörvallan heim. En það mátti litlu muna að hann gæfist upp fyrir nauðsyn þess að brauðfæða sig og sína og legði bókmenntirnar á hilluna. Þótt það hljómi kaldranalega var það dauði föður hans, Samuels Austers, sem bjargaði honum frá þessum örlögum. Hann hné niður einn góðan veðurdag og arfurinn sem féll í hlut Pauls dugði honum þar til að hann fór að geta lifað af skrifunum.
Það var einmitt bókin sem kviknaði af dauða föður hans sem varð til þess að hann öðlaðist loksins athygli gagnrýnanda og almennings. Hún kom út 1981 og heitir The Invention of Solitude. Þetta er sérkennileg bók, lausamálsverk en ekki skáldsaga. Fyrri hlutinn heitir Portrait of an Invisible Man, Mynd af ósýnilegum manni, og kom út á íslensku á síðasta ári í þýðingu Jóns Karls Helgasonar. Hún fjallar um ævi föður Austers en hefst á dauða hans.
Auster segir föður sinn ósýnilegan en það er ekki vegna þess að hann sá hann aldrei í bernsku. Foreldrar hans skildu ekki fyrr en hann var sautján ára og því bjuggu þeir undir sama þaki meðan hann var að vaxa úr grasi. Ástæðan var sú að Auster náði aldrei sambandi við hann. Þrátt fyrir þessi löngu kynni og þótt Auster hafi aldrei hætt að þrá ást föður síns var eitthvað við Auster eldri sem hélt honum til baka, eitthvað innra svæði sem engum var hleypt inn á. Hann lifði á yfirborðinu og er Auster á því að það sé vegna þess að hann var sjálfur ekki í sambandi við sjálfan sig. Því leið hann áfram í gegnum lífið, glutraði niður hjónabandinu, gat ekki myndað tengsl við börnin sín, átti bara kunningja og svo bræður sína. Þó allt gengi vel á yfirborðinu var hann tilfinningalegt draugaskip, stefnulaust og líflaust.
Þetta rennur upp fyrir Auster þegar hann kemur heim til föður síns til að ganga frá eigum hans. Svo lítið var eftir af þessu tómlega lífi að eftir örfáar vikur myndi það vera horfið af yfirborði jarðar. Hann ákveður að hann verði að skrifa um hann. Hann verður að bjarga föður sínum frá glötun. Meðan hann er að fara í gegnum dót hans kemur mynd upp í hendurnar á honum, mynd af föðurömmu hans. Hún situr úti í garði með börnunum sínum fimm, faðir Austers sem er yngstur situr í kjöltu hennar, nokkurra ára gamall snáði.
En það er eitthvað skrýtið við myndina. Hún hefur verið rifin og límd aftur saman en það vantar eitthvað í hana. Það rennur upp fyrir Auster að það sem vantar er sjálfur afi hans. Í ljós kemur að afi Austers, Harry Auster, austurrískur innflytjandi og fasteignasali í Kenosha í Wisconsin fylki, hafði farið frá konu sinni, ef til vill vegna annarrar konu. Hann var fluttur burt en ekki var búið að ganga frá skilnaðinum. Eitt kvöld kemur hann í heimsókn til að færa börnum sínum fatnað og dytta að ýmsu sem er í ólagi á heimilinu. Hjónin fara að rífast og það endar á því að konan tekur upp byssu og skýtur Auster sem fellur dauður til jarðar. Í nokkra daga heldur konan því fram að maður hennar hafi framið sjálfsmorð en verður að lokum að játa glæp sinn. Hún fær góðan lögfræðing sem byggir vörn sína á því að konan hafi ekki verð heil á geðsmunum þegar þetta gerðist, hún hafi brotnað undan álaginu að þurfa standa ein uppi í ókunnu landi og sjá fyrir fimm litlum börnum. Kviðdómurinn aumkar sig yfir hana, hún sleppur við refsingu, flytur með fjölskyldu sína til austurstrandarinnar og gerir sitt besta til að má burt minninguna um eiginmann hennar og hroðalegt dauðsfall hans. Þetta skýrir myndina.
Hvorki Auster né frændsystkinum hans er nokkurn tímann sagt frá því hvað gerðist og það er hrein tilviljun sem ræður því að þau komast að þessu löngu síðar. Feður þeirra hafa aldrei andað orði um þetta. Ef til vill er það til að faðir hans verði ekki fyrir sömu örlögum og afi hans, þ.e. að minningin um hann máist burt, sem Auster ákveður að skrifa, til að hann geti lifað áfram í minningunni, ef til vill vegna litla sonar síns sem hefur aldrei þekkt afa sinn en mun einhvern tímann þurfa á því að halda að vita hver hann var.
Seinni hluti bókarinnar heitir einmitt Book of Memory eða Bók minnisins. Tveimur mánuðum eftir dauða föður síns fer hjónaband Austers endanlega út um þúfur. Hann flytur frá konu sinni í litla íbúð á Manhattan. Hann saknar sonar síns og óttast að missa sambandi við hann. Tilhugsunin um það er óbærileg. Bók minnisins er að hluta til ferð í gegnum bókmenntir sem fjalla um samband föður og sonar, feður sem missa syni sína, syni sem missa feður sína, syni sem bjarga föður sínum til að geta lifað sjálfir. Þetta er nokkurs konar hugleiðing um þýðingu þess að eiga sér forfeður og afkomendur, að vera hlekkur í keðju og hvernig það hefur áhrif á mann sem einstakling. Einnig fjallar hún um mátt minnisins og hvernig það getur hjálpað manni að komast yfir sorgina. Það er táknrænt að hún hefst á eftirfarandi orðum: "Það var. Það verður aldrei aftur." En lýkur svona: "Það var. Það verður aldrei aftur. Mundu."
Drepinn úr dróma
Það er eins og Auster hafi verið leystur úr læðingi með þessari bók. Næsta áratuginn kemur út hvert afrekið í skáldsöguformi á fætur öðru. Það eru sögurnar þrjár sem mynda New York þríleikinn sem tryggðu honum þann stóra lesendahóp sem hefur ekki yfirgefið hann síðan. Upphaflega voru þetta þrjár sjálfstæðar skáldsögur, sem allar voru þýddar á íslensku á sínum tíma af Braga Ólafssyni og Snæbirni Arngrímssyni. Fyrst kom Glerborgin sem fjallar um glæpasagnahöfundinn Daniel Quinn sem þykist vera leynilögreglumaðurinn Paul Auster og er ráðinn af Peter Stillman yngri til að fylgjast með Peter Stillman eldri sem er nýlega laus af geðveikrahæli en hafði misþyrmt syni sínum hrottalega á árum áður. Svo komu Draugar, enn furðulegri saga um hr. Bláan sem er ráðinn af hr. Hvítum til að fylgjast með hr. Svörtum sem gerir ekkert annað en að skrifa allan daginn.
Loks er það magnaðasta sagan af þeim þremur, Lokað herbergi. Hún er að mörgu leyti flóknasta og erfiðasta sagan í Þríleiknum. Andstætt fyrri sögunum tveimur er hér um fyrstu persónu frásögn að ræða, söguhetjan er líka sögumaður. Hún er líka miklu nær þeim raunveruleika sem við eigum að venjast. Sögumaðurinn, sem við fáum reyndar aldrei að vita hvað heitir, er bókmenntagagnrýnandi í New York. Hann er tæplega þrítugur og hefur gefið frá sér fyrri vonir um að verða rithöfundur, er orðinn sáttur við þau áhrif sem hann getur haft sem bókmenntaskríbent. Einn góðan veðurdag fær hann bréf frá konu sem hann þekkir ekki en heitir Sophie Fanshawe. Hún er kona Fanshawes sem var æskuvinur sögumanns. Þeir ólust upp hlið við hlið og voru eins nánir og vinir geta orðið þar til leiðir skildu þegar þeir fóru hvor í sinn háskólann. Af einhverjum ástæðum misstu þeir sjónar hvor af öðrum.
Fyrir sex mánuðum síðan hvarf Fanshawe. Kona hans var þá komin sex mánuði á leið og full örvæntingar lét hún leita hans, réði meira að segja einkaspæjara en ekkert gekk. Fanshawe hlaut að vera látinn. Barnið fæddist og átti hug hennar allan fyrstu mánuðina en nú þarf hún að hitta sögumanninn vegna þess að Fanshawe bað hana um að leita til sögumannsins af ákveðnum ástæðum ef eitthvað kæmi fyrir hann. Sögumaðurinn hittir hana og heillast undir eins af fegurð hennar og líflegri framkomu og kemst að því hver ástæðan var fyrir því að hún leitaði til hans. Fanshawe, sem hafði alltaf verið sípárandi í bernsku, hafði haldið áfram að skrifa. Hann hafði aldrei haft áhuga á að gefa nokkuð út en sagt við Sophie konu sína að ef eitthvað kæmi fyrir hann skyldi hún biðja sögumanninn um það.
Sá síðarnefndi tekur að sér að skoða handritin og brátt rennur upp fyrir honum að bækurnar sem æskuvinur hans hefur samið eru slík meistaraverk að þau muni brjóta blað í bókmenntasögunni. Fanshawe er greinilega séní á sviði ritlistarinnar og hann á auðvelt með að fá útgefendur. Bækurnar vekja mikla athygli og sögumaðurinn fær fjórðung ritlauna en það var eitt af því sem Fanshawe hafði sagt við Sophie. Það gleður hann vissulega en það sem skiptir meira máli er að djúp og innileg ást tekst með honum og ekkju Fanshawes.
En brátt hrynur þessi fagra veröld sem sögumaðurinn hefur gengið inn í. Fanshawe skrifar sögumanninum til að segja honum að hann sé á lífi en hann eigi að leyna því og halda áfram að vera giftur konu hans og ala upp son hans. Sögumaðurinn gengst inn á þetta, svo viss er hann um að Sophie muni hætta að elska sig þegar hún kemst að því að Fanshawe er enn lifandi. Undir óttanum býr minnimáttarkennd. Hann er hræddur um að hann sé minni maður en Fanshawe í augum Sophie, heyrir ekki það sem hún er alltaf að segja honum, þ.e. að hún elski hann miklu meira en hún elskaði Fanshawe. Í stað þess að trúa henni fyrir því, verður sú staðreynd að Fanshawe er enn á lífi að viðureign sögumannsins við sjálfan sig, eða ef til vill við tvífarann í sjálfum sér. En þessi viðureign fer fram í undirvitundinni því sögumaðurinn getur ekki horfst í augu við það sem er að koma fyrir hann. Upp hefst hræðileg martröð sem nærri því leggur hjónaband og líf sögumannsins í rúst.
New York þríleikurinn er einstakt listaverk. Það er í senn hluti af langri hefð í bókmenntunum þar sem það byggir á hinu sígilda tvífaraminni en um leið mjög nýstárlegt. Nýstárleiki þess felst ekki síst í því hvernig Auster vinnur markvisst að því að tengja sögurnar þrjár saman þannig að úr verði heild sem flytur okkur merkingu sem ekki væri hægt að koma til skila á annan hátt. Sögurnar þrjár bergmála hver aðra með ýmsum hætti þar sem minnst er á bækur, eða bæjarhluta eða persónur í einni þeirra sem einnig koma við sögu í annarri. Það sem er ef til vill markverðast er þó hvernig Auster hefur komið sjálfum sér fyrir í sögunni. Hann hikar ekki við að setja sjálfan sig á svið í fyrstu bókinni en það er ekki bara það. Persónur heita eftir börnum hans: Daniel Quinn ber sama skírnarnafn og sonur hans. Sophie Fanshawe sama og dóttir hans. Einnig hefst frásögn Drauga á fæðingardegi Austers sjálfs, 3. febrúar 1947. Margir helstu æviþættir Fanshawes, vinna á olíuskipum, dvöl í Frakklandi, vetur í Suður-Frakklandi þar sem hann passar hús fyrir efnaða Ameríkana, endurspegla æviatriði Austers. Þegar sögumanninum í Lokuðu herbergi tekst loks að losna undan Fanshawe og verða að manni aftur fæðist honum sonur sem fær nafnið Paul, eins og Auster. Þarna er verið að tengja endurfæðingu sögumanns við einhvers konar endurfæðingu Pauls Austers sjálfs, ef til vill fæðingu hans sem skáldsagnahöfundar. Að auki fæðist drengurinn 23. febrúar 1981, en Auster hefur sagt að það sé dagurinn sem hann kynntist konu sinni Siri Hustvedt og hóf nýtt líf.
Persónulegur heimur, frjór og víðfeðmur
New York þríleikurinn er afskaplega persónuleg bók. Ganga má svo langt að kalla hana eins konar einkagoðsögn, sem virðist hafa opnað Auster leið að sjálfum sér og einnig losað um skáldsagnaritun hans. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru síðan Glerborgin kom út, hafa skáldsögur hans orðið tólf talsins, auk fjölda ritgerða, sjálfsævisögulegra skrifa og kvikmyndahandrita. Auster hefur einnig leikstýrt tveimur kvikmyndum og mun sú þriðja vera í vinnslu. Hver saga er einstök og þótt ævinlega sé hægt að þekkja handbragðið og mörg þemu skjóta upp kollinum aftur og aftur, þá býr Auster yfir miklum endurnýjunarkrafti. Það er alltaf ævintýri að opna nýja bók eftir hann, leggja við hlustir og heyra það sem hann hefur að segja við okkur um heiminn og hvernig það er að vera manneskja í honum.
Paul Auster les úr verkum sínum í Iðnó á fimmtudag kl. 20 og ræðir um verk sín við Torfa Tulinius í Norræna húsinu daginn eftir kl. 15.
Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldafræðum við Háskóla Íslands.
Fimmtudaginn 15. september, 2005 - Innlendar fréttir
Skil ekki hvaðan bækurnar koma
Ég skil í raun og veru ekki hvaðan bækurnar mínar koma," segir bandaríski rithöfundurinn Paul Auster í viðtali við Morgunblaðið en hann er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. "Ég skil ekki hvernig hugmyndirnar verða til.
Ég skil í raun og veru ekki hvaðan bækurnar mínar koma," segir bandaríski rithöfundurinn Paul Auster í viðtali við Morgunblaðið en hann er gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík. "Ég skil ekki hvernig hugmyndirnar verða til. Það gerist einhvers staðar djúpt í undirvitundinni. Bækurnar eru allar skrifaðar af ósjálfráðri hvöt. Ég get í rauninni ekki útskýrt það."
Paul Auster segist líta á nýja skáldsögu sína, The Brooklyn Follies, sem gamansögu í þeim skilningi að flestar persónur hennar eru betur settar í lok hennar en þær voru í upphafi hennar. Bókin er komin út í Frakklandi en er væntanleg í Bandaríkjunum í október og í íslenskri þýðingu á næsta ári.
Í bókinni er að finna marga af þeim þráðum sem liggja í gegnum höfundarverk Austers. Hann segir sjálfur að allt sem hann skrifi sé tengt.
"Ég reyni að nálgast hverja bók út frá nýju sjónarhorni, ég reyni að ganga þvert á það sem ég hef áður gert, en einhvern veginn enda ég alltaf innan í sjálfum mér."
Einn þessara þráða er tilviljunin sem Auster segist vera heltekinn af. "Ég er ekki að segja að allt sem gerist sé tilviljunum háð. Við veljum og skipuleggjum fram í tímann, við mótum þarfir okkar og þrár. En það vita allir að umhverfið hefur áhrif á val okkar og skipulag og þarfir okkar og þrár. Og það er einmitt þegar þessir tveir heimar, sá innri og ytri, skella saman sem eldglæringar myndast og sögur verða til," segir Auster.
--------------------------------------------------------------------------------
Þriðjudaginn 20. september, 2005 - Bókmenntir
Á vissan hátt endaði bernska mín á Íslandi
Þegar rithöfundurinn Siri Hustvedt var þrettán ára dvaldist hún sumarlangt á Íslandi. Hún sagði Einari Fal Ingólfssyni frá bóklestri við Hávallagötu, upplifunum á sögustöðum og skilningi sínum á listinni.
Bandaríski rithöfundurinn Siri Hustvedt, sem var einn gesta Bókmenntahátíðar, segir bernsku sína hafa endað á Íslandi, eitt sumar seint á sjöunda áratugnum. Hvernig skyldi standa á því?
Hustvedt sest fram í leðurstólinn í setustofunni á Hótel Holti, sýpur á kaffinu, brosir og segist fagna því að vera loksins komin aftur til Íslands. Segir það hafa staðið til í mörg ár að hún og eiginmaðurinn, rithöfundurinn Paul Auster, skoðuðu söguslóðir hennar í Vesturbænum. Svo hefst sagan:
"Þegar ég var þrettán ára vorum við fjölskyldan einn vetur í Bergen í Noregi en faðir minn var þar í rannsóknarleyfi." Þess ber að geta að foreldrar Hustvedt voru norskir og móðurmál hennar er norska, en hún fæddist og ólst upp í Minnesota-ríki, þar sem faðir hennar kenndi norsku við St. Olaf College, þar sem hún lagði síðar stund á nám í sögu. En áfram með frásögnina.
"Faðir minn var að rannsaka Íslendingasögurnar og um sumarið fékk hann styrk til að koma til Íslands. Við komum til Reykjavíkur um vorið og leigðum hús við Hávallagötu. Nú langar mig til að finna þetta hús. Áður en ég flaug hingað hringdi ég í móður mína og spurði hana um númerið á húsinu en hún mundi það ekki. Faðir minn, sem er látinn, hefði munað það. Hann gleymdi engu.
Þetta var eitt yndislegasta sumar sem ég hef lifað. Faðir minn fór með okkur í ferðir út í sveit, að skoða gamla sögustaði, staði sem koma fyrir í Íslendingasögunum. Stundum ók hann að einhverjum stað þar sem voru engin skilti, engar byggingar, en hann hafði lesið sér til og vissi nákvæmlega hvert hann átti að fara; hann lét okkur stíga út úr bílnum og sagði okkur frá atburðum sem höfðu átt sér stað þar sem við stóðum. Hann útskýrði sögurnar fyrir okkur, stundum voru þetta blóði drifnir og hræðilegir atburðir, og við vorum alveg dolfallin yfir atburðarásinni.
Ég man vel þegar pabbi sýndi okkur hvar Snorri lét lífið og sagði okkur söguna af þessari hrottalegu aftöku.
En það var líka þetta sumar sem ég gerði mér grein fyrir því að ég gæti lesið svo að segja hvað sem er. Nú er vitað að einskonar umbreyting á sér stað í heila unglinga, venjulega um 14 ára aldur, þegar skyndilega verður aukinn skilningur á abstrakt hugsun og vitrænum tengingum. Það gerðist hjá mér þetta ár og ég fór á bókasafnið hér og tók út bækur sem móðir mín hafði mælt með. Faðir minn var að rannsaka sögurnar og móðir mín að útbúa fyrir mig leslista, aðallega með enskum skáldsögum frá 19. öld. Ég las og las og las. Þetta sumar las ég David Copperfield, Jane Eyre, Greifann af Monte Christo, Hroka og hleypidóma, hverja frábæru bókina á fætur annarri.
Fannst sem ég gæti aldrei aftur skrifað skáldskap
Í janúar kemur út greinasafn eftir mig, þar segi ég söguna af því þegar ég var á Íslandi og las og las. Um tíma var svo bjart á næturnar og þá átti ég í fyrsta skipti bágt með svefn. Ég vakti því og las og man eftir áhyggjunum yfir því að geta ekki sofnað. Ég man eftir því að hafa farið út að glugganum, sem var á bakhlið þessa húss, og horft yfir þögla en samt uppljómaða borgina. Ég hef svo oft hugsað um þessa sýn, og velt fyrir mér hvers vegna hún birtist mér aftur og aftur, en núna skil ég að þetta kemur alltaf aftur til mín, því ég gerði mér grein fyrir því að þetta var endirinn á bernsku minni. Á vissan hátt endaði bernska mín því á Íslandi. Sem er afar persónuleg upplifun en mikilvægur viðburður tilfinningalífinu.
Ég minnist tiltekinna daga á Íslandi. Ég minnist þess að hafa farið út í sveit og litirnir voru grænir, svo undur grænir og svo ógurlega svartir" - hún lækkar róminn og lygnir aftur augunum - "og blár himinn. Svo einfaldar en berangurslegar litaandstæður. Það hafði ótrúlega mikil áhrif á mig."
Siri Hustvedt hefur skrifað þrjár skáldsögur sem allar hafa vakið umtalsverða athygli og verið þýddar á fjölda tungumála. Fyrsta skáldsagan, Blindfold, kom út árið 1992, The Enchantment of Lily Dahl, 1996, og What I Loved kom út árið 2003. Áður hafði Hustvedt sent frá sér ljóðabókina Reading to You árið 1982. Þá hefur hún gefið út tvö greinasöfn með umfjöllun um myndlist, Yonder, 1998, og Mysteries of the Rectangle sem kom út í síðustu viku. En ákvað Hustvedt þegar á unga aldri að verða rithöfundur?
"Það gerðist hérna, eftir að ég las David Copperfield! Ég man ég hugsaði, þetta vil ég gera. Héðan fórum við aftur heim til Minnesota og þar var þetta litla staðarfréttablað og í hverri viku var viðtal við einhvern ungling, ljósmynd af honum og spurt um áhugamálin. Ég upplýsti lesendur þessa blaðs um það að ég hygðist verða rithöfundur. Einhverjir brostu en sá hlær best sem síðast hlær," segir hún og leggur höndina á bækur eftir sig sem eru á borðinu.
"Þar á undan hafði ég lengi ætlað mér að verða myndlistarmaður."
- En þú hefur líka komið að myndlistinni í skrifum.
"Það er rétt, ég sinni myndlist í dag en á annan hátt en ég ætlaði upphaflega. Nú skrifa ég um málverk. Þegar ég skoða málverk þá skissa ég þau oft á tíðum, ég finn fyrir þeim með höndunum. Það er ekki eins og ég geri fallegar teikningar en ég móta formin, tilfinninguna að baki, þannig að glósurnar mínar eru oft þaktar þessum litlu skissum. Á þennan hátt skil ég verkin betur."
Myndrænt ímyndunarafl
Við Hustvedt hittumst fyrst á norrænni ljóðahátíð í New York fyrir þrettán árum og ég minnist þess að heyra hana lesa ljóð og hluta af fyrstu skáldsögu sinni og þar gerði hún mikið af því að draga upp myndir með orðum.
"Ég hef mjög myndrænt ímyndunarafl. Þegar ég er að skrifa sé ég alltaf aðstæðurnar og fólkið fyrir mér. Það er ákveðin skörun milli þessara heima. Og ég man eftir bókum í myndum."
Hún fer að segja frá því hvernig hún skrifar, að hún hafi tilhneigingu til að treysta því fyrsta sem hún setji á blað og hafi alltaf unnið með flæði sem hún viti varla fyrr en í lokin hvert muni leiða sig. Hún vinni nú að nýrri skáldsögu og þar vinni hún í fyrsta skipti með framvindu sem hún hafi sett niður á blað fyrirfram.
"Eftir að ég lauk við síðustu skáldsögu, What I Loved, var ég örmagna og fannst sem ég gæti aldrei aftur skrifað skáldskap. Ég gæti ekki aftur leitt tilbúnar persónur fram fyrir annað fólk, þá fór ég að skrifa greinar og ritgerðir. Ég hef afskaplega gaman af slíkum skrifum og ég hélt mér alfarið við það um tíma, þar til ég var farin að hugsa svo mikið um söguna og fólkið sem verður í nýju bókinni að ég varð að byrja að skrifa. Mig dreymir persónurnar og hvað kemur fyrir þær, ég heyri þær tala, en ég þarfnast alltaf svona aðlögunartíma. Það tók mig sex ár að skrifa síðustu bók - ég trúi því varla sjálf hvað langur tími fór í verkið. Ég skrifaði hana fjórum sinnum upp frá byrjun. Það var svo sannarlega kvalafull reynsla," segir hún, hlær og hristir höfuðið. Sýpur svo aftur á kaffinu.
Listir afhjúpa sannleikann
"Ég upplifi karaktera í sögum bara svo sterkt, hvort sem ég skrifa þá eða les. Þegar ég var í framhaldsnámi í Columbia-háskóla man ég eftir að hafa grátið við að skrifa um Djöflana eftir Dostojevskí; það er auðvitað fáránlegt að vera að gráta yfir slíku í skóla, en ég sökkvi mér bara svona niður í söguheiminn. Ég fyllist ástríðu fyrir sögunni, fyrir fólkinu í henni..."
-...er þetta ekki galdurinn við góðan skáldskap?
"Jú! Þegar ég las David Copperfield heima á Hávallagötu var ég alveg í tætlum tilfinningalega. Ég þjáðist svo með David að ég snökti. En það var yndislegt. Slík listræn upplifun er bæði persónuleg og sammannleg, þetta er mjög áhugaverð upplifun. Listin afhjúpar sannleikann, flytur hugsanir milli manna og er birtingarmynd fyrir þá þrá sem býr í brjóstum okkar. Þess vegna er list ekki það sem fólk hugsar oft að hún sé, eintóm afþreyingariðja, hún er hluti af mannlegri löngun og á sér rætur í sálum okkar.
Þetta er ákveðin rómantík en ég trúi því að svona sé þetta.
Listir eru mannleg þörf. Við höfum heyrt svo margar sögur sem staðfesta þetta; eins og úr útrýmingarbúðum nasista, þar sem fólk fór með ljóð og söngva fyrir hvað annað. Ekki sem einhvern munað heldur sem minningu um sammannlega upplifun, vegna mennskunnar sem birtist í listinni. Listin tengir okkur saman."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.