Föstudagur, 7. desember 2007
Barndómur e. J. M. Coetzee
J. M. Coetzee, frá Suður-Afríku til Ástralíu
Coetzee fæddist í Höfðaborg, Suður-Afríku, árið 1940. Faðir hans var lögfræðingur og móðir hans grunnskólakennari. Eins og svo fjölmargir af íbúum S-Afríku, þá rekur Coetzee ættir sínar aftur til hollenskra landnámsmanna. Coetzee lauk gráðu í stærðfræði og ensku í Höfðaborgarháskóla og lagði svo leið sína til London þar sem hann vann um tíma sem tölvuforritari. Bækurnar Boyhood og Youth eru einmitt byggðar annars vegar á uppvexti hans í Höfðaborg og hins vegar dvöl hans í London. Í bókinni Youth segir frá manni sem kemur til London í þeirri von að þroskast sem ljóðskáld og finna konu drauma sinna en verður þess í stað að sætta sig við tölvuforritun.
Coetzee hélt svo til Austin, Texas, þar sem hann lauk doktorsgráðu í málvísindum. Í framhaldi af því kenndi hann ensku og bókmenntir í New York en 1971 sneri hann aftur til S-Afríku eftir að hafa verið synjað um langvarandi landvistarleyfi í Bandaríkjunum vegna þátttöku í mótmælum gegn stríðinu í Víetnam. Coetzee var prófessor í enskum bókmenntum við Höfðaborgarháskóla fram til ársins 2002 er hann hætti störfum fyrir aldurs sakir. Þá fluttist hann til Adeleide í Ástralíu og fékk sérstaka heiðursnafnbót við háskólann þar.
Árið 2006 hlaut Coetzee ástralskan ríkisborgararétt við hátíðlega athöfn að viðstöddum innanríkisráðherra Ástralíu. Hann sagðist hafa orðið heillaður af fegurð landsins og því frelsi og örlæti sem einkennir íbúa þess.
Meira á vef RÚV Coetzee og Diary of a Bad Year
Laugardaginn 17. desember, 2005 - Menningarblað/Lesbók
Að gnísta tönnum og þrauka
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is
"Ekkert sem hann reynir í Worchester, hvort sem er heima eða í skólanum, fær hann til að hugsa að bernskan snúist um annað en að gnísta tönnum og þrauka."
Barndómur nefnist sjálfsævisaga suður-afríska nóbelshöfundinn J.M. Coetzee sem nú er komin út í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Bókin lýsir tilgangslausu ofbeldi í samfélagi aðskilnaðar og erfiðum samskiptum drengs við föður og móður en einnig tilurð skálds.
J.M. Coetzee er annar tveggja suðurafrískra rithöfunda sem hafa hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum síðustu fimmtán ár. Coetzee hlaut þau 2003 og Nadine Gordimer 1991. Bæði eru þau fulltrúar svokallaðra eftirlendubókmennta eða höfunda fyrrum nýlendna og bæði hafa þau gert aðskilnaðarstefnu heimalandsins að meginumfjöllunarefni sínu, þó með ólíkum hætti. Gordimer hefur tekið borgarastríðið sjálft til umfjöllunar í bókum sínum og verið harður gagnrýnandi þess á opinberum vettvangi. Coetzee lætur hins vegar lítið á sér kræla í opinberri umræðu og skrifar bækur sem eru frekar eins og afsprengi aðskilnaðarstefnunnar en bein gagnrýni á það. Skáldsagan Life and Times of Michael K (1983) - líklega hans þekktasta verk, aflaði honum Bookerverðlaunanna og sennilega ein helsta ástæða Nóbelsverðlaunanna - er gott dæmi um þetta en hún lýsir hinum sérkennilega Michael K sem reynir að komast undan borgarastríðinu en tekst það illa vegna þess að hann virðist alltaf flækjast inn í það með einhverjum óskiljanlegum hætti og stendur á endanum uppi eins og peð í valdatafli sem hann á engan beinan þátt í. Bókin hefur verið lesin sem kafkaísk nálgun við áhrif stríðsins þar sem firring borgarans gagnvart yfirvaldinu er algjör og má líta á K-ið í nafni söguhetjunnar sem ákveðna leiðbeiningu um þann lestur. Sjálfsævisaga Coetzees, Barndómur (Boyhood 1997), sem nú er komin út í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar í Neon-flokki Bjarts, nálgast einnig aðskilnaðarstefnuna en þar lýsir hann æsku sinni í þriðju persónu á árunum í kringum 1950 þegar aukin harka var að hlaupa í kynþáttapólitík Suður-Afríku.
Tilgangslaust ofbeldi
John Michael Coetzee er fæddur í Höfðaborg í Suður-Afríku árið 1940. Ungur flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til bæjarins Worchester skammt frá Höfðaborg en þar gerist meginhluti Barndóms. Foreldrar hans voru millistéttarfólk af afrískum ættum sem kaus þó frekar að telja sig til Englendinga og ala börnin sín upp á enskri tungu frekar en afrískri. Í Barndómi má greina blendnar tilfinningar til þessa fyrirkomulags, drengurinn hefur til dæmis ekki fullan aðgang að hinum afríska heimi vina sinna sem útilokar hann að vissu leyti en á hinn bóginn vill hann ekki tilheyra þeim því hann deilir ekki með þeim þeirri óbilgirni, stífni og hótun um líkamlegt ofbeldi sem þeir sýna með fasi sínu. Þetta tengir hann beinlínis tungumálinu: "Þeir beita tungumálinu eins og barefli gegn óvinum sínum." Næm tilfinning drengsins fyrir tungumálinu er eins og leiðarstef í gegnum bókina. Hann heldur til dæmis með Rússum í kaldastríðinu vegna þess að R er uppáhaldsstafurinn hans í stafrófinu og sá sterkasti. Hann týnir sér líka í bóklestri og í yfirmáta samviskusamlegum skólalærdómi sem gerir hann nánast alltaf hæstan í bekknum. En þessi bóklegi heimur er iðulega rofinn af truflandi veruleika allt um kring, bæði erfiðu sambandi foreldranna og aðstæðum í samfélaginu sem virðist gegnsýrt af ofbeldi. Bókin hefst á lýsingu á því hvernig móðirin reynir að fá hænur sínar til að verpa aftur með því að skera í tungur þeirra. Ekki kemur fram hvort þetta ber árangur en atburðurinn verður táknrænn fyrir allt það tilgangslausa ofbeldi sem einkennir samfélagið sem drengurinn elst upp í. Í öðrum kafla er lýst hvernig börnin eru barin í skólanum fyrir minnstu sakir, öll nema söguhetjan því hann er til fyrirmyndar og með hæstu einkunnirnar. Fyrir vikið er hann öðruvísi og utangarðs, hann fær að kenna á því hjá föntunum í skólanum og yfir öllu og allt um kring svífur andi aðskilnaðarins þar sem réttlæti og góðmennska eru fótum troðin. Hann kannast ekki við lýsingar bóka á bernskunni sem tíma "fölskvalausrar gleði": "Ekkert sem hann reynir í Worchester, hvort sem er heima eða í skólanum, fær hann til að hugsa að bernskan snúist um annað en að gnísta tönnum og þrauka."
Áhrifaríkasti hluti sögunnar er lýsingin á mótsagnakenndu sambandi drengsins við móður sína og föður. Hann á sér leyndarmál sem eru bræðisköst hans út í móður sína. Hann fyrirlítur hana og lítur niður á hana en dáir í senn. Hann þráir ást hennar en þolir samt ekki hvað hún er alltumvefjandi. Hann vill að hún elski hann meira en yngri bróður sinn en þráir jafnframt að losna undan vökulu auga hennar. Þessi keppni við bróðurinn um ást móður hans brýst út með ofbeldisfullum hætti þegar drengurinn mélar fingur yngri bróður síns í maískvörn. Hann er í raun uppstökkur harðstjóri á heimili sínu og sýnir þar undarlegt grimmlyndi þótt hann sé eins og lamb í skólanum. Hann er einnig grimmur og mótsagnakenndur í dómum sínum um föðurinn. Hann vill að faðir hans berji hann og geri hann að venjulegum strák, eins og segir í sögunni: "Samt veit hann að ef faðir hans dirfðist að slá hann, mundi hann ekki unna sér hvíldar fyrr en hann hefði náð fram hefndum." Þegar faðir hans missir fótanna undir lok bókar, ekki síst vegna þjóðfélagsaðstæðna, fellur fyrir bakkusi og verður sekur um að misfara með peninga, afneitar drengurinn honum, kallar hann þennan mann fullur af hatri: "Hvers vegna þurfum við að eiga eitthvað saman við þennan mann að sælda?"
Það yrði myrkara
Í eftirmála þýðingarinnar segir Rúnar Helgi að Barndóm mætti lesa sem skáldævisögu. Í raun mætti ganga svo langt að segja að bókin sé inngangur að þeim skáldverkum sem drengurinn sem sagan segir frá átti eftir að skrifa, bókin skýrir á vissan hátt myrkrið í þeim bókum, útilokunarkenndina, firringuna.
Drengurinn í Barndómi hefur reyndar orð á því að ef hann fengi að skrifa eitthvað annað en stíla um sumarfríið eða íþróttir og umferðaröryggi í skólanum þá yrði það myrkara, "og mundi dreifa sér stjórnlaust yfir síðuna, eins og blek sem hellist niður. Eins og blek sem hellist niður, eins og skuggar sem skjótast yfir lygnan vatnsflöt, eins og elding sem leiftrar um himininn". Þarna var að verða til höfundur sem var hættur að gnísta tönnum og reyna að þrauka.
Coetzee hefur gefið út aðra bók um ævisögu sína sem nefnist Youth (2002). Þar eru árin milli 19 og 24 til umfjöllunar þegar skáldskaparþörfin kviknar fyrir alvöru. Vonandi þýðir Rúnar Helgi líka þá bók.
Þriðjudaginn 22. nóvember, 2005 - Bókablað
BÆKUR - Skáldsaga
Svarthvítur heimurBarndómur eftir J.M. Coetzee. Íslensk þýðing: Rúnar Helgi Vignisson. 174 bls. Bjartur. Reykjavík, 2005
Skáldsögur nóbelsverðlaunahöfundarins J.M. Coetzee hafa jafnan verið myrkar og miskunnarlausar. Hvort tveggja má greina í sjálfsævisögu hans, Barndómi, sem þýdd er á íslensku af Rúnari Helga Vignissyni. Hér hefur þó myrkrið umbreyst í nær áþreifanleg átök tveggja andstæðra lita þar sem annar stendur fyrir valdbeitingu og kúgun. Veröld sögunnar er tvískipt og söguhetjan, staðgengill Coetzee, stendur klofvega á landamærum þess svarta og hins hvíta. Hörundslitur mótar lifaðan veruleika og gjáin þar á milli virðist óyfirstíganleg.
Bókin á sér stað í Suður-Afríku skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldar og lýsir uppvaxtarárum Coetzee í bænum Worchester, afskekktum og fátækum bæ inni í meginlandinu, langt frá Höfðaborg. Líkt og í flestum barndómssögum ganga fjölskyldumeðlimir í helstu aðalhlutverk og samband söguhetjunnar við foreldra sína er hér í forgrunni. Og reynist það flókið með eindæmum.
Faðirinn, dálítið eins og í freudísku skýringarmódeli, er ógnandi og óvelkominn í veröld barnsins sem hefur bundist móður sinni miklum tilfinningaböndum. Móðirin reynist reyndar ein minnisstæðasta persóna bókarinnar, mikilfengleg í fórnfýsi sinni en líka harmræn og illskýranleg. Faðirinn er á yfirborðinu hin fullkomna fyrirmynd; íþróttamaður, veiðimaður og ábyrgur samfélagsþegn. Að baki ímyndarinnar leynast þó ýmsar brotalamir, og útskýrir söguhetjan illvild sína í garð föðurins með því að lýsa því hvernig hann sér í gegnum leikaraskapinn. Sem gerir hnokkann ótrúlega skarpskyggnan miðað við tíu ára aldur.
Móðirin er kæfandi samhliða því sem hún er akkerið sem heldur stráknum í jafnvægi. Hún er í senn mikilvægasta persónan í lífi hans, ástin sem hann ber til hennar fer ekki milli mála en á sama tíma virðist sjálfsmynd- og mótun hans miðast við að skapa fjarlægð milli eigin sjálfsveru og væntinga hennar. En þroskaferli þetta er að sumu leyti viðfangsefni bókarinnar.
Og sem slíkt er það þyrnum stráð. Snemma í bókinni segir höfundur um söguhetjuna: "Ekkert sem hann reynir í Worcester, hvort sem það er heima eða í skólanum, fær hann til að hugsa að bernskan snúist um annað en að gnísta tönnum og þrauka." Nokkru síðar bætir hann við: "Það virtist alltaf eitthvað fara úrskeiðis." Hér er ekki of djúpt í árinni tekið. Sagan sem við hlustum á er samfelld saga ósigra, auðmýkingar og vonbrigða. Æskan er hreinsunareldur og prófraun, en skortir þó það skýra viðmið sem þessir tveir hlutir fela í sér. Hvorki himnaríki né diplóma virðist í nánd.
Hér komum við aftur að miskunnarleysi Coetzee. Hann hlífir engum, hvorki fjölskyldu sinni né sjálfum sér. Og þar vekur sérstaka athygli, í ljósi þess að almenn sátt virðist ríkja um að um ævisögu sé að ræða, að sagan er sögð í þriðju persónu og í nútíð. Þetta er gríðarlega merkingarþrungin og óvenjuleg ákvörðun þegar að forminu kemur. Áhrifin eru að sumu leyti að skapa fjarlægð, nokkuð sem ekki er algengt markmið þegar að ævisögum kemur. Mér sýnist þó tilætlun þessara stílbragða miðast frekar við að grafa undan mörkunum sem skilja milli ævisagna og skáldsagna. Með því að vísa til sjálfs sín í þriðju persónu (þegar Coetzee nafnið ber loks á góma kemur það manni hálfpartinn á óvart) er Coetzee að skáldgera sjálfið. Úr eigin minningum mótar hann söguhetju sem er hann sjálfur en er samt ólíkur. Áhrifin eiga þó ekkert skylt við firringu heldur frekar eitthvað í líkingu við þann samruna rithöfundar og frásagnarraddar sem Rilke lýsti einu sinni sem svo að öll skrif væru að einhverju leyti játningar. Þær umbreytingar sem felast í frásagnarvæðingu ævinnar eru gerðar áþreifanlegar, þær eru gerðar að viðfangsefni bókarinnar.
En þótt bókin sé að sumu leyti þroskasaga er ómögulegt að skilja vitundarferli söguhetjunnar frá þeim veruleika sem við blasir í Suður-Afríku. Samband "kynþátta" myndar í senn bakgrunn frásagnarinnar og þann leyndardóm sem söguhetjan, verandi ungur að árum, getur ekki fullkomlega skilið. Nýkominn af veiðum reynir "hann" að fá litaða vinnumenn á ættaróðalinu til að laga byssuna. Þeir færast undan og þora ekki að koma nálægt vopninu. Hann er undrandi og spyr foreldra sína hverju sé um að kenna. Svarið er að "þeir vita að þeir mega" ekki snerta skotvopn. Í smáatriðum sem þessum felst heill heimur af pólitík, sögu og kúgun. Annars staðar reynist menntun höfundar allt að því galli. Coetzee er bókmenntaprófessor og þekking hans á bókmenntasögunni skín stundum óþægilega í gegn. Þannig er atriði þar sem söguhetjan heldur upp á afmælið sitt inni á veitingastað með því að borða ís, en verður síðan fyrir truflun vegna þess að fátæk blökkubörn hanga við gluggann og horfa inn, hálfendaslepp endurtekning á ljóði eftir Baudelaire.
Þýðing Rúnars Helga virkar vel, og þetta er sagt án þess að samanburður hafi verið gerður milli þýðingar og upprunatexta. Frásagnarröddin er samkvæm sjálfri sér og sú lýsingarnákvæmni sem jafnan einkennir Coetzee skilar sér vel á íslensku. Titill bókarinnar truflaði mig þó að sumu leyti. Gegnumgangandi viðfangsefni bókarinnar er hversu ómótaðar kynferðislegar hvatir söguhetjunnar eru, þær eru flöktandi og líða milli ólíkra viðfanga og skiptir þar ekki öllu máli hvort viðfangið sé karlkyns eða kvenkyns. Kynbinding frásagnarraddarinnar er þó augljós í upprunalega titlinum, Boyhood, en tapast, og þar með tapast ákveðin gagnrýnin vídd, í kynlausri þýðingunni, Barndómur.
Björn Þór Vilhjálmsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.