Laugardagur, 8. desember 2007
Undantekningin e. Christian Jungersen
Höfundur: Christian Jungersen Þýðandi: Ólöf Eldjárn
Á Upplýsingastofu um þjóðarmorð í Danmörku vinna fjórar konur. Þegar tvær þeirra fá nafnlausar líflátshótanir rennur upp fyrir þeim að starf þeirra gæti stofnað þeim í lífshættu: Ef til vill hefur stríðsglæpamaður sett þær á dauðalista sinn.
En hvaðan koma hótanirnar? Viðbrögð vinnufélaganna benda til að engin þeirra sé öll þar sem hún er séð. Sjálfar breytast þær líka og erfitt er að segja til um hverjir eru fórnarlömb og hverjir böðlar. Eftir því sem sögunni vindur fram kemur í ljós að vinnustaðurinn er vettvangur eineltis og baráttu upp á líf og dauða. Sú mannvonska og illska sem þær hafa fengist við úr öruggri fjarlægð í Kaupmannahöfn er líka til í þeirra eigin heimi.
Undantekningin er mögnuð saga um hin mörgu andlit ástarinnar og illskunnar. Hún er margföld metsölubók í Danmörku og víða um heim, rómuð jafnt af lesendum sem gagnrýnendum og hlaut dönsku bóksalaverðlaunin ?Gylltu lárberin? árið 2004, auk bókmenntaverðlauna Danska ríkisútvarpsins.
Reader's Guide
- The Exception is a novel about the workplace and it is a thriller. Do you feel that murder and death threats help to illustrate its issues of ostracism, maliciousness, and self-delusion or do you feel thriller elements takes away from those concerns?
- The books structure is divided into parts which alternate between the perspectives of each of the four female protagonists. As we, in turn, follow Iben, Malene, Anne-Lise, and Camilla, we realize that their perceptions of what is going on are mutually exclusive. Do you agree that one and the same reality can give rise to such irreconcilable understandings?
- After reading each of their points of view, how does your own perception of each of the women change?
- Iben and Malene write articles about the genocides of the twentieth century in which they examine the psychology of the perpetrators. How do their articles, which appear in the novel, further your understanding of the characters and their actions?
- How does Anne-Lises work life affect her family life and vice versa? What might Anne-Lise have done to avoid her situation?
- Do you think the conflicts would be different if the four main characters were men? What if their boss were female?
- Do you see your work experiences, or those of people close to you, in a different light?
- Why do you think Camilla is so passive? What are the deeper secrets that she is hiding? How is her marriage to Finn a struggle for survival?
- Why does Iben hold a bleak view of mankind? Do you find that her philosophy has been undermined by the end of the novel? Do you agree, as Anne-Lises doctor says that victimizing others is part of human nature? What might make us think otherwise?
- Are you 100% sure who committed the murder?
- The Exception portrays the psychological games the women play with each other and with themselves. In what ways are the psychological mechanisms they use to deny or justify their actions similar to the behavior of genocide perpetrators?
- To whom or what does the exception of the title refer? At what point in the novel is that made apparent? How does that inform the events in the novel?
- Do you believe that our understanding of how ordinary people can commit genocidal atrocities risks our ability to recognize and deter genocides from occurring and taking a hard-line on the punishment of war criminals? Or do you believe this understanding is imperative for future prevention of genocides?
BÆKUR - Þýdd skáldsaga
Er góðmennska undantekning?Undantekningin
Christian Jungersen Eftir Christian Jungersen, Ólöf Eldjárn þýddi. 567 bls. Mál og menning 2006.
UNDANTEKNINGIN eftir Danann Christian Jungersen hefur vægast sagt runnið út eins og heitar lummur í Danmörku. Hún toppaði Da Vinci lykilinn á vinsældalistanum og hefur verið þýdd á hátt á annan tug tungumála, auk þess sem hún hefur hlotið viðurkenningar og verðlaun. Hér er á ferð spennandi glæpasaga og sálfræðileg samtímasaga.
Aðalpersónur eru fjórar konur, vinkonurnar Iben og Malene, sem eru á fertugsaldri ásamt Anne-Lise og Camillu sem eru nokkrum árum eldri. Þær vinna saman á dönsku upplýsingastofunni um þjóðarmorð, sem staðsett er í Kaupmannahöfn. Þar eru stundaðar rannsóknir og veittar upplýsingar um þjóðarmorð og konurnar skrifa greinar um glæpi þar sem illska mannanna er ígrunduð og hegðun fólks á tímum stríðsátaka krufin. Bókin fylgir til skiptis sjónarhorni kvennanna en inn á milli er fléttað ritsmíðum Ibenar og Malene um þjóðarmorð sem framin hafa verið um víða veröld.
Í upphafi bókar berast tveimur kvennanna, og síðar þeirri þriðju, nafnlaus morðhótunarbréf á ensku. Bréfin koma af stað atburðarás sem afhjúpar þessar konur, sem eru menntaðar og upplýstar og virka í byrjun góðhjartaðar með eindæmum. Í ljós kemur að þær eru ekki allar þar sem þær eru séðar. Lesandinn sogast inn í sjúkt andrúmsloft skrifstofunnar, sem einkennist af valdabaráttu, hatri og svæsnu einelti. Manneskjur sem í orði sýna eindregna samlíðan með þjáðum og kúguðum, eru á borði gjörsamlega miskunnarlausar, einkennilega sjálfhverfar og færar um að koma fram af botnlausri illgirni. Tvær kvennanna rotta sig saman gegn þeirri þriðju og sú mannvonska, sem þær lýsa úr öruggri fjarlægð þegar þær greina frá þjóðarmorðum, tekur sér bólfestu í þeim sjálfum án þess að þær hafi nokkurt innsæi í hvað þær eru að gera. Konurnar réttlæta blákalt framkomu sína og telja sig skynsamar, víðsýnar og skilningsríkar. Þannig lætur höfundurinn fjöldamorð á heilum þjóðum endurspeglast í litlum heimi skrifstofunnar þar sem einn starfsmanna er frystur úti uns lífið verður viðkomandi óbærilegt.
Undantekningin greip mig fljótt og spennan magnaðist með taktföstum hætti eftir því sem leið á. Með því að sjónarhornið færist á milli kvennanna fjögurra nálgast lesandinn atburði og persónur úr ýmsum áttum og þannig fæst ólík sýn á atburði. Þetta gerir bókina hins vegar langa og á köflum endurtekningasama en mér finnst það ekki vera stór ókostur. Gallinn er hins vegar sá að stundum eru tengingarnar full ljósar og boðskap höfundar allt að því troðið klunnalega ofaní lesandann. Komið er inn á stór mál sem mikið eru í deiglunni, nefna má alþjóðavæðingu, mannréttindi og sýnilegt og ósýnilegt ofbeldi þar sem eigingirni og sjúklegur metnaður hleypur með fólk í gönur.
Undantekningin er sálfræðileg spennusaga þar sem valdabarátta er í brennidepli. Fólk leggur miskunnarlaust stein í götu félaga sinna til að koma sjálfu sér áfram, góðmennska er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki helsta persónueinkenni þeirra sem í daglegu lífi gefa sig út fyrir að vera húmanistar og hugsjónafólk. Þegar komið var að því að draga alla þræði saman í lok þessarar löngu og miklu sögu fannst mér höfundur lenda í dálítilli flækju. Það dró þó lítið úr því að bókin náði tökum á mér. Eftir situr spurningin hvort einelti og þjóðarmorð séu af sömu rótum og hvort það sé hugsanlegt að við hefðum öll getað orðið böðlar í helför nasista. Mér virðist höfundur Undantekningarinnar halda því fram en ég ætla sjálf að halda í vonina og leyfa mér að efast.
Þórdís Gísladóttir
Christian Jungersen: Undantekningin.
Ólöf Eldjárn þýddi Mál og menning, 2006
Höfundur þessarar bókar, Christian Jungersen, er danskur. Hann vakti talsverða athygli fyrir sína fyrstu skáldsögu, Krat, sem kom út árið 1999. Það tók hann átta ár að klára Undantekninguna. Hann hefur sagt að magnið skipti ekki máli heldur gæðin. Eflaust margir sem geta tekið undir það enda bókin margverðlaunuð metsölubók. Í Krat var fjallað um vináttu tveggja karla á efri árum. Í báðum bókunum er sálarlíf persónanna rannsakað og ekki er alltaf ljóst hvað er satt og hvað ekki þegar kemur að uppgjöri við fortíðina og reyndar líka það sem er að gerast í núinu.
Undantekningin gerist að miklu leyti á dönsku upplýsingastofunni um þjóðarmorð þar sem vinna fjórar konur og einn karlmaður. Karlmaðurinn er yfirmaður, sem ekki er óvenjulegt. Iben og Malene eru vinkonur en samt er nokkur samkeppni þeirra á milli. Camilla er ritari og Anne-Lise er bókavörður stofnunarinnar. Hótunarbréf sem berast í tölvupósti til Ibenar og Malene verða til þess að velta upp á yfirborðið alls konar undarlegum hugmyndum hjá konunum. Hver stendur á bak við þessar sendingar? Stríðsglæpamenn gætu erft við þær ýmislegt sem stofnunin lætur ekki liggja í þagnargildi en svo gæti líka verið að einhver kvennanna sé að koma höggi á hinar. Ýmislegt annað gerist sem eflir ofsóknarkennd og undarlegar hugmyndir kvennanna hverrar og einnar og einelti gerir vart við sig. Í raun er það meira en svo að einelti geri vart við sig, það verður eiginlega þungamiðja sögunnar.
Með því að bera stöðugt þennan litla vinnuhóp, sem starfar við nokkurn veginn eðlilegar aðstæður, saman við stríðsglæpi á borð við þá sem áttu sér stað á Balkanskaga þegar jafnvel nágrannar hófu að pynta og myrða hverjir aðra, verður alvara eineltisins einhvern veginn svakalegri en ella hefði verið. Þessir tveir heimar snertast líka í vangaveltum Ibenar þegar hún skrifar hugleiðingar sínar um sálfræði illskunnar sem birtast í fréttabréfi stofunnar.
Iben er sú sem fær mest pláss í sögunni, þvínæst Malene en hinar minna. Samt er þeim einnig gerð rækileg skil enda bókin löng og ekki laus við smásmygli. En þannig getur það verið á vinnustöðum og það þarf að koma fram í sögunni. Alls kyns smáatriði hafa áhrif á líðan starfsfólks og hægt er að pirra sig yfir þeim endalaust. Hvað teljast smáatriði og hvað eru stórmál þegar upp er staðið? Alla vega geta smáatriðin auðveldlega snúist upp í stórmál þegar fólk er farið að velta þeim fyrir sér á alla kanta eins og gerist í þessari sögu. Af lýsingu vinnustaðarins skilur maður vel innilokunarkennd Anne-Lise, hvernig henni finnst hún oft útilokuð frá hinum og viðbrögð hinna.
Höfundi tekst afskaplega vel að koma til skila andrúmslofti því sem ríkir á vinnustaðnum og þrátt fyrir allan sparðatíninginn sleppur sagan alveg við að verða leiðinleg. Hún er nefnilega harla spennandi. Þótt varla flokkist hún sem spennusaga má segja að hún sé alveg á mörkunum með gíslatöku, morði, einelti og hinni sálfræðilegu spennu. Konurnar og jafnvel framkvæmdastjórinn, Paul, eru sérfræðingar í sjálfsblekkingu og afneitun. Við fáum að sjá hversu langt afneitunin getur leitt fólk. Okkar litla lokaða vinnustaðaveröld kallast á við hinn stóra heim og alla þá illsku sem þar getur skotið upp kollinum. Fín skáldsaga.
Ingvi Þór Kormáksson, desember 2006
Laugardaginn 2. desember, 2006 - Menningarblað/Lesbók
Danskur gulldrengur með fortíð / Christian Jungersen
"Ég hafði heyrt margar áhrifamiklar sögur af dönskum vinnustöðum og það var það sem ég vildi skrifa um: baráttuna, hatrið, vináttuna og baktalið sem á sér stað á vinnustöðum." Hinn margverðlaunaði metsöluhöfundur Christian Jungersen þekkir vonbrigði, vonleysi og einelti af eigin raun. Það er einmitt umfjöllunarefni metsölubókar hans Undantekningin sem er nýkomin út á íslensku. Blaðamaður hitti Jungersen í Kaupmannahöfn.
Eftir Rögnu Söru Jónsdóttur
Christian Jungersen er tvöfaldur metsöluhöfundur í Danmörku. Árið 1999 gaf hann út frumraun sína, Krat sem hlaut "Bestu fyrstu bókar verðlaunin" og veitti honum þriggja ára starfslaun frá hinu opinbera. Fyrir tveimur árum kom svo önnur bók hans, Undantekningin, út í Danmörku. Bókin sat í efstu sætum metsölulista Danmerkur í marga mánuði, og er eina bókin sem hefur tvö ár í röð verið ein af söluhæstu bókunum fyrir jól. Jungersen hlaut enda "Gylltu lárberin", virtustu bókmenntaverðlaun Dana, fyrir Undantekninguna.
En þótt Christian Jungersen gangi allt í haginn í dag og hann hafi ekki við að ferðast á milli landa til að fylgja á eftir útgáfu Undantekningarinnar - bókin hefur nú komið út í sextán löndum - þá þekkir hann líka annan heim. Heim vonbrigða, vonleysis og eineltis. Eftir að hafa lokið meistaragráðu í samskiptum og samfélagsfræði árið 1988 hóf Jungersen að skrifa. Hann vildi mest af öllu verða þekktur kvikmyndahandritshöfundur og skrifaði sex kvikmyndahandrit. Hann vann samhliða skriftunum til að eiga í sig og á, en því miður fékk hann ekki eitt einasta handrit kvikmyndað. Þegar hann vann sem textahöfundur á auglýsingastofu varð hann svo fyrir einelti á vinnustaðnum. Í dag segist hann ekki hafa viljað missa af þeirri reynslu, hann hefur getað nýtt hana til að skrifa margfalda metsölubók sína. Undantekningin fjallar nefnilega um einelti á vinnustað og hvernig ósköp venjulegar, indælar, vel menntaðar og velviljandi manneskjur geta undir ákveðnum kringumstæðum breyst og orðið illgjarnar, ósanngjarnar og hættulegar.
Lífið breyttist með fyrstu bókinni
Ég hitti Christian Jungersen á bókamessunni í Kaupmannahöfn um síðustu helgi. Þar úir og grúir af fólki sem skoðar nýjustu bókaútgáfurnar og fær bækur áritaðar af höfundunum sjálfum. Jungersen er sjálfur ekki að kynna neitt nýtt að þessu sinni, Undantekningin kom út fyrir tveimur árum í Danmörku og hann er ekki tilbúinn með nýja bók. "Ég skrifa bækurnar mínar á löngum tíma. Það tók mig sitt hvor fjögur árin að skrifa bækurnar mínar tvær. Ég hef heldur engan metnað fyrir að skrifa fimmtán eða þrjátíu bækur á ferlinum. Ég er ánægður ef ég næ að skrifa fimm vegna þess að hver bók verður að vera mjög góð. Ég skrifa bækurnar mínar um það bil tuttugu sinnum eða þangað til ég er ánægður. Ég er ekki kominn langt með næstu bók mína þar sem ég hef verið á þeytingi á milli landa við að kynna og fylgja Undantekningunni eftir. Ég sæki hins vegar bókamessuna til að hitta vini mína og fylgjast með því sem þeir eru að gera," segir Jungersen.
Líf Jungersens breyttist þegar fyrsta bók hans Krat kom út. Áður hafði hann eins og fyrr sagði setið og skrifað kvikmyndahandrit í sjö ár en ekki selt neitt. "Reyndu að ímynda þér að þú skrifir og skrifir greinar sem blaðamaður í sjö ár en færð enga grein birta í blöðunum. Það hefur ekki góð áhrif á mann skal ég segja þér. Maður verður leiður," segir Jungersen og hlær. "Já og ekki bara leiður, maður byrjar að velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað að manni og svoleiðis. Líf mitt breyttist þegar Krat kom út, bókin hlaut verðlaun og varð metsölubók. Skyndilega átti ég samstarfsfélaga, og eignaðist vini á meðal annarra rithöfunda. Þetta var ótrúleg breyting og lífið varð yndislegt. Ég þekki hins vegar vonbrigðin við að fá neitun og af þeim sökum ber ég mikla virðingu fyrir rithöfundum sem fá ekki verk sín gefin út - og þeir eru margir."
Dekraðir Danir
Blm.: En snúum okkur að Undantekningunni, hún fjallar um fjórar danskar konur sem vinna saman á Upplýsingastofu um þjóðarmorð í Kaupmannahöfn. Er umfjöllunarefni þitt sérlega danskt, og ef svo er hvers vegna höfðar það á svo breiðum grunni til lesenda, því nú hefur bókin komið út í sextán löndum? "Já, ég er ekki frá því að umfjöllunarefnið sé sérstaklega danskt. Við Danir eru nokkuð dekraðir í samhengi við restina af heiminum. Hér upplifir maður mikið öryggi og við erum vernduð fyrir hættum heimsins. Við búum ekki við mikla fátækt og nánast enginn sveltur hér úr hungri. Hér eru heilmargir leikskólakennarar um hvert barn og það ætti ekki að vera svo margt hér í Danmörku sem við þurfum að berjast fyrir eða rífast um. Samt sem áður á sér stað barátta upp á líf og dauða á mjög venjulegum dönskum vinnustað, eins og við verðum vitni að í bókinni.
Á öðru plani þá fjallar bókin um það að við Danir erum "þeir góðu". Það er algert einsdæmi hvernig tókst að bjarga mörgum gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni í Danmörku. Við erum " góðir" og í dag erum við að hjálpa öðrum sem fátækari eru í heiminum. En við erum ekki bara "góð" og það er það sem ég er að fást við í Undantekningunni. Bókin fjallar um það hvernig góðar manneskjur, vel menntað hugsjónafólk og þess vegna meðlimir af Amnesty International og Green Peace, eiga sér aðra hlið. Við lesum í blöðunum um hræðilega hluti sem hafa gerst alls staðar í heiminum. En flestir þeirra sem fremja ódæðisverk líta ekki á sjálfa sig sem vondar manneskjur. Bókin fjallar um einmitt þetta og þá sjálfsblekkingu sem við beitum svo gjarnan. Bæði sjálfsblekkingu inni á litlum venjulegum vinnustað og einnig sjálfblekkingu í víðara stjórnmálalegu samhengi. Þessu tvennu er fléttað saman og það er það sem bókin er um."
Blm.: En hvaðan kom hugmyndin að þessari bók?
"Ég ætlaði ekki að skrifa bók um mannvonsku heimsins heldur settist ég niður til að skrifa bók um vinnustað. Ég hafði heyrt margar áhrifamiklar sögur af dönskum vinnustöðum og það var það sem ég vildi skrifa um: baráttuna, hatrið, vináttuna og baktalið sem á sér stað á vinnustöðum. Þessa hugmynd fékk ég fyrir fimmtán árum en hafði ekki haft tíma til að skrifa um hana. Síðan hugmyndin kviknaði fékk ég sjálfur reynslu af því að vinna á vinnustöðum og hef sjálfur upplifað einelti á vinnustað sem ég hef nýtt mér til að skrifa bókina. Það leikur enginn vafi á því að ég hefði ekki getað skrifað bókina ef ég hefði ekki sjálfur upplifað það."
Þegar Jungersen hafði ákveðið að sagan skyldi eiga sér stað í miðstöð um þjóðarmorð, þá lagðist hann í miklar rannsóknir um þjóðarmorð. Eitt af því fyrsta sem hann gerði var að hringja í Dönsku rannsóknarmiðstöðina fyrir Helförina og þjóðarmorð. "Ég kynnti mig og sagði þeim frá því hvað ég ætlaði að skrifa um og spurði hvort ég mætti koma og kynnast starfseminni. Þau sögðu, "en góð hugmynd" og tóku mér strax opnum örmum. Síðan eyddi ég ótal dögum hjá þeim og ferðaðist með þeim um allan heim á ráðstefnur og fyrirlestra um þjóðarmorð. Ég var viðloðandi stofnunina í um það bil þrjú ár og eignaðist vini á meðal starfsmannanna. Það er einmitt þetta sem ég hef lagt mig fram við í bókinni, að lesendur upplifi söguna sem raunveruleika og eitthvað sem ég þekki af eigin raun."
Erfiðast að gera persónurnar raunverulegar
Jungersen útskýrir að í hans huga sé það að lýsa vinnustaðnum og starfsemi stofnunarinnar á raunsæjan hátt ekki það erfiðasta sem hann fékkst við, þótt hann hafi lagt mikið á sig til að gera það vel. "Það erfiðasta var að gera persónurnar raunverulegar. Að fá lesandann til að finnast sem hann væri að lesa um raunverulegar manneskjur sem væru í raun og veru til. Það er af þessum sökum sem ég skrifa bækurnar mínar aftur og aftur og aftur." Blm.: En hvað er það að þínu mati í bókunum þínum sem heldur lesendum föngnum, því nú hefur þú líka prófað að skrifa eitthvað sem enginn vill neitt með hafa?
"Ef þú ferð út í bókabúð þá finnurðu ótal góðar bækur um það hvernig tvær manneskjur hittast og verða ástfangnar, eða um skilnaði eða reynslusögur um uppvöxt fólks. Það eru mjög fáar bækur sem gerast á vinnustöðum fólks og það er merkilegt því við eyðum svo miklum tíma okkar í vinnunni og störf okkar eiga svo stóran þátt í að skapa sjálfsmynd okkar. Ég skrifaði því bók um lífið í vinnunni og það snertir alla. Við það bætti ég spennu og dramatík og eins raunverulegum persónum og ég mögulega gat, sem gætu allt eins verið þú og ég. Ég held að sú barátta sem þessar góðu og venjulegu manneskjur há sín á milli á vinnustaðnum snerti flesta. Ég verð líka að viðurkenna að þessi barátta hafði mikil áhrif á mig þegar ég sat við skriftir og þessi fjögur ár á meðan ég skrifaði bókina voru fjögur tilfinningaþrungnustu árin mín. Ég er hins vegar alls ekki með bókinni að benda á eitthvert ákveðið fólk og segja "svona fólk er vont" ég er að segja að þetta geti átt við okkur öll saman, líka þig og mig."
Setur sig inn í líf annarra
Bókin fjallar, eins og áður segir, um fjórar konur á vinnustað. Jungersen hefur í mörg ár lagt sig fram við að skilja konur og þeirra hugarheim svo hann var ekki feiminn við að skrifa út frá sjónarhorni hins kynsins. Hann naut aðstoðar samstarfskvenna sinna í rithöfundahóp sem hann er í við að fínpússa kvenpersónurnar. Hann bjó til dæmis með þeim í tvær vikur til að stilla sig betur inn á kvenlegu línurnar. Þau fjögur ár sem Jungersen skrifaði bókina á hafa því meira og minna verið lögð undir rannsóknir og tilraunastarfsemi. Annars vegar á stríðsglæpum og starfsemi stofnunar og hins vegar á konum.
"Það er einmitt þetta sem gerir það svo yndislegt að vera rithöfundur. Maður fær leyfi til að lifa öðru lífi um tíma. Nú er ég aftur orðinn Christian en það má alveg segja að ég hafi lifað þessi fjögur ár án þess að vera ég sjálfur. Í fjögur ár lagði ég raunverulega hart að mér við að hugsa eins og kona sem vann á Upplýsingastofu um þjóðarmorð. Ég vonaði meira að segja að mig myndi dreyma á nóttunni eins og hana myndi dreyma. Og það er ótrúlegt, ég vonaði að ég myndi renna saman við einhverja þeirra, eiginlega þær allar fjórar. Það er líka af þessum sökum sem ég var svona lengi að skrifa bókina. Það sama gerðist þegar ég skrifaði fyrstu bók mína Krat. Hún fjallar um gamla menn, á áttræðisaldri. Þá fór ég og hitti fólk sem var fætt á milli 1910 og 1915 og las dagblöð frá þessum tíma. Ég var farinn að nota gömul skrýtin orð og varð sjálfur nokkuð gamall í anda. Þegar ég hitti gamalt fólk gat ég setið og rætt við það um pólitík frá þessum árum. Það var verulega fyndið. Það var líka erfitt að losna við gamla manninn úr hausnum á mér og koma konu þar inn í staðinn," segir Christian og hlær.
Undantekningin að öllum líkindum á hvíta tjaldið
Nú er Jungersen, eftir tvö ár af ferðalögum við að fylgja Undantekningunni eftir, að setjast niður í þriðja skiptið og komast inn í hugarheim einhverrar allt annarrar persónu og skrifa bók sem hann er ánægður með. Hann reiknar með að það taki önnur fjögur ár en hann gefur ekkert upp um efni nýju bókarinnar. Það er hins vegar athyglisvert að ungi maðurinn sem vildi skrifa kvikmyndahandrit, sem enginn vildi kaupa, mun að öllum líkindum sjá skáldsögu sína á hvíta tjaldinu eftir allt. "Já, ég hef fengið tilboð um kvikmyndaréttinn að Undantekningunni. Tilboðin hafa komið víðs vegar að úr heiminum og einnig frá Hollywood. Umboðsmaður minn í London telur hins vegar ráðlegt að bíða með að semja um kvikmyndun á verkinu þangað til bókin er komin út í Bandaríkjunum. Þá getum við náð betri samningum, ekki bara í fjárhagslegu tilliti heldur einnig í sambandi við leikara og svoleiðis hluti. Bókin kemur út vestan hafs næsta sumar svo það verður spennandi að sjá hvað gerist eftir það."
Ekki nóg með það, Jungersen hefur líka komist að því að honum finnst mun skemmtilegra að skrifa bækur en kvikmyndahandrit. Þarmeð hefur hann slegið tvær flugur í einu höggi.
http://www.christianjungersen.com/
http://www.complete-review.com/reviews/dansk/jungerc.htm
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.