Miðvikudagur, 26. mars 2008
Frú Bovary e. Gustave Flaubert
Hér er ítarefni og nokkrir góðir linkar:
http://www.sparknotes.com/lit/bovary/
http://www.sparknotes.com/lit/awakening/study.html
Laugardaginn 16. desember, 1995 - Bókmenntir
Ævintýri líkast
Skáldsaga / FRÚ BOVARY eftir Gustave Flaubert. Pétur Gunnarsson þýddi. Bjartur, Reykjavík 1995. 266 bls.
FRÚ BOVARY eftir franska rithöfundinn Gustave Flaubert (1821-1880) hefur verið eitt umtalaðasta bókmenntaverk síðari alda frá því það kom fyrst út árið 1857. Og þrátt fyrir að hafa skrifað önnur allmerkileg verk varð höfundurinn að sætta sig við að verða ætíð minnst fyrir þessa einu sögu. Hún varð ekki einasta til þess að hneyksla svo frönsku borgarastéttina þegar hún kom út að höfundurinn var sóttur til saka fyrir vikið, heldur hefur hún haldið áfram að vera á milli tannanna á fólki og vaxa að vinsældum. Reyndar er þetta sú saga sem Frakkar vitna hvað oftast í.
Frú Bovary fjallar um árekstur ídylls og veruleika. Kona reynir að lifa lífinu eins og henni finnst að því eigi að lifa en rekur sig fljótlega á tálma í umhverfinu. Segja má að í þessari sögu rekist þannig á, eða blandist, hin frjálsa og egóíska söguhetja rómantíkurinnar og hin lögmálsbundna samfélagsmynd raunsæisins.
Sagan segir frá Emmu sem hefur alist upp við lestur á rómantískum ástarsögum í eilítið mýstískum heimi klausturskólans. Þegar hún giftist smáborgaralegum lækni, Karli Bovary, uppgötvar hún að hjónabandslífið er ekkert í líkingu við það sem hún hafði lesið um í bókum sínum. Hún verður mjög vonsvikin og þegar hún fær nasaþef af heimi fyrirfólksins í veislu, sem þeim hjónum er boðið til, leggst hún veik úr óhamingju; hún sér að Karl mun aldrei geta fullnægt þörfum sínum og löngunum. Til að hressa hana við bregður Karl hins vegar á það ráð að flytja í smábæ nefndan Yonville en þar gerist sagan að stærstum hluta.
Í Yonville telur Emma sig kynnast ástinni og ástríðunum sem vantar í samband hennar og Karls, hún telur að hún hafi fundið hamingjuna, neistann sem gæðir lífið hinum mýstíska bjarma sem hún hafði lesið um í ástarsögunum. Í rauninni eru þau kynni hins vegar ekki í mjög rómantískum anda. Emma er dregin á tálar af miður vönduðum mönnum sem vilja aðeins eitt, svo sem Rodolphe sem stígur fyrst í vænginn við hana á landbúnaðarsýningu Yonville-bæjar (staðsetningin er dæmigerð fyrir háðskan húmor Flaubert í sögunni); hann fær fljótt leið á henni og leysir málið með bréfi sem hann byrjar í fölskum sjálfsfórnartón: "Hugrökk, Emma! Hugrökk! Ég vil ekki steypa þér í glötun..." Honum er þó ekki alls varnað, honum finnst hann þurfa að réttlæta svik sín og brigðlyndi: "- Það er málið, hugsaði Rodolphe; ég er að gera það sem er henni fyrir bestu; ég er heiðvirður maður." Þannig eru ástamál Emmu í raun og veru, innantóm og fölsk. Og þannig er líf hennar allt þegar upp er staðið, yfirborðskennt og innantómt, ekki túkallsvirði frekar en líf hinna smásálarlegu samborgara Flauberts sem voru skotspænir sögunnar.
Þótt frásagnarháttur Flauberts sé hlutlægur og hann forðist það eins og heitan eldinn að fella dóma um persónur sögunnar eða segja lesendum sínum beinlínis hvað þeim eigi að finnast um þær, þá skín andstyggð hans á þeim greinilega í gegnum textann. Háð, skop og ýkjur eru verkfæri hans og samtíminn er viðfangsefnið. Maður getur hugsað sér þessa sögu eins og skopstælingu á samfélaginu sem hún lýsir, sennilega hefur stælingin verið svo nákvæm að góðborgurum hefur sviðið hún. Hinn hlutlægi raunsæisstíll varð enda sú aðferð sem sporgöngumenn Flauberts tömdu sér við að stinga á kýlum samfélagsins.
Vegna hins hlutlæga frásagnarháttar er oft sagt að við hvern lestur orki Frú Bovary á mann eins og ný bók. Þannig sé hver lestur sögunnar líkastur ævintýri, eins og ferð þar sem maður er sífellt að upplifa og uppgötva eitthvað nýtt. Í vissum skilningi má því tala um Frú Bovary sem lifandi texta; það mætti jafnvel segja að hún væri texti sem lifði á sjáfum sér, væri óháður ytra umhverfi og hafi þess vegna staðist tímans tönn jafnvel og raun ber vitni. Og það er einmitt þessi sjálfumsérnógi texti sem helst einkennir skáldsögur á eftir útkomu Frú Bovary; texti þeirra snýst um sjálfan sig - og aðra texta. Þannig hefur smám saman myndast eins konar textasamfélag, sjálfstætt og sjálfala. Þetta textasamfélag hafa menn nefnt bókmenntir, hugtak sem farið var að nota hér á landi skömmu áður en Frú Bovary kom út í París árið 1857.
Áhrif Frú Bovary á svokallaðar nútímabókmenntir verða seint ofmetin.
Sömuleiðis verður sennilega seint gert of mikið úr mikilvægi þess að hafa nú fengið þessa bók þýdda á íslensku í heild sinni. Útkoma Frú Bovary er þannig án efa einn merkasti viðburður þessa bókaárs.
Engin vafi leikur á því að það hefur verið mikið vandaverk að þýða Frú Bovary en ekki verður annað sagt en að Pétur Gunnarsson hafi leyst það með sóma.
Þröstur Helgason. Gustave Flaubert
Þriðjudaginn 21. nóvember, 1995 - Bókmenntir
Tímamótaverk FRÚ BOVARY eftir Gustave Flaubert er komin út í þýðingu Péturs Gunnarssonar.
Frú Bovary var tímamótaverk og þótti marka upphaf nútíma skáldsagnagerðar.
Þegar sagan kom út vakti hún mikla hneykslun. Þóttu persónur sögunnar algerlega siðlausar og höfundurinn virtist leggja blessun sína yfir ósómann.
Vegna skáldsögunnar var höfðað mál á hendur útgefanda og höfundinum. Þeim var gefið að sök að hafa ofboðið trúar- og siðferðistilfinningu lesenda sinna. Útgefandinn var sýknaður en Flaubert var hins vegar víttur fyrir að láta ósiðlegt athæfi persóna sinna ótalið.
"Sagan segir frá Emmu Bovary og ferð hennar um glapstigu freistinganna og óseðjandi leit hennar að lífsins lystisemdum. Um leið lýsir Flaubert mannlegu eðli, heitum ástríðum sem vakna fljótt og slævast skjótt," segir í kynningu.
Bókin er 262 síður, prentuð í Gutenberg. Snæbjörn Arngrímsson gerði kápu. Verð bókarinnar er 2.980. Útgefandi er Bjartur.
Laugardaginn 11. nóvember, 1995 - Menningarblað/Lesbók
Frægasta skáldsaga Frakka
Ein frægasta skáldsaga fyrr og síðar, Frú Bovary eftir Frakkann Gustave Flaubert, kemur út innan skamms í nýrri þýðingu Péturs Gunnarssonar.
Þýðandinn sagði Þresti Helgasyni sögur af höfundinum sem var dreginn fyrir dóm vegna siðleysis persóna í verki sínu.
ÞEGAR FRÚ Bovary eftir Gustave Flaubert (1821 1880) kom út árið 1857 í Frakklandi vakti hún mikla hneykslun landa hans. Þóttu persónur sögunnar vera algjörlega siðlausar og það sem verra var, höfundurinn virtist leggja blessun sína yfir ósómann. Sagan segir frá Emmu, ungri sveitastúlku sem gengið hefur í klausturskóla og alist upp við lestur rómantískra ástarsagna.
Hún hefur gert sér ákveðna mynd af lífinu en þegar hún giftist Karli Bovary, lækni í litlu þorpi, kemst hún að því að veruleikinn er annar. Fær það svo á hana að hún leggst veik. Skömmu síðar flytja þau hjónin í annað þorp en þar lendir Emma í ástarævintýrum fram hjá Charles og lifir um efni fram. Að endingu fyrirfer hún sér, örvilnuð.
Sóttur til saka fyrir söguna
Vegna þessarar sögu höfðaði saksóknari franska ríkisins mál á hendur útgefandanum og höfundinum; þeim var gefið að sök að hafa ofboðið trúar- og siðferðistilfinningu lesenda sinna. Var útgefandinn sýknaður en Flaubert hins vegar víttur fyrir að láta ósiðlegt athæfi persóna sinna óátalið.
Pétur Gunnarsson, sem þýtt hefur Frú Bovary á íslensku, segir að ástæðan fyrir þessu uppistandi hafi sennilega verið hinn nýstárlegi frásagnarháttur sögunnar sem einkennist af hlutlægni. "Flaubert var í mun að persónu höfundarins gætti ekki að neinu leyti í textanum. Hann vildi skrifa "hlutlausan texta" og leit nánast á sig sem guð almáttugan gagnvart sköpunarverki sínu; þannig tók hann ekki afstöðu til gerða persónanna á einn eða neinn hátt. Fyrir vikið virkaði sagan ómórölsk; það var líkast því að höfundurinn væri að leggja blessun sína yfir siðleysið. Þetta er allt hið furðulegasta mál og segir ýmislegt um þá bókmenntasögulegu byltingu sem varð með Frú Bovary."
Rithöfundur gólar
Frú Bovary er tvímælalaust frægasta skáldsaga Frakka. Hún var tímamótaverk og þótti marka upphaf nútíma skáldsagnagerðar. "Það má einnig segja að Flaubert hafi um leið mótað nýja ímynd af starfi höfundarins," segir Pétur, "hann kvað nánast niður mýtuna um rómantíska skáldið og innblásturinn.
Skrifin voru honum fyrst og fremst öguð vinna. Þetta endurspeglast í texta Flauberts sem er oft hin listilegasta smíð.
Í vinnubrögðum sínum miðar Flaubert að ná sem altækustum áhrifum. Hann byrjaði á því að skrifa orðmargt uppkast en síðan tók við eins konar eiming þar sem hann tók textamassann og þétti æ meira, gerði hann markvissari."
Pétur segir ekki einfalt að lýsa stíl Flauberts í stuttu máli. "Það má segja að hann hafi fyrst og síðast kappkostað að finna rétta orðið. Hann var einnig mjög upptekinn af hrynjandi setninga, reyndi jafnvel að búa þær út ekki ósvipað og bundið mál. Í sendibréfum hefur hann margsinnis lýst vinnubrögðum sínum. Hann mun hafa skrifað með miklum harmkvælum og var seinvirkur; æddi um vinnustofuna eins og ljón í búri, fleygði sér upp í dívan, féll í mók, hrökk upp og hélt áfram leitinni þar til rétta orðið fannst. Að lokum skanderaði hann eða gaulaði setningarnar til að sannprófa hvort hljómfallið væri örugglega rétt."
Má ekki hnika orði
Flaubert hafði skrifað nokkur verk fyrir skúffuna áður en hann lagði til atlögu við Frú Bovary. Fjárhagsaðstæður hans voru á þann veg að hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af framfærslu eða vasast í útgáfu. Ritstörfin voru lífsmáti hans, aðferð til að lifa af í heimi sem honum leiddist undir drep.
Hann hafði lokið við gríðarlega mikinn doðrant sem hann nefndi La Tentation de Saint Antoine (Freisting heilags Antons). Hann var þó ekki birtur því vinir hans, sem hann las verkið fyrir, réðu honum frá því. Fram að þessu hafði Flaubert skrifað í hinum loftkennda stíl rómantíkurinnar en brotlending Heilags Antons varð til þess að hann söðlaði um og tók að tileinka sér hlutlausan raunsæisstíl sem síðar setti mark sitt á aðferð hans.
"Flaubert skrifaði samt ekki í hinum nákvæma raunsæisanda Émile Zola
(1840-1902) sem fór út með málbandið áður en hann settist að skrifum", segir Pétur. "Reyndar er til sú gamansaga að undir lokin hafi Flaubert verið farinn að snúa þessu við; hann hafi fyrst skrifað textann og síðan sent lærisvein sinn, Guy de Maupasant, út að leita uppi fyrirbæri sem pössuðu við textann."
Að sögn Péturs er alltaf erfitt að þýða og óðs manns æði að þýða Flaubert, "textinn er svo þaulunninn að stundum trúir maður næstum því orðum Flauberts sjálfs um að það megi ekki hnika einu orði, þá muni allt hrynja."
Morgunblaðið/Sverrir "Stundum trúir maður næstum því orðum Flauberts sjálfs um að það megi ekki hnika einu orði, þá muni allt hrynja." segir Pétur Gunnarsson um glímu sína við Frú Bovary.
http://en.wikipedia.org/wiki/Madame_Bovary
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.