Saga sonar míns e. Nadine Gordimer

mbl.is - Fimmtudaginn 19. desember, 1991 - Bókmenntir

Fuglasöngurinn í hjörtum þeirra Bókmenntir Jóhanna Kristjónsdóttir NadineFuglasöngurinn í hjörtum þeirra Bókmenntir Jóhanna Kristjónsdóttir Nadine Gordimer: Saga sonar míns. Ólöf Eldjárn þýddi. Útg. Mál og menning 1991 Fagnaðarefni er hversu fljótt er brugðið við og gefin út nýjasta bók Nóbelsverðlaunahafans Nadine Gordimer Saga sonar míns. Gordimer er bókmenntaunnendum vítt um veröld kunn fyrir verk sín þar sem sögusviðið er Suður Afríka og fyrri bækur hennar hafa snúist um þá kúgun sem menn af öðrum kynþætti en hvítum hafa sætt þar. Andrúmsloftið hefur verið að breytast og eins konar frelsi er nú meira. Samt eru réttindi svertingja og hörundsdökkra enn fyrir borð borin þó nýir vindar blási.

Hér segir frá svertingjafjölskyldu, þar sem heimilisfaðirinn Sonni tekur þátt í starfsemi sem flokkast undir ólöglega iðju, þó verður Sonni aldrei eins mikilvægur og hann dreymir líklega um. Þó hann sitji í fangelsi og sé undir eftirliti er lesanda ljóst eftir því sem líður á söguna að hann er, sér til sárrar raunar, ekki nema smápeð í þessu tafli. Kona hans er Aila, hún er ekki jafn meðvituð og Sonni framan af og þau eiga börnin Villa og Lillu.

Líf þeirra er í föstum farvegi að vissu leyti þrátt fyrir að Sonni sé í baráttunni. Og þessi saga snýst ekki nema að hluta til um réttindabaráttu hvítra og svarta; þetta er ástarsaga Sonnis og Hönnu, hvítrar konu sem starfar á vegum samtaka sem vilja rétta hag litaðs fólks.

Ástarsagan og baráttan sem Sonni heyr við sjálfan sig fléttast saman við samband hans og barnanna; Villi kemst að framhjáhaldi föður síns og bregst þannig við að hann hefur djúpa verndartilfinningu gagnvart móðurinni Ailu, sem ekkert veit hvað er að gerast. Og systurinni Lillu sem er unglingur og óstýrilát í meira lagi. Og þó. Kannski vita þær hvað er að gerast. Það lítur út fyrir að svo sé. Eftir að Lilla hefur reynt að skera sig á púlsinn veit Villi að hún veit. En Sonni gerir sér að því er best verður séð ekki grein fyrir því, en hann verður samvisku sinnar vegna að draga Villa inn í málið, nauðugur viljugur; komi eitthvað upp á í fjölskyldunni verður Villi að vera sá sem þekkir leiðina að staðnum þar sem faðir hans hórast með bleiku konunni.

Sagan líður áfram af krafti, lesandinn dregst fús inn í þennan seið sem Nadine Gordimer magnar. Hún gerir allt skiljanlegt: ást hvítu konunnar og Sonna verður alltaf fögur og samband þeirra verða aldrei svik við fjölskylduna. Slíkt leika ekki margir eftir. Myndin af Lillu verður skýrari - hún er kannski ekki þetta baldna og léttúðuga tryppi eins og bróðir hennar heldur. Hún á sínar hugsjónir og í henni er festa og snerpa sem Villa skortir. Aila glatar aldrei reisn sinni og veit þó allt allan tímann.

Þegar allt kemur til alls er Sonni kannski sá sem á hvað sárast þegar hann hefur horft upp á fjölskylduheiminn sem honum er mikils virði en fórnar engu fyrir, hrynja í kringum sig. Sonur hans mun kannski standa við hlið hans en fyrirlitningin á föðurnum býr með honum áfram. Þeir verða samt tengdir böndum sem hvorugur getur né vill að slitni. Þó svo að Villi fyrirgefi honum líklega aldrei, skynjar hann umkomuleysi föðurins og þar með yfirburði sína gagnvart honum í sögulok.

Þegar allt kemur til alls er baráttan sem við heyjum innra með okkur það sem ræður úrslitum til þess að við getum nokkurn tíma unnið ytri baráttuna. Þetta er stór saga, hún er öll sögð á lágu nótununum, Nadine Gordimer þarf hvergi að grípa til orðskrúðs. Einfaldleikinn í allri sinni fegurð. Ég hef ekki lesið bókina á frummálinu en Ólöf Eldjárn hefur þýtt söguna á vandað mál og virðist ná stemmningu og stíl Gordimers.Nadine Gordimer

 

Föstudaginn 27. mars, 1992 - Daglegt líf (blaðauki)

Hélt að svört börn færu aldrei í bíó eða í dansskóla en vann síðan gegn

Hélt að svört börn færu aldrei í bíó eða í dansskóla en vann síðan gegn kynþáttahatri í Suður-Afríku

HENNI fannst annar stórviðburðurinn hafa gerst á tveimur árum þegar henni var tilkynnt að hún hlyti friðarverðlaun Nóbels haustið 1991. Hinn stórviðburðurinn var að hennar mati þegar Nelson Mandela var látinn laus úr fangelsi. Þetta er Nadine Gordimer, hvítur rithöfundur frá Suður-Afríku. Aðeins sex konur höfðu fengið verðlaunin á undan henni, og síðast árið 1966, þegar þeim var skipt milli þýsku skáldkonunnar Nelly Sacchs og ísraelska rithöfundarins Samuels Josef Agnon.

"Kannski eru þessir tveir viðburðir dæmigerðir fyrir þær tvær hliðar sem einkenna líf mitt," segir Gordimer í nýlegu viðtali við ítalska tímaritið Donna. "Skriftirnar eru persónulegar en baráttan gegn kynþáttahatri er framlag til nýs og betra lífs á jörðunni," segir hún. Aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku og sú sálarangist sem henni fylgir er helsta viðfangsefni Gordimer ásamt frásögnum af forboðnum ástum svartra og hvítra.

Hvítir og svartir, vondir og góðir

"Henni hefur tekist að segja frá því háa verði sem þjóð hennar hefur greitt fyrir kynþáttamisrétti, og hún hefur lýst því miklu betur en nokkur blaðagrein eða fréttaskýringaþáttur gæti gert," segir Peter S. Prescott blaðamaður tímaritsins Newsweek. Tvær bækur hennar hafa verið þýddar á íslensku, "Heimur feigrar stéttar" og "Saga sonar míns", sem kom út fyrir síðustu jól. Sigrún Eldjárn þýddi báðar bækurnar. Í grein Jóhanns Hjálmarssonar sem birtist í Morgunblaðinu um það leyti sem Gordimer voru úthlutuð Nóbelsverðlaunin, segir hann: "Hjá Nadine Gordimer er aldrei sú auðvelda leið valin að gera hvíta menn vonda og svarta góða, eða öfugt. Hún speglar fyrst og fremst mannlegt eðli í skugga valdsins."

Nadine Gordimer er nú 68 ára gömul. Hún ólst upp í bæ skammt frá Jóhannesarborg. "Þegar þú ert barn, gengur þú út frá ákveðnum hlutum sem reglum og óbreytanlegum sannleika," segir hún í viðtali við Donna. "Ég hélt einfaldlega að svört börn færu aldrei í bíó eða í dansskóla."

Reglurnar jafn ófullkomnar og mennirnir

Síðar skildi hún að "reglurnar" voru ekki guðlegar og óumbreytanlegar, heldur voru þær gerðar af mönnunum og jafn ófullkomnar og mannskepnan. "Ég átti miklu fleira sameiginlegt með þeim svertingjum sem ég þekkti en hvíta fólkinu. Ég hafði til að mynda engan áhuga á te-boðum klukkan fimm eða samkomum á börum eða öðrum skemmtistöðum." Á sjötta áratugnum þótti hún frjálsleg og óhefðbundin í háttum, enda voru margir svertingjar í vinahópi hennar. "Við héldum að við myndum útrýma kynþáttahatrinu á stuttum tíma með því að vera hamingjusöm og ánægð saman," hefur hún sagt.

Margir vinir Gordimer enduðu í fangelsi, enda samræmdust skoðanir þeirra ekki ríkjandi (aðskilnaðar)stefnu og almennum viðhorfum hvítra íbúa Suður-Afríku. "Þá fór að reyna verulega á vináttuna," rifjar Gordimer upp. "Annaðhvort var að standa heill við skoðanir sínar eða láta þær og um leið vináttuna lönd og leið. Ég valdi fyrri kostinn þó ég sé ekki og hafi aldrei verið sérlega hugrökk, og ég faldi marga vini mína sem lögreglan var á höttunum eftir."

1988 sagði hún í blaðaviðtali: "Það er ekki nóg að hvítir segist vera tilbúnir að að búa í landi þar sem fulltrúar hins svarta meirihluta ræður. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að svo verði." Ári síðar var hún helsti hvatamaður þess að stofnuð voru Samtök rithöfunda í Suður-Afríku og viti menn: 98% meðlimanna voru svartir. Sumar bækur hennar voru bannaðar í heimalandi hennar, en eru nú allar fáanlegar í bókaverslunum í Jóhannesarborg. Gordimer hafði verið tilnefnd til Nóbelsverðlauna áður en hún hlaut þau í fyrra. Verðlaunin námu 985 þúsund Bandaríkjadölum, eða tæpum 60 milljónum íslenskra króna. Hluti þeirra rennur til nýstofnaðrar lista- og menningardeildar Afríska þjóðarráðsins. "Menntun er óhemju mikilvæg," segir hún. "Hér þurfa að rísa bókasöfn og við þurfum að geta veitt námsstyrki ef við viljum nýtt og frjálst menningarlíf í Suður-Afríku."

Brynja Tomer

Nadine Gordimer sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels sl. haust. Hún hefur unnið gegn kynþáttamisrétti í heimalandi sínu, SuðurAfríku, og hún varði hluta verðlaunafjárins til að auka menntunarmöguleika svertingja.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband