Þriðjudagur, 6. janúar 2009
Miðnæturbörn e. Salman Rushdie
What is all the fuss about!
1993 - The Booker of Bookers
To mark the twenty-fi fth anniversary, three former chairmen of judges Malcolm Bradbury, David Holloway and W L Webb were asked to choose the book which they believed to be the best of the previous winners. Their Booker of Bookers was Midnights Children by Salman Rushdie, which won the Booker Prize in 1981.
2OO8 - The Best of the Booker
To mark the 4Oth anniversary, a panel of judges was asked to select a shortlist of the best books to have won the prize in the previous four decades. For the fi rst time in the prizes history, the Best of the Booker was selected by a public vote online at www.themanbookerprize.com. Winner: Salman Rushdie, Midnights Children.
Indland fæddist þegar klukkan sló tólf á miðnætti 15. ágúst 1947 og á fyrsta klukkutímanum í sögu landsins kom 1001 barn í heiminn. Þessi miðnæturbörn voru öll gædd sérstæðum hæfileikum: stelpa frá Goa gat margfaldað fiska, einn drengurinn gat stækkað og minnkað að vild, bláeygt barn frá Kasmír gat breytt kynferði sínu, hvassyrt stúlka gat veitt líkamleg sár með orðum sínum Tveir drengir fæddust nákvæmlega þegar klukkan sló, Shiva sem hlaut hernaðarkunnáttu að gjöf, og Saleem Sinai en honum gerði stundin kleift að horfa inn í hjörtu og hugi manna. Þeim var hins vegar víxlað. Shiva, sem var af múslímskum aðalsættum, lendir í höndum götusöngvara, en Saleem, fátæklingurinn með gúrkunefið, hafnar hjá auðmannafjölskyldu. Saleem fær alla athyglina og Nehru forsætisráðherra sendir bréf þar sem hann segir að örlög hans verði ævinlega samfléttuð örlögum Indlands. Í tímans rás verða miðnæturbörnin Saleem og Shiva svarnir fjendur ...
Miðvikudaginn 15. ágúst, 2007 - Bókmenntir
Að kyngja veröldAF LISTUM
Miðnæturbörn? Indland er sextugt í dag. Á myndinni má sjá um það bil einn 275 þúsundasta af afmælisbarninu.
Í dag eru sextíu ár síðan Saleem Sinai fæddist. Á slaginu miðnætti 15. ágúst 1947 á hjúkrunarheimili Nerlikars læknis í Bombay (nú Mumbai) fæddist þessi aðalsögupersóna Miðnæturbarna Salmans Rushdie. "Á nákvæmlega sama andartaki og Indland fékk sjálfstæði veltist ég inn í heiminn. Það voru tekin andköf. Og fyrir utan gluggann flugeldar og manngrúi." Hann er því jafnaldri hins sextuga lýðveldis Indlands sem fram að því var undir Bretum.
En málið er vitaskuld ekki svo einfalt. Ekki aðeins eru landamæri Indlands sem við þekkjum í dag gjörbreytt eftir að Pakistan klauf sig frá Indlandi skömmu fyrir sjálfst´æði landanna tveggja og varð seinna að tveimur ríkjum, Bangladesh og Pakistan, sem samtals telja rúmar 300 milljónir manna til viðbótar við þann 1,1 milljarð sem Indland telur, fjölmennasta ríki framtíðarinnar ef mannfjöldaspár standast. Og fortíð Indlands skiptir ekki síður máli enda staldrar sögumaðurinn Saleem stutt við eigin fæðingu áður en hann hverfur aftur til Kasmír árið 1915. Til afa síns og ferjumannsins ævaforna sem segir sögur af því þegar hann ferjaði Jesú, spikfeitan og sköllóttan. Við sjáum einkennilegt tilhugalíf afans og verðandi ömmunnar og rúmum hundrað blaðsíðum og tveimur kynslóðum af flóknum fjölskyldusögum síðar komum við loksins aftur að fæðingu sögumanns en þá er þó enn nóg eftir af þessari ríflega 400 síðna bók.
Ástæða þess hve Saleem getur greint nákvæmlega frá örlögum ættingja sinna er sú að hann getur lesið hugsanir þeirra, sem og annarra. Öll þau börn, 1001 talsins, sem fæddust fyrsta klukkutímann eftir að Indland fékk sjálfstæði hlutu óvenjulega hæfileika í vöggugjöf og voru hæfileikarnir magnaðri því fyrr eftir miðnætti sem þau fæddust. Þeir elstu, Saleem og Shiva, eru leiðtogar hópsins og Saleem nær að nýta hæfileika sína til þess að sameina þau óháð búsetu í hinu víðfeðma Indlandi. Shiva er skýrður eftir guði hernaðar og hefur hæfileika guðsins en honum og Saleem var víxlað við fæðingu þegar flugeldarnir skóku Bombay.
Bækur Rushdie sýna ósjaldan einstaklinga með eiginleika teiknimyndahetjanna færðar inn í fagurbókmenntaheim þar sem hann nýtir sér óvenjulega eiginleika þeirra sem stækkunargler á eðli sögunnar. Miðnæturbörnin eru í mörgu keimlík teiknisagnahetjunum X-mönnum, stökkbreyttu ofurhetjunum sem eru útskúfuð fyrir að vera öðruvísi. Þau lentu í flestum þeim hörmungum sem Indiru Ghandhi datt í hug að leiða yfir þjóð sína og sökum hæfileika sinna eru þau ofsótt og yfirbuguð.
Sá grunur læðist að manni að öll þjóðfélög á öllum tímum hafi átt sín Miðnæturbörn en ávallt barið þau niður þannig að þau skæru sig örugglega ekki úr mannmergðinni. Og hvergi er mannmergðin meiri og örlögum mannanna hættara við að týnast í mannhafið jafnóðum. "Dauði eins manns er harmleikur, dauði milljóna er tölfræði," mælti Jósef Stalín og um leið og auðveldast er að tengja þessa kaldranalegu orð við milljarðaþjóðirnar tvær þá er bók Rushdie í raun ástríðufullt og reitt svar við þessum orðum:
"Hver og hvað er ég? Svar mitt: Ég er heildarsumman af öllu sem gerðist á undan mér, á öllu sem ég hef séð verið séð gert, af öllu sem mér hefur verið gert. Ég er hver sá hvert það sem varð fyrir tilvistaráhrifum af tilvist minni. Ég er allt sem gerist eftir að ég er farinn sem hefði ekki gerst hefði ég ekki komið. Ekki er ég heldur neitt sérstakur að þessu leyti; hvert "ég", hver og einn af þeim rúmlega sex hundruð milljónum sem við erum núna, hefur að geyma álíka gnótt. Ég endurtek í síðasta sinn: til að skilja mig verðið þið að kyngja heilum heimi."
Og lesandinn fær svo sannarlega að kyngja heilum heimi. Með öllum þeim meltingartruflunum, niðurgangi og hitasótt sem slíku ofáti fylgir. Og svima það að lesa Rushdie minnir oft helst á stjórnlausa rússíbanareið um indverskt þjóðfélag og stéttaskiptinguna, trúarbragðadeilurnar og öngþveitið sem einkennir það, hann fer alltaf lengra og lengra og textinn verður sífellt brjálæðislegri og sífellt hlaðnari; af persónum, vísunum, upplýsingum, tilfinningum, húmor og dramatík. Hann fer aldrei út af sporinu en eftir á hlýtur lesandinn að hugleiða hvar hann fór út af sporinu. Þegar fjöldamorð í Írak eru orðin tölfræði og hungursneiðar eru afgreiddar með söfnunarbaukum er líklega kominn tími til þess að gleypa fleiri heima. Þessi aldarfjórðungsgamla bók Rushdie er vegleg afmælisterta fyrir sextugt Indland, maður hefur gott af því að fá sér bita, fyrir öll miðnæturbörn veraldarinnar.
Ásgeir H. Ingólfsson (asgeirhi@mbl.is)
Þriðjudaginn 23. desember, 2003 - Bókablað
ÞÝDD SKÁLDSAGA - Miðnæturbörn
Einn af stórviðburðunumSalman Rushdie / Árni Óskarsson þýddi. 459 bls. Mál og menning, Reykjavík 2003.
EF einhverjum dettur í hug að spyrja: Hvers vegna er verið að þýða Miðnæturbörn á íslensku núna, tuttugu og tveimur árum eftir að hún kom út á frummálinu og vakti heimsathygli, fékk Bookerinn og maður veit ekki hvað? Er þetta ekki of seint í rassinn gripið? Eru ekki allir hættir að hugsa um þessa bók? Ættum við ekki að einbeita okkur að því að þýða Booker þessa árs og aðrar bækur sem eru að sigra heiminn í þessum töluðu orðum? Ef einhverjum dettur í hug að spyrja svona, þá er svarið þetta: Miðnæturbörn er þýdd núna vegna þess að það er aldrei of seint í rassinn gripið þegar um meistaraverk er að ræða. Miðnæturbörn er þýdd núna vegna þess að við vitum að ef íslenskt mál og íslenskar bókmenntir eiga ekki þessa sögu og eru ekki í snertingu við slíkar bókmenntir þá veslast þær upp og deyja, hægum, leiðinlegum dauða. Og Miðnæturbörn er þýdd núna vegna þess að það er til þýðandi einmitt nú sem treysti sér til þess að leggja í verkefnið sem er skal ég segja ykkur ekkert áhlaupaverk. En það er svo annað mál að bókina hefðum við auðvitað átt að hafa rænu á að þýða þegar hún kom út og var sjóðheit, spúandi hrauni yfir gamalt landslag heimsbókmenntanna. Nei, því miður, við misstum af því gosi, sváfum það af okkur. Og vitanlega eigum við að reyna að koma í veg fyrir að slíkt hendi aftur, við eigum að halda vöku okkar svo tungan og bókmenntirnar hér uppi á hjaranum haldi lífi. Þetta er spurning um líf og dauða. Hvorki meira né minna.
Og það eru víst einhverjir að spyrja þessara spurninga, heyrir maður. Núna, í byrjun tuttugustu og fyrstu aldarinnar! Og það er kannski eins gott að svara þeim svo fólk gangi ekki um með einhverjar ranghugmyndir. Og því er kannski vert að endurtaka herópið: Þýðingar eru lífsnauðsynlegar fyrir okkur! Og þess vegna þurfum við líka að þakka þeim sem sinna þeim verkum. Árni Óskarsson á sannarlega þakkir skildar fyrir að hafa snarað Miðnæturbörnum eftir Salman Rushdie á íslensku. Og hann hefur unnið sitt verk með ágætum.
Árni leggur greinilega mikla áherslu á að halda geysilega flókinni og oft og tíðum lotulangri setninga- og málsgreinaskipan Rushdies og tekst það vel. Frumtextinn er iðulega brotin upp með svigum og öðrum innskotum sem gera hann erfiðan aflestrar og raunar annarlegan (ef marka má umsagnir enskumælandi gagnrýnenda) og með því að halda þessum einkennum í þýðingu orkar textinn oft tyrfinn, jafnvel svolítið höktandi, kannski svolítið þýðingarlegur á köflum en verður fyrir vikið sannfærandi. Frumtextinn er einnig fullur af rími, orðaleikjum og öðru stílskrauti sem þýðandanum tekst oft að koma til skila. En það má ímynda sér að tvennt í viðbót hafi valdið þýðanda sérstökum erfiðleikum. Í frumtextanum er Rushdie að þýða indverska menningu og indverskt samfélag inn í engilsaxneskan viðtökuheim og þótt hann byggi þar á hefð þá er það nokkuð sem þýðandi hlýtur að þurfa að hafa í huga. Að auki er sagan morandi í bókmenntalegum vísunum sem þýðandi verður að vera mjög vakandi fyrir ef hann ætlar ekki að vængstífa söguna sem flýgur léttilega á milli aðskiljanlegustu texta í bókmenntasögunni, allt frá Þúsund og einni nótt til Tristram Shandy og allt fram til verka samtímahöfunda á borð við Grass og Márquez.
Í þessum stutta ritdómi gefst ekki tóm til þess að liggja yfir ýtarlegum samanburði á frumtextanum og þýðingu en við samlestur fyrstu tíu síðnanna eða svo kom í ljós að Árni er vakandi fyrir þessum þáttum. Fátt í þýðingunni vakti raunar spurningar eða efasemdir en þó fannst einn klaufalegur galli; á síðu ellefu vantar í þýðinguna þar sem hið ógurlega ættarnef er kynnt til sögunnar. Afi sögumannsins hafði til að bera nef sem "bylgjaðist eins og snarvitlaus mjölbanani á miðju andlitinu," eins og segir í þýðingunni, en í lok sömu efnisgreinar vantar eftirfarandi lýsingu úr frumtextanum: "Ingrid announced, "You could cross a river on that nose. (Its bridge was wide.)"
Þetta ógurlega nef er eins konar leiðarstef í gegnum bókina og er raunar ein af skírskotununum til sögu Laurence Sterne frá átjándu öld, The Life and Opinions of Tristram Shandy, Gentelman. Hið sama mætti segja um frásagnarhátt Rushdies sem einkennist af endalausum útúrdúrum, truflunum og sögum sem sagðar eru innan sögunnar og innan þeirra sagna og þannig koll af kolli. Á köflum hlýtur lesandinn að verða allruglaður í ríminum enda bætist við að sagan leysist stundum upp í súrrealísku ímyndunarafli höfundar. Talað var um töfraraunsæi á ritunartímanum en þá var áðurnefndur Gabriel García Márquez talinn meistari þess forms og hafði áhrif um allan heim. Og raunar er söguþráðurinn allur af yfirnáttúrulegum toga frá upphafi til enda.
Miðnæturbörn segir ævisögu Saleem Sinai sem var eitt af eitt þúsund og einu barni sem fæddist á miðnætti fimmtánda ágúst 1947 en einmitt þá stundina hlaut Indland sjálfstæði. Saleem sjálfur er sögumaðurinn og rekur hann ævi sína til 32 ára aldurs eða til ársins 1978. Einnig rekur hann sögu foreldra sinna og afa síns og ömmu 32 ár aftur í tímann. Bókin er þó annað og meira en saga þessara persóna því henni er ætlað að vera breið lýsing á indversku þjóðlífi og indverskri stjórnmálasögu á tuttugustu öld, allt frá því að það barðist til sjálfstæðis fullt af vonum og þar til þessar vonir höfðu margar snúist upp í andhverfu sína á síðari hluta aldarinnar.
Eins og önnur börn sem fæddust á miðnætti þetta ágústkvöld 1947 er Saleem gæddur sérstökum hæfileika, hann getur horft inn í hjörtu og hugi manna. Annar drengur fæddist á sama fæðingarheimili í Bombai og Saleem en hann var nefndur Shiva og hafði hlotið hernaðarkunnáttu að gjöf. Saleem er sonur fátæks götusöngvara en Shiva er komin af ríkum aðalsættum. Hjúkrunarkona ruglar þessum tveimur drengjum saman á fæðingarheimilinu þannig að Saleem elst upp hjá ríku aðalsmönnunum og Shiva hjá götusöngvaranum. Upp frá þessum ruglingi hina göldróttu nótt eru drengjunum sköpuð þau örlög að vera fjandvinir til æviloka.
Sagan er á köflum óborganleg skemmtun. Sprúðlandi sagnagáfa Rushdies fær að njóta sín óheft. En stundum reynir hún einnig á þolrifin. Á köflum er engu líkara en höfundur sleppi sér algerlega og sagnargerið verði yfirgnæfandi. Rushdie er agaðri í síðari bókum sínum. Ef til vill er Hinsta andvarp márans hans besta bók vegna þess að þar tekst honum að beisla ímyndunaraflið. En hvað um það. Þessa bók þurfa Íslendingar að lesa. Og nú geta þeir lesið hana á íslensku. Það er auðvitað einn af stórviðburðum þessarar bókavertíðar.
Þröstur Helgason
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.