26.4.2025 | 10:45
Brúðarmyndin e. Maggie OFarrell
Fingur Lucrezíu grípa um brún matardisksins. Fullvissan um að hann vilji hana dauða er eins og vera við hlið hennar, líkt og dökkfiðraður ránfugl hafi lent á stólarminum.
Þetta er ástæðan fyrir skyndilegri för þeirra á þennan villta og afskekkta stað. Hann fór með hana hingað, í þetta steinvirki, til þess að myrða hana.
Lucrezía fæðist inn í hina ríku og valdamiklu Medici-fjölskyldu í Flórens á Ítalíu. Hún á litla samleið með systkinum sínum og þykir bæði einræn og listhneigð. Þegar systir Lucrezíu deyr, skömmu fyrir brúðkaup sitt og hertogans af Ferrara, biður brúðguminn um hönd hennar og þrátt fyrir barnungan aldur samþykkir faðir hennar strax ráðahaginn.
Eftir brúðkaupið flytur Lucrezía í höll hertogans fjarri heimahögunum. Hún áttar sig brátt á því að eiginmaðurinn er ekki allur þar sem hann er séður, meira að segja systur hans hræðast hann. Hlutverk Lucrezíu er fyrst og fremst að ala honum erfingja til að tryggja völd ættarinnar. Þegar bið verður á því fer hún að óttast um líf sitt.
Maggie O'Farrell hefur vakið mikla athygli fyrir skáldsögur sínar sem hafa komið út í yfir 30 löndum. "Hugmyndinni að bókinni Brúðarmyndin fékk Maggie Farrell eftir að hún las ljóðið, My Last Duchess, eftir Robert Browning."
Eðli ofbeldis er samt við sig hver sem öldin er
Er hægt að gera sér í hugarlund angist ungra stúlku sem veit að eiginmaður hennar ætlar að drepa hana? Maggie Farrell tekst það ljómandi vel í Brúðarmyndin. Hún ferðast með lesandann aftur í tímann, til áranna 1550-1561, dregur upp myndir af andrúmslofti hirða tveggja ítalskra hertoga, Cosimo Medici og Alfonso Ferrara. Konur eru ekki annað en hlutir í hugum þessara manna, tól til að fæða þeim börn og tæki til að tryggja sér aukin völd gegnum mægðir.
Lucrezía er yngsta dóttir Cosimos og konu hans, Elenóru. Hún sker sig úr barnahópnum. Hefur frá upphafi verið ævintýragjarnari, forvitnari, fróðleiksfúsari, djarfari og listrænni en hin systkinin. Hún hefur aldrei leitt hugann að hlutverki sínu í lífinu fyrr en María systir hennar deyr og Lucrezíu er gert að fylla skarð hennar, heitbindast hertoganum af Ferrara. Hún er aðeins þrettán ára en með hjálp Sofiu fóstru sinnar tekst henni að seinka brúðkaupinu um ár og fjarvera Alfonsos í stríði seinkar því síðan um ár í viðbót. Lucrezía er því fimmtán ára þegar hún fer úr foreldrahúsum gift kona og gengur inn í nýja hirð þar sem andinn er allur annar en á æskuheimili hennar. ...
Lesa meira https://lifdununa.is/grein/edli-ofbeldis-er-samt-vid-sig-hver-sem-oldin-er/
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2025 | 10:32
Sálin vaknar e. Kate Chopin
Því er gjarnan haldið fram að The Awakening (Sálin vaknar) hafi markað tvenn þáttaskil fyrir bandarísku skáldkonunna Kate Chopin. Annars vegar hafi þeir neikvæðu dómar sem sagan fékk þegar hún kom út árið 1899 gert út um feril hennar sem rithöfundar, hins vegar er það þessu verki að þakka að hún féll ekki í varanlega gleymsku.
Þegar sagan birtist upphaflega var Kate Chopin vel þekkt sem smásagnahöfundur, einkum í Suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem flestar sögur hennar gerast. Margar sagnanna fjalla um samskipti enskumælandi og frönskumælandi íbúa New Orleans og nágrennis og lýsa breisku mannlífinu á mörkum þessara tveggja menningarheima. The Awakening var að þessu leyti óbeint framhald af fyrri skrifum skáldkonunnar en hún var einnig nýr áfangi í átökum hennar við eldfiman efnivið, stöðu og reynslu kvenna í hinu formfasta aldamótasamfélagi. Söguhetjan, Edna Pontellier, uppgötvar að tilvistin hefur upp á fleira að bjóða en hefðbundið hjónaband og barnauppeldi. Hún leitar útrásar fyrir tjáningaþörf sína og tilfinningar og hirðir lítt um þær margvíslegu skorður sem henni eru settar sem konu, eiginkonu og móður. Og það var af þessum sökum sem sagan fór fyrir brjóstið á mörgum lesendum. Þeir gátu ekki fellt sig við hina óstýrilátu frú Pontellier og þótti ófyrirgefanlegt að sögumaður verksins skyldi a.m.k. ekki fordæma hjúskaparbrot hennar og draumóra. Þetta er ekki uppbyggilegt verk, varð einum gagnrýenda að orði, annar fullyrti að Edna gerði sér enga grein fyrir því að skylda móður við börnin sín væri langtum mikilvægari en fullnæging fýsna sem reynslan hefði kennt henni að væri í eðli sínu hverful. ...
Sjá meira https://uni.hi.is/jkh/thydingar/kate-chopin/
"Bókin kom fyrst út í Bandaríkunum 1899 og fékk blendnar viðtökur enda var efniðviður sögunnar eldfimur, staða og reynsla kvenna í hinu formfasta samfélagi nítjándu aldar. Nú telst Sálin Vaknar til sígildra verka bandarískra bókmennta."
"Söguhetjan, Edna, uppgötvar að tilvistin hefur upp á fleira að bjóða en hefðbundið hjónaband og barnauppeldi. Hún leitar útrásar fyrir tjáningarþöf og tilfinningar og hirðir lítt um þær skorður sem henni eru settar sem eiginkonu og móður."
Bækur | Breytt s.d. kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)