28.1.2007 | 23:41
Janúar 2007 / Hrafninn e. Vilborgu Davíðsdóttur
Ég valdi Hrafninn vegna þess að við vorum mjög hrifnar af sögulegri skáldsögu Þórunnar Valdimarsdóttur, Stúlka með fingur, sem ég hafði áður valið.
Vilborg semur líka skáldsögur með sögulegu ívafi og vildu nokkrir ritdómarar flokka hana sem reifara og að ítarlegar frásagnir Vilborgar af búskaparháttum, siðum og venjum inúíta og íslendinga vera til trafala í sögunni og helst til ýtarlegar. Þessu vorum við ekki sammála og fannst þessar lýsingar gefa sögunni aðra vídd og krydda hana mjög. Við vorum allar sammála um að bókin væri góð, söguhetjan Naaja greip mann strax á fyrstu síðu og bæði fléttan og fram vindan í sögunni sannfærandi og spennandi. Einstaka gloppur í persónusköpun trufluðu okkur ekki (Mikjáll) og sumum fannst presturinn helst til of klisjukennd persóna. Endirinn var góður og gefur lesandanum tækifæri til þess að spinna sinn eigin endi að vild eða hentugleika. Vilborg hefur augljóslega lagt í mikla heimildavinnu við gerð bókarinnar og var t.d. með tungumál inúíta fléttað inní sinn texta á skemmtilegan hátt og samfélagslýsingar hennar eru ótrúlega raunverulegar og lifandi.
Vorum allar sammála um að þetta væri góð afþreyingarbók og vel heppnuð hjá Vilborgu, því gef ég henni einkunina:
Kveðja,
Auður Ögn
Hér eru greinar og umfjallanir um Hrafninn:
http://skruddur.blog.is/blog/itarefni/entry/111047/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.