Herra Pip

herra_pip

Í beinu framhaldi af Glæstum vonum Dickens ætlum við að lesa bókina Herra Pip eftir nýsjálenska skáldið Loyd Jones (1955- ) þýdd af Karli Emil Gunnarssyni 2008.

Herra Pip eftir Lloyd Jones er eflaust orðin vinsælasta nýsjálenska skáldsaga allra tíma. Hún hefur selst í ótrúlegum upplögum, verið þýdd á gríðarmörg tungumál og tilnefnd til margra verðlauna og unnið nokkur. Höfundurinn segir reyndar í viðtali að það að vera titlaður ‘nýsjálenskur’ í bresku pressunni færi hann strax út á jaðarinn – ‘eins og að vera rithöfundur frá Falklandseyjum’ (Guardian, 14. okt. 2007). Ég segi nú bara, þetta fólk veit ekki hvað jaðar er…

Og þó, því bókin gerist á algjöru jaðarsvæði, einni af lítt þekktari eyjum Papúa Nýju Gíneu, og fjallar því einmitt um samskipti og árekstra miðju og jaðars. Herra Watts er eini hvíti maðurinn á eynni, en eyjaskeggjar þurfa að þola ótrúlegt harðræði þegar grimmt er barist um koparnámurnar sem þar eru í upphafi tíunda áratugarins með þeim afleiðingum að íbúarnir í litla fiskiþorpinu sem við fylgjumst með eiga sér enga möguleika, hvað þá framtíð. En einmitt þá kynnast þeir Glæstum vonum – Herra Watts ákveður að reyna að kenna börnunum og fer að lesa fyrir þau Great Expectations eftir Dickens. Einkunnarorð Herra Pip koma frá Umberto Eco: ‘Sögupersónur flytjast milli bóka’, og það er einmitt það sem gerist hér eða öllu heldur, Glæstar vonir kallast á við frásögnina af börnunum og þemu speglast fram og til baka.

Eins og höfundurinn segir í áðurnefndu viðtali, þá er ekki svo mikill munur á munaðarleysingjum og farandfólki, fyrir báða er fortíðin í besta falli fölnuð ljósmynd. Pip hans Dickens er speglaður hér í sögumanni okkar, Matildu, 13 ára stúlku sem verður gagntekin af Pip, eins og bara skáldsagnapersónur gagntekja mann, og skilur og skoðar líf sitt í ljósi Glæstra vona; bókar sem gerist í heimi sem hún hefur ekki nokkra innsýn í eða skilning á.

Nú gæti einhver spurt, er þetta þá einhver nýheimsveldisstefna? Við reynum að skilja framandi menningu með því að yfirfæra kanóníska vestræna menningu yfir á hana og þar með draga úr framandleika hennar og því sem er ólíkt og jafnvel óskiljanlegt. En þessi höfundur er snjallari en svo, framandleikinn er einmitt undirstrikaður með þessum samanburði. Árekstrar menningarheimana eru harðir og vandamálin eru að því er virðist óleysanleg.

En hjartað í verkinu er Matilda litla og hennar sorgarsaga, í samanburði við hana verður okkar kreppa eins og kusk í gluggakistu. Og þessi jaðarheimur sem hér er dreginn fram í dagsljósið verðskuldar athygli okkar – stundum finnst manni eins og atburðirnir sem hér er lýst hljóti að gerast í fjarlægri fortíð, það er eitthvað 19. aldarlegt við þá sem minnir á Nostromo Josephs Conrad, og einangrunin er eins og aftan úr öldum.

Í verkinu er sýnt fram á mátt bókmenntanna til að færa okkur nýjan heim og kynnast um leið sjálfum okkur þegar Matilda kynnist Pip og það á ekki síður við um það þegar lesendur þessarar bókar kynnast Matildu.

http://www.bjartur.is/?i=2&f=2&o=1730

http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/6711_view-2884/6709_page-4/tabid-3409/5648_read-20419/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband