29.1.2013 | 22:25
Rigning í nóvember e. Auður A. Ólafsdóttir
Ung kona stendur á tímamótum. Hún stígur upp úr volgri hjónasæng og heldur í ævintýralegt ferðalag um myrkt og blautt landið. Heitir líkamar, matur, nærgöngul samskipti og leyndarmál úr fortíðinni mæta söguhetjunni í kaldri nóvemberrigningunni.
Auður hefur hlotið mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda fyrir einstaklega seiðandi stíl og listræn efnistök. Hún heldur lesandanum við efnið með því að tefla fram trúverðugum persónum sem glíma við óvæntar og oft kómískar aðstæður og kemur sífellt skemmtilega á óvart.
Rigning í nóvember fjallar um unga nútímakonu í hjónabandi sem raknar sundur m.a. vegna þess að hún vill ekki eiga barn með manninum. Litlu seinna felur einstæð og ólétt vinkona henni að gæta fjögurra ára heyrnarskerts sonar síns yfir helgi en það dregst á langinn. Konan og drengurinn leggja upp í ferðalag um myrkt og blautt landið. Þar með hefst leit að týndum þræði og stefnumót við heim handan orða. Sagan er í senn ástar-, ferða- og þroskasaga, lýsingar eru myndrænar, persónusköpun sterk og stíllinn bæði lipur og hnyttinn. Rigning í nóvember er önnur skáldsaga höfundar." (Úr umsögn dómnefndar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar)
Auður A. Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún er lektor í listfræði við Háskóla Íslands. Áður hefur hún starfað sem listfræðingur og kennari í listasögu, m.a. við Leiklistarskóla Íslands og verið forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Hún hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsa fjölmiðla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.