Óvinafagnaður, Ofsi og Skáld e. Einar Kárason

ovinafagnadur_kilja


Óvinafagnaður (2001). Sögusvið Óvinafagnaðar er Sturlunga öld, nánar tiltekið eftirmál Örlygsstaðabardaga. Sagan er bundin Þórði kakala og hefndum Sturlunga eftir ófarirnar gegn Kolbeini unga. Hámarki ná þeir atburðir í Flóabardaga, mestu sjóorustu sem háð hefur verið á Íslandi fyrr og síðar. Þórður kakali situr að sumbli í Noregi árið 1238 þegar hann fær þær fréttir að faðir hans og hinn glæsti bróðir, Sturla Sighvatsson hafi verið felldir á Örlygsstöðum í fjölmennustu orrustu sem háð hefur verið á Íslandi. Óvígur her, undir forystu Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar, hefur þar með hnekkt veldi Sturlunga og lagt landið undir sig. Þórður kakali ákveður að kveðja bílífið í Noregi, halda heim og mæta fjendum sínum. Í hönd fer æsispennandi atburðarás þar sem við sögu kemur fjöldi litríkra persóna; stoltir höfðingjar, þöglir vígamenn, stórlátar konur, flækingshundar og stríðsþreyttir bændur. Einar Kárason skilar þessu mikla efni í einstaklega lifandi og skemmtilegri bók, ljær því dýpt með frumlegri frásagnaraðferð og þeirri sagnagleði sem lesendur þekkja úr hans fyrri verkum.

 

 

 

Ofsi_kilja

Ofsi (2008). Í nýjustu skáldsögu sinni, Ofsa, snýr Einar Kárason sér aftur að Sturlungaöld sem einnig var viðfangsefni hans í hinni vel heppnuðu skáldsögu Óvinafagnaði frá 2001, og tekst ekki síður vel upp hér. Nú er það aðdragandi Flugumýrarbrennu sem er undir, sáttatilraunir og brúðkaupsplön, og ráðagerðir um vígaferli. Persónur róstutíma Sturlungaaldarinnar stíga fram í stærð sinni og smæð og segja hug sinn. Sögusviðið er Ísland á þrettándu öld: Gissur Þorvaldsson snýr breyttur maður heim úr Noregsför; fús til sátta við erkióvini sína, Sturlungana, eftir áralangan ófrið. Þeir efast um heilindi hans en sannfærast þegar Gissur leggur til að sonur hans kvænist stúlku af ætt Sturlunga. Fjölmenni er boðið til brúðkaupsveislu að Flugumýri þar sem innsigla á friðinn. Ekki mæta þó allir sem boðið var. Eyjólfur ofsi glímir bæði við stórlynda eiginkonu og stríða lund: Í vígahug, með svarta hunda á hælunum, ríður hann með flokk manna að Flugumýri í veislulok; nýsaminn friður er ekki allra … Einar hefur einstakt lag á að miðla efninu þannig að auðvelt er að lifa sig inn í atburði, skilja og skynja. Ofsi er saga sem vekur í senn áhuga á skrautlegum flækjum og persónum þjóðarsögunnar og færir lesendur inn í hringiðu átakanna; sálarkeröld mannfólksins. Ofsi hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. 

 

 

Skald_kilja

Skáld (2012). Með Skáldi lýkur Einar Kárason Sturlungasögu sinni. Í Óvinafagnaði var Þórður kakali í sögumiðju, í Ofsa þeir Gissur Þorvaldsson og Eyjólfur ofsi, hér er það skáldið Sturla sem lifði þessa róstusömu tíma og færði okkur þá í frásögnum sínum. Nú fær hann sjálfur að sýna okkur í hug sinn, og með honum margir fleiri leikendur í þessari miklu atburðarás. Sumarið 1276 situr Sturla Þórðarson heima á Staðarhóli og hefur nýlokið við að skrá þann atburð er brúðkaupsgestir voru brenndir inni á Flugumýri. Þá gerir Magnús lagabætir Noregskonungur honum boð um að koma umsvifalaust á sinn fund. Sturla leggur tregur af stað ásamt tveim öðrum íslenskum höfðingjum, Hrafni Oddssyni og Þorvarði Þórarinssyni, en skip þeirra brotnar í óveðri við Færeyjar og þeir félagar þurfa að þreyja þar veturinn. Þessi langa dvöl verður Sturlu tilefni til að rifja upp válega atburði undangenginna fjörutíu ára og sjá þá í nýju samhengi … 

 

Einar hefur hlotið ýmis verðlaun og tilnefningar fyrir skrif sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin 2008. Þá hefur hann fjórum sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (1987, 1996, 2005 og 2010).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband