10.10.2015 | 13:06
Fátækt fólk e. Tryggva Emilsson
Fátækt fólk, fyrsta bindi æviminninga Tryggva Emilssonar verkamanns, vakti mikla athygli og umtal þegar bókin kom út árið 1976 fyrir fádæma orðsnilld, persónusköpun og stíl en þó fyrst og fremst fyrir þá sögu sem þar var sögð. Söguna af fátæku fólki á Íslandi fyrir tíma almannatrygginga; þegar hægt var að taka björgina frá barnmörgu heimili vegna þess að kaupmaðurinn þurfti að fá sitt; þegar litlum börnum var þrælað út í vist hjá vandalausum; þegar sjálfsagt þótti að senda hungrað barn gangandi tvær dagleiðir í vondu veðri til að reyna að fá úttekt í versluninni.
Frásögn Tryggva af uppvexti sínum, móðurmissi og vondum vistum snemma á síðustu öld hefur engu glatað af styrk sínum og töfrum og á ef til vill ennþá brýnna erindi við okkur nú en þegar hún kom fyrst út. Þorleifur Hauksson hafði umsjón með útgáfunni og ritaði formála.
Tryggvi Emilsson verkamaður og rithöfundur fæddist 20.október 1902 í Hamarkoti, litlu bændabýli fyrir ofan Oddeyri á Akureyri, fimmta barn foreldra sinna af átta. Hann gaf út fáein skáldverk í bundnu og óbundnu máli en það er ævisagan sem mun halda nafni hans á lofti meðan íslenska er töluð og lesin.
Sannleikurinn er einfaldlega sá að þessi bók er alveg sérstök hún er ein merkasta og áhrifamesta ævisaga sem skrifuð var hér á landi á 20. öld. Frásagnargáfa höfundar er slík að lesandinn gengur inn í verkið og fylgir hinum unga, hungraða dreng sem þarf alltof oft að takast á við ömurlegt umhverfi og óvinveitt fólk. Og einhvern veginn virðist þessum gáfaða dreng hafa tekist að varðveita svo fjarska vel mennskuna í sjálfum sér, þrátt fyrir að hafa verið í eymdinni miðri. Þetta er tímalaus bók og gæði hennar eru slík að hún mun standast alla tískustrauma. Hún er eilífur minnisvarði um lífsbaráttu fátæks fólks. Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.