Paradísarheimt e. Halldór Kiljan Laxness

paradísarheimt-100x150Skáldsagan Paradísarheimt eftir Halldór Kiljan Laxness kom út árið 1960. Í henni segir frá Steinari bónda Steinssyni í Hlíðum undir Steinahlíðum sem yfirgefur fjölskyldu sína á Íslandi til að leita uppi sæluríki mormóna í Ameríku. Hann vonast til að finna þar paradís á jörð en snýr aftur til heimahaganna, fróðari um trúarlíf mannsins, hugsjónir og freistingar.

Paradísarheimt kom út samtímis á Íslandi og í Svíþjóð árið 1960. Síðar sama ár var hún gefin út í Danmörku og Noregi og árið 1962 í Bretlandi og Bandaríkjunum

Þetta sýnir glögglega stöðu Halldórs Laxness í bókmenntaheiminum í kjölfar þess að hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Helstu persónur bókarinnar eiga sér sögulegar fyrirmyndir, t.d. er kveikjan að sögunni ferðasaga Eiríks Ólafssonar á Brúnum sem hélt til Utah til að kynnast mormónum.

Sagan segir frá Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Hann hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika. Þar tekur hann upp nafnið Stone P. Stanford. Sögunni lýkur þannig að söguhetjan stendur aftur hjá bæ sínum undir Hlíðum sem kominn er í eyði, nánast jafnaður við jörðu. Og nú er maðurinn einn. Hann hefur glatað öllu og hefur tekið til við að reisa við vallargarðinn í túninu heima.

Paradísarheimt má meðal annars túlka í samhengi við feril Halldórs Laxness og vonbrigði hans með framkvæmd sósíalismans í Sovétríkjunum. „Mormón verður sá einn sem hefur kostað öllu til," segir Þjóðrekur biskup í sögunni. Sá sem vill ná landi í sæluríkinu verður að fórna öllu fyrir hugsjón sína. Út úr Paradísarheimt má kannski lesa uppgjöf skáldsins, vonbrigði hans vegna liðsinnis í þágu voldugrar hugmyndafræði og brostna drauma um fyrirheitna landið. Hann hafi kostað öllu til en ekki fundið það sem hann vonaðist eftir.

Fleyg orð

„... þegar heimurinn er hættur að vera dásemdafullur í augum barnanna okkar þá er nú lítið orðið eftir ..." (2. kafli. Steinar.)

„Að vakna við að maður hefur mist alt og veit að maður á ekki leingur neitt, er það þá að vera manneskja?" (27. kafli. Steina.)

„Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð." (30. kafli. Steinar.)

----------------

Halldór (Kiljan) Laxness (fæddur: Halldór Guðjónsson 23. apríl 1902, dáinn 8. febrúar 1998) var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld.

Halldór var sonur Sigríðar Halldórsdóttur (fædd 1872) og Guðjóns Helgasonar (fæddur 1870). Fyrstu æviárin bjó hann í Reykjavík en flutti að Laxnesi í Mosfellssveit árið 1905.

Hann tók fljótt að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 14 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu H.G. Ekki löngu síðar birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni og var sú grein um gamla klukku.

Á ferli sínum skrifaði Halldór 51 bók, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit og fleira. Til að sjá þau rit sem hann gaf út er hægt að skoða bókalistann hér að neðan.

Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955. Hann var tvíkvæntur og eignaðist fjögur börn.

Frá árinu 1945 átti Halldór fast heimili á Gljúfrasteini í Mosfellssveit. Að frumkvæði Davíðs Oddsonar, forsætisráðherra keypti ríkissjóður Gljúfrastein af Auði Laxness, ekkju Halldórs, og opnaði þar safn til minningar um skáldið haustið 2004. Auður gaf safninu innbú þeirra hjóna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband