Stúlkan frá Puerto Riko og Næstum fullorðin e. Esmeralda Santiago

Stulkan_fra_Puerto_Riko_1024x1024Hún heitir Esmeralda, kölluð Negi, og er frá Púertó Ríkó. Hún býr í kofa í litlu þorpi ásamt foreldrum og sjö systkinum og kynnist ung harðri lífsbaráttu. Undir brennheitri sól horfir hún á fólkið í kringum sig og þyrstir í að skilja allt og meðtaka. Hún lærir að lifa af, hvort sem það er fátækt, fellibyljir eða heiftúðug rifrildi foreldranna. Hún lærir líka að meta uppruna sinn, njóta anganar mangótrjánnna, kryddilmsins úr eldhúsi mömmu og verða þátttakandi í ástríðufullum ljóðaáhuga pabba síns. Skyndilega breytist allt. Negi flyst ásamt móður sinni til Bandaríkjanna. Í stórborginni New York eru önnur hljóð, annars konar lykt, aðrar reglur. Þrettán ára Púertó Ríkó stelpa þarf að fóta sig í nýrri menningu, læra nýtt tungumál – finna sjálfa sig á nýjan leik. Höfundurinn Esmeralda Santiago deilir hér með okkur þroskasögu sinni, hver hún var og hver hún er. Á magnaðan og seiðandi hátt lýsir hún uppvexti sínum hjá litríkri fjölskyldu í sorgum og sigrum. Þetta er fyrsta bók höfundar sem síðan hefur sent frá sér fleiri sögur sem hlotið hafa einróma lof gagnrýnenda.

Esmeralda Santiago er frá Púertó Ríkó og er nýflutt til New York. Líf hennar utan veggja heimilisins er kærkomin hvíld frá baslinu í tveggja herbergja íbúð í Brooklyn, kröfuharðri móður og ört stækkandi systkinahópi. Töfrar og tækifæri borgarinnar heilla og Esmeröldu dreymir um að gera nokkuð sem enginn í fjölskyldu hennar hefur gert áður - að mennta sig. Hún fær inngöngu í virtan sviðslistaskóla á Manhattan, leikur Kleópötru í leiksýningum, dansar salsa um nætur og eygir von um annað líf, frægð og frama.

NAESTUM_FULLORDIN_KAPUMYND_net_1024x1024Esmeralda aðlagast nýju umhverfi fljótt en krafan um að hún sé trú uppruna sínum er sterk og togstreitan eykst. Hún berst fyrir sjálfstæði sínu og að losna undan verndarvæng móður sinnar sem sér hættur á hverju götuhorni og í augnatilliti hvers karlmanns.

Bókin er sjálfstætt framhald Stúlkunnar frá Púertó Ríkó sem kom út 2014.

Hér heldur höfundur áfram að segja þroskasögu sína og lýsa uppvexti sínum á magnaðan og seiðandi hátt. Esmeralda Santiago deilir með okkur minningum sínum sem veita einstaka innsýn í líf ungrar konu í New York sjöunda áratugarins.

Leiftrandi frásagnargáfa Esmeröldu heldur lesandanum hugföngnum. Ljóslifandi minningabók sem erfitt er að leggja frá sér og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Herdís Magnea Hübner íslenskaði.

Santiago er þekktust fyrir endurminningabækur sínar sem meðal annars fjalla um þá reynslu að tilheyra tveimur löndum, en sjálf fæddist Santiago á Puerto Rico og fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hún var þrettán ára. Tvær endurminningabókanna hafa verið gefnar út á íslenskri þýðingu, Stúlkan frá Púertó Ríkó (2014) og Næstum fullorðin (2016).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband