3.12.2018 | 19:51
Tinnabækurnar e. Hergé
Tinnabækurnar eru oft sagðar sýna skoðanir höfundarins, Hergé, á mjög augljósan hátt. Sagt hefur verið um Tinna að hann hafi verið hetjan sem hinn unga Hergé hefði dreymt um að verða. En persónu Tinna mætti lýsa sem venjulegum manni sem kemur upp um vondu karlana og sigrast á öllum erfiðleikum. En þó Tinni sé næsta fullkominn, þá hafa samferðamenn hans flestir augljósa galla. Einkum á það við um hinn drykkfellda Kolbein kapteinn sem Tinni þarf oft að bjarga úr vandræðum. Mikið af vandræðunum sem Tinni lendir í eru framfærð og mótuð af skoðunum Hergé, og Tinni hefur samúð og hjálpar þeim sem skapari hans leit á sem hjálparþurfi.
Fyrstu bækurnar eru augljóslega mjög litaðar af heimssýn Hergé; þær eru t.d. á móti bæði Bandaríkjunum og Sovétríkjunum en fylgjandi nýlendustefnu Evrópu. Bækurnar voru, líkt og andinn í Belgíu á þeim tíma, mjög þjóðernissinnaðar. Þegar Blái Lótusinn kom út hafði stefna Hergé breyst nokkuð þar sem samúðin var með Kínverjum gegn Japönum og vesturlandabúum og afskiptum þeirra í Kína. Veldissproti Ottókars konungs er augljóslega á móti Nasistum en sögurnar sem fylgdu í kjölfarið voru hlutlausar þar eð Belgía var hersetin af Þjóðverjum. Þær bækur sem á eftir komu eru ekki mjög pólítískar, en í Tinna og Pikkarónunum verður Tinni fyrst beinn þátttakandi í atburðarás, ekki bara áhorfandi og rannsakandi. Þar tekur hann þátt í byltingu sem verður að teljast ansi pólitísk.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.