10.1.2019 | 18:00
Ef þú vilt e. Helle Helle
Í sögunni segir frá tveimur einstaklingum, karli og konu, sem fyrir tilviljun hittast úti í skógi þar sem þau hafa bæði verið skokka. Þau þekkjast ekkert og eru villt. Kunnuglegt minni úr fjölmörgum ævintýrum. Kannski má finna fleiri samlíkingar við gömul ævintýri í þessari sögu sem tekst í sínum óendanlega djúpa hversdagsleika að vera hörkuspennandi. Hvað gera tvær bláókunnugar manneskjur, áttavilltar úti í skógi þar sem símasamband er ekkert og aðeins með fáeina gúlsopa af vatni á plastflösku.
Þau hafa aldrei sést fyrr, hann er frá Sjálandi, hún frá Norður-Jótlandi, en nú eru þau bæði villt í stórum jóskum skógi. Myrkrið er að detta á þegar þau ramba á frumstætt skýli í skógarþykkninu. Þar láta þau fyrirberast um nóttina og langt fram á næsta dag.
Stíllinn er einfaldur, því Helle Helle hefur skorið burt allt sem þykir ofaukið. Þannig verður lesandinn ef hann ætlar að túlka textann að vera eins og atferlissálfræðingur sem ályktar um sálarástand fólks út frá gerðum þess, enda er stíll Helle Helle kallaður mínímalískt raunsæi. Eins og hjá danskri fyrirmynd Helle Helle, Herman Bang, virðist ekki mikið gerast í verkum hennar, söguhetjur hennar eru eins og Bang lýsir þeim í eigin verkum kyrrlátar verur og er aðalpersónan alltaf kona. Í Ef þú vilt vildi Helle Helle ögra sjálfri sér með því að nota karlmann sem söguhetju. En jafnvel þó að sögumaðurinn sé karlkyns, er það engu að síður svo að smám saman verður tíu árum yngri, nafnlaus kvenpersóna hinn eiginlegi sögumaður.
"Allt virðist afar einfalt og hverdagslegt en undir yfirborðinu leynist drama sem lesandinn verður sjálfur að túlka og kalla fram."
Helle Helle er meðal fremstu samtímahöfunda í Danmörku en hefur fyrst núna verið þýdd á íslensku. Um er að ræða nýjustu bók hennar Ef þú vilt (da. Hvis det er) í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Helle Helle gaf út fyrstu bók sína 1993 rétt eftir að hún útskrifaðist frá danska höfundaskólanum en hefur síðan náð talsverðum vinsældum með sjö skáldsögum og tveimur smásagnasöfnum, hjá bæði lesendum og ritdómurum í Danmörku og erlendis.
Tvívegis hefur hún verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, síðast einmitt fyrir Ef þú vilt (2014), og í maí 2016 hlaut hún svokölluð stóru verðlaun dönsku akademíunnar. Þess má líka geta að þarsíðasta bók hennar, Dette burde skrives i nutid (2011), var árið 2014 þýdd yfir á ensku og fékk góða dóma, meðal annars í New York Times og The Guardian.
--------------
Skáldsagan Ef þú vilt eftir hina dönsku Helle Helle hefur sannarlega vakið athygli undanfarna daga en um hana hafa birst einstaklega jákvæðir dómar í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu.
Helle Helle var gestur á Bókmenntahátíð í fyrra en Ef þú vilt var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs það ár. Silja Aðalsteinsdóttir þýddi bókina en þetta er fyrsta bók höfundar sem kemur út á íslensku.
Í dómi Fréttablaðsins gefur Magnús Guðmundsson bókinni fullt hús stiga, fimm stjörnur, og segir í niðurlagi: Einföld bók sem lætur lítið yfir sér en er í raun hlaðin merkingu og dásamlegum vangaveltum um líf okkar, sambönd og einmanaleika. Auk þess segir hann Helle Helle skrifa næman, stílhreinan og fallegan texta uppfullan af dönskum húmor eins og hann gerist bestur og tekst á við hluti sem við flest þekkjum úr okkar daglegu lífi. En á sama tíma gera bækur hennar kröfu til lesandans um að lesa af næmni og jafnvel áfergju og draga fram allt það sem undir liggur. Allt það sem er í lífi sem virðist slétt og fellt en er allt annað og meira.
Í Morgunblaðinu gefur Anna Lilja Þórisdóttir bókinni fjóra og hálfa stjörnu: [Helle Helle] er afburða prósahöfundur, textinn er lágstemmdur, mínímalískur og hrífandi og skilar sér einkar vel á íslensku í afburðaþýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Bókin er eiginlega allt of fljótlesin og í bókarlok situr eftir löngun til að fá að vita meira, hvað skyldi gerast næst?.
Það er því óhætt að mæla með Ef þú vilt, bók sem lætur lítið yfir sér í fyrstu en hreyfir á einstakan hátt við lesandanum.
http://hugras.is/2016/06/ef-thu-vilt/
https://www.norden.org/is/nominee/helle-helle-hvis-det-er
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.