18.3.2022 | 20:28
Eins og fólk er flest e. Sally Rooney
"Normal People fjallar um menntaskólavinina Marianne og Connell. Það sem einkennir samband þeirra er stéttarskiptingin og valdaójafnvægi. Móðir Connells þrífur stórhýsi hinnar sérvitru Marianne, á meðan Connell er vinsæli strákurinn í skólanum. Vinir hans líta niður á Marianne sem telst ekki falleg út frá samfélagslegum stöðlum, fólki þykir hún frekar skrítin og alltof klár. Óvænt vinátta þeirra og ástir fleyta söguþræðinum svo áfram þar sem þau reyna að fóta sig í heiminum."
Allir vita að Maríanna býr í hvíta slotinu með heimreiðinni, þeir vita að mamma Connells er ræstingakona, en enginn hefur enn lagt saman tvo og tvo.
Maríanna er einmana og utanveltu í menntaskólanum á meðan Connell er í hópi vinsælustu nemendanna. Þau verða ástfangin og eiga næstu árin í einhvers konar haltu-mér-slepptu-mér samskiptum sem þau vilja ekki vera án, en um leið er eins og sambandið sé í raun stærsta hindrunin í vegi þeirra beggja.
Textinn hennar Rooney flæðir vel, hún flækir aldrei frásögnina með óþarfa lýsingum eða myndlíkingum. Hún ber söguna fram á einfaldan og áhrifaríkan máta. Hvert einasta orð hefur tilgang, þetta gerir hún viljandi svo að allar tilfinningar liggi undir yfirborðinu og er það hlutverk lesandans að rýna í undirtexta verksins. Þetta finnst mér hressandi frásagnaraðferð sem talar beint til nútímans.
Eins og fólk er flest er önnur skáldsaga Sally Rooney, sem vakti verðskuldaða athygli fyrir þá fyrstu: Okkar á milli. Sjaldan hefur jafnungur höfundur skotist svo hratt á stjörnuhiminn.
Normal People var bók vikunnar hjá Guardian og kallar bókmenntagagnrýnirinn Kate Clanchy bókina: framtíðar klassík. Bókin komst einnig á lista fyrir Man Booker verðlaunin. Það virðist allt bókstaflega ætla að verða vitlaust yfir henni ungu Sally bókin hefur farið sigurför um heiminn og bókmenntaheimurinn bíður í eftirvæntingu eftir næstu verkum hennar
Sally Rooney skrifar um samtímafólk sitt, hún hefur sjálf sagt í viðtali að hún hafi takmarkaðan reynsluheim og skrifi um persónur á sama aldri og sem ganga í sama háskóla og hún. Þar með þekkir hún tilfinningarnar, umhverfið og andrúmsloftið einstaklega vel sem hún nýtir í söguheiminn. Hún skrifar beint inn í samtíma sinn og nær til lesendahóps sem á auðvelt með að samsama sig við persónurnar hennar. Sally ber fram ferska og nútímalega rödd í skrifunum sínum og hefur náð að heilla þónokkuð marga upp úr skónum. Í Eins og fólk er flest nær hún að skapa djúpar og breyskar persónur sem fara í þroskaferðalag, ferðalag sem flestir þekkja, og gerir manni ókleift að standa á sama um örlög Marianne og Connels.
https://www.ruv.is/frett/hitamaelir-a-eigin-kynslod
https://www.theguardian.com/books/2021/aug/28/sally-rooney-hell-of-fame-normal-people
https://www.youtube.com/watch?v=4jH_0rg46Es
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.