12.8.2022 | 17:19
Dauðinn í Feneyjum e. Thomas Mann
Dauðinn í Feneyjum er ein af þekktustu bókum þýska nóbelshöfundarins Thomasar Manns (1875-1955) og kom út í aðdraganda að fyrri heimstyrjöldinni árið 1913. Lesa mætti söguna í því ljósi en hún lýsir rosknum manni sem hleypir upp á yfirborðið tilfinningum sem hann hefur bælt í fjöldamörg ár undir knýjandi samfélagsboðum og strangri, raunsæislegri og röklegri lífssýn hins agaða og vinnusama en hlýtur fyrir vikið svipleg örlög. En þessi saga er marglaga og bægir frá sér öllum tilraunum til einfalds lesturs. Eitt er þó víst að hún skírskotar til ævi Manns, eins og margar aðrar skáldsögur hans, en kveikjan að henni var ferð skáldsins til Feneyja árið 1911 þar sem hann kynntist og felldi hug til ungs pilts, eins og Aschenbach, aðalpersóna Dauðans í Feneyjum.
Dauðinn í Feneyjum segir sögu rithöfundar, Gustav von Aschenbach, sem er kominn á sextugsaldur og þjáist af mikilli ritstíflu. Honum dettur í hug eftir nokkrar bollaleggingar að ferð til Feneyja geti komið hreyfingu á sálarlífið. Reynslan sem bíður hans þar á hins vegar eftir að hafa örlagaríkari áhrif á líf hans en hann hefði getað órað fyrir.
Dauðinn í Feneyjum er stutt skáldsaga eða svokölluð nóvella.
Mann sagði sjálfur að sagan fjallaði um "algleymi hins dæmda manns" en að vandinn sem hann hefði sérstaklega haft í huga væri "sæmd listamannsins". Þetta er raunar umfjöllunarefni margra skáldsagna Thomasar Manns og kannski má segja að hann hafi hlotið það í arf frá rómantíska tímanum. Í Dauðanum í Feneyjum eru átök listar og samfélags upp á líf og dauða.
Paul Thomas Mann (6. júní 1875 12. ágúst 1955) var þýskur rithöfundur sem einkum er þekktur fyrir langar skáldsögur sem innihalda greiningu og háðsádeilu á þýskt samfélag. Mann flýði land eftir valdatöku nasista í Þýskalandi og var einn af helstu gagnrýnendum Þriðja ríkisins. Hann fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1929 fyrir Buddenbrooks sem var fyrsta skáldsaga hans.
MBL: List, samfélag, fegurð, dauði
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.