2.2.2023 | 21:54
Menntuð e. Tara Westover
"Menntuð eftir Töru Westover (í þýðingu Ingunnar Snædal) er ævisaga Töru og umfjöllun um óhefðbundna leið hennar að menntun. Tara fæddist árið 1986 í Idaho, Bandaríkjunum, og ólst upp í miklu trúarofstæki meðal mormóna á heimili þar sem ofsafengnar ranghugmyndir um ríkisstofnanir og yfirvofandi heimsendi réðu ríkjum. Tara var því algjörlega ótengd nútímanum og raunveruleikanum þar til hún braust út úr erfiðum aðstæðum sínum, algjörlega upp á eigin spýtur. Það er magnað að lesa um óbilandi seiglu og ósérhlífni ungrar konu þrátt fyrir þær hindranir sem standa í vegi fyrir henni, og fylgjast með henni brjóta sér leið til menntunar."
Tara Westover ólst upp við undirbúning fyrir heimsendi, beið eftir að sólin myrkvaðist og máninn litaðist blóði. Á sumrin sauð hún niður ferskjur og á veturna safnaði hún neyðarbirgðum í þeirri von að þegar heimur manna liði undir lok myndu hún og fjölskylda hennar lifa af.
Hún átti ekki fæðingarvottorð, engin einkunnablöð því að hún hafði aldrei stigið fæti inn í skólastofu og engar sjúkraskýrslur þar sem faðir hennar vantreysti heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt öllum opinberum stofnunum var hún ekki til.
Þegar hún eltist varð faðir hennar sífellt öfgafyllri í skoðunum og bróðir hennar æ ofbeldisfyllri. Sextán ára gömul ákvað Tara að mennta sig sjálf.
https://bergthoraga.blog.is/blog/bergthoraga/entry/2241452/
https://www.youtube.com/watch?v=LRPpKUqnT8M&t=2417s
https://en.wikipedia.org/wiki/Tara_Westover