28.9.2024 | 21:16
Í landi annarra e. Leila Slimani
Myndarlegur liðsforingi frá Marokkó fangar hug frönsku stúlkunnar Mathilde og hún fylgir honum til heimalands hans.
Í landi annarra er hjartnæm og hrífandi skáldsaga sem dregur upp ljóslifandi mynd af marokkósku samfélagi á árum sjálfstæðisbaráttunnar. Þetta er fyrsta bókin í þríleik sem byggður er á ættarsögu höfundarins.
Örlög Mathilde ráðast í lok síðari heimsstyrjaldarinnar þegar frönsk herdeild nýlendubúa hefur viðdvöl í þorpinu hennar í Alsace. Myndarlegur liðsforingi frá Marokkó fangar hug hennar og hjarta og þegar stríðinu lýkur fylgir hún honum til heimalandsins. Með ástina og hugrekkið að vopni tekst hún á við framandi samfélag í hrjóstrugu landi þar sem ungu hjónin mæta erfiðleikum og fordómum bæði af hendi innfæddra og frönsku nýlenduherranna.
Leïla Slimani ólst upp í Marokkó en býr í Frakklandi. Hún sló í gegn með Barnagælu, magnaðri glæpaskáldsögu sem hlaut hin virtu Goncourt-verðlaun, varð metsölubók og hefur komið út víða um heim, meðal annars hér á landi.
Sjáið okkur dansa e. Leila Slimani
Aisha er augasteinn foreldra sinna, marokkóska landeigandans Amins og Mathilde sem kemur frá Alsace í Frakklandi og hefur fylgt manni sínum til þessa framandi lands. Aisha stefnir á að verða læknir og ekkert truflar það, ekki einu sinni þegar hún verður ástfangin af ungum hagfræðingi sem lítur út og hugsar eins og Karl Marx. Aðrir í fjölskyldunni glíma við flóknari vandamál í lífi og ástum enda miklir umbrotatímar í Marokkó á sjöunda áratug 20. aldar. Vestrænir hippar flæða inn í landið og mikil ólga er í þjóðlífinu vegna misskiptingar, harðstjórnar og togstreitu milli gamalla og nýrra gilda.
Sjáið okkur dansa er annað bindið í þríleik Leïlu Slimani sem hún byggir á ættarsögu sinni en fyrsta bókin, Í landi annarra, kom út á íslensku árið 2021 og var afar vel tekið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.