25.1.2025 | 12:27
Ból e. Steinunn Sigurðardóttir
Ból er eldheit og grípandi átakasaga um ofurást og hjartasorg, styrk og uppgjöf, listilega stíluð og byggð svo úr verður magnað og margbrotið skáldverk.
Líneik Hjálmsdóttur LínLín er ekki fisjað saman. Hún hefur stigið ölduna í stórsjó lífsins og stendur enn keik þrátt fyrir sáran missi og þung áföll. En nú er komið að ögurstund. Náttúran fer hamförum rétt við sælureitinn hennar í sveitinni, hjartastaðinn sem foreldrarnir byggðu upp og ræktuðu. Einbeitt heldur hún til móts við ógnina sem engu eirir og fortíðina um leið: minningarnar, ástina, leyndarmálin og sorgirnar stóru.
Steinunn Sigurðardóttir hefur skrifað fjölda óviðjafnanlegra verka sem hafa notið verðskuldaðra vinsælda. Skörp sýn hennar á mannlega náttúru, beitt skopskyn og leiftrandi stíll heilla lesendur og ný skáldsaga frá henni sætir ávallt tíðindum.
Nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur, Ból, er efnislega gjörólík öðrum skáldsögumhennar, svo fjölbreyttar sem þær eru. Þetta er sú af mínum sögum sem er viðburðaríkust, bæði hið ytra og innra, segir Steinunn. Fléttan er ófyrirsjáanleg, leyndarmálin líka. Og oftar en einu sinni tvöfaldar afhjúpanir. Bak við eitt leyndarmál leynist annað. Þannig að sagan verður spennandi aflestrar, að sumu leyti á meira hefðbundinn hátt en fyrri skáldsögurnar mínar. Vísir 2023
Steinunn Sigurðardóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 fyrir skáldsöguna Ból. Er þetta í annað sinn sem hún hreppir verðlaunin en þau komu einnig í hennar hlut árið 2005 fyrir bókina Hjartastaður.
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið. Það er margt sem kraumar undir, líkt og í náttúrunni sem býr sig undir að gjósa, en ferðinni er heitið heim í unaðsreit fjölskyldunnar, Ból, sem er um það bil að verða náttúruöflunum að bráð.
RÚV Kiljan
Rauða borðið - Helgi-spjall: Steinunn Sigurðardóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.