30.4.2008 | 20:21
Saffraneldhúsið e. Yasmin Crowther
Saffraneldhúsið er fyrsta skáldsaga Yasmin Crowther og segir frá Marayam Mazar, íranskri konu í London, sem ákveður að snúa aftur til fæðingarþorpsins síns í Íran eftir fjörutíu ára fjarveru. Höfundurinn er bresk í aðra ættina og írönsk í hina og fjallar bókin að miklu leyti um menningarlega togstreitu og klofnar sjálfsmyndir íranskra innflytjenda á Vesturlöndum.
Saffraneldhúsið er ljúf og grípandi saga, skrifuð af miklu innsæi, um samband móður og dóttur, svik og refsingu, ást og fjölskyldubönd, gerólíka menningarheima, togstreitu útlegðarinnar og klofna sjálfsmynd. Ekki síst fjallar hún á áhrifamikinn hátt um það hvernig draumar og draugar fortíðarinnar elta okkur alltaf uppi þótt þeir hafi legið í þagnargildi árum saman.
Aftan á bókarkápu segir: Á þungbúnum haustdegi í London brjótast sársaukafullar minningar Maryam Mazar upp á yfirborðið með þeim hræðilegu afleiðingum að dóttir hennar Sara missir ófætt barn sitt. Við lesturinn kemur í ljós að það er heldur langt seilst að kenna móðurinni um fósturlát Söru en það breytir ekki því að yfirþyrmandi sektarkennd rekur konuna heim til Írans að vitja fortíðarinnar. Sara eltir hana svo þangað nokkru síðar og mæðgurnar eiga nauðsynlegt uppgjör hvor við aðra og við ólíka menningarheima Englands og Írans.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.