24.11.2009 | 14:13
Snarkið í stjörnunum - Jón Kalman Stefánsson
12.11.2003
Snarkið í stjörnunum: Jón Kalman Stefánsson
Það er myrkur nóvembermánuður. Þeir eru alltaf heldur myrkir. Hvort sem ég horfi út um gluggann eða inn um hann, heyri nóvember sunginn eða lesinn. Ætli íslenskur nóvember sé jafn myrkur, eða jafnvel myrkari í spænsku veikinni 1918 og hann er í dag 2003. Líklegast er nóvembermyrkrið samt við sig hvort sem er í skáldskap eða veruleika; svæfandi, fallegt, kalt og á stundum óbærilegt. Eða í það minnsta eru allar minningar mínar um nóvember á þá vegu. En það er nú bara ég og augun mín. En augu sögumanns bókarinnar Snarkið í stjörnunum eftir Jón Kalman Stefánsson, eru augu sjö ára drengs jafnt sem fullorðins manns að nálgast fertugt, sem reika um nóvember sem og aðra mánuði og ár er ala af sér minningar og möguleika. Hann speglar sig í tímanum og flöktir um í frásögnum af fólki á ólíkum tímaskeiðum. Úr fjölskyldu verða fjölskyldur, og saman fléttast fólk og það sem tengir það saman í nærveru og fjarveru tímans.
Í þessari skáldsögu er brot af mörgum sögum sagðar með minningarflökti á yfir 100 árum, þar sem leikur með hugsunina og mörk skáldskapar og veruleika skipa stóran sess í bland við sagnastíl. Hvað er minning, og hvernig verða minningar til? Hvað aðskilur mína minningu frá þinni? Jú sagan fjallar vissulega um ástina í sínum ýmsu myndum og um allt það sem rúmast innan hugmynda, tilfinninga, minnninga um ást það samband og sú sundrun sem liggur á milli elskenda, vina, foreldra, barna, og ekki síst á milli kynslóða. Það á sér stað endurnýjun á lifandi tengslum. Dregnar eru upp myndir sem verða að orðum og orðin að lífi í tíma og rúmi. Við kynnumst sögu og örlögum langafans og langömmunnar, heyrum örlítið af afanum og norsku ömmunni og síðan af kynnum mömmunnar og pabbans þar sem dauðinn grípur inn í, og um afleiðingar af móðurmissi, - eða eins og sögumaður segir á einum stað: [...]sitt lítið af því sem allir kannast við, lífi, dauða, sorg og hamingju og síðan sjórinn, talsvert af fiski og loks jökullinn.(143) Fjölskyldusagan er römmuð inn í rými skáldskaparins þar sem hugurinn leitar upphafs.- Um hvaða upphaf er verið að ræða? Hvernig byrjaði þetta allt saman, ég og þú og orðin okkar? Hvað verður um það sem einhvern tímann á sér upphaf? Endar þetta allt í þögninni, hverfur í kafgras gleymskunnar er þoka tímans læðist yfir. Og sögumaður brýst inn í fortíðina, gerir hana að sinni, lífgar hana við og leitar eftir vegvísi stjarnanna, sem eiga víst að segja frá einhverju mikilvægu, og þá er ekki verið að tala um fegurð, fjarlægð og tíma: [...]því stjörnurnar eiga að geta leiðbeint mér, vísað til vegar, þær eiga að bjarga mér ef ég villist(50) segir sögumaður síðla kvölds í janúarmánuði 2002. Hugurinn reikar áttlaus aftur til fortíðar, virkir hana og þá möguleika sem búa í henni, en áhrifamesta sagan, er saga af lífi langömmu og langafa sem kynnast í Reykjavík um aldamótin 1900. Það er skemmtilegt að fjarlægðin skuli skapa slíka nánd. Persónusköpun þeirra er rík og lesandi skynjar sterkt hungur þeirra til hvors annars sem leiðist út í sársauka. Þau, og þar með fleiri, eiga upphaf sitt í kvistherbergi á Vesturgötunni þar sem til staðar var: hárfín blanda af feimni og djörfung, hiki og ákafa, depurð og stjórnlausri hamingju.(43) Harmræn ástarsaga þeirra leiðir þau frá Vesturgötunni yfir á Bergstaðarstrætið og þaðan á Snæfellsnesið og aftur til Reykjavíkur. Rúmum 90 árum frá þeirra upphafi, rýnir sögumaður í fortíðina, rýnir í gamla, þunga spegilinn sem þau fundu í Kaupmannahöfn, spegillinn sem að langafi horfði í til að reyna að minna sig á að stíga varlega til jarðar, en þó ákveðið, engu að síður vaknar hann upp og lítur í dökk augu langömmu, sem þá er ung kona, úr augunum lýsir vonleysi og vonbrigði og honum líður eins og einhver hafi skorið úr honum hjartað. En í öllum sársaukanum og vonleysinu býr þó ávallt óútskýranleg von, samskonar von og býr í orðinu: komdu. Og spurt er: Úr hverju eru þau bönd gerð sem binda saman tvær manneskjur og hafa í algjöru ráðaleysi verið kölluð ást?(101) Þetta samheiti yfir svo margt, margt og það snarkar í stjörnum, og móðurlaus drengurinn í Safamýrinni hann skynjar tíman sem vægan en djúpan sársauka.
Minningarflöktið verður þunglamalegt á stundum, leysist ómarkvisst upp, en þegar líða tekur á lestur taka brotin á sig myndir sem margar hverjar snerta með hugrekki og næmi. Snarkið í stjörnunum, eftir Jón Kalman, er falleg saga í sögu, sem langar að skynja þetta sem heitir tími. Að skrifa upphaf sitt og leita þess í skáldskap því að þar, í orðunum, gætu sönnustu heimkynnin verið. Og langamman spyr ástmann sinn, rauðhærða sjómanninn, sem skrifaði henni síðar öll bréfin. Hún spyr:
Viltu vita hver ógæfa mín er? [...] Já, segir hann, nei, segir hann. Það er ógæfa mín að elska þig. Eða er það gæfa? Hvað heldur þú? (165).
Soffía Bjarnadóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.