6.1.2009 | 18:50
Janúar 2009 / Miðnæturbörn e. Salman Rushdie
Miðnæturbörn er ein rómaðasta skáldsaga 20. aldar og gerði Salman Rushdie heimsfrægan í einu vetfangi. Árið 1981 hlaut sagan hin virtu Booker-verðlaun og hefur tvisvar fengið viðurkenningu sem besta Booker-verðlaunabók allra tíma.
Í Miðnæturbörnum er sögð saga tveggja indverskra drengja, Shiva og Saleem, sem fæðast ásamt níutíu og níu öðrum börnum á miðnætti 15. ágúst 1947, á sömu mínútu og Indland öðlast sjálfstæði. Öll börnin eru gædd sérstökum hæfileikum en drengjunum tveimur er víxlað í fæðingu; annar elst upp við fátækt en hinn við ríkidæmi. Í tímans rás verða miðnæturbörnin Saleem og Shiva svarnir fjendur en saga þeirra og örlög tengjast sögu landsins órjúfanlegum böndum.
Salman Rushdie fæddist í Indlandi árið 1947 en hefur lengst af búið og starfað í Bretlandi. Miðnæturbörn er önnur skáldsaga hans en síðan hún kom út hefur hann skrifað fjöldamargar bækur, meðal annars Söngva Satans og Hinsta andvarp márans. Skrif hans eru töfrum gædd og hefur hann oft verið nefndur einn af mikilvægustu rithöfundum 20. aldar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.