Færsluflokkur: Bækur
16.5.2010 | 13:54
Góði elskhuginn e. Steinunni Sigurðardóttur

Góði elskhuginn er heillandi saga um ást og aðskilnað, einsemd og eftirsjá, hamingju og vonbrigði og amerískan geðlækni sem skrifar raunveruleikaskáldsögu með fræðilegu ívafi.
Steinunn Sigurðardóttir hefur um langt árabil verið í hópi virtustu og vinsælustu rithöfunda þjóðarinnar, bæði heima og erlendis. Ísmeygileg gamansemi, fágaður stíll og einstök innsýn í heim ástarinnar eru einkenni þessarar glæsilegu skáldsögu sem kallast um margt á við ástsælar bækur Steinunnar, Tímaþjófinn og Ástin fiskanna.
Tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2010 | 16:31
Emma e. Jane Austen
Hin 21 árs gamla Emma Woodhouse er falleg, gáfuð og rík dekurrófa. Hún ætlar aldrei að giftast en leggur sig hinsvegar fram um að finna vinum sínum viðeigandi maka. Harriet Smith vinkona hennar er hrifin af bóndanum Robert Martin, en Emmu finnst hún geta gert miklu betur og telur hana á það óráð að hafna bónorði hans og snúa sér að klerkinum Mr. Elton. Mr. Knightley mágur Emmu er sá eini sem þorir að segja henni til syndanna fyrir afskiptasemina og hann reynist betri mannþekkjari en Emma, því fljótlega kemur í ljós að Mr. Elton telur sjálfan sig allt of merkilegan fyrir Harriet.
Eins og í öðrum bókum Austen koma fjölmargar skemmtilegar persónur við sögu, t.d. hinn ofuráhyggjufulli og heilsutæpi faðir hennar Mr. Woodhouse og Mr. Frank Churchill, ungur, myndarlegur maður sem daðrar við Emmu en reynist síðan ekki allur þar sem hann er séður, hann minnir óneitanlega á Mr. Wickham í Pride and Prejudice og Willoughby í Sense and Sensebility. Emma er hinsvegar ólík öðrum kvenhetjum Austen að því leyti að hún er rík og þarf því ekki að hugsa um framtíð sína og giftast til fjár, en eins og venjulega sigrar ástin að lokum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2010 | 14:58
Persuasion e. Jane Austen
Við ætlum að halda áfram að lesa Jane Austen, næsta bók er Persuasion sem er síðasta bók Austen, hún lauk við hana í ágúst 1816 og dó ári síðar 41 árs gömul.
Persuasion er skemmtileg að því leyti að hún gerist í Bath, a.m.k. að hluta til, en þangað er eimmitt ferð okkar heitið í september á Jane Austen Festival (17.-25.sept) sem nú er orðinn árlegur viðburður í Bath. Austen bjó sjálf í Bath frá árunum 1801-1805 og var því vel kunnug bænum.
Í Persuasion heitir aðalsöguhetjan Anne Elliot, karlhetjan er Frederick Wentworth officer í sjóhernum, myndarlegur, gáfaður og metnaðargjarn, en því miður fátækur og fellur þ.a.l. ekki í kramið hjá fjölskyldu Anne sem telur hana á (persuasion) að slíta trúlofuninni.Þegar sagan hefst eru 7 ár liðin frá þessum atburðum, Anne er orðin 27 ára og enn ógift (og hefur auðvitað lost her bloom)!! Wentworth kemur aftur inn í líf hennar þegar fjölskylda hans tekur á leigu hús í nágrenninu, hann er þá orðinn kapteinn og efnaður maður en hefur síður en svo fyrirgefið Anne hryggbrotið. Og nú er bara að hefja lesturinn og sjá hvernig Anne gengur.
Sagan er styttri og ekki einsfínpússuð og Mansfield Park, enda var Austen orðin veik þegar hún skrifaði bókina. En hún er af mörgum talin frumlegri heldur en aðrar sögur hennar, bæði er söguhetjan eldri og karlhetjan er aldrei þessu vant maður sem kemst til metorða upp á eigin spýtur, eða nýríkur, en í Englandi snerist allt um old money á þessum tíma. Ekki er ólíklegt að Austen hafi haft bræður sína í huga þegar hún skrifaði um Wentworth, en þeir voru báðir í sjóhernum og komust þar til nokkurra metorða.
Persuasion kom út sem kvikmynd árið 2007, tekin í Bath. Eldri mynd er til, frá árinu 1995 einnig gerði BBC mini-seríur bæði 1971 og 1960.
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2010 | 08:24
Mansfield Park e. Jane Austen

Mansfield Park var þriðja skáldsaga Austen til að vera gefin út. Hún kom út árið 1814. Hún er líklega óvinsælasta og umdeildasta skáldsaga Jane Austen. Jafnvel móður hennar þótti hetja skáldsögunnar, Fanny Price daufgerð og fleirum hefur þótt hún óviðkunnaleg á margan hátt.
Í skáldsögunni kemur fram mikil háðsádeila á samfélagið og er líklega raunsæjasta skáldsaga Austen þar sem Fanny Price kemur mun neðar úr samfélagsstiganum en hinar aðalsöguhetjurnar hennar.
Sjá http://is.wikibooks.org/wiki/Jane_Austen og http://en.wikipedia.org/wiki/Mansfield_Park
Ítarefni tengt Mansfield park http://skruddur.blog.is/blog/skruddur/entry/1014527
Bækur | Breytt 6.3.2010 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2009 | 15:02
Dagbók góðrar grannkonu e. nóbelsskáldið Doris Lessing
Næsta bók er Dagbók góðrar grannkonu eftir Doris Lessing. Bókin kom fyrst út 1988 og var gefin aftur út nýlega eftir að höfundur fékk nóbelsverðlaunin.
Dagbók góðrar grannkonu hefur þá kosti að vera samin af nokkurri leikni og hafa mannlegan boðskap að flytja. Í skáldsögunni segir frá konu sem er orðin leið á framapoti og sjálfsdekri, spilltu lífi fíns fólks. Hún hittir gamla konu og fer að venja komur sínar til hennar, veita henni liðsinni í bágindum ellinnar. Gamla konan sýnir henni inn í heim sem hún þekkir ekki og hin unga kona breytir um stefnu, þroskast af þessum kynnum, verður önnur manneskja.
Er þetta ekki viðeigandi boðskapur á þessum tíma?
Á níunda áratugnum gerði Doris Lessing útgefanda sínum grikk þegar hún sendi honum tvær skáldsögur undir fölsku nafni: Jane Somers (Dagbók góðrar grannkonu , 1983 og If the old could ... 1984). Útgefandinn hafnaði bókunum ítrekað og þegar þær loksins komu út undir nafni Jane Somers féllu gagnrýnendur einnig á bragðinu og sýndu bókunum lítinn áhuga. Þegar upplýst var hver höfundurinn var voru bækurnar gefnar út í mun stærra upplagi, rokseldust og fengu fína dóma! Doris Lessing sagðist vilja með þessu sýna hversu erfitt það væri fyrir nýja höfunda að hasla sér völl innan bókmenntaheimsins.
Ítarefni: http://skruddur.blog.is/blog/itarefni/entry/997298
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 14:16
Bókmenntahlaðborð 2009
Bókmenntahlaðborð kl. 20:00 í Mosó á morgun. Jón Kalmann, Kristín Marja, Steinunn sig. og fl.
Ég ætla að reyna að mæta, hvað með ykkur?
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 14:13
Snarkið í stjörnunum - Jón Kalman Stefánsson
12.11.2003
Snarkið í stjörnunum: Jón Kalman Stefánsson
Það er myrkur nóvembermánuður. Þeir eru alltaf heldur myrkir. Hvort sem ég horfi út um gluggann eða inn um hann, heyri nóvember sunginn eða lesinn. Ætli íslenskur nóvember sé jafn myrkur, eða jafnvel myrkari í spænsku veikinni 1918 og hann er í dag 2003. Líklegast er nóvembermyrkrið samt við sig hvort sem er í skáldskap eða veruleika; svæfandi, fallegt, kalt og á stundum óbærilegt. Eða í það minnsta eru allar minningar mínar um nóvember á þá vegu. En það er nú bara ég og augun mín. En augu sögumanns bókarinnar Snarkið í stjörnunum eftir Jón Kalman Stefánsson, eru augu sjö ára drengs jafnt sem fullorðins manns að nálgast fertugt, sem reika um nóvember sem og aðra mánuði og ár er ala af sér minningar og möguleika. Hann speglar sig í tímanum og flöktir um í frásögnum af fólki á ólíkum tímaskeiðum. Úr fjölskyldu verða fjölskyldur, og saman fléttast fólk og það sem tengir það saman í nærveru og fjarveru tímans.
Í þessari skáldsögu er brot af mörgum sögum sagðar með minningarflökti á yfir 100 árum, þar sem leikur með hugsunina og mörk skáldskapar og veruleika skipa stóran sess í bland við sagnastíl. Hvað er minning, og hvernig verða minningar til? Hvað aðskilur mína minningu frá þinni? Jú sagan fjallar vissulega um ástina í sínum ýmsu myndum og um allt það sem rúmast innan hugmynda, tilfinninga, minnninga um ást það samband og sú sundrun sem liggur á milli elskenda, vina, foreldra, barna, og ekki síst á milli kynslóða. Það á sér stað endurnýjun á lifandi tengslum. Dregnar eru upp myndir sem verða að orðum og orðin að lífi í tíma og rúmi. Við kynnumst sögu og örlögum langafans og langömmunnar, heyrum örlítið af afanum og norsku ömmunni og síðan af kynnum mömmunnar og pabbans þar sem dauðinn grípur inn í, og um afleiðingar af móðurmissi, - eða eins og sögumaður segir á einum stað: [...]sitt lítið af því sem allir kannast við, lífi, dauða, sorg og hamingju og síðan sjórinn, talsvert af fiski og loks jökullinn.(143) Fjölskyldusagan er römmuð inn í rými skáldskaparins þar sem hugurinn leitar upphafs.- Um hvaða upphaf er verið að ræða? Hvernig byrjaði þetta allt saman, ég og þú og orðin okkar? Hvað verður um það sem einhvern tímann á sér upphaf? Endar þetta allt í þögninni, hverfur í kafgras gleymskunnar er þoka tímans læðist yfir. Og sögumaður brýst inn í fortíðina, gerir hana að sinni, lífgar hana við og leitar eftir vegvísi stjarnanna, sem eiga víst að segja frá einhverju mikilvægu, og þá er ekki verið að tala um fegurð, fjarlægð og tíma: [...]því stjörnurnar eiga að geta leiðbeint mér, vísað til vegar, þær eiga að bjarga mér ef ég villist(50) segir sögumaður síðla kvölds í janúarmánuði 2002. Hugurinn reikar áttlaus aftur til fortíðar, virkir hana og þá möguleika sem búa í henni, en áhrifamesta sagan, er saga af lífi langömmu og langafa sem kynnast í Reykjavík um aldamótin 1900. Það er skemmtilegt að fjarlægðin skuli skapa slíka nánd. Persónusköpun þeirra er rík og lesandi skynjar sterkt hungur þeirra til hvors annars sem leiðist út í sársauka. Þau, og þar með fleiri, eiga upphaf sitt í kvistherbergi á Vesturgötunni þar sem til staðar var: hárfín blanda af feimni og djörfung, hiki og ákafa, depurð og stjórnlausri hamingju.(43) Harmræn ástarsaga þeirra leiðir þau frá Vesturgötunni yfir á Bergstaðarstrætið og þaðan á Snæfellsnesið og aftur til Reykjavíkur. Rúmum 90 árum frá þeirra upphafi, rýnir sögumaður í fortíðina, rýnir í gamla, þunga spegilinn sem þau fundu í Kaupmannahöfn, spegillinn sem að langafi horfði í til að reyna að minna sig á að stíga varlega til jarðar, en þó ákveðið, engu að síður vaknar hann upp og lítur í dökk augu langömmu, sem þá er ung kona, úr augunum lýsir vonleysi og vonbrigði og honum líður eins og einhver hafi skorið úr honum hjartað. En í öllum sársaukanum og vonleysinu býr þó ávallt óútskýranleg von, samskonar von og býr í orðinu: komdu. Og spurt er: Úr hverju eru þau bönd gerð sem binda saman tvær manneskjur og hafa í algjöru ráðaleysi verið kölluð ást?(101) Þetta samheiti yfir svo margt, margt og það snarkar í stjörnum, og móðurlaus drengurinn í Safamýrinni hann skynjar tíman sem vægan en djúpan sársauka.
Minningarflöktið verður þunglamalegt á stundum, leysist ómarkvisst upp, en þegar líða tekur á lestur taka brotin á sig myndir sem margar hverjar snerta með hugrekki og næmi. Snarkið í stjörnunum, eftir Jón Kalman, er falleg saga í sögu, sem langar að skynja þetta sem heitir tími. Að skrifa upphaf sitt og leita þess í skáldskap því að þar, í orðunum, gætu sönnustu heimkynnin verið. Og langamman spyr ástmann sinn, rauðhærða sjómanninn, sem skrifaði henni síðar öll bréfin. Hún spyr:
Viltu vita hver ógæfa mín er? [...] Já, segir hann, nei, segir hann. Það er ógæfa mín að elska þig. Eða er það gæfa? Hvað heldur þú? (165).
Soffía Bjarnadóttir
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 14:08
Glerkastalinn
Þá er það októberlesningin " Glerkastalinn" eftir Jeannette Walls, gefin út af Forlaginu 2008.
Ég talaði um að velja eitthvað allt annað en við lásum í sumar en þessi bók er reyndar ævisaga höfundar og segir frá uppvaxtarárum hennar í USA.
Vona að það verði ekki vesen að fá hana á söfnum.
Stefnum svo að því að hittast hjá mér fimmtudaginn 29.okt en þá verður vonandi leynigestur frá USA ( þó ekki höfundurinn..) í heimsókn!
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2009 | 14:02
Sumarlesning 2009 - Steinn Steinarr
Bækur | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2009 | 12:02
Gestaboð Babette e. Karen Blixen
Prófastsdætur tvær í litlu þorpi í Noregi ákveða að halda minningarhátíð um föður sinn. Til veislunnar koma dyggir fylgismenn prófastsins, þjakaðir af trúarótta. Babette, frönsk eldabuska þeirra systra, annast veisluna og tekst fyrir mátt eldamennsku sinnar að kalla fram mili og gleði í þrúguðum sálum veislugesta.
Gestaboð Babette er einnig ein af þekktustu bókum Karen. Sumir vilja meina að þessi bók sé hennar mesta meistaraverk. Bókin er ekki löng en skilur mikið eftir sig.
Gestaboðið mikla
Gestaboð Babette er um veislu, ótrúlegt máltíðarkraftaverk. Karen Blixen, höfundurinn, dregur upp mynd af söfnuði í fjarðahluta Noregs. Gamli presturinn var fallinn frá og söfnuðurinn var deyja innan frá. Fólkið, sem áður glóði í andanum, var farið að taka út elli og ergi hvert á öðru. Prestsdæturnar reyndu eins og þær gátu að halda glóð í hugsjónum hins látna föður þeirra og halda samskiptum fólks þokkalegum. Þær færðu ýmsar fórnir fyrir málstaðinn og neituðu m.a.s. biðlunum, sem vildu eiga þær!
Svo tóku þær að sér flóttakonu sunnan úr álfu. Sú hét Babette og vildi gjarnan sjá um eldhúsverkin. Eftir fjölda ára og frábæra matreiðslu vann sú franska stóra vinninginn í lottóinu. Þegar systurnar héldu, að hún myndi nú fara frá þeim varð kraftaverk. Alla peningana notaði Babette til að kaupa besta hráefnið úr matarkistu Frakklands. Svo var hún lengi að undirbúa veislu og öllum vinunum úr söfnuðinum var boðið. Þau voru þó áhyggjufull, enda höfðu þau tamið sér aðhald í mat og drykk og höfðu raunar mestu óbeit á heimsins lystisemdum. Lifandi skjaldbaka, allt vínið og ókunnuglegt hráefnið skelfdi hin lítt veraldarvönu.
Bíómynd / Franskt eldhús í dönskum smábæ
Danska kvikmyndin Gestaboð Babette eða Babettes gæstebud sló í gegn um víða veröld þegar hún var frumsýnd árið 1987. Myndin er gerð eftir sögu Karenar Blixen og sögusviðið er smábær í Danmörku. Þar segir frá tveimur eldri systrum, prestsdætrum, sem lifa afar fábreyttu lífi. Til þeirra kemur hin franska Babette sem býðst til þess að sjá um heimilishaldið fyrir þær. Hún sest að hjá þeim og aðlagast býsna vel dönsku smábæjarlífi. Þegar Babette vinnur svo væna fjárfúlgu í frönsku happdrætti ákveður hún að nota peningana til þess að halda þorpsbúum stórfenglega veislu en þá kemur í ljós að hún er franskur meistarakokkur. Fyrst í stað eiga þorpsbúar erfitt með að njóta matarins, en það breytist þegar líður á máltíðina og að lokum finnst þeim þeir hafa upplifað eitthvað undursamlegt.
Kvikmyndin Babettes gæstebud var frumsýnd 1987. Myndin hlaut Óskarsverðlaunin sem besta erlenda kvikmyndin. Hefur einnig hlotið fleiri tilnefningar og verðlaun.
Bækur | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)