Færsluflokkur: Bækur
7.3.2017 | 17:04
Saga af nýju ættarnafni e. Elena Ferrante
Napolí-sögur Elenu Ferrante um vinkonurnar Lilu og Elenu hafa farið sigurför um heiminn og hlotið einróma lof. Fyrsta bókin í bókaflokknum, Framúrskarandi vinkona, kom út í fyrra og bók númer tvö, Saga af nýju ættarnafni, er nýkomin út og er jafnvel betri en sú fyrri og var sú þó frábær. Saga af nýju ættarnafni segir frá vinkonunum Lilu og Elenu. Önnur gerir það sem til er ætlast og gengur í hjónaband, á meðan hin reynir að finna sjálfa sig. Þær eru að verða fulltíða konur og reynist það dýru verði keypt.
Höfundurinn Elena Ferrante fer huldu höfði, hefur aldrei veitt viðtöl eða komið fram, heldur segir að bækurnar tali fyrir sig sjálfar og þurfi hennar ekki lengur með. Hún er vinsælasti höfundur Ítala nú um mundir, og bækur hennar koma út á ótal tungumálum. Brynja Cortes Andrésdóttir þýddi úr ítölsku.
Bækur | Breytt 20.3.2017 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2017 | 16:40
Framúrskarandi vinkona e. Elena Ferrante
Framúrskarandi vinkona er skáldsaga eftir ítalska höfundinn Elena Ferrante, fyrsta bók af fjórum um vinkonurnar Lilu og Elenu.
Napólí-sögur Elenu Ferrante fara nú sannkallaða sigurför um heiminn. Framúrskarandi vinkona segir frá vinkonunum Elenu og Lilu, uppvaxtarárum þeirra í alþýðlegur hverfi í Napólí, á sjötta áratugnum, þegar heimurinn er að taka miklum stakkaskiptum. Þetta er saga af vináttu, umbreytingum og lífsins gangi.
Aðalpersónurnar, Elena, dóttir dyravarðar, og Lila, dóttir skósmiðs, alast upp í Napólí á sjötta áratugnum í samfélagi þar sem ofbeldi telst sjálfsagður hlutur og konur jafnt sem karlmenn grípa til þess í sjálfsbjargarviðleitni. Eins og sögumaðurinn Elena segir: Við ólumst upp við þá vitneskju að við ættum að gera öðrum lífið erfitt áður en þeir gætu gert okkur það erfitt. Menntunin verður flóttaleið Elenu frá grimmd umhverfisins en leiðir einnig til þess að hún verður ekki lengur hluti af þeim hóp sem hún ólst upp með. Hin sérstæða Lila fer aðra leið sem er í mikilli mótsögn við eðli hennar og getur varla fært henni annað en óhamingju.
Elena Ferrante er einn vinsælasti höfundur Ítalíu um þessar mundir, og bækur hennar eru þýddar á ótal tungumál. Ferrante fer huldu höfði, hefur aldrei veitt viðtöl eða komið fram. Í bréfi til útgefanda síns hefur hún sagt að bækurnar tali fyrir sig sjálfar og þurfi hennar ekki lengur með. Brynja Cortes Andrésdóttir þýddi úr ítölsku.
http://www.ruv.is/frett/hver-er-eiginlega-elena-ferrante
Bækur | Breytt 20.3.2017 kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2016 | 11:55
Sigrún og Friðgeir Ferðasaga e. Sigrúnu Pálsdóttur
Haustið 1940 lögðu tveir ungir íslenskir læknar, hjónin Friðgeir Ólason og Sigrún Briem, af stað áleiðis til Bandaríkjanna í sérnám. Eftir fjögurra ára vist þar og í Kanada snúa þau aftur til Íslands; hann með doktorspróf frá Harvard, hún rétt búin að ljúka kandídatsári sínu með vinnu á barnaspítölum. Dvölin í Ameríku hafði verið ævintýri líkust og svalað miklum metnaði þeirra en það sem öllu hefur breytt og mótað þau meira en nokkur önnur reynsla á þessu langa ferðalagi er fæðing og uppvöxtur þriggja barna þeirra. Sigrún og Friðgeir eru sannarlega tákn um bjartar vonir íslenskra læknavísinda þegar þau stíga um borð í Goðafoss haustið 1944 en þau eru líka foreldrar, sannfærð um hvert mikilvægasta hlutverk þeirra er og verður í náinni framtíð.
Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir marga ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld, en inn í hana sogast líka nánast óteljandi atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Í bókinni segir meðal annars frá kynnum Sigrúnar og Friðgeirs af fátækt og ofbeldi í stórborgum landsins, s.s í Harlem-hverfi New York-borgar, dægurmenningu og uppgangi valdamikilla stofnana og fyrirtækja í bandarísku samfélagi, auðsöfnun og hinum síauknu áherslum á framfarir á sviði vísinda og tækni. Því líf þeirra hjóna í Ameríku var ekki bara bundið heimi læknavísinda, heldur snerist um heimilisrekstur, framboð nýrra heimilistækja og eftirspurn eftir heimilishjálp í stríði. Og saga þeirra flækir svo sannarlega þá mynd sem dregin hefur verið upp af hlutverki húsmæðra á fimmta áratugnum í Bandaríkjunum, viðhorfum til svartra vinnukvenna, samskiptum kynjanna og hlutverki feðra í barnauppeldi.
Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga byggir á bréfum og dagbókum sem þau hjón héldu frá því að þau sigldu til Bandaríkjanna haustið 1940 og þar til þau sneru heim til Íslands frá New York haustið 1944. Höfundur notar einnig fjölda ljósmynda til að draga upp senur og dýrmæt augnablik í lífi fjölskyldunnar en frásögnin af atburðarrásinni um borð í Goðafossi eftir að tundurkeyti frá þýskum kafbát skellur á honum er hér einnig sögð frá nýju sjónarhorni með Sigrúnu og Friðgeir, og börn þeirra þrjú í brennidepli.
RÚV - Sigrún um bókina um Sigrúnu og Friðgeir
Bókaumfjöllun: Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga
Bækur | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2016 | 18:30
Enn er morgun e. Böðvar Guðmundsson
Árið 1936 kemur til Reykjavíkur ungur þýskur tónlistarmaður að nafni Jóhannes Kohlhaas. Hann er af gyðingaættum og hefur á ævintýralegan hátt hrakist undan nasistum. Menningarlíf hins unga höfuðstaðar nýtur hæfileika Jóhannesar, hann aðlagast fljótt og finnur ástina. Styrjöld brýst út í Evrópu og í maí 1940 hernema Bretar Ísland. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Í bókinni Enn er morgunn segir frá svonefndri Knudsens-ætt í Reykjavík og fólki sem henni tengist. Úr nútímanum er litið til baka og ættarsagan skoðuð en fyrst og fremst eru skoðaðir atburðir sem gerast á stríðsárunum og árunum þar á undan. Sögumaður okkar í núinu verður fljótlega hlustandi. Aðrir segja söguna, hann skráir hana. Sagan er að mestu sögð af gamla frænda, Theódóri Knudsen, og ömmu, Evu Kohlhaas Knudsen. Fjölskyldan er eiginlega alþjóðleg, fjölmenningarleg, þótt hún teljist íslensk. Að uppruna eru flestir frá Danmörku komnir en konur innan fjölskyldunnar virðast líka hafa verið gjarnar á að lenda í slagtogi með útlendingum og eignast börn með þeim og þykir svo sem ekki tiltökumál enda virðist Knudsensfólkið hvorki fordómafullt né dómhart. Allir miklir Íslendingar þótt fæstir geti rekið ættir sínar til Jóns Arasonar. Ættrakningar og litaraft skipta ekki neinu.
Ættfaðirinn er hinn velmegandi kaupmaður, Hilmar Knudsen og synirnir embættismenn. Það eru þó ævi og örlög systurinnar, Önnu Láru, sem eru burðarás sögunnar. Hún er kennari við Kvennaskólann eftir námsdvöl í Danmörku þegar hingað til lands rekst tónlistarmaður að nafni Jóhannes Kohlhaas. Sá hefur reyndar verið meðlimur Nasistaflokksins í Þýskalandi og sendur hingað af Himmler sjálfum til að rannsaka hvort ekki sé hægt að finna frumtón arískra söngva hér á landi. Hann er kunnugur Theódóri frá námsárum hans í Þýskalandi og hafði hitt Önnu Láru þar eitt augnablik. Þau taka saman og giftast og eignast tvö börn. Jóhannes verður fljótt virkur í tónlistarlífi bæjarins, í og með vegna þess að Knudsensfamilían sér um sína, en líka vegna skorts á menntuðum tónlistamönnum til að plaga landslýð með enn meiri symfóníum en þegar var orðið. Um það leyti sem Jóhannes kemur til landsins er búið að reka hann úr flokknum þar sem upp hefur komist að hann sé af gyðingaættum. Þegar Bretarnir hertaka Ísland í stríðsbyrjun kemur þó í ljós að upplýsingar um brottvísunina hafa ekki náð til leyniþjónustu hersins. Það er því litið á hann sem Nasista og hann sendur úr landi ásamt fleiri slíkum sem hér voru að þvælast.
Fjölskyldusaga Jóhannesar fær líka allmikið pláss í bók Böðvars og í lokin er gerð grein fyrir örlögum hans eftir að hann er neyddur til að yfirgefa Ísland. Saga hans tengist sögu Knudsens-fjölskyldunnar með hjónabandi hans og Önnu Láru. Honum er vinsamlega tekið af öllum innfæddum og meinleg örlög að hann þurfi að fara. Þótt maður geti vel ímyndað sér harminn sem þetta veldur þá er frásögnin einhvern veginn með þessu jafnaðargeði sem virðist einkenna Knudsens fólkið. Sama er að segja um þann harm sem hlýst af átökum í Þýskalandi undir stríðslok og höfundi tekst að gera svo ljóslifandi fyrir lesendum bókarinnar.
Þannig er það raunar með texta Böðvars. Það er yfir honum þessi ró og æðruleysi sem kemur líka svo vel fram hjá persónunum. Þetta sýnist vera löng saga og vissulega er skautað yfir talsvert langan tíma í henni og margir ættliðir koma við sögu en hún er aldrei langdregin. Þegar upp er staðið finnst manni jafnvel að hún sé í það stysta. Hún er skrifuð á fallegu máli, hnökralaus og frásögnin flýtur áfram svo eðlilega og átakalaust að hrein unun er að lesa bókina.
Leitt hefur verið getum að því að hér sé um svokallaðan lykilróman að ræða enda nokkuð ljóst að sumar persónur sögunnar eiga sér fyrirmyndir úr lifanda lífi. Auðvelt er að ímynda sér Randver eða Dósa sem Ragnar í Smára og eflaust geta einhverjir lesendur skemmt sér við að finna hvort eitthvað sé líkt með persónum bókarinnar og fólki sem eitt sinn lifði hér. En fyrst og fremst lýtur sagan lögmálum skáldsögunnar, ef á annað borð er hægt að tala um lög og reglur þar að lútandi, og er afskaplega vel heppnuð sem slík.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2009
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2016 | 19:17
Paradísarheimt e. Halldór Kiljan Laxness
Skáldsagan Paradísarheimt eftir Halldór Kiljan Laxness kom út árið 1960. Í henni segir frá Steinari bónda Steinssyni í Hlíðum undir Steinahlíðum sem yfirgefur fjölskyldu sína á Íslandi til að leita uppi sæluríki mormóna í Ameríku. Hann vonast til að finna þar paradís á jörð en snýr aftur til heimahaganna, fróðari um trúarlíf mannsins, hugsjónir og freistingar.
Paradísarheimt kom út samtímis á Íslandi og í Svíþjóð árið 1960. Síðar sama ár var hún gefin út í Danmörku og Noregi og árið 1962 í Bretlandi og Bandaríkjunum
Þetta sýnir glögglega stöðu Halldórs Laxness í bókmenntaheiminum í kjölfar þess að hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Helstu persónur bókarinnar eiga sér sögulegar fyrirmyndir, t.d. er kveikjan að sögunni ferðasaga Eiríks Ólafssonar á Brúnum sem hélt til Utah til að kynnast mormónum.
Sagan segir frá Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Hann hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika. Þar tekur hann upp nafnið Stone P. Stanford. Sögunni lýkur þannig að söguhetjan stendur aftur hjá bæ sínum undir Hlíðum sem kominn er í eyði, nánast jafnaður við jörðu. Og nú er maðurinn einn. Hann hefur glatað öllu og hefur tekið til við að reisa við vallargarðinn í túninu heima.
Paradísarheimt má meðal annars túlka í samhengi við feril Halldórs Laxness og vonbrigði hans með framkvæmd sósíalismans í Sovétríkjunum. Mormón verður sá einn sem hefur kostað öllu til," segir Þjóðrekur biskup í sögunni. Sá sem vill ná landi í sæluríkinu verður að fórna öllu fyrir hugsjón sína. Út úr Paradísarheimt má kannski lesa uppgjöf skáldsins, vonbrigði hans vegna liðsinnis í þágu voldugrar hugmyndafræði og brostna drauma um fyrirheitna landið. Hann hafi kostað öllu til en ekki fundið það sem hann vonaðist eftir.
Fleyg orð
... þegar heimurinn er hættur að vera dásemdafullur í augum barnanna okkar þá er nú lítið orðið eftir ..." (2. kafli. Steinar.)
Að vakna við að maður hefur mist alt og veit að maður á ekki leingur neitt, er það þá að vera manneskja?" (27. kafli. Steina.)
Ég hef fundið sannleikann og það land þar sem hann býr, áréttaði vegghleðslumaðurinn. Það er að vísu allmikils vert. En nú skiftir mestu máli að reisa við aftur þennan vallargarð." (30. kafli. Steinar.)
----------------
Halldór (Kiljan) Laxness (fæddur: Halldór Guðjónsson 23. apríl 1902, dáinn 8. febrúar 1998) var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld.
Halldór var sonur Sigríðar Halldórsdóttur (fædd 1872) og Guðjóns Helgasonar (fæddur 1870). Fyrstu æviárin bjó hann í Reykjavík en flutti að Laxnesi í Mosfellssveit árið 1905.
Hann tók fljótt að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 14 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu H.G. Ekki löngu síðar birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni og var sú grein um gamla klukku.
Á ferli sínum skrifaði Halldór 51 bók, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit og fleira. Til að sjá þau rit sem hann gaf út er hægt að skoða bókalistann hér að neðan.
Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955. Hann var tvíkvæntur og eignaðist fjögur börn.
Frá árinu 1945 átti Halldór fast heimili á Gljúfrasteini í Mosfellssveit. Að frumkvæði Davíðs Oddsonar, forsætisráðherra keypti ríkissjóður Gljúfrastein af Auði Laxness, ekkju Halldórs, og opnaði þar safn til minningar um skáldið haustið 2004. Auður gaf safninu innbú þeirra hjóna.
Bækur | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2016 | 19:13
Veisla undir grjótvegg e. Svava Jakobsdóttir
Smásögunum í Veisla undir grjótvegg hefur verið lýst sem beinskeyttum furðusögum, lágmæltum martraðarsögum, þurrlegum gamansögum og absúrd ádeilusögum. Spurning hvaða lýsing ykkur finnst eiga best við eftir lesturinn. Þær sem nenna ekki að lesa allar sögurnar ættu allavega að lesa Saga handa börnum, líklega hafið þið flestar lesið hana í skóla, og því ekki úr vegi að rifja hana upp.
Sögurnar tíu í Veizlu undir grjótvegg fjalla flestar á einn eða annan hátt um það hvernig fólk hreiðrar um sig í nýjum heimi, á heimili sem á að endurspegla hið nýja líf. Konurnar halda sig gjarnan innan veggja en karlarnir koma og fara og í þeim tveimur sögum þar sem karlar og eiginmenn eru í aðalhlutverki, Naglagöngu og Víxlinum og rjúpunni, sjást þeir fara í reiðileysi um víðan völl. sjá http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3903/6066_read-18695/RSkra-113
Saga handa börnum eftir Svövu Jakobsdóttur birtist fyrst í smásagnasafninu Veisla undir grjótvegg árið 1967. Það segir frá móður sem fórnar sér fyrir börnin sín. Í upphafi frásagnar hefur hún leyft þeim að skera af sér eina tá og hún gerir enga athugasemd þegar sonur hennar fer fram á að taka úr henni heilann í tilraunaskyni. Er heilinn eftir þetta geymdur í spritti í öndvegi í stofunni, án þess að það breyti lífi móðurinnar mikið.
Sagan vakti snemma athygli. Í ritdómi í Morgunblaðinu 1967 sagði Jóhann Hjálmarsson hana vera eftirtektarverðustu sögu bókarinnar: Raunsæishöfundur af eldri gerðinni, hefði sagt þessa sögu á annan hátt, hún hefði til dæmis í meðförum hans orðið of mórölsk og vandlætingarfull; en Svava notfærir sér nýjan frásagnarmáta og tekur óhugnaðinn í þjónustu sína til að tjá það sem virðist sakleysislegt á yfirborðinu, en er í raun og sannleika ógnvekjandi, nálgast það að vera morð. Fleiri hafa lofað á söguna á síðari árum. Samkvæmt ítarlegri könnun sem Kolbrún Bergþórsdóttir vann (spurningalistar voru lagðir fyrir 32 einstaklinga) og fjallað var um í grein í vikublaðinu Pressunni árið 1991 er saga Svövu besta íslenska smásaga sem skrifuð hefur verið. sjá http://hugras.is/2011/04/besta-smasagan-e%C3%B0a-ljotur-vi%C3%B0bjo%C3%B0ur/
Svava Jakobsdóttir var íslenskur rithöfundur og leikskáld. Hún er líklega þekktust fyrir smásögur sínar og skáldsöguna Leigjandinn sem kom út 1969 og var eitt sinn túlkuð sem ádeila á veru hersins á Íslandi eða sem tvískipt heimsmynd Kalda stríðsins. Öðrum þræði þykja skrif Svövu endurspegla reynsluheim kvenna gjarnan á kaldhæðinn hátt. Svava átti sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið árin 1971 1979. Árið 2001 var hún sæmd riddarakross Fálkaorðunnar fyrir störf í þágu lista og menningar.
Bækur | Breytt 29.4.2016 kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2016 | 20:32
Jóhann vill öllum í húsinu vel og fleiri sonnettur & Tveir Elvis Presley aðdáendur og fleiri sonnettur e. Kristján Þórður Hrafnsson
Tveir Elvis Presley aðdáendur og fleiri sonnettur. Í þessari bók beitir höfundur sonnettuforminu af mikilli hagmælsku til að yrkja um mannlífið í samtímanum. Hvert ljóð bókarinnar er á sinn hátt sjálfstæð saga um fólk í ólíkum aðstæðum. Hér er ort af innsæi og næmi um mannleg samskipti, sársauka og togstreitu, ást og hrifningu, innri baráttu, lærdóma reynslunnar og ýmsar tilvistarspurningar. Oft spegla ljóðin líka hið broslega í mannlífinu, eins flókið, skrýtið og fallegt í ófullkomleika sínum og það getur verið.
Og svo til að endurspegla tíðarandann - Elvis Prestley bókin á sér facebooksíðu !
https://www.facebook.com/Tveir-Elvis-Presley-a%C3%B0d%C3%A1endur-og-fleiri-sonnettur-776667815793763/
Fyrri sonnettubók Kristjáns Þórðar, Jóhann vill öllum í húsinu vel og fleiri sonnettur kom út árið 1997 og öðlaðist strax miklar vinsældir.
Kristján Þórður Hrafnsson er fæddur árið 1968. Hann er ljóðskáld, skáldsagnahöfundur, leikskáld og þýðandi.
Kristján Þórður stundaði nám í bókmenntum við The New School for Social Research í New York veturinn 1988-1989 og lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1992. Hann lauk meistaraprófi í bókmenntum frá Sorbonneháskóla í París árið 1995.
Kristján Þórður hefur sent frá sér ljóðabækurnar Í öðrum skilningi (1989), Húsin og göturnar (1993), Jóhann vill öllum í húsinu vel og fleiri sonnettur (1997) og Tveir Elvis Presley aðdáendur og fleiri sonnettur (2015). Hann hefur einnig skrifað skáldsögurnar Hugsanir annarra (2002) og Hinir sterku (2005).
Hér er svo skemmtilegt viðtal við höfundinn í Fréttatímanum: http://www.frettatiminn.is/smasagnasafn-i-ljodum/
Bækur | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2016 | 20:07
Að endingu e. Julian Barnes

Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2016 | 12:14
Góði dátinn Svejk e. Jaroslav Hasek
Góði dátinn Svejk er ókláruð háðsádeiluskáldsaga skrifuð af Jaroslav HaÅ¡ek. Bókin kom fyrst út á tékknesku árið 1923. Upprunalega átti bókin að vera í sex bindum en Jaroslav tókst aðeins að klára fjögur þeirra áður en hann féll frá. Bindin fjögur hafa yfirleitt verið gefin út saman sem ein bók.
Sagan segir frá Josef Svejk ungum manni sem býr í Prag og gengur í her Austurríska-ungverska keisaradæmisins í byrjun sögunnar. Ævintýri hans á meðan á herþjónustunni stendur í fyrri heimsstyrjöldinni eru æði mörg enda er Josef seinheppinn með eindæmum. Svejk hefir farið í Bjarmalandsför eins og kafli einn í bókinni gefur til kynna. Hann hefir einnig farið til réttarlækna og á geðspítala. Aðrar persónur sögunnar eru Lukas höfuðsmaður, herpresturinn, frú Müller sú er ekur honum um í hjólastól og knæpueigandinn á Bikarnum sem fær á sig fangelsisdóm af því að flugurnar á knæpunni skitu á myndina af keisaranum.
Leikarinn geðþekki Gísli Halldórsson las söguna einu sinni í útvarpið og þótti mörgum gaman að. Hann ljáði hverjum og einum sérstaka rödd. Góði Dátinn Svejk er mest selda hljóðbókin á íslandi!
Jaroslav Hasek (1883-1923) var tékkneskur rithöfundur, óhemju drykkfelldur og að sögn voru ritstörf hans sífelld barátta við botnlaust skuldafen. Á stuttri ævi mun hann hafa skrifað meira en 1200 smásögur, auk annarra verka sem því miður hafa ekki öll varðveist.
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=6543
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2015 | 23:07
Ljósmóðirin e. Eyrúnu Ingadóttur
Þórdís Símonardóttir var ljósmóðir á Eyrarbakka á umbrotaárunum fyrir og eftir aldamótin 1900. Tvívegis fann hún ástina og tvívegis glataði hún henni. Hún barðist gegn yfirgangi og kúgun valdamanna sem beittu öllum ráðum til að beygja hana niður í duftið. Hún gafst aldrei upp, reis á fætur þegar hún var snúin niður og glataði aldrei trúnni á hugsjónir sínar.
Eyrún Ingadóttir byggir þessa áhrifamiklu bók á heimildum af ýmsu tagi um ævi og störf Þórdísar. Með eftirminnilegum hætti dregur hún persónur og atburði fortíðarinnar út úr skjalasöfnum inn í heillandi heim skáldsögunnar.
Þórdís Símonardóttir var ljósmóðir á Eyrarbakka á umbrotaárunum fyrir og eftir aldamótin 1900. Tvívegis fann hún ástina og tvívegis glataði hún henni. Hún barðist gegn yfirgangi og kúgun valdamanna sem beittu öllum ráðum til að beygja hana niður í duftið. Hún gafst aldrei upp, reis á fætur þegar hún var snúin niður og glataði aldrei trúnni á hugsjónir sínar.
Eyrún Ingadóttir byggir þessa áhrifamiklu bók á heimildum af ýmsu tagi um ævi og störf Þórdísar. Með eftirminnilegum hætti dregur hún persónur og atburði fortíðarinnar út úr skjalasöfnum inn í heillandi heim skáldsögunnar.
Saga Þórdísar er merkileg fyrir margar sakir. Hún geymir frásagnir af fæðingum við erfið skilyrði og krefjandi hlutverk ljósmóðurinnar við þær aðstæður en einnig segir hún af baráttu hugaðrar og sjálfstæðrar konu við kúgun, valdníðslu og óréttlæti. Þórdísi má hiklaust kalla kvenskörung, hún er ákveðin, hvatvís og lætur í sér heyra ef henni fannst brotið á sér eða sínum nánustu. Hún er fædd í Borgarfirði árið 1853 en flytur á Eyrarbakka og starfar þar sem ljósmóðir. Hún giftist tvisvar, verður ekkja í fyrra skiptið en skilur í það seinna, og eignast aðeins eitt barn sem læst í fæðingu en elur upp fósturdóttur sína, Ágústu. Inn í söguna fléttast svo frásagnir af harðri lífsbaráttu í fiskiþorpunum Stokkseyri og Eyrarbakka, sögur af fátækt, sjómennsku og drykkjulátum sem Þórdís, ásamt félögum sínum í Góðtemplarareglunni, reynir að uppræta, baráttu kvenna fyrir réttindum og starfsemi kvenfélaga. Ekki síst áhugaverð en átakanleg er saga sem liggur að baki fangelsinu Litla-Hrauni sem upphaflega átti að vera spítali og þjóna íbúum Suðurlands. Áhugamenn um hvers kyns sagnfræðilegan og þjóðlegan fróðleik ættu því að taka Ljósmóðurinni fagnandi.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)