Færsluflokkur: Bækur

Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry e. Rachel Joyce

HFryÞegar Harold Fry skreppur út einn morguninn til að fara með bréf í póst veit hann ekki að hann á eftir að ganga yfir landið þvert og endilangt. Hann er ekki í gönguskóm. Hann er ekki með kort. Ekki einu sinni farsímann sinn. En hann leggur upp í langa göngu. Til að bjarga lífi vinkonu sinnar.

Á leið sinni yfir landið kynnist hann fólki frá öllum áttum og má vægast sagt nefna að tilgangur fólksins sem tekur þátt í ferðinni hans er langt frá hans meiningu og sýnir bókin hvað mannfólkið getur í raun flækt einfalda hluti og gert mannveru að einhverju öðru en það er þegar það leggur af stað í vegferð.

Í sögunni fáum við að kynnast lífshlaupi Harolds, hann rifjar upp fortíð sína, við fáum að fylgjast með konu hans sem eftir situr með sært stollt, hvernig þau finna lífshamingjuna saman upp á nýtt, en samt svo langt í burtu frá hvort öðru og göngum í gegnum ákveðna þroskasögu með persónunum sem hjálpar þeim í lokin að finna frið í hjarta sínu yfir öllu því sem þau hafa gengið í gegnum á æviskeiði sínu.

Þessi bók er svona bók sem bókaklúbbur ætti að taka upp að lesa, það er heilmikið sem er hægt að ræða fram og til baka í bókinni. Persónurnar sem við fáum að kynnast eru ólíkar, sumar eru stereótýpur sem við þekkjum öll meðan aðrar væri gaman að ræða nánar til að átta sig betur á því hversskonar manneskjur þær bera og hvaða tilgangi þær þjóna í bókinni til að ná heildarmynd pílagrímsferð Harolds.

Rachel Joyce er fjögurra barna móðir og býr í Bretlandi. Hún hefur skrifað yfir 20 útvarpsleikrit fyrir BBC, og leikgerðir og þætti fyrir sjónvarp. Þetta er hennar fyrsta skáldsaga og hefur setið á breskum metsölulistum síðan hún kom út snemma á þessu ári. Í þýðingu Ingunnar Snædal.

Ítarefni 


Rigning í nóvember e. Auður A. Ólafsdóttir

rigning_i_novUng kona stendur á tímamótum. Hún stígur upp úr volgri hjónasæng og heldur í ævintýralegt ferðalag um myrkt og blautt landið. Heitir líkamar, matur, nærgöngul samskipti og leyndarmál úr fortíðinni mæta söguhetjunni í kaldri nóvemberrigningunni. 

Auður hefur hlotið mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda fyrir einstaklega seiðandi stíl og listræn efnistök. Hún heldur lesandanum við efnið með því að tefla fram trúverðugum persónum sem glíma við óvæntar og oft kómískar aðstæður og kemur sífellt skemmtilega á óvart. 

„Rigning í nóvember fjallar um unga nútímakonu í hjónabandi sem raknar sundur m.a. vegna þess að hún vill ekki eiga barn með manninum. Litlu seinna felur einstæð og ólétt vinkona henni að gæta fjögurra ára heyrnarskerts sonar síns yfir helgi en það dregst á langinn. Konan og drengurinn leggja upp í ferðalag um myrkt og blautt landið. Þar með hefst leit að týndum þræði og stefnumót við heim handan orða. Sagan er í senn ástar-, ferða- og þroskasaga, lýsingar eru myndrænar, persónusköpun sterk og stíllinn bæði lipur og hnyttinn. Rigning í nóvember er önnur skáldsaga höfundar." (Úr umsögn dómnefndar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar)

Auður A. Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún er lektor í listfræði við Háskóla Íslands. Áður hefur hún starfað sem listfræðingur og kennari í listasögu, m.a. við Leiklistarskóla Íslands og verið forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Hún hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsa fjölmiðla.


Bréf til næturinnar e. Kristínu Jónsdóttur

BrefTilLjóðin spanna tuttugu ára sögu. Þau mynda eina heild og hafa um margt sérstöðu meðal íslenskra ljóða. Höfundur tjáir innstu tilfinningar á opinskáan og einlægan hátt í sinni fyrstu ljóðabók sem er níunda bókin í flokknum Austfirsk ljóðskáld.

Kristín Jónsdóttir er fædd á Hlíð í Lóni árið 1963 og hefur lengst af búið í Lóni og unnið þar við búskap. Kristín hefur stundað ritstörf frá unga aldri og birt ljóð, smásögur og greinar í blöðum og tímaritum. Bréf til næturinnar er fyrsta ljóðabók Kristínar og hafa ljóðin orðið til á nærri tveimur áratugum.

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gefur út.


Kvöldverðurinn e. Herman Koch

Kvoldverdurinn

Bræðurnir Paul og Serge sitja á glæsilegum veitingahúsi ásamt eiginkonum sínum. Á yfirborðinu virðist allt slétt og fellt.

Þau spjalla um kvikmyndir, sumarleyfi … en allt annað hvílir á þeim eins og mara: Fimmtán ára synir þeirra hafa framið ódæðisverk sem vekur óhug hjá þjóðinni og aðeins foreldrarnir vita hverjir hinir seku eru – enn sem komið er. Eiga þau að horfast í augu við voðaverkið og kalla drengina til ábyrgðar? Eða eiga þau að vernda synina og orðspor fjölskyldunnar hvað sem það kostar? Einstaklega vel fléttuð og spennandi saga sem vakið hefur heimsathygli.

Höfundurinn Herman Koch er þekktur fyrir ágengan stíl; verk hans enduróma skilning á mannlegum breyskleika og flóknum samskiptum fólks. Verðlaunasaga þessi var valin bók ársins í Hollandi árið 2009. Sagan fjallar vissulega um glæp en meginþema bókarinnar virðist vera siðleysi.


Óvinir, ástarsaga e. Isaac Bashevis Singer

ovinir-astarsaga

Isaac Bashevis Singer (1902-1991) er amerískur rithöfundur, fæddur og uppalinn í gyðingafjölskyldu í Póllandi en fluttist til New York 1935. Hann skrifaði öll sín verk á Jiddísku fyrir dagblöð og þýddi þau síðan yfir á ensku. Eftir hann liggja 18 skáldsögur, 14 barnabækur, smásögur, endurminningabækur ofl. Hann þýddi líka, s.s. Knut Hamsun sem hann dáðist mjög að. Nóbelinn vann hann 1978.

Þekktasta verk hans er „Óvinir, ástarsaga“ og hana ætla ég að velja sem sumarlesningu. Aðrar bækur eftir Singer eru t.d.

  • „Yentl“ , feminísk skáldsaga kvikmynduð síðar með Barbra Streisand í aðalhlutverki, 
  • „Töframaðurinn frá Lúblín“, 
  • „Ást og útlegð“ 
  • „Vegabréf til Palestínu“ 
  • „Sögumaðurinn Naftalí og hesturinn hans (barnabók þýdd af Gyrði Elíassyni) 
Fimm verka hans hafa verið kvikmyndaðar, þ.á.m. Óvinir-ástarsaga 1989 (tilnefnd til 3 Óskarverðlauna – Angelica Huston og Lena Olin og svo besta handritið) Sagan gerist árið 1949 í New York og fjallar um gyðinginn Herman Broder sem lifði helförina af og lifir nú tvöföldu lífi með eiginkonu og viðhaldi í Brooklyn. Málin flækjast enn frekar þegar fyrsta eiginkona hans sem hann taldi hafa látist í Helförinni, birtist í New York ásamt börnunum þeirra tveimur. Fjölmargar bækur hans hafa verið þýddar á íslensku. Sigrún Ástríður Eiríksdóttir þýddi Óvini 1980 úr ensku. 

 


Góðir grannar e. Ryan David Jahn

góðir-grannar

Bókin er tillölulega nýkomin út á íslensku og á að vera til á bókasöfnum. Þessi bók gerist í Queens NY og er byggð á atburði sem raunverulega gerðist. Þetta á að vera vönduð glæpasaga og drama og þykir mjög góð og hefur fengið verðlaun og ég veit ekki hvað og hvað.Er ekki bara kominn tími á að lesa glæpasögu svona í sumarbyrjun.

Klukkan fjögur aðfaranótt 13. mars árið 1964 er ráðist á Katrinu Marino fyrir utan fjölbýlishúsið þar sem hún býr. Hún er að koma heim af næturvakt. Fjölmargir nágrannar verða vitni að miskunnarlausri árásinni. En enginn kemur til hjálpar.

Sagan er byggð á sönnum atburðum, en árið 1964 var Kitty Genovese myrt í Queens í Bandaríkjunum: Þrjátíu og átta manns voru vitni að árásinni en enginn aðhafðist neitt. Síðar hafa sálfræðingar rannsakað þetta fyrirbrigði og gefið því heitið „hlutlaus áhorfandi.” GÓÐIR GRANNAR er saga fórnarlambs, árásarmanns – og vitna, sem ekkert aðhafast.


Alveg dýrlegt land e. Franck McCourt

FrankMcCourtAlveg dýrlegt land er sjálfstætt framhald metsölu bókarinnar Angelas ashes, en fyrir hana fékk höfundurinn Pulitzer verðlaunin og var hún metsölubók um allan heim. Seinni bókin var gefin út árið 2002 í þýðingu Árna Óskarssonar og er til á öllum bókasöfnum.

Alveg dýrlegt land hefst þar sem Aska Angelu endar, en það er ein frægasta minningasaga síðustu ára og metsölubók um allan heim. Fyrir hana hlaut Frank McCourt virtustu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna, Pulitzer-verðlaunin. Alveg dýrlegt land er sjálfstætt framhald þeirrar bókar, full af heitum tilfinningum og ólgandi sagnagleði.

Frank McCourt fæddist árið 1931 í Brooklyn New York, sonur írskra innflytjenda. Hann ólst upp í Limerick á Írlandi og sneri aftur til Bandaríkjanna átján ára gamall, 1949. Í þrjátíu ár stundaði hann kennslu við ýmsa mennta- og fjölbrautaskóla í New York, en hann lést árið 2009 af húðkrabbameini.


New York! New York! e. Stefán Jón Hafstein

KristinnJonNew York! New York! eða Ameríkuannáll Kristins Jóns Guðmundssonar frá 1986 til þessa dags, eftir Stefán Jón Hafstein. Sönn saga.

Ungur Íslendingur, Kristinn Jón Guðmundsson, afræður að afloknu stúdentsprófi og fárra ára stefnulausu harki í Reykjavík að svala ævintýra- og útþrá sinni og halda utan. Farmiði var keyptur og stefnan sett á Ameríku, land tækifæranna og hins stóra draums. Það var haustið 1986 sem Kristinn Jón lenti í New York og þar hefur hann dvalið síðan, í stefnulausri harki, fram á þennan dag. Það er þessi dvöl Kristins Jóns í stórborginni og það sem þar hefur á daga hans drifið sem er umgjörð þessarar bókar, sem fært hefur í letur (að mestu) Stefán Jón Hafstein.

Bygging bókarinnar er skemmtileg og all óvenjuleg. Kristinn Jón hefur sent Stefáni Jóni annál sem hann hefur sjálfur ritað um líf sitt í New York og texti þessa annáls liggur síðan sem leiðarhnoði í gegnum bókina. Stefán Jón bútar hann niður og skýtur skáletruðum inn í eigin texta með jöfnu millibili. Annállinn, hinn upprunalegi texti, er síðan uppspretta og viðmið þess texta sem Stefán Jón skrifar sjálfur. Þannig ræðast þessir tveir textar við og takast á í gegnum alla bókina. En New York! New York! er meira en saga Kristins Jóns, í hans eigin túlkun og túlkun Stefáns Jóns. Hún er líka ferðasaga Stefáns Jóns, stórborgar- og mannlífslýsing. Víða tekst Stefáni Jóni prýðilega upp í ferðasögu sinni. Sérstaklega vil ég nefna að bókin geymir margar ógleymanlegar persónulýsingar, Stefáni Jóni tekst oft að lýsa fólki á áhrifamikinn og sterkan hátt með fáum orðum. En viðamesta persónulýsingin er vitanlega lýsing aðalpersónunnar, hetjunnar, eða öllu heldur and-hetjunnar Kristins Jóns Guðmundssonar. Það er í persónu hans sem allir aðrir þræðir frásagnarinnar mætast og það er í persónu hans sem ráðgáta bókarinnar býr. Meira...

2001 - Svo komu allar þessar sírenur.

1993 - Móttækilegur fyrir ævintýrum

 


Kaupalkinn í New York e. Sophie Kinsella (febrúar)

kaupalki

Lífið leikur við Rebeccu Bloomwood. Hún starfar sem fjármálaráðgjafi í virtum sjónvarpsþætti og á fullkominn kærsta. Nýja mottóið hennar er að kaupa aðeins það sem hún þarf nauðsynlega á að halda - og það er sko (næstum) ekkert mál!

Ekki versnar það þegar henni býðst að fara til New York, þar sem sjónvarpsstöðvarnar keppast um að funda með henni og hún kemst í kynni við alveg stórkostleg fyrirbæri - sýnishornaútsölu.

"SKVÍSUBÓK: Ný bók er komin út sem heitir Kaupalkinn í New York og er sjálfstætt framhald af Kaupalkanum síkáta. Bókin er fyrir alla sem elska New York-borg, búðir og Sex and the City-stemninguna". Eða ekki!


Skipafréttir e. Annie Proulx (janúar)

Skipafrettir

Quoyle er þriðja flokks blaðamaður frá New York. Hann hefur hvorki þegið hæfileika né heppni í vöggugjöf og er auk þess ófríður með afbrigðum. Þegar kona hans ferst sviplega í bílslysi er hann sem frjáls undan oki og heldur norður á bóginn með föðursystur sinni og dætrum – Bunny og Sunshine – burt frá beiskum minningum. Þau stefna á ystu strendur Nýfundnalands, þangað sem þau eiga rætur að rekja og setjast að í húsi forfeðranna. Þá lýkst upp nýr og magnaður heimur fyrir litlu fjölskyldunni og í nábýli við náttúruöflin vaknar Quoyle smám saman til lífsins.

Fáar skáldsögur síðustu ára hafa hlotið aðra eins viðurkenningu og vinsældir og Skipafréttir og eftir sögunni var gerð rómuð kvikmynd. Leiftrandi stíll, húmor og óvenjulegt innsæi í mannlegt sálarlíf hafa skipað Annie Proulx í fremstu röð bandarískra rithöfunda okkar daga.

Bókin hlaut National Book Award 1993 og Pulitzer-verðlaunin 1994.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband