Færsluflokkur: Bækur

Valeyrarvalsinn e. Guðmundur Andri Thorsson

valeyrarvalsinn
Valeyrarvalsinn er hrífandi og margradda skáldverk þar sem sextán sögur fléttast saman, kallast á, botna hver aðra og skarast margvíslega enda gerast þær allar á sömu tveimur mínútunum í litlu þorpi. Þetta eru sögur um mannfólkið og það sem kemur fyrir það, sögur um ástir og afglöp og fjölskyldutengsl og öll leyndarmálin, alkunn og djúpt grafin. Persónur, atvik og kenndir kvikna til lífs og tónlistin umvefur allt í ómótstæðilegum texta Guðmundar Andra Thorssonar sem hefur aldrei skrifað betur.

Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2013.
 
Ef nota ætti aðeins eitt orð til að lýsa Valeyrarvalsi Guðmundar Andra Thorssonar, þá væri það orðið tregafullt. Þetta er falleg bók út í gegn, lágstemmd, ljúfsár og full af trega. Og einmitt út af tregatilfinningunni sem vaknar og brýst um djúpt í maganum á manni við lestur þessarar bókar, þá ætti að gefa sér tíma til að lesa hana. Helst í einum eða tveimur skömmtum, einn á afviknum stað, svo hægt sé að næra tilfinninguna og njóta hennar.  meira 
 
„Undurfalleg saga, sem ilmar af sól og seltu og mannlegri þrá.“ 
 
 

Fiskarnir hafa enga fætur e. Jón Kalman Stefánsson

fiskar_jonHér er sögð saga ættar allt frá byrjun tuttugustu aldar og fram til okkar daga. Sagan teygir sig frá Norðfirði til Keflavíkur, hún nær yfir allt landið, yfir fjöllin sem eru fornar rósir færðar guðum og hraunið sem lítur stundum út eins og blótsyrði djöfulsins. 

Þetta er saga fólks sem elskar og þjáist, sem leitar og flýr, saga um sársauka og söknuð, ofbeldi og kvótalaust haf. Saga um Kanaskip, Bítlana og Pink Floyd, um bjarta og dimma daga á Norðfirði þar sem kona breytist í lifandi múmíu.
 
„Við þráum lausn, þráum heiðríkju en höfum ekki tíma, ekki eirð, ekki úthald til að leita eftir henni og gleypum þakklát við skyndilausnum, skyndimat, skyndikynlífi, því sem lofar skjótri lausn, við lifum á tímum skyndileikans,“ segir Jón Kalman Stefánsson rithöfundur í nýjustu bók sinni, Fiskarnir hafa engar fætur.
 
   
 

Ljósa e. Kristín Steinsdóttir

ljosa

Ljósa elst upp seint á nítjándu öld undir hvelfdum jökli með víðsýni yfir sjó og sanda. Hana dreymir um framtíð þar sem hamingjan ríkir og sólin skín. En veruleikinn ætlar henni annað; þrátt fyrir góð efni og ástríka fjölskyldu vofir yfir henni ógn sem gefur engin grið.

Kristín Steinsdóttir hóf höfundarferil sinn þegar hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1987. Hún hefur skrifað á þriðja tug bóka og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, meðal annars Norrænu barnabókaverðlaunin, Sögustein og Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Þá var skáldsagan Á eigin vegum tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Ljósa er þriðja skáldsaga Kristínar fyrir fullorðna, hrífandi frásögn um gleði og sorgir einstakrar konu.

Kristín Steinsdóttur hlaut bæði menningarverðlaun DV 2010 og Fjöruverðlaunin 2011 fyrir söguna um Ljósu.

 

Komdu með mér inn í skuggann - Ævi sveitakonunnar Pálínu Jónsdóttur, sem alltaf er kölluð Ljósa, frá barnæsku til dauðadags er viðfangsefni skáldsögu Kristínar Steinsdóttur og ber nafn söguhetjunnar. Ljósa elst upp í íslenskri sveit á fyrri hluta síðustu aldar, er hreppstjóradóttir og dekurbarn sem á unglingsárum veikist af geðhvarfasýki sem hún glímir við til æviloka. Framan af ævi er líf hennar þó nokkuð venjulegt, hún fær ekki þann sem hún elskar, giftist öðrum, eignast fimm börn, býr manni sínum fallegt heimili og fúnkerar nokkuð eðlilega. Sérlunduð reyndar, en skemmtileg og glaðlynd. En geðhvarfasýkin hremmir hana smám saman og síðustu árin er hún meira og minna á valdi hennar. Úthrópuð af sveitungum, vinalaus og bókstaflega eins og dýr í búri. 

Kristín vinnur mikið þrekvirki með þessari sögu. Þótt söguefnið sé dimmt er sagan skemmtileg og stílfærni höfundarins gerir það að verkum að nánast ómögulegt er að leggja bókina frá sér fyrr en að lestri loknum. Sveitin afskekkta lifnar fyrir augum lesandans og Ljósa er frábærlega unnin persóna sem grípur lesandann heljartökum og sest að í hjarta hans. Örlög hennar eru þyngri en tárum taki og hræra lesandann til djúprar meðaumkunar.

Ást hennar á sínum kvensama föður, sem á börn með konum á öðrum hverjum bæ að fornum hreppstjórasið, er leiðarstef í lífi hennar og í raun vex hún aldrei upp úr því að vera augasteinninn hans pabba, þótt hann bregðist henni á ögurstundu. Á köflum detta manni í hug kvenhetjurnar úr skáldsögum Huldu sem dreymir um fegurð og fjarlægar borgir á meðan þær þrá í leynum listamanninn svikula sem stoppaði í dalnum um stund, en Ljósa er þó mun betur dregin persóna en þær og nærfærnar og sannfærandi lýsingar á geðhvarfasýkinni fullkomlega trúverðugar. Þetta er persóna sem lesandinn elskar með öllum hennar kostum og göllum.

Sama má segja um aðrar persónur bókarinnar, þær stíga upp af síðunum og verða raunverulegar í huga lesandans eins og bestu persónur Laxness. Senan í fjárhúsunum er snilldarleg vísun í kindardráp Rósu í Sjálfstæðu fólki og ekki síður áhrifamikil.

En það er ekki bara persónusköpunin og söguefnið sem gera þessa bók eftirminnilega. Mál, stíll og bygging haldast í hendur og skapa sterka og krefjandi sögu sem heldur athygli lesandans frá upphafi til enda, vekur spurningar og slær á alla strengi tilfinningaskalans.

Niðurstaða: Vel stíluð og vel byggð saga með frábærri persónusköpun. Saga sem spannar allan tilfinningaskalann og ómögulegt er að leggja frá sér. 


Maður sem heitir Ove e. Fredrik Backman

madurOve
Sumar bækur grípa mann strax en valda vonbrigðum þegar kemur að leiðarlokum. Þessi bók er ekki ein af þeim, hún er hreinn unaður frá upphafi til enda, ein af þessum bókum sem á ekki að enda og þegar hún gerir það þá fyllist maður svolítilli sorg og heilmiklu þakklæti fyrir samfylgdina.

Ove er 59 ára, býr í raðhúsi í úthverfi og ekur um á Saab. Hann er mikill reglumaður en í augum nágranna sinna er hann einstaklega ferkantaður, fullur beiskju og smámunasamur úr hófi fram. Reglubundið líf Ove raskast þegar nýir nágrannar flytja inn í raðhúsið og um leið þarf hann að horfast í augu við erfiða æsku og djúpa sorg. Sænski ritöfundurinn Fredrik Backman vakti mikla athygli í heimalandi sínu með þessari bók. Bókin hefur hlotið lofsamlega dóma og útgáfurétturinn hefur verið seldur til fjölmargra landa.
 
Maður sem heitir Ove hefur fengið afskaplega góða dóma og á þá alla fyllilega skilið, hún snertir við öllum tilfinningaskalanum en fyrst og fremst er hún stútfull af hlýju og náungakærleik.  Við fyrstu kynni virðist Ove vera ein af þessum manneskjum sem mann langar alls ekki að eiga frekara samneyti við en til allrar hamingju er það mikill misskilningur og sennilega ættu allir að eiga einn Ove í lífi sínu. Og Saab.
 
Bókin var í fyrsta sæti á íslenskum listum í mestallt sumar. 

 
 

Saga Þernunnar e. Margaret Atwood

HandmaidsTale1
Næsta bók er Saga Þernunnar (Handmaid´s tale) eftir Margaret Atwood, kanadískan rithöfund og ljóðskáld, f.1939. 

Saga Þernunnar, fjallar um Offred sem er þerna í lýðveldinu Gilead, þar sem réttur kvenna hefur verið fótum troðinn og þeim m.a. bannað að lesa. Ófrjósemi er orðið vandamál og  hlutverk Offred er að eignast barn fyrir vinnuveitendur sína, yfirstéttarhjón sem ekki geta sjálf eignast barn. 

"Saga þessi gerist í náinni framtíð í samfélagi sem nefnist Gíleað. Það hefur risið þar sem áður voru Bandaríkin. Gíleað er einræðisríki. Því er stjórnað af bókstafstrúar kristnum karlmönnum. Í þessu nýja samfélagi eru konur flokkaðar eftir því til hvers þær þykja nýtar. 

þernur, eins og sú sem segir sögu sína, eru í rauðum klæðum sem hylja líkamann og bera hvít höfuðföt með vængjum sem skýla andliti þeirra og takmarka sjónarsviðið. Mánaðarlega eru þær leiddar undir liðstjóra í von um að þær ali þeim og frúm þeirra börn." 
 
Þetta er skáldsaga sem flokkast sem dystópía en dystópía er sýn á framtíðarsamfélag sem hefur þróast í neikvæða mynd af útópíu. Dystópían segir frá samfélagi sem stjórnað er af alræðisvaldi, þar sem ríkir kúgandi félagslegt stjórnkerfi og tjáningarfrelsið er ekkert. http://tru.is/postilla/2010/04/saga-thernunnar/  

Bókin kom út árið 1985 og var tilnefnd til Booker verðlauna árið eftir. 
Atwood hlaut síðan Bookerinn árið 2000 fyrir skáldsöguna The Blind Assasin.

Reader's Companion to The Handmaid's Tale:


Að endingu e. Julian Barnes

adendingu
Tony Webster á að baki farsælan starfsferil og hjónaband sem rann hljóðlega út í sandinn. Hann er sáttur við fortíð sína án þess að leiða oft hugann að henni - allt þar til honum berst bréf frá lögmanni sem neyðir hann til að horfast í augu við sjálfan sig og tvo æskuvini, einn lífs, annan liðinn. 

Júlian Barnes er í hópi snjöllustu núlifandi rithöfunda Bretlands en árið 2011 hlaut hann hin eftirsóttu Booker-verðlaun fyrir þessa áleitnu og hnitmiðuðu bók. 

"Fáguð, gáskafull og óvenjuleg"  THE NEW YORKER 
"Gimsteinn" LOS ANGELES TIMES 
"Heillandi" INDEPENDENT
"Angurvær en áhrifamikil skáldsaga um dularfulla vegi minnisins og hvernig við ritstýrum, leiðréttum - og stundum eyðum algjörlega - fortíð okkar." VOGUE

 
 

Óvinafagnaður, Ofsi og Skáld e. Einar Kárason

ovinafagnadur_kilja


Óvinafagnaður (2001). Sögusvið Óvinafagnaðar er Sturlunga öld, nánar tiltekið eftirmál Örlygsstaðabardaga. Sagan er bundin Þórði kakala og hefndum Sturlunga eftir ófarirnar gegn Kolbeini unga. Hámarki ná þeir atburðir í Flóabardaga, mestu sjóorustu sem háð hefur verið á Íslandi fyrr og síðar. Þórður kakali situr að sumbli í Noregi árið 1238 þegar hann fær þær fréttir að faðir hans og hinn glæsti bróðir, Sturla Sighvatsson hafi verið felldir á Örlygsstöðum í fjölmennustu orrustu sem háð hefur verið á Íslandi. Óvígur her, undir forystu Kolbeins unga og Gissurar Þorvaldssonar, hefur þar með hnekkt veldi Sturlunga og lagt landið undir sig. Þórður kakali ákveður að kveðja bílífið í Noregi, halda heim og mæta fjendum sínum. Í hönd fer æsispennandi atburðarás þar sem við sögu kemur fjöldi litríkra persóna; stoltir höfðingjar, þöglir vígamenn, stórlátar konur, flækingshundar og stríðsþreyttir bændur. Einar Kárason skilar þessu mikla efni í einstaklega lifandi og skemmtilegri bók, ljær því dýpt með frumlegri frásagnaraðferð og þeirri sagnagleði sem lesendur þekkja úr hans fyrri verkum.

 

 

 

Ofsi_kilja

Ofsi (2008). Í nýjustu skáldsögu sinni, Ofsa, snýr Einar Kárason sér aftur að Sturlungaöld sem einnig var viðfangsefni hans í hinni vel heppnuðu skáldsögu Óvinafagnaði frá 2001, og tekst ekki síður vel upp hér. Nú er það aðdragandi Flugumýrarbrennu sem er undir, sáttatilraunir og brúðkaupsplön, og ráðagerðir um vígaferli. Persónur róstutíma Sturlungaaldarinnar stíga fram í stærð sinni og smæð og segja hug sinn. Sögusviðið er Ísland á þrettándu öld: Gissur Þorvaldsson snýr breyttur maður heim úr Noregsför; fús til sátta við erkióvini sína, Sturlungana, eftir áralangan ófrið. Þeir efast um heilindi hans en sannfærast þegar Gissur leggur til að sonur hans kvænist stúlku af ætt Sturlunga. Fjölmenni er boðið til brúðkaupsveislu að Flugumýri þar sem innsigla á friðinn. Ekki mæta þó allir sem boðið var. Eyjólfur ofsi glímir bæði við stórlynda eiginkonu og stríða lund: Í vígahug, með svarta hunda á hælunum, ríður hann með flokk manna að Flugumýri í veislulok; nýsaminn friður er ekki allra … Einar hefur einstakt lag á að miðla efninu þannig að auðvelt er að lifa sig inn í atburði, skilja og skynja. Ofsi er saga sem vekur í senn áhuga á skrautlegum flækjum og persónum þjóðarsögunnar og færir lesendur inn í hringiðu átakanna; sálarkeröld mannfólksins. Ofsi hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. 

 

 

Skald_kilja

Skáld (2012). Með Skáldi lýkur Einar Kárason Sturlungasögu sinni. Í Óvinafagnaði var Þórður kakali í sögumiðju, í Ofsa þeir Gissur Þorvaldsson og Eyjólfur ofsi, hér er það skáldið Sturla sem lifði þessa róstusömu tíma og færði okkur þá í frásögnum sínum. Nú fær hann sjálfur að sýna okkur í hug sinn, og með honum margir fleiri leikendur í þessari miklu atburðarás. Sumarið 1276 situr Sturla Þórðarson heima á Staðarhóli og hefur nýlokið við að skrá þann atburð er brúðkaupsgestir voru brenndir inni á Flugumýri. Þá gerir Magnús lagabætir Noregskonungur honum boð um að koma umsvifalaust á sinn fund. Sturla leggur tregur af stað ásamt tveim öðrum íslenskum höfðingjum, Hrafni Oddssyni og Þorvarði Þórarinssyni, en skip þeirra brotnar í óveðri við Færeyjar og þeir félagar þurfa að þreyja þar veturinn. Þessi langa dvöl verður Sturlu tilefni til að rifja upp válega atburði undangenginna fjörutíu ára og sjá þá í nýju samhengi … 

 

Einar hefur hlotið ýmis verðlaun og tilnefningar fyrir skrif sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin 2008. Þá hefur hann fjórum sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs (1987, 1996, 2005 og 2010).

 


Hinn mikli Gatsby e. F. Scotts Fitzgerald

Hinn-mikli-gatsby

Hinn mikli Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald er talin vera eitt af meistaraverkum heimsbókmenntanna og er áhrifamikil lýsing á miklum velmegunartíma fyrir Kreppuna miklu, djassáratugnum - glysi og glaumi, tálsýnum og dvínandi siðferðisþrótti.

Gatsby hinn mikli er á leslistum í skólum í Bandaríkjunum og víðar og hefur komist á lista yfir hundrað bestu skáldsögur heims. Sagt hefur verið að bókin sé vinsælasta nútímaskáldsagan í bandarískum bókmenntum. Það er ekkert einkennilegt við almennar vinsældir þessarar skáldsögu. Hún er ástarsaga Jays Gatsbys sem á dularfulla fortíð og hefur það eina markmið að heilla aftur til sín Daisy, æskuást sína, í krafti gríðarlegs auðs síns.

Ungur maður, Nick Carraway, segir söguna um kynni sín af Gatsby, sögu um ástir, svik og siðferðilega hnignun á uppgangstímum í Bandaríkjunum þegar djassinn dunar. Nick hrífst af heimi Gatsbys um leið og hann skynjar hversu innantóm veröld hans er. Bókin um Gatsby, manninn sem reynir að endurlífga fortíðina, er gríðarlega vel skrifuð í fallegum, fáguðum og angurværum stíl. Yfirborðið í sögu Fitzgeralds er heillandi, eins og ríkidæmi er í huga flestra. En bak við glæsilegt yfirborð leynist ýmislegt miður fallegt. Og þegar Fitzgerald flettir ofan af persónum sínum verða þær vissulega fyrirlitlegar en jafnframt aumkunarverðar í sjálfselsku sinni og skeytingarleysi gagnvart öðrum.


Brotin egg e. Jim Powell

brotinegg

Sérstaklega skemmtileg skáldsaga um sannfærðan vinstrimann (en alls ekki kommúnista!) og dimmustu daga 20. aldarinnar.

Byltingarsinninn Felix Zhukovski býr í Frakklandi og hefur helgað líf sitt kommúnismanum og ritun ferðahandbóka um Austantjaldslöndin. Áratugum saman hafa sáralitlar breytingar orðið á lífi hans. En þá hrynur múrinn og af stað fer atburðarás sem á eftir að kollvarpa lífi hans. Hann hefur leit að bróður sínum og móður sem hann hefur ekki séð síðan í Póllandi fyrir stríð. Og fyrr en varir verður hann að endurmeta sögu sjálfs sín – og 20. aldarinnar. Hjartnæm saga um leit manns að sjálfum sér, fjölskyldu, ást og sannleika.

Jóhann Hlíðar Harðarson: Samtímis því að vera tilfinningaþrungin frásögn af örlögum manns, þá er þetta líka gagrýnið uppgjör við alla þessa -isma sem við manneskjunnar höfum hrifist af á víxl á síðustu 100 árum. Allt saman meingallaðir. Þetta þótti mér alveg frábær saga, 5 stjörnu bók. Og þær eru ekki á hverju strái. 

Bergþóra Gísladóttir: Spæld eftir að hafa lesið Brotin Egg. ...allt þetta og átök Feliks við að gera upp líf sitt ætti að vera góður efniviður í spennandi og góða bók en í þessu tilviki nægir það ekki. Meginefni bókarinnar er um hugmyndir og hugsjónir en höfundi tekst einhvern veginn ekki að gera efninu skil þannig að lesandinn hrífist með. Öll umfjöllunin er flöt, grunn og fyrirsjáanleg. Fjölskyldusagan ætti líka að geta verið spennandi og hjartnæm en persónurnar lifna aldrei við. Þær eru eins og dúkkulísur eða skuggamyndir.

Background to The Breaking of Eggs

 


Engan þarf að öfunda e. Barbara Demick

engan-tarf-ad-ofunda

Bókin segir frá daglegu lífi í Norður-Kóreu, sem er eitt einangraðasta land í heimi, lokað af frá umheiminum af grimmilegri harðstjórn. Í bókinni, sem hlotið hefur fjölda verðlauna, fléttast saman frásagnir sex flóttamanna frá Chongjin, þriðju stærstu borg Norður-Kóreu.

Íbúar Norður-Kóreu hafa ekki fengið að tjá sig við umheiminn í 60 ár. Landið hefur verið lokað nær öllum sem áhuga hafa á landi og þjóð síðan Kóreustríðinu lauk. Áróður um Juche-hugmyndafræði Kim Il Sung, stofnanda og eilífðarforseta ríkisins, litar allan fréttaflutning í þessu litla kommúnistaríki á Kóreuskaganum. Innsýnin sem fæst í gegnum sögur flóttamanna sem rætt er við í bókinni Engan þarf að öfunda er því einstök. Sögurnar gefa ótrúlega skýra mynd af lífinu í Norður-Kóreu sem hefur verið byggt upp á kommúnískri hugmyndafræði. 

Barbara Demick stýrir Kína-skrifstofu bandaríska stórblaðsins Los Angeles Times. Engan þarf að öfunda hefur verið þýdd á nær tuttugu tungumál.

Nothing to envy / Review - The Guardian / Umfjöllun mbl 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband